Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hví skilar rannsóknarnefnd Alþingis ekki áliti nú þegar?

Þá hefur það verið gert lýðum ljóst, að rannsóknarnefnd Alþingis varðandi Hrunið, fresti opinberun rannsóknar sinnar um þrjá mánuði, eða fram í byrjun febrúar.

Ýmsar getgátur eru uppi um ástæður þessarar frestunar.  Tvær ber þó hæst og er hvorug góð.  Önnur er sú, að glæpastarfsemin, sem Hruninu olli, hafi verið svo viðamikil, að rannsóknarnefndin þurfi lengri tíma til að rannsaka hana, en upphaflega var gert ráð fyrir.  Hitt er einnig haft á orði, að spillingin á Alþingi og í stjórnmálaflokkunum, hafi verið og sé svo gengdarlaus, að þingheimur þori ekki að sannleikurinn verði gerður almenningi ljós.  Verst er þó, ef rétt reynist, að hvoru tveggja sé; yfirgengileg glæpastarfsemi í fjármálalífinu og stórkostleg pólitísk spilling. 

Raunar hafa tengslin milli athafnalífs og stjórnmála aldrei farið leynt á Íslandi og berast þá böndin helst að Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum. Hermangið og kvótakerfið segja sína sögu.

 Hvorki má þó gleyma því, að spillingaröflin í þessum tveimur flokkum áttu sér sína meðreiðarsveina í öðrum flokkum, né hinu, að í báðum þessum flokkum er að finna stálheiðarlegt fólk.  En jafnvel þótt það sé í meirihluta sinna flokksmanna, fóru áhrif þess þverrandi á tímum frjálshyggjunnar.  Þá lentu ýmsir, bæði hópar og einstaklingar, í gíslingu sérhyggjunnar.  Og ekki eru allir frjálsir úr þeim höftum enn.


Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér

Viðbrögð forystumanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við nýja Icesavesamningnum benda sterklega til gleymsku þeirra á upphafi og bakgrunni þess siðferðisástands, sem leiddi af sér Hrunið.  Þar bera engir meiri ábyrgð, en einmitt þessir tveir flokkar, þótt Samfylkingin hafi raunar hjálpað þeim á lokasprettinum, m.a. með því að heimila Landsbankanum að hefja Icesaveviðskipti í Hollandi.

Væri nú ekki ráð, að menn tækju höndum saman, hvar í flokki sem þeir standa og einbeittu sér að uppbyggingu lands og þjóðar?  Illa brunnu þau á okkur á síðasta ári, hin fornu sannindi; „sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér".   En heitari verða eldarnir þó, ef sundurlyndisfjandinn fær enn að leika lausum hala.


Vangaveltur út frá auglýsingu

„Við styðjum lagningu Suðurlandslínu til að reisa megi álver í Helguvík" eða eitthvað á þá leið segir í auglýsingu, sem ég heyrði í morgun í Ríkisútvarpinu.  Undir þetta skrifuðu nokkur fyrirtæki, þ.á.m. Bílasprautun Magga Jóns. og Norðurál.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr Bílasprautun Magga Jóns., síður en svo.  En grunur minn er sá, að í stjórnmálalegu og efnahagslegu tilliti, sé nokkur munur á vægi þess fyrirtækis annars vegar og vægi Norðuráls hins vegar.

Óneitanlega hljómar þessi auglýsing eins og stórlaxinn (Norðurál) sé að nota litla manninn (Bílasprautun Magga Jóns.) til að sýna hvað hagsmunirnir séu nú öllum sameiginlegir, hvar í flokki sem þeir standa.

En er það svo?  Ég efast.  Reynslan, bæði okkar sjálfra og annarra þjóða, sýnir, að það er smár og meðalstór atvinnurekstur, sem ber uppi atvinnulíf hverrar þjóðar.  Halda menn, að það sé einber tilviljun, að Vesturlönd eru sem óðast að losa sig við álverksmiðjur og koma þeim fyrir í vanþróuðum ríkjum?

Og vaknar þá önnur spurning, sem óneitanlega tengist Hruninu og auknum kröfum um fleiri álver á Íslandi.  Er Ísland í raun þróunarríki?

Að ýmsu leyti held ég, að svara verði þeirri spurningu neitandi.  Þrátt fyrir allt höfum við velferðarkerfi, almenna menntun og þokkalegar samgöngur.  Á hinn bóginn er því ekki að neita, að hugarfarslega minnum við um margt á vanþróaðar þjóðir þriðja heimsins.  Þannig erum við frumstæð veiðimannaþjóð að því leyti, að við höfum ekki þroska til að koma okkur saman um nýtingu fiskimiðanna, þótt við séum þróuð veiðimannaþjóð, hvað varðar flota og veiðarfæri.

Og er það ekki einmitt kjarni málsins?  Erum við ekki eins og telpuhnáta á sjötta ári, sem laumast inn í fataskáp móður sinnar og klæðir sig í sparikjólinn hennar?

Hvað skyldi þetta koma Norðuráli og Bílasprautun Magga Jóns. við?  Ja, það gæti verið fróðlegt í þessu sambandi, að bera saman stöðu  og styrkþessara tveggja fyrirtækja.


Kanadekur á fréttastofu Ríkisútvarpsins

Þeir gerðu bragð úr ellefta boðorðinu á fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar fréttir klukkan 10.00 voru fluttar í morgun.  Í miðjum fréttatíma hljómaði allt í einu bútur úr amerískum slagara frá miðri síðustu öld.  Að því búnu kynnti þulur andlát söngvarans og lét þess getið í leiðinni, að hann hefði verið fyrstur amerískra slagarasöngvara, til að komast á breska vinsældarlistann.

Auðvitað er það ósköp dapurlegt, þegar menn deyja, eins þótt gamlir séu.  En ég skil ekki þessa tiltölulega nýju árátti Ríkisútvarpsins, að telja það til stórtíðinda, þegar amerískar dægurflugur, Hollywoodleikarar og kynbombur leggja upp laupana.  Ég hélt, að slúðurdálkar dagblaðanna væru vetfangur fyrir fréttir af svona fólki; lifandi sem dauðu.  Og fréttir í útvarpi lúta ákveðnum lögmálum.  Þar á tónlist alla jafna ekki heima.

 


Endanleg lausn vandans að lifa

Merkilegt hvað Íslendingum er tamt, að leita hinnar endanlegu lausnar á vandanum að lifa.  Væri ekki frekar ráð, að snúa sér að lífsgátunni; það má lengi glíma við hana.

Sú var tíð, að mönnum þótti svo dapurlegt, að lifa af sjávarútvegi, að þeir ákváðu að fiska peninga, í þeirri trú, að eftir því sem vatnið væri gruggugra, þeim mun meira fiskaðist af peningum.  Nú er sá draumur tröllum gefinn.

Þá grípa menn enn og aftur til annarrar lausnar á vandanum að lifa og er sú nokkuð eldri þeirri, sem áður var nefnd.  Hér á ég við stóriðjuna og virkjanirnar.  Öllu skal fórnað, til að nokkur þúsund manns fái uppgripavinnu í örfá misseri og fáein hundruð geti svo til frambúðar brætt ál með niðurgreiddri raforku.  Þeir á Húsavík og Suðurnesjamenn kalla þetta víst framsýni.  Austfirðingar gerðu það sama hér um árið.  Mannfjölgun í þeim fagra fjórðungi, síðan virkjunarframkvæmdir hófust er u.þ.b. 0%.  Stórkostlegur árangur, segja virkjunarsinnar.  Já, litlu verður vöggur feginn!

Merkilegt er að sjá og heyra, hvernig virkjunarsinnar fara fram með göbbelískum trumbuslætti, ekki síst suður með sjó.  Þeir létu svona líka þegar herinn var að fara.  „Allt var að fara til andskotans bara", eins og þar stendur.  En hvað gerðist, þegar Kaninn fór?  Sökk landið?  Svalt fólkið?  Svari hver fyrir sig.

Sannleikurinn er sá, að sá, sem setur öll eggin í sömu körfuna, tekur meiri áhættu en hinn, sem dreifir eggjunum í fleiri körfur.  Keflvíkingum og Húsvíkingum væri því hollast, að huga að fjölbreyttum atvinnuháttum, enda dugir ekki annað, því orkan er ekki endalaus, eins og margir héldu fyrir skömmu.

 

 


Nokkur orð um grein Árna Sigfússonar

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Árna Sigfússon bæjarstjóra í Keflavík, sem vert er að staldra við, þó ekki væri nema vegna þess, að enginn dregur í efa virðingu höfundar fyrir lýðræði.  Af tilefni, sem ástæðulaust er að rekja hér, líkir bæjarstjórinn þar saman McCarthyismanum í Bandaríkjunum og tortryggni manna í garð þeirra, sem störfuðu á vegum s.k. útrásarvíkinga.

Hér er ólíku saman að jafna.  McCarthyisminn beindist gegn skoðunum fólks, oftast  ranglega en tortryggni  fólks gagnvart meðreiðarsveinum útrásarvíkinga beinist að gjörðum manna. 

Vonandi er sá hópur ekki mjög stór, sem efast um að gjörðir útrásarvíkinga hafi verið glæpsamlegar, eða a.m.k. siðlausar með öllu.  Um það á ekki að þurfa að rökræða við stjórnmálamann.  Vonandi munu dómstólarnir taka á þeim málum með réttlæti og virðingu fyrir lögum og mannlegu samfélagi að leiðarljósi.  Tíminn verður svo að leiða í ljós, hversu harkalega verður gengið að meðreiðarsveinunum.  Vafalítið eru sumir þeirra sekir, aðrir saklausir.  En þar til Hrunið hefur verið leitt til lykta, er við hæfi, að þessir menn hafi hægt um sig. 


„Heimur hugmyndanna", athyglisvert útvarpsefni

„Heimur hugmyndanna" heitir ný þáttaröð á Rás I, Ríkisútvarpinu.  Fyrsti þátturinn var fluttur í morgun frá klukkan 9.03 til kl. 10.00.  Þessi þáttur er undir stjórn þeirra Páls Skúlasonar heimspekiprófessors og Ævars Kjartanssonar útvarpsmanns.  Ég hlustaði á þátt þennan mér til gagns og gleði og tel því ástæðu til að vekja athygli á þáttaröðinni, sem væntanlega verður útvarpað fram á vor. 

Í þessum fyrsta þætti voru þeir Páll og Ævar einir á ferð, en framvegis munu þeir fá viðmælendur í þættina.  Þarna munu fræðimenn ræða heimspeki, hugmyndasögu og siðfræði og er síst vanþörf á, eins og málum er nú háttað á landi hér. 

Eitt er það, sem varast ber í þáttum sem þessum, en það er óútskýrð notkun erlendra orða á hugtökum.  Ég minnist þess frá fyrri tíð, að fræðimenn, sem komu fram í útvarpi, töluðu hreina og óbjagaða íslensku, þannig að öllum mátti vera málflutningur þeirra ljós.  Á þessu hefur orðið breyting til verri vegar undanfarin ár.  Raunar læðist stöku sinnum að mér sá grunur, að stundum sletti menn útlendum orðum, til að fela það, að þeir tali umfram þekkingu sína og vit.  Útvarpsefni af þessu tagi á að vera upplýsandi fyrir almenning og vekja hann til þroska og sjálfstæðrar hugsunar.  En þá þarf fólk líka að skilja, hvað um er rætt.  Á því voru engin vanhöld í morgun og verður vonandi ekki í þessum þáttum.

 


Framsóknarför til Noregs

Smáir fóru, smærri komu.

Friður sé með Nobel

Barack Obama hefur jafnan komið mér fyrir sjónir sem geðugur piltur úr sveit í kaupstaðarferð.  Ég er ekki frá því, að hvert hús veki athygli hans, einkum sökum nálægðar við næstu byggingar.  Og ég dreg það ekki í efa, að hann er allur að vilja gerður, til að stuðla að því, að allt þetta kaupstaðarfólk geti gengið um götur, án þess að troða hvert öðru um tær.  En ég er ekki alveg viss um, að ástæða sé til að verðlauna hann sérstaklega af þeim sökum, enda óvíst, að hann geri sér enn grein fyrir skónúmeri hvers og eins.


Icesave til Haag?

Ég fyllti þann flokkinn, sem greiða vildi möglunarlaust þessar lögboðnu rúmlega 20.800 evrur vegna Icesaveskuldanna.  En það var áður en málið tengdist Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.  Sá sjóður er í raun valdatæki, fyrst og fremst í höndum engilsaxnesku stórveldanna, Bandaríkjanna og Bretlands, enda stofnaður eftir síðari heimsstyrjöld,  til að tryggja völd þeirra og áhrif út um allar jarðir.

Nú neitar þessi sjóður að leggja fram umsamin lán, fyrr en gengið hefur verið frá Icesavemálum.  Sú neitun hefur ekkert með efnahagsmál að gera; hún er hluti af heimsvaldastefnu engilsaxa.  Hollendingar fljóta svo með. 

Engilsöxum er mjög í mun, að knésetja Íslendinga.  Það hefur ekki farið leynt, að bandarísk fyrirtæki ásælast aðstöðu til stóriðju hér á landi, auðvitað gegn raforkukaupum á gjafverði.  Og ekki ætti að koma á óvart, þótt Bretar sigldu í kjölfarið.  Þá má ekki gleyma fiskimiðunum og siglingaaðstöðu vegna líklegarar hlýnunar á Norðurpólnum.  Hverfi ísinn af Norðurpólnum margfaldast hernaðarlegt mikilvægi Íslands.  Þá er gott fyrir engilsaxa, að hafa hunda með skottið milli lappanna í valdastöðum á Íslandi.  Þeir vita sem er, að þar hafa fyrr fundist lítilmenni.

Geti Bretar og Hollendingar, að ógleymdum Alþjóða gjaldreyrissjóðnum,  ekki fallist á skilyrði Alþingis varðandi Icesave, verður vitanlega að vísa málinu aftur til þingsins.  Og sennilega er þá ekki um aðra lausn að ræða, en að skjóta því til Alþjóðja dómstólsins í Haag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband