Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Óhugnanleg frétt í Ríkisútvarpinu

Það var svolítið undarlegt að hlusta á hádegisfréttirnar í Ríkisútvarpinu áðan.  Þar var sagt frá því, að „90% árangur væri af fóstureyðingum með lyfjum", eins og það var orðað.

Nú dylst það tæpast nokkrum manni, sem hugsar þetta mál til botns, að líf kviknar við getnað.  Fóstur er því ekki dauður hlutur, heldur lifandi mannvera, að vísu á frumstigi, en mannvera þó.  Fóstureyðing er því ekki sambærileg við það, að henda tómri mjólkurfernu.  Fóstureyðing er líflátsaðgerð, sama hverjar forsendur hennar eru.

Nú dettur mér ekki í hug, að fréttamenn Ríkisútvarpsins séu villimenn.  En það, hvernig þessi frétt er orðuð, er villimannlegt.  Þetta er afleiðing tíðaranda, sem telur það til mannréttinda, að fórna mannlegu lífi, jafnvel vegna „félagslegra ástæðna". 

Vissulega eru þess mörg dæmi, að börn séu getin, án þess að séð verði, að foreldrarnir verði þess umkomnir, að ala önn fyrir þeim.  En þá ber að rétta þeim hjálparhönd við uppeldið, sé þess nokkur kostur.  Sé svo ekki, má benda á, að fjöldi fólks getur ekki átt börn en þráir að eignast kjörbörn. 

Það er sama hvernig litið er á þessi mál. Þótt lög heimili fóstureyðingar, eru þær siðlausar og brot á þeirri grundvallarreglu mannlegrar tilveru, að enginn maður hafi rétt, til að svipta annan mann lífi.


Ríkisstjórnin siglir undir fölsku flaggi

Á krepputímum, slíkum, sem nú eru á Íslandi, eiga stjórnvöld um tvennt að velja til úrbóta.  Annað hvort hækka þau skatta eða draga saman seglin í velferðarkerfinu.  Taki þau fyrri kostinn, standa þau vörð um hag þeirra, sem betur mega sín.  Ef þau á hinn bóginn velja þann kostinn, að kreppa að velferðarkerfinu, bitnar það óhjákvæmilega á þeim, sem minna mega sín.

Samdráttur hins opinbera til velferðarmála, t.d. til heilbrigðismála, þýðir einfaldlega, að aukinn kostnaður færist á herðar sjúklinga.  Ríkið fær áfram sitt, en í stað þess, að taka það úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, sjúkra jafnt og heilbrigðra, gengur það enn frekar í vasa sjúklinga.

Það er því eðlilegt, að hægri menn kjósi leið skattalækkana, meðan vinstir menn kappkosta, að standa vörð um velferðarkerfið.  Sú ákvörðun núverandi ríkisstjórnar, að draga stórlega úr framlögum til velferðarkerfisins, er því dæmigerð fyrir hægrisinnaða stjórnmálamenn.


Langa vitleysa kerfisins

Ég var að lesa í dagblaði í dag, um unga konu frá Kólumbíu.  Hún kom sem flóttamaður ásamt fleiri löndum sínum í sérstöku boði íslenskra stjórnvalda árið 2005.  Hún fékk hér dvalarleyfi og styrk til náms.  Svo gerist það árið 2007, að hún skráir sig í fjölbrautaskóla og fær til þess styrk frá Reykjavíkurborg.  Allt í lagi með það, eða svo var að sjá. 

En nú kemur babb í bátinn.  Námsstyrkurinn árið 2007 bendir til þess, að mati hins almáttuga kerfis, að konan sé ekki matvinnungur.  Þetta kemur að vísu ekki í ljós fyrr en í ár og þá hefur umrædd kona kostað nám sitt sjálf árið 2008 og 2009  og gerir enn.  Það nám fer fram í Háskóla Íslands.

En allt kemur fyrir ekki, hún telst ekki hafa verið matvinnungur árið 2007 og skal því ekki, að mati Útlendingastofnunar, fá íslenskan ríkisborgararétt, eins og henni hafði þó verið heitið, þegar hún kom til landsins, svo fremi hún dveldi hér í fimm ár.

Óneitanlega minnir þetta á frásöng þess mæta manns, Parkinsons, sem setti fram lögmál, sem við hann er kennt og fjallar um fáránleika kerfisins, hvort heldur er á opinberum vettvangi eða í einkageiranum. 

Parkinson var liðsforingi í breska hernum í síðari heimsstyrjöldinni.  Hann segir frá því, að sú regla gilti í hernum, að menn urðu að leggja fram læknisvottorð, upp á það, að þeir væru á lífi, ef þeir vildi fá laun sín greidd.  Nú vildi svo til, að enskur ofursti í Indlandi tók sér tveggja mánaða frí frá störfum, nánar tiltekið í júlí og ágúst.  Þegar hann kom úr leyfinu, taldi hann nóg, að leggja fram lífsvottorð fyrir ágústmánuð, enda nokkuð ljóst, að sá sem hefði lifað af ágústmánuð, hefði einnig tórað af júlímánuð.  Þetta vottorð dugði þó ekki betur en svo, að hann fékk aðeins greidd laun sín fyrir ágústmánuð, enda ósannað,að mati herstjórnarinnar, að maðurinn hefði verið á lífi í júlí.

Er ekki svipaður fáránleiki á ferðinni varðandi konuna frá Kólumbíú?


70 ár frá hernámi Breta

í dag eru liðin 70ár frá hernámi Breta.  Öllum íslendingum, sem muna hernámið og styrjaldarárin, ber saman um, að á þessum tíma hafi orðið miklar breytingar í landinu.  Helsta breytingin varð auðvitað sú, að Bretavinnan tók við af kreppunni um leið og fjármagn flæddi inn í landið.

Eldra fólk, sem ég hef rætt við um þetta tímabil, m.a. í viðtölum í Morgunblaðinu fyrir s.s. fimmtán árum, ber þó saman um, að breytingar á hugsagangi fólks hafi fylgt komu Bandaríkjamanna 1941, ekki hernámi Breta.  Lífsviðhorf óbreyttra breskra hermanna voru okkur ekki framandi.  Öðru máli gengdi um Ameríkanana; þeim fylgdi nýr og framandi andblær, eftir því, sem mér hefur skilist á gömlu fólki.  En nóg um það.

Sumir sagnfræðingar halda því beinlínis fram, að nútíminn hafi hafið innreið sína á Íslandi þann 10. mai 1940.  Ég er ekki sannfærður um, að svo hafi verið.  Gamla bændasamfélagið var þegar á undanhaldi og fólksflutningar til Reykjavíkur og í annað þéttbýli, voru ekki nein nýjung.  Þannig voru íbúar Reykjavíkur árið 1901 6.682 talsins.  Árið 1920 voru þeir orðnir 17.679 og hernámsárið, 1940 töldust þeir vera 38.196.  Í stríðslok, 1945 voru þeir 46.578.

Á þessu má sjá, að fólksfjölgunin í höfuðborginni er stöðug allt frá aldamótum og fram að hernáminu, eins þótt hún ykist vissulega á hernámsárunum.

Nær alla 20. öldina hafði vægi fiskveiða, verslunar og iðnaðar aukist verulega.  Allt voru þetta fylgifiskar vaxandi þéttbýlis.  Og þurfti ekki heimsstyrjöld til. 

Hernámið hafði vissulega mikil áhrif á menningarlíf þjóðarinnar.  En ég er ekki frá því, að sagnfræðingar mættu gjarnan huga betur að atvinnuþróun á Íslandi, fyrri hluta síðustu aldar, í stað þess að hamra á því, að þeir hafi tekið algjörum stakkaskiptum á hernámsárunum.

 


Er Halldór Ásgrímsson fursti?

Fyrr á öldum var það talið sjálfsagt mál, að furstar einir og aðrir aðalsmenn, væru að vasast í stjórnmálum.  Furstarnir efuðust ekkert um það, að vald þeirra kæmi milliliðalaust frá Guði.  Aftur á móti voru þeir milliliðir milli Guðs og aðalsmanna.

Þessar hugmyndir tóku að víkja á Englandi á 17. öld.  Þar með var lagður grunnur að nútíma lýðræði.  Reyndar áttu sumir furstarnir svo erfitt með að skilja þessa þróun, að þeir hættu ekki að þvælast fyrir henni, fyrr en undir axarblaði fallaxarinnar.  En það er önnur saga.

Það þarf tæpast að velkjast fyrir nokkrum manni í nútíma lýðræðisríkjum, að stjórnmálamenn þiggi vald sitt frá fólkinu.  Furstar liðinna tíma töldu sig  auðvitað ekki þurfa að standa neinum reiknisskap gjörða sinna, nema Guði; hann hafði nú einu sinni veitt þeim völdin.  Stjórnmálamönnum nú á tímum á hins vegar að vera ljóst, að þeir eru ábyrgir gagnvart almenningi.  Það var því svolítið undarlegt, að heyra Halldór Ásgrímsson svara þeirri spurningu í Kastljósi, hvort hann skuldaði þjóðinni afsökunarbeiðni vegna hrunsins, að hann sem kristinn maður bæðist fyrirgefningar í kirkju.

Það kann ekki góðru lukku að stýra, þegar stjórnmálamenn rugla saman stjórnmálum og trúmálum, eins þótt þeir hafi lokið pólitískri þátttöku sinni.


Óæskileg yfirlýsing ráðherra

Loksins eru hafnar handtökur í kjölfar hrunsins 2008.  Það var ekki seinna vænna.  Hitt er svo annað mál, að hver sá, sem grunaður er um afbrot, telst saklaus, uns sekt hans er sönnuð fyrir dómi.  Það er m.ö.o. eitt að vera glæpamaður, annað að vera meintur glæpamaður.

Í ljósi þessa er það furðulegt, að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, skuli í dag hafa opinberlega lýst ánægju sinni með handtökurnar.  Þau virðast ekki skilja stöðu sína, sem handhafa framkvæmdavaldsins.

Svo á að heita, að á Íslandi ríki þrískipting valds í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald.  Allir þekkja hin nánu tengsl löggjafavalds og framkvæmdavalds.  En það hlýtur að teljast lágmarkskrafa, að ráðherrar blandi sér ekki á nokkurn hátt í störf dómstóla.

Ein megin ástæða hrunsins var sú, að stjórnmálamenn vissu ekki hvað til þeirra friðar heyrði.  Varðandi ákvarðanatöku, töldu allir sig þess umkomna að láta ljós sitt skína, en þegar kom að ábyrgð hljóp hver sem betur gat í skuggann. 

Meðan stjórnmálamenn haga sér með sama hætti og ráðherrarnir tveir gerðu í dag, halda þeir höndum fyrir augu og eyru.  Þeim væri hollara, að bera lófa að munni sér.


Vindasamt á Arnarhóli

Hann stendur nokkuð hátt, Arnarhóllinn í henni Reykjavík og þar er harla  vindasamt.  Á þessum hóli er virki framkvæmdavaldsins.  Þar eru nær öll ráðuneytin og trónir Seðlabankinn á gamla Skansinum, þessu virki, sem verja skyldi Reykjavík, en varð í raun aldrei nema máttlaust  tákn þeirrar varnar.

Það þykir víst nokkuð fínt, að vera offiser í Skansinum, þ.e.a.s. bankastjóri Seðlabankans.  Má þó hverjum manni vera ljóst, að embættið það arna er fremur í ætt við drauma en veruleika í landi gjaldþrota þjóðar, ef ekki fjárhagslega, þá a.m.k. siðferðislega.

En stundum kostar draumsýn sitt.  Það var væntanlega í ljósi þess, að formaður bankaráðs Seðlabankans lagði það til um daginn, að laun Seðlabankastjóra skyldu hækkuð úr u.þ.b. 1.300.000 í 1.700.000 eða um 400.000.  Þykir sú hækkun bærileg laun venjulegs fólks í landi hér.

Kröftug mótmæli urðu til þess, að tillagan var dregin til baka.  En nú er sem engum sé ljóst, hvaðan hún kom, tillagan sú arna.  Verður því ekki annað séð, en vindar hafi feykt henni af hafi, án ábyrgðar nokkurs lifandi manns í stjórnkerfi þessa s.k. lýðveldis.

Vinstri stjórn, hægri stjórn,- hverju skiptir það?


Aðför að réttarfari og lýðræði

Hvað er vald, hvernig ber að beita því og í hvaða tilgangi?  Svörin við þessum spurningum eru grundvöllur réttarfarsins og um leið réttarríkisins. Atburðirnir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun leiða hugann að þessum spurningum.

Í lýðræðisþjóðfélögum er vald varðstaða um samkomulag þegnanna um varðveislu grunngilda þjóðfélagsins.  Því ber að beita samkvæmt almennum reglum og án mismununar.  Tilgangur þessarar valdbeitingar á að vera sá, að tryggja frið, réttlæti og jafnræði þegnanna gagnvart lögum.

Í vissum tilfellum afhenda þegnarnir ákveðnum stofnunum umboð, til að framfylgja valdinu.  Þess skal þá jafnan gætt, að þær stofnanir, t.d. Alþingi og dómstólar, framfylgi þessu valdi í heyranda hljóði, nema í algjörum undantekningar tilfellum, sem ekki koma til álita hér.

Þegar dómari og/eða lögreglan telja sig þess umkomin, að ákveða, hverjir sitji eða standi í réttarsal og hverjir ekki, til að vera vitni að réttarhöldum og framfylgja þeirri ákvörðun með því að rýma réttarsal, er ekki verið að ráðast á þá, sem vikið er úr salnum, heldur réttarfarskerfið og lýðræðið sem slíkt.  Í því felst alvara þeirra atburða, sem urðu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.


Spillingaröflin snúast til varnar

Ég verð að játa, að ég hef enn ekki lesið hina einu sönnu Skýrslu.  Þó hef ég gluggað í henni.  Meðal þess, sem ljóst má vera, er að bankamafían og aðrir fjárplógsmenn mútuðu bæði stjórnmálaflokkum og einstökum stjórnmálamönnum til vinstri og hægri.  Fram til ársins 2007 voru þessar mútur að vísu löglegar, en þær voru fullkomlega siðlausar, hvernig sem á málin er litið.

Nú hafa mútuþegarnir og málpípur þeirra snúist til varnar og bera fyrir sig formúlu, sem í stuttu máli gengur út á eftirfarandi:  „Víst er það ekki nógu gott, samkvæmt siðferðishugmyndum ársins 2010, að þiggja milljónir í „styrki" frá vafasömum fyrirtækjum.  En fyrir hrunið 2008 ríkti allt annað siðferði.  Þá var allt í lagi að gera ýmislegt, sem ekki gengur núna.

Svona tala engir, nema tækifærissinnar, sem halda að siðferði sé skiptimynt á markaðstorgi veraldlegra hagsmuna.  Siðferðishugmyndir Vesturlanda urðu ekki til í kjölfar Hrunsins.  Þær eiga sér djúpar rætur í sögunni, rætur sem rekja má aftur til Forn-Grikkja, Gyðinga og upphafs kristinsdómsins. 

Á frjálshyggjutímanum var þetta siðferði látið víkja fyrir hömlulausri græðgi.  Það er óafsaknalegt og því verða mútuþegarnir á þingi og hvar annars staðar sem þá er að finna í stjórnmálum og stjórnsýslu þjóðarinnar að víkja.  Að öðrum kosti mun siðleysið festa sig í sessi. 

Ég vænti þess, að allir vilji, að friður ríki í landinu.  Til þess að svo megi verða, verðum við að hafna hinu „afstæða siðgæði" og lúta hinu algilda siðgæði".  Með því á ég einfaldlega við, að við verðum að finna okkur sameiginlegan siðferðisgrundvöll.  Án hans er lýðræðið markleysa.


Mótmæli við heimili stjórnmálamanna

Fyrir nokkrum árum hefði ég talið það jaðra við ósvífni, að veitast að stjórnmálamönnum, með mótmælaaðgerðum við heimili þeirra.  Hygg ég, að svo sé um fleiri.  En nú er öldin önnur.  Mér fannst að vísu ástæðulaust, að efna til mótmælaaðgerða við heimili dómsmálaráðherra, vegna framkvæmda á lögum, eins og gert var í vetur. 

Allt öðru máli gegnir um stjórnmálamenn, sem þegið hafa milljónir í „styrki" frá vægast sagt vafasömum aðilum í viðskiptalífinu.  Engum heilvita manni dettur annað í hug, en hér sé um mútur að ræða.  En stjórnmálamenn telja sig svo yfir almenning hafna, að þeir þurfi ekki að svara til saka.  Í mesta lagi lufsast þeir til að taka sér „frí frá þingstörfum", meðan mál þeirra eru í rannsókn.  Kannast einhver við, að innbrotsþjófar sleppi við varðhald, gegn því að „taka sér frí frá störfum", meðan á rannsókn mála þeirra stendur?

Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn rofnað svo gjörsamlega úr tengslum við þjóðina, að jafnvel þeir sjálfir eru farnir að skilgreina sig sem „stjórnmálastétt" (lesist aðall).  Getur slíkt fólk vænst griða gegn mótmælum lýðræðissinna, hvar og hvenær sem er, í samfélagi sem það sjálft ofurseldi óprúttnum braskaralýð, eða myndaði ríkisstjórn, með þeim, sem það höfðu gert?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband