Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skammtíma „praktík" og siðblinda

Við Íslendingar erum svolítið það sem kallað er „praktískir" í hugsun, ævinlega þó til skamms tíma.  Þess vegna önum við út í allskonar vitleysu, sem menn græða á til skamms tíma og tapa svo stórlega á, þegar fram líða stundir.  Við erum alltaf að „redda" okkur fyrir horn.  Álverksmiðjur og stjórvirkjanir eru gott dæmi um þetta.

Þannig átti Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði að fjölga íbúum Austurlands.  En hver er raunin?  Íbúum hefur ekkert fjölgað þar um slóðir.  Og nú heimta Keflvíkingar álverksmiðju vegna þess, að Kaninn er farinn.  Ein mjólkurkýrin skal leysa aðra af hólmi, til að forða mönnum frá því, að vinna fyrir sér á sínum eigin forsendum og út frá þeim aðstæðum, sem fyrir hendi eru.

Skyldi þessi skyndilausnahugsun vera tilkomin af því, að okkur skorti siðrænan og heimspekilegan grundvöll; heimskpekilegan í þeim skilningi að okkur skorti dýpri skilning á tilveru okkar og tilgangi. Við höfum aðskilið trúnna frá daglegu lífi okkar og þar með kastað á glæ andlegum verðmætum, sem að stórum hluta lögðu grunninn að menningu okkar. Heimspekin og siðfræðin virðist hins vegar, vera nokkuð sem við höfum alla tíð leitt hjá okkur. Höfum við efni á þessu?

Fyrir skömmu kom upp mál í Reykjavík, sem leiðir hugann að þessu.  Maður einn tók upp á því, að græða peninga, með því að selja aðgang að s.k. „draugaferðum" um bæinn.  Eru göngumenn uppfylltir af hindurvitnum um draugagang í Miðbænum og endað með því að ganga vestur í kirkjugarð.  Þar er gengið að tilteknu leiði en  þar hvílir lítil stúlka, sem lést úr botlangabólgu.  Leiðsögumaðurinn mun hins vegar halda því að fólki, að móðir stúlkunnar hafi myrt hana, vegna þess, að djöfullinn hafi stýrt barninu.

Þór Magnússon fyrrum þjóðminjavörður, skrifaði um þetta í Morgunblaðið 4. des. s.l., enda er honum málið skylt, þar sem stúlkan sem um ræðir var hálfsystir hans.  Nú kynni einhver að ætla, að forsvarsmaður viðkomandi „drauagöngu" hafi haft í sér manndóm, til að biðjast afsökunnar og leggja af þetta háttarlag.  En það er öðru nær; hann bregst við, með því að hóta Þór málsókn.  

Ég nefni þetta hér, sem dæmi um skort Íslendinga á siðviti.  Mönnum leyfist allt, svo fremi sem þeir græða á því.  Þess vegna er þjóðin í þeirri stöðu, sem raun ber vitni; í raun gjaldþrota og öllu trausti rúin meðal siðaðra manna.

Væri nú ekki ráð, að skólakerfið brigðist við, með því að taka upp kennslu í siðfræði og heimspeki þegar í grunnskóla?    Það skyldi þó aldrei vera, að finna megi samhengi milli allrar okkar skammtíma „praktíkur" og siðblindu?

 


Sagan og ritfrelsið

Margir hafa heyrt söguna af því, þegar þeir stríðsherrarnir Júlíus Cesar, Karl XII og Napóleon Frakkakeisari risu upp úr gröf sinni og hittust á Rauða torginu í Moskvu?  En góð vísa er aldrei of oft kveðin. Svo vildi til, að þetta gerðist á byltingarafmælinu og var mikið um dýrðir í Kreml.  Á virkismúrnum stóðu leiðtogar Sovétríkjanna og horfðu á hersveitir marsera framhjá í endalausum röðum.

Fyrst komu þeirra félaga Cesars, Karls XII og Napóleons, bar upp á þennan dag, þótti við hæfi, að bjóða þeim að standa með Sovétleiðtogunum á virkismúrnum og horfa á dýrðina.  Þeir Cesar og Karl XII horfði frá sér numdir á hersýninguna.  „Með svona her, hefði ég í það minnsta komist austur að Oderfljóti", sagði Cesar frá sér numinn.  „Og ég hefði sko örugglega unnið orrustuna um Poltava", sagði Karl XII.

En hvað um Napóleon?  Hann gaf hersýningunni engan gaum.  Hann var nefnilega niðursokkinn í Pravda, málgagn sovéska kommonístaflokksins.  „Hvað er þetta maður", sagði Cesar í ávítunartón við Napóleon, „hvers vegna horfir þú ekki á hersýninguna"?  Þá leit Napóleon upp úr Pravda og sagði fullur aðdáunar: „Ef ég hefði ráðið yfir svona blaði, hefði enginn frétt af orrustunni við Waterloo".

Nei, nei, Napóleon varð ekki ritstjóri Prövdu og heldur ekki Moggans.


Enn er varist á Bessastöðum

„Sannleikurinn mun gera yður frjálsa", eru spakmæli án endimarka.  En þau fela ekki aðeins í sér, það sem öllum má ljóst vera, heldur einnig andhverfu sína; „lygin mun gera yður að þrælum".

Það var aumkunarvert að hlusta á orð Ólafs Ragnar Grímssonar forseta Íslands í útvarpinu í morgun á sjálfum fullveldisdegi þjóðarinnar, 1. desember, þar sem hann hélt því fram, að ýmsir s.k. „útrásarvíkinga" hefðu misnotað forsetaembættið, sem í góðri trú hefði reynt að liðsinna þeim, eins og raunar þorri þjóðarinnar.

Fyrir það fyrsta var það forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, sem misnotaði forsetaembættið og þjóðina alla, í þjónkun sinni við „útrásarvíkinga".  Vitað er, að fyrir það þáði hann ýmsa umbun, m.a. í formi veisluhalda og ferðalaga í einkaþotum þessara manna.  Þáði hann ef til vill fleira?  Það er rannsóknarefni, sem viðkomandi yfirvöld geta ekki lengur litið fram hjá.

Vissulega er að rétt hjá forsetanum, að stór hluti þjóðarinnar studdi útrásarvíkinga í orði.  En hvers vegna?  Skyldi þó aldrei vera, að þjónkun Ólafs Ragnars Grímssonar hafi slegið ýmsa blindu í þeim efnum?

Það skyldu menn og hafa hugfast, forseti Íslands, sem og aðrir, að margir urðu til þess, að vara þjóðina við útrásarvíkingum og þeirra myrkraverkum.  Og ýmsir þeirra vörðuð raunar um leið við Ólafi Ragnari Grímssyni og hans skuggalegu þjónkun við auðmennina.  En stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson hefur auðvitað ekki veitt því athygli.

Forsetinn óttast sýnilega niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis, sem væntanleg er í febrúar á næsta ári, enda hugsanlegt, að þær munu leiða til afsagnar hans.  Vissulega hefur hann lotið lágt, en hann hefur enn nokkrar vikur til að láta af embætti með nokkurri reisn, bjóði eðli hans upp á það.


Nú tala þeir þöglu

Það er eins og mig minni, að það hafi verið í „Íslenzkri fyndni", sem Gunnar frá Selalæk gaf út forðum tíð, að ég las söguna um gömlu konuna, sem var að hlusta á útvarpsfréttir í síðari heimsstyrjöld.  Þetta var hrekklaus kona og vildi öllum vel.  Og henni blöskruðu svo fréttirnar af öllum þessum innrásum og orrustum til lands og sjávar og gott ef ekki uppi í loftinu líka, að hún sagði sem svo, í sinni fögru og fölskvalausu einfeldni: „Ef mennirnir fara ekki að hætta þessu, endar það með því, að þeir drepa einhvern".

Mér hefur jafnan þótt þessi saga bera vott um snoturt hjartalag.  Hins vegar veit ég ekki alveg, hvað segja skal um þá áráttu athyglissjúklinga, sem nú koma fram, hver á fætur öðrum, eftir að hafa sveipað sig djúpri þögn meðan á útrásarbrjálseminni stóð, og láta, sem þeir hafi allt frá upphafi útrásarinnar vitað, hver endirinn yrði.  Sé það rétt, er mér spurn; hvað réði þögn þeirra?


Aumingja stjórn K.S.Í.

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands. K.S.Í., hefur nú hvítþvegið sig af yfirhylmingu í sambandi við fjármálastjóra sinn, sem fyrir fimm árum fór á nektardansstað í Sviss, meðan hann var þar staddur í erindum K.S.Í.  og sóaði milljónum af fjármunum sambandsins.

Í fimm ár tóks stjórnarmönnum K.S.Í. að hylma yfir með fjármálastjóranum og þegar upp komst, voru viðbrögð þeirra aumkunarverð.  Það er eins og þessir menn skilji ekki, að samtök þeirra eru bæði styrkt af opinberum aðilum og þjóðinni sjálfri.  Framkoma fjármálastjórans er því ekki aðeins óafsaknleg; hún er móðgun við íslensku þjóðina.  Þess vegna á að reka hann og kæra fyrir fjárdrátt.  Stjórn K.S.Í. á einnig að víkja og sæta dómsmeðferð fyrir yfirhylmingu með fjármálastjóranum.

Nú hafa Samtök kvenna um kvennaathvarf, Stígamót og Femínistafélag Íslands mótmælt þessu háttarlagi stjórnar K.S.Í.  Það er aumt til þess að vita, að slík mótmæli skuli ekki berast víðar að.  Það er ekki aðeins sjálfsagt, að allar kvennahreyfingar landsins mótmæli.  Hér er nefnilega ekki aðeins vegið að konum, heldur enn frekar að okkur körlum.  Getur það talist viðunandi gagnvart okkur, að stjórn K.S.Í. telji það í stakasta lagi, að fjármálastjóri hennar eyði í raun almannafé á stað, þar sem mannlegt eðli er dregið í svaðið, auk þess, sem vitað er, að mansal á sér víða stað á slíkum stöðum?  Eru þessir menn að halda því fram, að karmenn séu siðlausar skepnur?


Plebbaháttur hjá Kaupþingi

Eitt af því, sem gerði útrásarliðið alltaf aumkunarvert, var plebbahátturinn, sem einkenndi það.  Þetta lýsti sér m.a. í því, að það sló um sig með útlendum nöfnum á fyrirtæknum sínum, eins og það væri eitthvað fínt.  Og nú hefur gamli Búnaðarbankinn, sem til skamms tíma kallaðist Kaupþing, fetað sömu slóðina.  Héðan í frá skal hann kenndur við goðsagnakennt grískt skáld frá 7. öld fyrir Krists burð og kallast Arion.

Hvar skyldu plebbarnir hjá Kaupþingi hafa sloppið í forn-grískan skáldskap?


Geðheilbrigði stjórnmálamanna?

Óneitanlega var það nokkuð vel til fundið hjá Ólafi F. Magnússyni, hreppsnefndarmanni í Reykjavík, að krefjast þess, að félagar hans í hreppsnefndinni leggðu fram læknisvottorð, því til sönnunnar, að þeir gangi heilir til skógar.  Sjálfur var hann látinn leggja fram slíkt plagg sökum þunglyndis, en sá sjúkdómur hafði um hríð ásótt hann eins og Churchill gamla alla tíð.

Og talandi um Churchill.  Eftir síðari heimsstyrjöld kom upp sú hugmynd á æðri stöðum, að gera hann að hertoga og gefa honum höll, með þakklæti fyrir framlag hans til baráttunnar gegn fasistum.  Þegar þessi hugmynd var borin undir gamla manninn, spurði hann, hvort menn gerðu sér ekki grein fyrir því, á hvaða tímum þeir lifðu. 

Nú hefur kona ein í hreppsnefndinni í Reykjavík orðið uppvís af því, að kaupa sér sumarhús fyrir skítnar 40.000.000. króna. Hún gerir sér sýnilega ekki grein fyrir því, á hvaða tímum hún lifir.  Það getur tæpast talist undrunarefni, að þess sé farið á leit, að hreppsnefndarmenn leggi fram vottorð faglærðra manna, því til sönnunnar, að þeir gangi heilir til skógar.

En það eru fleiri en umræddir, s.k. stjórnmálamenn, en hreppsnefndarfrú Sjálfstæðisflokksins á Tjarnarbakkanum, sem að skaðlausu mættu láta læknisfróða menn huga að andlegri heilsu sinni.  Sú undarlega árátta sumra ráðherra Samfylkingarinnar, að sanka að sér ráðgjöfum úr gamla Bjöggabankanum er lítt skiljanleg venjulegu fólki.  Og nú hefur félagsmálaráðherra, af öllum mönnum, hóað til sín ráðgjafa úr Bjöggabankanum, sem í þokkabót gerir yfir 200.000.000 króna kaupkröfur á hendur þrotabús bankans. 

Er ætlast til þess, að ólæknisfróðir menn skilji svona hringavitleysu?  


Dagur íslenskrar tungu

Hátíðisdagar eru gjarnan tákn vonar fremur en veruleika.  Þannig fögnum við sumri á sumardaginn fyrsta, ekki vegna þess, að sumarið sé komið, heldur vegna hins, að við sjáum hylla undir það.  Eins er með daginn í dag, dag íslenskrar tungu.

Í dag mun menntamálaráðherra vafalaust flytja mærðartölu um gildi íslenskunnar.  Og það munu fleiri gera.  Af gömlum vana mun þetta ágæta fólk fullyrða, að íslenskan eigi framtíðina fyrir sér.  En er það svo?

Í gær fjallaði ég um þá staðreynd, að hægt er að fá réttindi sem íslenskukennari í grunnskólum landsins, án þess að hafa lært íslensku.  Móðurmálskennsla á Íslandi er bæði minni og lakari en í nágrannalöndunum.  Og nú er svo komið, að það er jafnvel talið skáldum og rithöfundum sérstaklega til tekna, að þeir skrifi á góðri íslensku, eins þótt textinn sé heldur innihaldsrýr.  Slíkur hugsunarháttur viðgengst auðvitað ekki meðal bókmenntafólks heldur skrælingja.

Sannleikurinn er sá, að íslenskan er orðin skuggamál enskunnar.  Það er hægt að snúa þeirri þróun við.  En til þess þarf markvissar aðgerðir.  Þannig þarf að stórefla íslenskukennslu, draga úr amerísku sjónvarpsefni, auka kennslu í öðrum norrænum málum en íslensku, svo og í þýsku, frönsku og ýmsum öðrum tungumálum.  Það er staðreynd, að stór hluti Íslendinga er farinn að hugsa eins og illa menntaðir Ameríkanar, vegna þess, að þeir nærast á því andlausa fóðri, sem slíkum er boðið upp á í sjónvarpi.

Tungumál hverrar þjóðar er ekki aðeins forsenda mannlegra samskipta og það spannar einnig víðara svið en bókmenntir.  Það er beinlínis grundvöllur allrar mennta og menningar.  Þannig getur sá, sem slakur er í eigin tungumáli trauðla lært tungu framandi þjóða, svo vel sé.  Og móðurmálið er lykill lýðræðisins.  Sá sem er þess umkominn, að tjá sig hefur yfirburði yfir bögubósann, jafnvel þótt sá síðari hafi á réttu að standa.  En það er önnur saga og stundum svolítið dapurleg.


Skortur á íslenskumenntun kennara

Ég verð að játa, að mér hefur lengi þótt ýmislegt skorta á, varðandi grunnskólakennslu á landi hér.  Alþjóðlegar kannanir sýna, að Íslendingar verja tiltölulega miklu fé í barnafræðslu en um leið, að námsárangurinn rétt slefar í meðallagi og varla það.  Þarna er á ferðinni misræmi, sem leita verður skýringa á.

Sjaldan er ein báran stök, og því sennilegt, að þarna sé skýringa víða að leita.  En grunnur allrar fræðslu hlýtur þó að vera menntun kennara.  Nú hefur komið í ljós, m.a. í yfirlýsingu Íslenskrar málverndar, sem flutt var í fréttum Ríkisútvarpsins nú í hádeginu, að hægt er að komast í gegnum kennaranám á Íslandi, með full réttindi til íslenskukennslu í grunnskólum, án þess að læra íslensku.  Þetta er beinlínis ógnvekjandi.  Enginn, sem hvorki kann þokkaleg skil á bókmenntum eigin þjóðar, né þekkir harla vel grunn móðurmáls síns, getur talist menntaður maður.  Sama gildir vitanlega um sögu, en ég veit, að í þeirri grein er víða pottur brotinn meðal grunnskólakennara.

Menntun er ekki fólgin í háskólagráðum, nema því aðeins, að fyrir þeim sé innistæða.  Innistæðulaus menntun er eins og hlutabréf í útrásarfyrirtæki; einskis virði.  Þó er sá munur á, eins og reynslan sýnir, að hafi menn slegið lán fyrir hlutabréfunum, má afskrifa þau.  En menntun verður ekki afskrifuð.  Hennar sér stað eða ekki!  Síst af öllu þarfnast þessi þjóð menntunarlausra barnakennara. 

Barnakennslan er grunnur allrar fræðslu.  Menn verða að átta sig á því, að veikur grunnur fær ekki borið neinar stoðir.


Samfylkingin og Bjöggabankinn

Ýmsir hafa furðað sig á andvaraleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþjóðagjaldeysissjóðnum.  Hefur mönnum þó ekki dulist, hingað til, að hvar sem hann hefur náð fótfestu, hefur velferðarkerfi viðkomandi þjóða hrunið.  En svo virðist, sem stjórnarflokkarnir hafi ekki áhyggjur af slíkum smámunum.

Nú hefur félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason kastað bjarghring til skuldara.  Þó Saari, þingmaður Hreyfingarinnar heldur því fram, að sú aðgerð sé m.a. lítt dulbún leið til að bjarga kúlulánamönnum.  Þessu neitar ráðherrann. 

Ekki er ég þess umkominn að kveða upp úrskurð í deilum þingmannsins og ráðherrans í þessum efnum.  En óneitanlega vekur það grunsemdir, hvar sumir ráðherra Samfylkingarinnar leita sér liðsinnis, sbr. það sem lesa má á netinu. Þannig var Örn Kristjánsson aðstoðarmaður Árna Páls félagsmálaráðherra, áður framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs Landsbankans.  Auk starfa sinna fyrir Árna Pál er hann ráðgjafi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.  Aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra heitir Benedikt Stefánsson.  Hann starfaði áður í Greiningardeild Landsbankans. Björn Rúnar Guðmundsson skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Hann var áður forstöðumaður í greiningardeild Landsbankans. Edda Rós Karlsdóttir starfar nú sem hagfræðingur hjá skrifstofu sendifulltrúa  AGS (landstjórans) á Íslandi, er sögð komin þangað á vegum Samfylkingar. Arnar Guðmundsson aðstoðarmaður Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra, starfaði áður í greiningardeild Landsbankans.

Listinn yfir það fólk, sem tengir þá þætti stjórnkerfis lýðveldisins við gömlu bankana, sem Samfylkingin stýrir, er ekki traustvekjandi. Sérstaklega á þetta við um augljós tengsl Samfylkingarinnar við gamla Bjöggabankann.

Vel má vera, að ráðherrar Samfylkingarinnar telji þetta fólk öðrum hæfari í endurreisnarstarfinu.  En þjóðin, sem þeir þiggja vald sitt frá er ef til vill ekki alveg á sama máli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband