Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Dulítil áramótakveðja

Tæpast dylst nokkrum manni, að Icesavessamningurinn er í raun nauðung.  Það er sigruð þjóð, sem nú lýtur erlendu valdi og greiðir bætur, fyrir skuldir, sem fáir einstaklingar hafa skapað.  „Sjaldan hafa jafn margir, goldið jafn háa skuld, fyrir jafn litlar sakir", svo snúið sé út úr orðum Churchill forðum tíð.  Og svo haldið sé áfram í sama dúr, þá er orrustan um frjálshyggjuna töpuð.  En orrustan um Ísland er rétt að byrja.

Því miður verður það að segjast eins og er, að frjálshyggjan, sem svo er kölluð, dró ótrúlega marga Íslendinga á asnaeyrunum.  Menn yfirgáfu sitt daglega líf og gengu draumum á hönd.  Og það voru ekki draumar um æðri þroska, dýpri skilning á lífinu og tilverunni eða innri frið.  Nei, þetta voru draumar sýndarmennskunnar; draumar um stærri hús, kraftmeiri jeppa og aðra sýndarmennsku.

Því skal þó ekki gleymt, að ekki tóku allir þátt í dansinum kringum gullkálfinn; síður en svo.  Og ýmsir vöruðu við.  En á þá var ekki hlustað.  Þess vegna verður öll þjóðin nú, að axla ábyrgðina.

Einn ömurlegast þátturinn í þeim hildarleik, sem nú hefur knésett þjóðina, er þjónusta forseta Íslands við þá, sem drógu þjóðina á asnaeyrunum.  Sá maður hefur ekki úr háum söðli að falla.  Og þó ber hann sig nú borginmannlega og þykist þurfa tíma, til að huga að því, hvort hann eigi að skrifa undir lögin um ríkisábyrgð á gengdarlausu peningasukki Björgólfsfeðga í Bretlandi og Hollandi.  Væri ekki frekar ráð, að hann hugaði að flutningi frá Bessastöðum?

Annað er það, sem erfitt er sætta sig við í þessu máli.  Það er sú staðreynd, að allir forkólfar bankasukksins ganga enn lausir.  Meðan svo er, getur Ísland ekki talist réttarríki.  Og eins og til að kóróna smán þjóðarinnar, þá situr höfuðpaur frjálshyggjunnar; maðurinn sem gaf bankana vildarvinum sínum í félagi við annan slíkan, sem nú gegnir norrænu samstarfsembætti í Kaupmannahöfn, já nú vermir þessi maður ritstjórastól Morgunblaðsins og þykist þess umkominn, að dæma lifendur frá dauðum.

Ekki veit ég, hvort þessi þjóð mun ná áttum.  En svo mikið veit ég, að það mun ekki gerast, nema menn geri sér grein fyrir eigin ábyrgð á því, hvar við erum nú stödd.  Það er kraftur í þessari þjóð, rétt eins og í landinu, sem hún byggir.  En henni verður að lærast, að beisla þann kraft í auðmýkt gagnvart sjálfri sér og öðrum, náttúru landsins og Guði.  Að öðrum kosti verður hún aldrei verð eigin tilveru.

Félögum mínum á blogginu, sem og öðrum, óska ég árs og friðar.


Strandkapteinn í Íslandsbankann

Mikið líst mér vel á það, að Jón Sigurðsson hagræðingur skuli taka við formennsku í stjórn Íslandsbanka.  Hann var varaformaður stjórnar Seðlabankans og formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, þegar allt fór endanlega fjandans til í efnahagslífi þjóðarinnar.  Hver gæti hugsanlega verið betur til þess fallinn, að leiða bankastjórn?  Þetta er eins og að gera strandkaptein að skipstjóra, eftir að sá hinn sami hefur strandað tveimur skipum.  Jón er maður með reynslu!


Ævisaga Vigurklerks

Mannlegt líf fær ekki þrifist án sögu.  Hún er grundvöllur allrar þekkingar og þar með menningar.  En jafn nauðsynlegt og það er, að menn þekki söguna, þá er mikilvægt, að gera sér ljóst, að hún krefst vissrar fjarlægðar.  Til þess að sjá yfir víðan völl, þurfa menn að hafa gefið sér tíma til að klöngrast upp á sjónarhólinn, dvelja þar um stund og átta sig á útsýninu.  Gefi menn sér ekki þetta tóm, geta þeir aðeins fjallað um það, sem við allra augum blasir; dýptina skortir.

Það er eðlilegt, að menn fjalli um "hrunið" í ræðu og riti.  En ég verð að játa, að ég hef ekki lesið eina einustu þeirra bóka, sem út eru komnar um þetta efni.  Ástæðan er einfaldlega sú, að það er alveg sama, hvaða lærdómstitlum höfundarnir skreyta sig; enn sem komið er hafa þeir aðeins séð yfirborðið og um það vita þeir ekkert meira en ég og allir aðrir.  Mér skilst að vísu, að sumir þessara höfunda segi frá klíkufundum og jafnvel einkasamtölum helstu þátttakenda í "hruninu".  En það má einu gilda; samhengið kemur ekki fyrr en síðar.

Því dettur mér þetta í hug, að ég hef verið að lesa sjálfsævisögu þess merka klerks og alþingismanns séra Sigurðar Stefánssonar í Vigur.  Þegar hann lét af þingstörfum árið 1923 hafði hann setið lengur á þingi en nokkur annar.  Alþingi var á þessum árum lengst af háð annað hvert ár og sat hann alls 26 þing, frá árinu 1886. 

Séra Sigurður lést árið 1924 og lét eftir sig ævisögu sína í handriti. Það er þó loks nú, sem þessi ævisaga kemur fyrir almennings sjónir.  Útgefandi er Sögufélag Ísfirðinga. 

Eðli málsins samkvæmt eru stjórnmálin fyrirferðamikil í þessu riti.  Í ljósi núverandi stöðu þjóðarinnar, er fróðlegt, að lesa þetta rit.  Sérstaklega á ég þar við umfjöllun séra Sigurðar um árin  kringum stofnun fullvalda ríkis á Íslandi 1. des. 1918.  Þar lýsir hann sukki og óráðsíu margra stjórnmálamanna þess tíma. 

Eins og klerkur bendir á, högnuðust Íslendingar mjög fjárhagslega í fyrri heimsstyrjöldinni, vegna hækkandi verðs á útflutningsvörum þjóðarinnar.  Þetta gekk vitanlega til baka að stríði loknu.  En þá áttu ýmsir, ekki síst stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar þess tíma, erfitt með að sníða sér stakk eftir vexti.  Þeir vildu vera menn með mönnum.  "Lausnin" var lántaka í útlöndum. Að vísu var ósvífnin enn ekki komin á það stig, sem síðar varð.  En grunnur vitleysunnar var sá sami og nú, botnlaus minnimáttarkennd kotunga, sem langar til, að teljast menn með mönnum.  Bók þessi er nauðsynleg lesning þeirra, sem vilja leita skýringa á "hruninu" nú.

 


Dýraníðingi klappað á kollinn af héraðsdómara

Undarlegt þótti mér að heyra af dómi, sem féll í héraði fyrir austan nú um daginn.  Bóndi einn hafði svelt fjölda fjár til dauðs og orðið með þeim hætti ber að níðingshætti gagnvart mállausum sakleysingjum.  Rétturinn féllst á sekt bóndans.

Nú kynni einhver að ætla, að manninum hefði verið komið bak við lás og slá, eða a.m.k. dæmdur til viðeigandi andlegrar meðferðar og hann auk þess verið sviptur rétti til búfjárhalds ævilangt.  En nei, kauði slapp með 80.000 króna sekt.

Ekki sel ég það dýrar en ég keypti, en þó hef ég það fyrir satt, að mál dýraníðinga komist sjaldan fyrir dómstóla; þau séu einfaldlega svæfð, sennilega sökum þess, að óviðeigandi þyki að ræða það í kallfæri, að slíkt þekkist í landinu.  Það er ekki ofsögum sagt, lífslygi Íslendinga er viðbrugðið.

 


Skálað á Alþingi

Ef marka má frétt Vísis.is gerðist það helst markvert á Alþingi í gær, að Ögmundur Jónasson greiddi atkvæði undir áhrifum áfengis.  Skemmst er að minnast þess, er Sigmundur Ernir Rúnarsson flutti snotra tölu þar á bæ fyrir skömmu og var víst ekki alveg laust við, að hann hefði lyft glasi mót upphimins ranni.  Feta þessir ágætu menn í fótspor sjáfls Winstons Churchill, sem lét ekki sjá sig í Parlamentinu allsgáðan og sat þó þar í u.þ.b. 60 ár.  Verða störf hans þó seint of metin.

Nú ætla ég ekki að mæla því bót, að þingmenn séu tiltakanlega drukknir í vinnunni.  En hugum þó að nokkrum atriðum.  Var Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ekki bærilega alsgáð, þegar hún ákvað að styrkja brask Björgúlfs Thors í ganganveri á Suðurnesjum?  Og hvað með nöfnu hennar Jakobsdóttur menntamálaráðherra; var hún nokkuð á þriðja fylliríisdegi, þá er henni datt í hug, að kasta 14 þúsund milljónum króna í tónlistahöllina í Reykjavík á sama tíma og maðurinn með ljáinn afgreiðir helming umsókna um búsetu á elliheimilum og gamalmenni eru aukin heldur flutt hreppaflutningum milli elliheimila? 

Já, er nema von ég velti því fyrir mér, hvort nokkur skaði sé skeður, þótt Bakkus gamli styðji endrum og eins undir axlir þingmanna á leið til pontu, eða hjálpi þeim, að ýta á réttan takka við atkvæðagreiðslur?  Skyldi og síst gleyma því fornkveðna; öl er innri maður!


Björgólfur Thor á ríkisjötuna í boði iðnaðarráðherra

Ég hef rökstuddan grun um, að ég sé ekki einn um það, að bera takmarkaða virðingu fyrir núlifandi stjórnmálamönnum.  Engu að síður setti mig hljóðan þegar ég horfði á Kastljós Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi.  Þar var rætt við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um þá ákvörðun hennar, að styrkja Björgólf Thor Björgólfsson af almannafé, til að reisa gagnaver á Reykjanesi. Sem hægt er að sjá hér .

Í öðru orðinu reyndi ráðherrann að gera lítið úr þátttöku Björgólfs í verkefninu, en í hinu orðinu taldi hún það af og frá, að saga hans í viðskiptalífinu væri Þrándur í Götu þess, að hann hlyti ríkisstyrk.

Nei, ég ber ekki mikla virðingu fyrir núlifandi stjórnmálamönnum.  En samt...


Formaður Sjálfstæðisflokksins á hálum ís

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er í vanda staddur.  Hann virðist ekki gera sér ljóst, að staða hans í stjórnmálum  verður ekki aðskilin frá vafasömum viðskiptum fyrirtækja, sem hann á aðild að. Það er þýðingarlaust fyrir hann, að þykjast ekkert hafa vitað, af umræddum viðskiptum.  Með því er hann einfaldlega að lýsa því yfir, að sem fjármálamaður hafi hann starfað í óráði.  Og þá er eðlilegt, að menn spyrji, hvort hann sé með fullri meðvitund sem stjórnmálamaður.

Vissulega er DV ekki sérlega vandaður fjölmiðill.  Á síðum þess blaðs, fullyrða menn stundum umfram vitneskju sína, rétt eins og Mogginn þegir gjarna umfram það, sem vitað er þar á bæ.  Úr þeirri gömlu tilhneigingu hefur ekki dregið í tíð núverandi ritstjóra.  En ásakanir DV á hendur Bjarna Benediktssyni verða ekki aðeins skoðaðar í ljósi fullyrðinga blaðsins, heldur einnig með tilliti til viðbragða Bjarna.  Tilraunir hans til að stöðva fréttaflutningin jafngilda í raun játningu á sannleiksgildi hans. 

Bjarni Benediktsson verður að gera sér grein fyrir því, að búsáhaldabyltingin blundar aðeins, en er ekki sofnuð svefninum langa.


„Það er ekki langt síðan ég var almenningur sjálfur"

„Það er ekki langt síðan ég var almenningur sjálfur", sagði ónefndur þingmaður í  þætti Ríkisútvarpsins í morgun.  Ekki er íslenskukunnátta mannsins upp á marga fiska, en látum það vera.  Nema hann hugsi eins og Lúðvík Frakkakóngur XIV forðum tíð, þegar hann sagði hin fleygur orð; „Frakkland, það er ég".  En það er önnur ella. 

Og þó.  Þegar kista þessa jöfurs, sem kenndur var við sólina sjálfa, var borin gegnum Parísarborg, hafði hann aflað sér slíkrar fyrirlitningar almennings, að fólkið gerði hróp að honum dauðum og hrækti á kistu hans.

Orð umrædds þingmanns eru vandi íslenska sjórnkerfisins í hnotskurn.  Stjórnmálamennirnir gera sér ekki lengur grein fyrir því, að þeir eru fulltrúar almennings.  Þeir tala meira að segja sjálfir um sig sem „stjórnmálastéttina".  Það er eins og þeir telji sig kynborna höfðingjastétt en ekki fulltrúa þeirrar alþýðu, sem kaus þá úr sínum röðum.   Þess vegna hafa menn ekki trú á þeim, heldur hina megnustu fyrirlitningu. 


Vanhugsaður sparnaður borgarstjórnar

Í morgun brá ég mér bæjarleið og fór til Reykjavíkur.  Ég var kominn vestur í bæ klukkan 11.00.  Það var þungskýað og því rökkur yfir borginni.  Samt var slökkt á ljósastaurum.  Enda þótt öllu betri bílstjóri en ég sæti undir stýri, var mér órótt; skygni var svo slæmt, að ekki þurfti mikið út af að bera til að illa færi.  Gangandi vegfarandi þarf ekki að vera mjög dökkklæddur við slíkar aðstæður, til að sjást illa í umferðinni.

Mér skilst, að borgarstjórn Reykjavíkur hafi bæði látið draga úr ljósastyrk í götulýsingum og ákveðið, að nú skuli slökkt á ljósastaurunum um klukkan 10 á morgnana.  Þetta mun vera gert í sparnaðarskyni.

Þetta er sláandi dæmi um yfirborðsmennsku stjórnmálamanna.  Og þetta er bæði hættulegt og heimskulegt athæfi.  Láti borgarstjórnin ekki af þessum loddaraleik, er það ekki spurning hvort, heldur hvenær einhver verður limlestur eða jafnvel drepinn í umferðinni, beinlínis vegna þessa. 

Ætlar borgarstjórinn að leggja krans á leiði fyrsta fórnarlambsins, sem deyr af þessum sökum?  Og mun þá ef til vill fylgja borði, sem á stendur „hann/hún dó í sparnaðarskyni?


Ógnar enskan íslenskunni?

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Guðrúnu Kvaran formann íslenskrar málnefndar.  Þar fullyrðir hún, að enskan sé mesta ógn íslenskunnar.  Má vera, að rétt sé.  Þó fer það eftir því, frá hvaða sjónarhóli litið er á málið.

Meðal þess, sem fram kemur í viðtalinu við Guðrúnu, er að fyrir hrunið hafi ensk tunga verið á hraðri leið með að ná yfirhöndinni í viðskiptalífinu.  Það er rétt.  Þetta gekk jafnvel svo langt, að menn töluðu um það fullum fetum, að notast við enska tungu í fyrirtækjum og kenna viðskiptafræði á ensku.

Ég er ekki alveg viss um, að enskan hafi verið hinn raunverulegi ógnvaldur íslenskunnar í þessu tilfelli.  Ef til vill stafaði hættan frekar af minnimáttarkennd og menningarskorti í viðskiptalífinu. 

Í þessu sambandi má heldur ekki gleyma skólakerfinu.  Það er ömurleg tilhugsun, að hægt sé að ljúka kennaranámi á Íslandi án menntunar í íslensku.

Fjölmiðlarnir, ekki síst sjónvarpsstöðvarnar eru svo kapituli út af fyrir sig.  Í raun eru þetta lítið annað en engilsaxneskar myndbandaleigur.  Vitanlega hefur allt það engilsaxneska efni, sem hellt er yfir þjóðina í sjónvarpi, slævandi áhrif á málkennd fólks.  Og ekki nóg með það, þröngsýni Íslendinga varðandi erlend málefni er orðin harla mikil.  Er það að vonum, því fréttirnar, sem fólk fær utan úr heimi, koma nær allar úr sömu áttinni; frá engilsöxum. 

Vitanlega er okkur akkur í því, að kunna ensku.  En nú, þegar hún er eina erlenda tungumálið, sem meirihluti þjóðarinnar er stautfær í, veitir hún okkur ekki frelsi þekkingarinnar, heldur leggur á okkur helsi fáfræðinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband