Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.4.2010 | 18:49
„Konur misnota líka börn"
Í Fréttablaðinu í gær, laugardag, er viðtal við Sigrúnu Sigurðardóttur, doktorsnema í lýðheilsufræðum. Fjallar hún þar um rannsóknir sínar á kynferðislegri misnotkun kvenna á börnum, einkum drengjum.
Ég hvet fólk til að lesa þetta viðtal, enda er hér tekið á máli, sem hingað til hefur ekki mátt ræða. Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, hefur alfarið verið skrifað á reikning karla. Stundum hefur mér jafnvel þótt jaðra við, að sumir femínistar noti umræður um þessi mál, málstað sínum til framdráttar.
Hér á árum áður, heyrði ég stundum fullorðna menn stæra sig af því,í margmenni, að fullorðnar konur hafi tekið þá með sér í bólið, þegar þeir voru enn á barnsaldri eða unglingar innan sjálfræðisaldurs. Þeir áttu það allir sameiginlegt, að samskipti þeirra við gagnstæða kynið voru mjög brösótt, enda var sjálfsmynd þessara manna brostin. Þetta var á áttunda áratug síðustu aldar. Þá var enn langt í umræður um kynferðislega misnotkun, hvort heldur karla eða kvenna á börnum. Mennirnir skildu því sjálfir ekki sín eigin örlög.
Nú þarf að taka þessi mál til öfgalausrar umræðu, spyrna við fæti og veita jafnt gerendum sem þolendum viðeigandi aðstoð.
24.4.2010 | 14:05
Kattarþvottur Sigmundar Davíðs
Formaður Framsóknarflokksins ávarpaði í morgun miðstjórn flokksins og baðst afsökunar á andvaraleysi og mistökum í aðdraganda bankahrunsins". Segir hann ábyrgð Framsóknarflokksins mikla, en mesta þó á framtíðinni.
Það er ekki mitt að dæma um það, hvort hér er mælt af heilindum eður ei. Vel má vera, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson haldi að sagan hafi byrjað haustið 2008 eða svo. En öllum má nú ljóst vera, að hrun bankanna haustið það arna, var óhjákvæmileg afleiðing þeirrar helmingaskiptareglu Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna, sem viðhöfð var við einkavinavæðingu ríkisbankanna árið 2003. Málið snýst því ekki um andvaraleysi og mistök í aðdraganda bankahrunsins", heldur um skipulagða glæpastarfsemi við einkavæðingu bankanna. Þar til forystumenn þessara flokka hafa áttað sig á því og játað það undanbragðalaust fyrir þjóðinni og öðrum fórnarlömbum útrásarvíkinganna, fer best á því, að ábyrgð þeirra á framtíðinni sé engin.
22.4.2010 | 12:33
Ansi er þetta klént!
Mikið er það merkilegt, þegar spillingaröfl hrunadansins, kenna lélegu eftirliti og göllum í kerfinu" um hvernig fór. Skyldi nokkur innbrotsþjófur hafa verið sýknaður á þeim forsendum, að húsið, sem hann braust inn í, hafi staðið opið þegar hann átti þar leið um?
21.4.2010 | 00:01
Hugljúf yfirlýsing frá klappstýrunni
Mikið fannst mér vel til fundið hjá klappstýrunni á Bessastöðum, að gleðja bændur og búalið, sem nú mega líða fyrir gosið í Eyjafjallajökli, með því, að þetta væri nú bara eins og hver önnur æfing undir Kötlugosið, sem væri á næsta leyti. Það er svo fallega gert, að gleðja fólk í bágindum þess.
Þó fannst mér klappstýrunni takast enn betur upp, þegar hún svaraði gagnrýni á þessa yfirlýsingu með því að segja, að eins og bankahrunið hefði leitt í ljós, væri ekki gott að þegja yfir sannleikanum. Hver var það aftur, sem var öðrum iðnari við að lofsyngja lygina?
Undarlegt, en hvar sem ég kom í dag, og það var nokkuð víða, var fólk að tala um, að nú ætti klappstýran að fara að svipast um eftir nýrri vinnu.
16.4.2010 | 23:11
Þingflokksformenn draga sig í hlé
Nú hafa tveir þingmenn, sem báðir voru formenn þingflokka sinna, tekið sér leyfi frá þingstörfum, meðan rannsókn fer fram á málum þeirra. Þetta eru þeir Björgvin G. Guðmundsson þingmaður Samfylkingarinnar og Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Rannsóknarnefnd Alþingis taldi Björgvin hafa gerst sekan um vanrækslu í starfi viðskiptaráðherra í aðdragenda hrunsins en Illugi hafði náin tengsl við Glitni. Það er báðum þessum mönnum til sóma, að hafa dregið sig frá þingstörfum, meðan á rannsókn þessara mála stendur. Þannig eiga hlutirnir að ganga fyrir sig í lýðræðislegu samfélagi. Vonandi ber þjóðin gæfu til, að telja þessa ákvörðun þeirra ekki jafngilda játningu. Reynist þeir saklausir, ber þeim að taka aftur sæti á Alþingi, til þess eru þeir kosnir. Ef þeir reynast hins vegar sannir að sök, taka þeir vitanlega út sína refsingu. Það er réttvísinnar að taka á þessum málum, ekki Gróu á Leiti.
14.4.2010 | 23:52
Glæpur og refsing?
Ekkert liggur skráð eftir hinn fræga heimspeking Sókrates. En ýmislegt er eftir honum haft, m.a. í riti Platóns, Gorgías. Eins og tíðkaðist í grískum heimspekiritum er notast við samræðuformið. Sókrates ræðir við lærisveina sína og í stað þess að leggja þeim lífsreglurnar í fullyrðingum, veiðir hann þá í net sitt með spurningum. Eigi að síður koma skoðanir hans skýrt fram.
M.a. sem fram kemur í Gorgíasi eru hugleiðingar Sókratesar og/eða Platóns um glæp og refsingu. Þar er sú skoðun sett fram, að það versta, sem nokkurn mann geti hent, sé að fremja glæp, en það næst versta sé, að taka ekki út refsingu fyrir glæpinn. Sá sem fremur glæp og tekur út refsingu sína á sér viðreisnar von, samkvæmt þessari kenningu. Hinn, sem ódæðisverk vinnur og kemst upp með það, er að eilífu glötuð sál.
Er okkur Íslendingum slík lesning ekki nokkuð þörf, þessa dagana?
14.4.2010 | 00:03
Hver var sirkusstjórinn?
"Ábyrgðin bankanna", segir í heimstyrjardarfyrirsögn á forsíðu Moggans í dag. Og víst er um það, ábyrgð þeirra er mikil. En öllum mátti ljóst vera, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna færði vinum sínum bankana á silfurfati, að þar var sirkusstjóri að hleypa villidýrum út úr búrum þeirra.
6.4.2010 | 23:49
Merkilegir tímar í vitstola þjóðfélagi
Þúsund manns stóðu í biðröðum hjá hjálparstofnunum í Reykjavík fyrir páska. Formaður velferðarsviðs borgarinnar segir, að ekki sé hægt að auka aðstoð borgarinnar við fátækt fólk. Borgarstjórn ákveður að eyða 230.000.000 króna í golfvöll.
Já, við lifum merkilega tíma - í vitstola þjóðfélagi.
29.3.2010 | 16:29
Hvíslarinn og kattasmalinn
Hundar hlýða, kettir láta ekki ráðskast með sig. Þetta vita allir, sem til þessara dýra þekkja. Skyldi það vera í ljósi þessa, að Jóhanna Sigurðardóttir kvartar undan því, að sem forsætisráðherra sé hún í hlutverki kattarsmala"?
Mogginn segir frá þessum raunum frúarinnar í dag og bætir raunar um betur. Hann birtir nefnilega mynd af þeim Jóhönnu og Einari Karli Haraldssyni, en nærvera hans virðist þessa dagana vera forsætisráðherra mjög til yndisauka.
Hugmyndafræði er hinn almenni grundvöllur stjórnmála, hvar í heiminum sem er. Á Vesturlöndum er lýðræðið aftur á móti ófrávíkjanlegur grundvöllur þeirra. Þar er ætlast til þess, að stjórnmál séu rædd á opnum og lýðræðislegum vettvangi. Allt annað er aukaatriði eða útfærrsluatriði. Hitt er svo annað mál, að það sama gildir um stjórnmál og leikhús; aukaatriði" og aukahlutverk. Leikrit gengur ekki án aukahlutverka. Og vissulega eru þau mörg, aukaatriðin", sem huga þarf að í stjórnmálum.
Eitt þeirra er gagnsæi. Mikilvægi þess verður seint ofmetið í lýðræðislegu samfélagi. Í raun getur lýðræði ekki þrifist án gagnsæis og því í raun rangt, að tala um það sem aukaatriði", eins þótt innan gæsalappa sé. Þessu virðist Jóhanna Sigurðardóttur stundum ekki átta sig á. Skyldi þó aldrei vera að, af því stafi dálæti hennar á pukurmeistara íslenskra vinstri stjórnmála, sem fyrr var nefndur?
Sá maður er gamall Framsóknarmaður, sem lagðist í flakk með Ólafi Ragnari Grímssyni og félögum í s.k. Möðruvallahreyfingu". Það var löng og dapurleg eyðimerkurganga og viðkomustaðirnir margir. Ganga þessi endaði í Alþýðubandalaginu, sem fyrir vikið klofnaði niður í svörð. Í flokksfélaginu í Reykjavík var myndaður hallelújakór um persónu Ólafs Ragnars. Sá kór varð um síðir að sérstöku flokksfélagi. Það var þessi mannskapur, sem sameinaðist Alþýðuflokknum, svo úr varð Samfylkingin. Hinn hluti Alþýðubandalagsins stofnaði Vinstri græna.
Jóhönnu Sigurðardóttur virðist ýmislegt betur gefið en yfirvegun í lýðræðislegum anda. Því miður hættir henni til að rugla saman hollráðum og refshætti. Ég fæ ekki betur séð en hún hafi leitað á viðsjárverðar náðir Einars Karls Haraldssonar. Sá maður er enn í stríði við þá gömlu félaga sína innan Alþýðubandalagsins, sem ekki vildu lúta herra hans og meistara, Ólafi Ragnari Grímssyni. Í ljósi þessa verða orð Jóhönnu Sigurðardóttur um kattasmölun skiljanleg. Það er nefnilega hvíslari á leiksviðinu.
23.3.2010 | 20:14
Skötuselslögin eru spor í framfaraátt
Ekki vantar æsinginn í blessaða mennina hjá L.Í.Ú. og Samtökum atvinnulífsins vegna samþykktar Alþingis á skötuselsfrumvarpinu s.k. Greinilegt er, að á þeim bæjunum óttast menn, að nú muni ganga eftir hið fornkveðna, að oft velti lítil þúfa þungu hlassi.
Skötuselsveiði vegur ekki þungt í íslenskum sjávarútvegi. Hitt vegur mun þyngra, að samkvæmt þessum nýju lögum, fær sjávarútvegsráðherra heimild til að selja kvóta á veiðar á umræddum fiski. Hér er því höggvið skarð í það arfavitlausa kvótakerfi, sem á ekki hvað minnstan þátt í hruni efnahagslífs þjóðarinnar.
Kvóti á fiskveiðar er nauðsynlegur til að koma í veg fyrir ofveiði. En sala einkaaðila á kvótanum er afsprengi þeirrar frjálshyggju", sem óhjákvæmilega hlaut að leiða til glötunar.
Auðvitað á ríkið eitt að úthluta veiðikvóta. Aðeins á þann hátt er hægt að tryggja jafnvægi í byggð landsins. Hitt er svo annað mál, að afturhvarf frá núverandi kvótakerfi tekur sinn tíma. Og auðvitað þarf í því sambandi að gæta sanngirni gagnvart þeim, sem keypt hafa veiðikvóta frá þeim, sem á sínum tíma fengu hann á silfurfati frjálshyggjunnar". Sklötuselslögin eru fyrsta skrefið á þeirri leið.
L.Í.Ú. og Samtökum atvinnulífsins er hollast að gera sér grein fyrir breyttum tímum. Og þessum samtökum er hollast að gera sér grein fyrir því, að þau eru hagsmunasamtök, en ekki hluti af stjórnkerfi ríkisins. Þeim er því fyrir bestu, að hlíta þjóðarvilja; ekki að reyna að stýra honum.