Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.8.2010 | 10:47
Dómsmálaráðherra á villigötum
Sú hugmynd dómsmálaráðherra, að heimila lögreglu að rannsaka gjörðir fólks, sem ekki er grunað um neitt misjafnt, eru þess eðlis, að ekki verður þagað þar um. Að eigin sögn hefur ráðherrann sjálfur verið nokkuð efins í þessum efnum. En tilkoma skipulagðrar glæpastarfsemi í landinu virðist hafa breytt skoðun hans. Takið skal fram, að samkvæmt hugmyndum ráðherrans á að vera eftirlit með rannsókn lögreglunnar á saklausu fólki´. Það eftirlit á hugsanlega að vera í höndum Alþingis.
Nú skulum við kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Þegar talað er um eftirlit Alþingis", er í raun átt við eftirlit stjórnmálaflokkanna, það eru nú einu sinni þeirra fulltrúar, sem á þingi sitja. Og hver treystir þeim? Jú, samkvæmt skoðanakönnunum treysta 13% þjóðarinnar Alþingi og þar af leiðandi þeim flokkum, sem þar eiga fulltrúa.
Af hverju skyldi þetta vantraust almennings á stjórnmálaflokkunum og Alþingi þeirra stafa? Hafi einhverjum dulist það fyrir árið 2008, þá er það nú öllum ljóst, að stjórnmálaflokkarnir gæta ekki hagsmuna almennings, heldur sjálfra sín og sérhagsmunahópa, sem stjórna þeim leynt og ljóst.
Hvað gerðu stjórnmálaflokkarnir, þegar sannleikurinn tók að þvælast fyrir frjálshyggjunni? Þeir lokuðu Þjóðhagsstofnun og drógu tennurnar úr Fjármálaeftirlitinu. Allir? Nei, auðvitað aðeins þeir, sem sátu þá við völd, Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn. Síðar gekk Samfylkingin til liðs við Sjálfstæðismenn og hélt darraðadansinum áfram.
Og hvað er að gerast nú? Ráðherrar Samfylkingarinnar eru að fylla ráðuneyti sín flóttamönnum úr hrundu bankakerfi frjálshyggjunnar og forysta Vinstri grænna andmælir því ekki einu orði. Til þess þykir henni of vænt um ráðherrastólana.
Þegar allt þetta er lagt saman við forsögu flokkanna og forvera þeirra, sögu endalauss undirlæguháttar kaldastríðsáranna við erlend stórveldi í austri og vestri, þá er nokkuð ljóst, að menn treysta stjórnmálaflokkunum hvorki til eftirlits með einu né neinu, allra síst persónulegum upplýsingum um fólk, sem ekkert hefur til saka unnið.
Vissulega er það rétt hjá dómsmálaráðherra, að erlend glæpasamtök hafa skotið rótum á Íslandi. Spurningin er hins vegar sú, hvort stjórnmálaflokkarnir séu ekki elstu, þróuðustu og best skipulögðu glæpasamtök landsins.
6.8.2010 | 15:21
Orðaleikur frjálshyggjunnar á Selfossi
Eins og kunnugt er, vann Sjálfstæðisflokkurinn afgerandi sigur í bæjarstjórnarkosningunum á Selfossi nú í sumar. Reyndar heitir sveitarfélagið víst Árborg, en það er önnur saga.
Nú hefur nýja bæjarstjórnin ráðið bæjarstjóra. En þá bregður svo við, að bæjarstjórinn skal ekki lengur kallast bæjarstjóri, heldur framkvæmdastjóri. Hvað skyldi búa þar að baki?
Fyrirtæki ráða sér framkvæmdastjóra. Slíkum mönnum er eðlilega ætlað, að tryggja, að viðkomandi fyrirtæki sé rekið með hagnaði. Fyrirtæki eru nefnilega rekin í hagnaðarskyni og tæpast nokkuð athugavet við það. Aftur á móti er hlutverk bæjarfélaga annað. Þau gegna þjónustuhlutverki gagnvart íbúunum. Það hlutverk er ekki aðeins lögbundið, heldur einnig háð ýmsum siðferðishugmyndum, sem fyrirtæki falla ekki undir.
Auðvitað verður framkvæmdastjóri" Árborgar aldrei annað en bæjarstjóri í hugum íbúanna. En framkvæmdastjóratitilinn er merki um, að hin lamaða hönd frjálshyggjunnar láti enn, eins og hún sé í fullu fjöri.
Tungumálið er ekki aðeins tjáningarform; það er einnig valdatæki í hugmyndafræðilegum skilningi.
Að svo mæltu óska ég framkvæmda-bæjarstjóra Selfyssinga og gamalla nærsveitunga velfarnaðar í starfi.
Nýlega skiluðu þýskir sérfræðingar á sviði ögyggismála í jarðgöngum því áliti sínu, að Hvalfjarðargöngin uppfylltu ekki á nokkurn hátt öryggiskröfur, sem til slíkra mannvirkja eru gerðar.
Nú hefur komið í ljós, að fyrir margt löngu, bentu menn á, að ekki væri verjandi, að bensínflutningar færu fram um göngin, nema þá á nóttinni. Þáverandi samgöngumálaráðherra skipaði nefnd til að gera tillögur um úrbætur í öryggismálum gangananna. Og viti menn. Þar kom fram tillaga um, að bensínflutningar um Hvalfjarðargöng, yrðu aðeins heimilaðir á nóttinni. Sú tillaga var hins vegar keyrð niður af fulltrúa olíufélaganna í nefndinni.
Þetta vekur óneitanlega eftirfarandi spurningu; hví var olíufélugunum gefinn kostur á að skipa fulltrúa í þessa nefnd. Svarið er einfallt; þau eru hagsmunaaðilar. En ein spurning leiðir af sér aðra; á að taka hagsmuni einstakra aðila, s.s. olíufélaga, fram yfir öryggi almennings? Viðkomandi ráðherra velktist sýnilega ekki í vafa um það.
Auðvitað á að banna bensínflutninga um Hvalfjarðargöng, sem og önnur jarðgöng, nema á næturnar og þá með því skilyrði, að um leið sé lokað fyrir aðra umferð. Öryggi heildarinnar ber ævinlega að taka fram yfir hagsmuni einstaklinga! Svo einfallt er það.
30.7.2010 | 13:58
Ríkisútvarpið í hættu
Menntamálaráðherra hefur boðað, að enn skuli hert á sparnaðaraðgerðum hjá Ríkisútvarpinu. Nú á að spara um 9%. Þetta mun væntanlega þýða enn minna af aðkeyptu efni og lélegri fréttaflutning. Hvoru tveggja er alvarlegt mál. Auk þess má vænta uppsagna, bæði á fréttastofu og meðal dagskrárgerðarfólks.
Ljóst er, að þetta mun leiða til enn lakari fréttaflutnings og er hann þó ekki merkilegur fyrir, síst hjá sjónvarpinu. Auk þess má vænta þess, að annað dagskrárefni verði ver unnið en hingað til.
Þetta er slæm þróun, ekki síst í ljósi þess, að Ríkisútvarpið er, þrátt fyrir allt, flaggskip íslenskra fjölmiðla. Ríkisútvarpið á að vera í öndvegi, hvað varðar upplýsingamiðlun til almennings, sem og miðlun menningarlegs efnis af ýmsu tagi.
Væri nú ekki ráð, að spara ferkar, þar sem spara má að skaðlausu? Til hvers á ríkið t.d. að leggja fram 80% af rekstri einkaháskóla? Getur Viðskiptaráð ekki rekið Háskólann í Reykjavík? Og hví á almenningur að fjármagna Háskólann í Bifröst eða Keili? Hræða sporin frá Hraðmenntaskólanum ekki? Þannig mætti lengi telja.
Aðhald í fjármálum er nauðsynlegt, ekki aðeins á krepputímum eins og nú. En aðhald í alþýðumenningu eins og hjá Ríkisútvarpinu getur verið stór skaðlegt.
28.7.2010 | 21:02
Eiðrof á Landspítalanum?
Í Fréttablaðinu í dag kemur fram, að Landspítalinn hafi notað raunverulegar sjúkraskrár og það án vitneskju, hvað þá heldur samþykkis viðkomandi sjúklinga, til kennslu varðandi upplýsingakerfi sjúkrahússins. Persónuvernd hefur málið til athugunar.
Í bréfi framkvæmdastjóra lækninga til Persónuverndar, kemur fram, að hvorki Landspítalinn, siðanefnd hans né embætti landlæknis, hafi séð nokkuð athugavert við þetta háttarlag, enda hafi þetta átt sér stað í lokuðu rými frammi fyrir eiðsvörnum hópi".
Þegar fólk er ráðið til starfa á heilbrigðisstofnunum, undirritar það þagnareið. Sá eiður felur í sér skilyrðislausa þagnarskyldu varðandi sjúklinga gagnvart utanaðkomandi fólki. Þessi eiður takmarkar auðvitað ekki rétt startsfólks til innbirgðis upplýsingamiðlunar varðandi heilsu sjúklinga, sé hún á faglegum nótum. Hins vegar er honum ætlað að koma í veg fyrir, að upplýsingar um sjúklinga berist óviðkomandi fólki. Slíkt hefur þó greinilega átt sér stað í þessu tilfelli. Því hlýtur sú spurning að vakna, hvort breyting hafi orðið á réttarstöðu sjúklinga. Er það e.t.v. talið í stakasta lagi, að fólk, sem undirritað hefur þagnareið, láti eins og slíkur eiður sé marklaus? Og hver er þá réttarstaða sjúklinga, hvort heldur er um líkamlega eða andlega sjúkdóma að ræða?
26.7.2010 | 10:11
Umboðsmaður skuldara?
Fari skilningur minn nærri lagi, er umboðsmanni skuldara ætlað að standa vörð um hagsmuni skuldara, ekki aðeins gagnvart lánastofnunum, heldur einnig ríkisvaldinu. Fyrra atriðið er vonandi öllum ljóst og hið síðara ætti einnig að vera það. Það er nú einu sinni svo, að ríkisvaldið hefur síðasta orðið, þegar kemur að lagasetningu um lánastarfsemi, sem og annað.
Af þessum sökum er mikilvægt, að sá sem gegnir embætti umboðsmanns skuldara standi í lappirnar gagnvart þeim flokkum, sem fara með ríkisvaldið hverju sinni. Augljóst er, að nýskipaður umboðsmaður skuldara, mun aldrei fá um frjálst höfuð strokið gagnvart Samfylkingunni, enda stendur það ekki til.
Því miður virðist enn hafið yfir allan vafa, að Samfylkingin, jafnt og aðrir flokkar, tekur flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhag. Þannig veikir hún getu ríkisins, til að standa vörð um heill og hamingju þegnanna. Gleymum því ekki, að það voru einmitt þessir starfshættir, sem orsökuðu hrunið 2008!
23.7.2010 | 18:27
Furðuleg yfirlýsing forsætisráðherra
Í dag féll dómur í Hérðasdómi Reykjavíkur varðandi myntkörfulán. Forsætisráðherra hefur þegar lýst því yfir, að dómurinn sé rökréttur.
Nú er það svo, að ríkisvaldið á að heita þrískipt, milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Allir vita, hvernig framkvæmdavaldið hlutast til um verksvið löggjafarvaldsins. En það er lágmarkið, að forsætisráðherra sýni stjórnkerfi ríkisins þá virðingu og þann skilning, að hann opinberi ekki skoðanir sínar á störfum og úrskurðum dómstóla.
Þögnin er ekki endilega til skaða, Jóhanna Sigurðardóttir!
22.7.2010 | 21:41
Engill í dulargerfi
Björgólfur Thor Björgólfsson hefur gefið út opinbera yfirlýsingu um, að í rauninni sé hann engill í dulargerfi. Blaðafulltrúi hans hefur staðfest, að um sannmæli sé að ræða.
Oss mun ætlað að trúa!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.7.2010 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2010 | 20:50
Fjölmiðlar og ábyrgð
Meðan ég var í Kaupmannahöfn um daginn, fjölluðu fjölmiðlar ýtarlega um hneyksli innan félagsþjónustu eins af hverfum borgarinnar. Í ljós hafði komið, að starfsfólk, sem átti að liðsinna gömlu fólki, gerði það með hangandi hendi. Þannig átti hvert gamalmenni t.d. rétt á tveggja klukkustunda þjónustu á dag, en fékk allt niður í fimm mínútna innlit.
Hvernig tóku danskir fjölmiðlar á þessu máli? Þeir andskotuðust í viðkomandi deild félagsstofnunar, þar til bæði þeir undirmenn, sem þarna áttu hlut að máli, sem og yfirmenn þeirra voru reknir. Undirmennirnir voru látnir fjúka fyrir vinnusvik en yfirmennirnir fyrir eftirlitsleysi.
Auðvitað voru dönsku fjölmiðlarnir ekki að ana út í neina vitleysu. Þeir könnuðu málið og létu ekki til skarar skríða, fyrr en allt var á hreinu. Hugsunin hjá þeim er þessi: Félagsleg þjónusta við gamla fólkið er hluti almannaheilla. Þess vegna skal almenningur upplýstur um það, sem miður fer.
Fjármálaeftirlitið hér heima er hluti almannaheilla. Því ber að hafa eftirlit með fjármálastofnunum og tryggja þannig, að innistæðum almennings sé ekki stefnt í voða. Reynslan sýnir, að ekki veitir af.
Nú hefur komið í ljós, að stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur í laumi fyrirskipað rannsókn á meintu fjármálamisferli forstjóra eftirlitsins, meðan hann starfaði hjá Kaupþingi. Eins og eðlilegt er, fóru fjölmiðlar fram á viðtal við formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins, þegar þeir fréttu af þessu. Það viðtal fékkst ekki. Hvers vegna?
Svarið er einfallt; formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins gerir sér ekki grein fyrir því, hverjir húsbændur hans eru. Hann skilur ekki, að hann er í þjónustu almennings. Þess vegna á hann að víkja úr starfi. Allt annað er ógnun, ekki aðeins við hagsmuni innistæðueigenda í bönkum og öðrum fjármálastofnun, heldur beinlínis við lýðræðið í landinu. Þetta vefst ekki fyrir frændum okkar Dönum. En því miður virðist jafn einfalt mál ofvaxið skilningi þröngrar og þröngsýnnar valdaklíku þeirrar guðs voluðu þjóðar, er byggir þetta land.
4.7.2010 | 13:03
Hefur menntun dregist saman?
Lýðræðið er ekki gallalaust, en þó skársta stjórnkerfið, sem völ er á. Þó er það fullt af þversögnum. Ef til vill er það mesta þversögn lýðræðisins, að um leið og það heimilar fólki, að hafa þá skoðun, sem það vill, innan vissra marka þó, byggir það á ákveðnum grundvallaratriðum, sem ekki má víkja frá.
Mannréttindi eru eitt þessara grundvallaratriða lýðræðis og það mikilvægasta. Meirihlutinn, hversu stór, sem hann er, getur ekki vikið út frá mannréttindum; þá er einfaldlega úti um lýðræðið. Þetta fengu Þjóðverjar illilega að reyna á tímum nasismans. Og máttu fleiri gjalda fyrir þann hrunadans.
Menntun er annað grundvallaratriði lýðræðis. Lýðræði er í raun dreifð aðild að ákvarðanatöku. Og það krefst þekkingar, að taka ákvörðun. Þess vegna getur ekki verið um lýðræði að ræða, nema almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum og sækist eftir þeim, taki m.ö.o. upplýsta afstöðu til mála.
Öllum kynslóðum hættir til að telja sig menntaðri en þær kynslóðir, sem á undan gengu. Hversu oft höfum við ekki heyrt því fleygt, að unga kynslóðin nú, sé sú menntaðasta í sögu þjóðarinnar?
Nýleg skýrsla frá Evrópusambandinu, sýnir, að Íslendingar eru menntunarsnauðasta þjóð Evrópu, að Tyrkjum undanskildum, en raunar er vafamál, hvort telja beri þá Evrópuþjóð. Í báðum þessum löndum fer aðeins um heldmingur unglinga í framhaldsnám. Á sama tíma nær þetta hlutfall víða yfir 70% og sumstaðar yfir 80%.
Ekki má gleyma því, að menntun er víðfemt hugtak, sem menn greinir á um, hvaða merkingu hafi. Áður var talað um lærða iðnaðarmenn og menntaða háskólamenn. Í þessu fólst, að menn lærðu iðn, en menntuðu sig til akademískra greina. þessi aðgreiging hefur að ýmsu leyti glatað merkingu sinni, enda er nú svo komið, að háskólar kenna ekki aðeins akademískar greinar, heldur einnig greinar, sem í eðli sínu eru mitt á milli þess, að teljast iðngreinar og háskólagreinar. Súmar þessara greina voru áður kenndar í sérskólum, aðrar ekki.
Í mínum huga, getur ekki verið um neina menntun að ræða, nema að uppfylltum vissum grundvallaratriðum. Og þá má einu gilda, hvort menn eru langskólagengnir eður ei.
Tjáningin er grundvöllur allrar visku og þar með menntunar. Sá sem hvorki getur tjáð sig, né skilið tjáningu annarra svo vel sé, er ekki menntaður, sama hvaða prófgráðu hann hampar. Þess vegna er móðurmálskennsla og kennsla í nokkrum erlendum tungumálum grundvöllur menntunar og um leið lýðræðis.
Sagan er annað grundvallaratriði mennta og lýðræðis. Án þekkingar á sögu lands og þjóðar, sem og söguþekkingar í víðara samhengi, eru menn sem fiskar á þurru landi og tæpast færir til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Þeir verða óhjákvæmilega leiksoppar óprúttinna áróðursmanna, sem ævinlega ógna lýðræðinu.
Þannig mætti lengi halda áfram. En eitt er ljóst; skólakerfið á Íslandi hefur, þrátt fyrir tiltölulega litla þátttöku, þanist út á undanförnum árum. En hvað um menntun, sem grundvöll lýðræðislegs þjóðfélags og andlegs þroska einstaklinga? Hefur hún ef til vill dregist saman?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)