Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
27.6.2010 | 16:23
Rangæingar á réttu róli
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, fylgdi séra Halldór Gunnarsson í Holti undir Eyjafjöllum eftir samþykkt fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi, og skoraði á þá fulltrúa flokksins á Alþingi og í sveitastjórnum, sem þegið hafa styrki frá vafasömum aðilum, að segja af sér. Nefndi hann sérstaklega í þessu sambandi þá Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann og Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa.
Eitthvað virðist þessi málflutningur klerksins hafa farið fyrir brjóstið á flokksforustunni, því hún kom í veg fyrir, að tillaga hans um þetta efni, færi inn í stjórnmálaályktun fundarins. Lagði séra Halldór tillöguna þá fram sem fundarsamþykkt og fór allt á sama veg, fundarstjóri, Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður, taldi ekki þörf á atkvæðatalningu og sagði tillöguna fallna. Við þetta kom upp kurr meðal fundarmanna og var atkvæðagreiðslan þá endurtekin. Reyndist hún hafa verið samþykkt.
Fótgöngulið Sjálfstæðisflokksins sýndi þarna flokksforystu sinni meiri hörku en forysta Samfylkingarinnar hefur mátt þola frá sínu fólki. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sér framtíð í íslenskum stjórnmálum, tekur hann tillit til þessa. Og ef fótgöngulið Samfylkingarinnar vill ekki að flokkur þess dagi uppi, tekur það á sig rögg og sýnir spillingaröflum síns flokks rauða spjaldið, eins og Sjálfstæðismenn hafa nu gert á sínum vallarhelmingi.
26.6.2010 | 17:31
Ósigur Bjarna Benediktssonar
Pétur Blöndal er einfari íslenskra stjórnmála. Hann hefur jafnan farið sínar eigin leiðir og fáir fylgt honum eftir. Það hlýtur því að vekja athygli, þegar hann býður sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins og það að morgni kjördags, og fær 30% atkvæða, meðan sitjandi formaður fær einungis 62%. Auðir og ógildir seðlar virðast svo hafa verið 8%.
Mér er ekki ljóst, hvort Bjarni Benediktsson er raunsæismaður eður ei. Ræða hans á landsfundi flokksins, þar sem hann hvítþvær flokkinn af allri ábyrgð á núverandi stöðu mála í landinu, virðist að vísu benda til, að hann lifi fremur í heimi draums en vöku. Engu að síður hlýtur að mega vænta þess, að hann geri sér ljóst, að úrslit formannskjörsins eru í raun persónulegur og pólitískur ósigur hans. Flokkurinn í heild sinni, mun bera þann ósigur á herðum sér, nema Bjarni taki staf sinn og hatt og láti öðrum eftir forystu á hægri væng íslenskra stjórnmála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2010 | 14:06
Hvað ætlar forysta Sjálfstæðisflokksins að gera í máli Guðlaugs Þórs?
Í júlímánuði árið 2005 sagði stjórn FL-Group af sér með formanninn í broddi fylkingar. Umræddur formaður var Inga Jóna Þórðardóttir, sem um skeið var forystumaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þetta sama ár settist eiginmaðu hennar, Geir Haarde, í stól formanns flokksins, eftir að hafa verið varaformaður. Hann var fjármálaráðherra til 27. september umrætt ár en varð þá utanríkisráðherra.
Af þessu má ljóst vera, að þegar árið 2005, vildi manneskja úr innsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins þvo hendur sínar af samvistum við FL-Group. Samt sem áður þáðu ýmsir frambjóðendur flokksins í prófkjöri árið eftir, háar fjárhæðir frá umræddu fyrirtæki. Og hvað um flokkinn sjálfan?
Nú reyna ýmsir að láta sem óheiðarleiki og jafnvel hrein glæpastarfsemi í íslensku efnahagsbólunni hafi verið öllum hulin allt fram á haustið 2008. Þetta er ekki rétt; ýmsir vöruðu við því, sem var að gerast. En hvorki stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn né þorri þjóðarinnar vildi hlusta á varnaðarorðin. Því fór sem fór.
Við breytum ekki því sem liðið er. En við getum bætt fyrir það! Til þess að svo megi verða, þurfa þeir stjórnmálamenn, sem þegið hafa fé frá FL-Group og öðrum vafasömum fyrirtæknum, að segja af sér. Í því sambandi hlýtur það að teljast undarlegt, að Guðlaugur Þór, styrkjakóngurinn sjálfur, skuli enn sitja á Alþingi. Einu má gilda, hvað hann er að hugsa. En á hvaða róli er forysta Sjálfstæðisflokksins í þessu máli?
22.6.2010 | 00:19
Vanhugsaðar hugmyndir um styttingu hringvegar
Tæpast getur það talist flókið mál til skilnings, að þéttbýli í þjóðbraut bjóði upp á ýmsa möguleika, sem afskekktari bæir og þorp gera ekki. Í ljósi þessa verður að líta andstöðu Blöndósinga og raunar Húnvetninga allra, við fyrirhuguðum breytingum á hringveginum, enda mundu þær leiða til þess, að bærinn yrði ekki lengur í alfara- leið.
Eini ávinningurinn af þessari breytingu yrði sá, að leiðin milli Akyreyrar og Reykjavíkur mundi styttast um 14 kílómetra. Skiptir sá tófuskottsspotti svo miklu máli, að eina þéttbýli Húnvetninga í þjóðbraut, þurfi að gjalda fyrir það, með verulegri fækkun atvinnutækifæra og þar með snauðara atvinnulífi og meðfylgjandi fólksfækkun?
12.6.2010 | 14:53
Hvimleiður misskilningur blaðamanna um einfalda hluti
Í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun, var sagt frá deilum varðandi "ríkjasamband" Danmörkur og Færeyja. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem fjölmiðlar hér á landi kalla samband Dana, Færeyinga og Grænlendinga"ríkjasamband".
Orðið "ríkjasamband" merkir samband fleiri ríkja en eins. Skilyrði slíks sambands er, að aðildarríkin séu fullvalda, enda þótt þau geti komið sér saman um ákveðin sameiginleg málefni, s.s. þjóðhöfðngja, utanríkismál eða hermál.
Færeyjar og Grænland eru ekki fullvalda ríki, heldur hluti danska konungsdæmisins. Þau hafa að vísu heimastjórn, rétt eins og Íslendingar höfði á árunum 1904 til 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Eðli málsins samkvæmt getur því ekki verið um að ræða ríkjasamband milli Dana, Færeyinga og Grænlendinga. Þessar þjóðir tilheyra einfaldlega sama ríkinu.
Leitt er til þess að vita, að fréttamenn Ríkisútvarpsins, skuli ekki átta sig á jafn einföldum hlut og ríkjaskipan Norðurlanda, sérstaklega í ljósi þess, að í því tilfelli, sem hér um ræðir, snýst málið um ríki, sem við Íslendingar tilheyrðum sjálfir öldum saman.
10.6.2010 | 16:38
Álfheiður stígur krappan dans
Varast ber, að spara hugsun í kreppu. Það er nefnilega ekki hægt að komast út úr henni, hugsunarlaust. Að þessu mætti Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hyggja.
Nú hefur blessuð frúin fengið þá flugu í höfuðið, að skipa Náttúrulækningahælinu í Hveragerði, að draga saman seglin um sem nemur 46% af rekstrarkostnaði. Í raun þýðir þetta lokun hælisins. Og þar með atvinnuleysi á annað hundrað starfsmanna, sérstaklega kvenna með lág laun.
Á hverju ári dvelja tæplega 2000 manns á hælinu og er meðalaldur þeirra 64 ár. Ríkið greiðir fyrir 120 rúm en tæplega 50 eru til viðbótar, þegar á þarf að halda, sem er oft, enda er biðtími 3 til 6 mánuðir. Allir, sem á hælinu dvelja, hafa fengið til þess læknisvottorð.
Ýmsar ástæður liggja að baki dvalar á Náttúrulækningahælinu, s.s. eins og hjartveiki og þunglyndi. Hvað þunglyndissjúklinga varðar, er þess að geta, að þarna starfa þrír sálfræðingar og er þjónusta þeirra nýtt út í æsar.
Stór hópur gesta hælisins eru gamlar konur. Það hafa orðið örlög margra þeirra, að ala upp sín börn og jafnvel að koma eiginmanninum til mennta. Enginn hefur látið sig sorgir þeirra og þrár nokkurs varða. Þessar gömlu konur leita sér gjarnan hvíldar á hælinu. Þar njóta þær almennrar umönnunar starfsfólks og sálfræðiaðstoðar. Og þarna hitta þær aðrar konur, sem eru í sömu sporum og þær.
Margar þessara kvenna eru alþýðukonur. Vera má, að þær hafi þegið þakklæti fyrir störf sín, en fjárhagslega hefur ekki verið mulið undir þær. Framlag ríkisins, sem er 70% af kostnaði við hvern gest, er því forsenda þess, að þær geti þegið þá líkn, sem þarna er veitt.
Væri nú ekki ráð, að Álfheiður Ingadóttir sósíalistafrömuður, velti því alvarlega fyrir sér, á hverja hún er að ráðast með þessum niðurskurði sínum?
8.6.2010 | 23:40
Félagsmálaráðherra á villigötum
Árum saman hafa auðhyggjumenn hamast við, að telja þjóðinni trú um, að allur opinber rekstur sé af hinu illa. Þeir hafa úthrópað opinbera starfsmenn, sem hin aumustu sníkjudýr á alþýðunni, eins þótt þeir sjálfir hafi aldrei annars staðar unnið en hjá því opinbera. Nema ef vera skyldi að þeir hafi verið sendlar í bernsku eða borið út Vísi eða Moggann.
Nú hefur þessum hugmyndafræðilegu öreigum borist liðsauki úr óvæntri átt. Félagsmálaráðherra leggur til, að laun opinberra starfsmanna verði fryst í þrjú ár, án tillits til tekna þeirra, starfsaldurs og vinnuálags.
Veit ég vel, að ríkið á í kröggum. En vel mætti félagsmálaráðherra minnast þess, hvar rætur flokks hans liggja; þrátt fyrir allt. Samfylkingin á rætur að rekja til verkalýðshreyfingarinnar og baráttu hennar fyrir bættum kjörum og auknum mannréttindum. Samningsrétturinn er hluti þeirra mannréttinda.
Öllum er ljóst, að opinberir starfsmenn, jafnt og flestir aðrir landsmenn, eru reiðubúnir til að taka á sig sinn skerf af kreppunni, í þeirri von, að henni ljúki sem fyrst. En um það þarf að semja. Og frysting launa allra opinberra starfsmanna, er einfaldlega út í hött.
Ráðherrar eru með hátt í milljón krónur í mánaðarlaun, meðan gangastúlkur á sjúkrahúsum eru með undir 200.000 króna mánaðarlaun. Samt er jafnt dýrt fyrir báða þessa hópa, að fæða sig og klæða. Nauðsynlegur matur, til að halda í sér lífinu kostar það sama, hvort heldur það er gangastúlka á Landspítalanum, eða ráðherra, sem meltir hann. Og ráðherra þarf ekki að hysja upp um sig fínni buxur en hver annar, til að ganga snyrtilega til fara. Væri því ekki snjallræði, að félagsráðherra sýndi fagurt fordæmi og lækkaði sín eigin laun, áður en hann fer að ráðast á samningsrétt launafólks, sem sumt hvert hefur ekki úr miklu að moða?
3.6.2010 | 22:52
Íslandspóstur úti á túni
Hún Maddý í Húsinu á túninu á Sigló er auðvitað eina Maddýin í Húsinu á túninu á Sigló. Og vitanlega er það klárt mál, að allir í bænum vita hver hún er, og þá alveg sérstaklega pósturinn, sem ber henni bréf. Annað hvort væri nú í 1200 manna plássi.
En nú hefur það komið í ljós, að hjá gáfnaljósunum á Íslandspósti í Reykjavík er bannað að senda bréf til Maddýar í Húsinu á túninu, nema það sé áritað með kirkjubókarfærðu nafni og húsnúmeri upp á reykvískan móð. Skýtt með alla skynsemi", segja þeir fyrir sunnan og þykir fínt.
Banni þessu til árettingar, hefur Íslandspóstur tekið sér það bessaleyfi, að opna bréf til Maddýar í Húsinu á túninu, að sögn þeirra á póstinum, til að ganga úr skugga um, að bréfið þar arna sé örugglega til Maddýar í Húsinu á túninu.
Það leynir sér ekki; mannskapurinn hjá Íslandspósti í Reykjavík er laglega úti á túni.
1.6.2010 | 20:43
Eru stjórnvöld í Ísrael gengin af göflunum?
Óþarft er að rekja nýjustu tíðindi fyrir botni Miðjarðarhafs hér. Ætla mætti, að Ísraelsmönnum væri það sérstakt keppikefli, að glata samúð umheimsins. Að láta sér detta það í hug, að útskýra morð á vopnlausu fólki um borð í hjálparskipi, með því, að skotið hafi verið á þrælvopnaða úrvalshermenn úr teygjubyssum, er kaldhæðni handan mannlegs skilnings.
Hvað okkur Íslendinga varðar, hlýtur það að vekja nokkra athygli, að fyrst nú, 23 árum eftir stofnun samtakanna Ísland-Palestína, skuli utanríkismálanefn Alþingis hafa kallað fulltrúa félagsins á sinn fund vegna ástandsins í Palestínu. Vonandi er þetta merki þess, að Íslendingar taki loks einarða afstöðu með þeim, sem berjast fyrir rétti palestínsku þjóðarinnar til sjálfstæðis. Með því yrði ekki aðeins Palestínumönnum rétt hjálparhönd, heldur einnig þeim fjölmörgu gyðingum, innan og utan Ísraels, sem barist hafa fyrir friði í þessum stríðshrjáða heimshluta.
Það vekur sérstaka athygli, að um borð í hjálparskipunum sex, voru m.a. gyðingar, sem lifðu af helför gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Hver hefði trúað því, að það fólk ætti eftir að standa frammi fyrir nöktum byssukjöftum ísraelska hersins?
26.5.2010 | 23:33
Hreppskosningar yfirvofandi
Svo er að sjá, sem Fjórflokkurinn sé nokkrum ótta sleginn vegna þess mikla fylgis, sem Besti flokkurinn fær í skoðanakönnunum. Og enda þótt hann bjóði aðeins fram í Reykjavík, fer ekki milli mála, að Fjórflokkurinn er farinn á taugum út um allt land. Er það að vonum.
Sannleikurinn er nefnilega sá, að hvernig, sem telst upp úr kjörkössunum á laugardaginn kemur, er fylgi Besta flokksins í skoðanakönnunum rothögg á Fjórflokkinn. Það á svo eftir að koma í ljós, hvort hann raknar úr rotinu. En það gerir hann ekki, nema hann geri hreint fyrir sínum dyrum í öllum þeim spillingarmálum, sem frá honum hafa sprottið og reki úr sínum röðum, forystumenn, sem líta á sig sem stjórnmálastétt" og telja skoðanir almennings sér óviðkomandi. Þangað til slík hreinsun hefur farið fram, og það verður vitanlega ekki fyrir kosningarnar á laugardaginn, verður framboð Besta flokksins, að teljast eina alvöruframboðið í Reykjavík; hitt eru grínframboð. Og raunar má Fjórflokkurinn um allt land alvarlega hugsa sinn gang.