31.5.2012 | 22:50
Komið við í Skógum
Ekki dónalegt að ferðast um með höfðingjanum Vilhjálmi Eyjólfssyni á Hnausum í Meðallandi. Og sakar ekki að koma við hjá þeim einstaka björgunarmanni og verndara íslenskra þjóðfræða, Þórði Tómassyni í Skógum. Hér má sjá og heyra Þórð spila á langspil sem hann raunar smíðaði sjálfur. Frekari frétta að vænta úr þessari ánægjulegu ferð. (Kann því miður ekki að snúa myndinni.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2012 | 21:24
Til vinar sem dó 4. júní
Eftirfarandi ljóð er eftir kínverskan félaga minn og skáldbróður frá árum mínum í Stokkhólmi. Hann heitir Li Li og er útlagi í Svíþjóð, fyrir þær sakir, að hafa komið fram í sænska sjónvarpinu eftir blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar, 4. júní 1989. Vinur hans einn var myrtur þar af útsendurum kínverskra stjórnvalda, sem Ólafur Ragnar Grímsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, heiðra nú sérstaklega. Ljóðið er ort á sænsku en þýðingin mín á því birtist upphaflega í bók minni "Tíu tungl á lofti".
Til vinar sem dó 4. júní
Ég hefði átt að fá að lesa
nýju ljóðin þín
um þetta leyti árs
þegar fuglarnir syngja í grænu laufi,
eða kveikja þér í sígarettu
einhverja nóttina.
En það er ekki alltaf sumarið
sem vorinu fylgir-stundum óvænt hret
grimmara vetri.
Nótt
grafarþögn-vísarnir
staðnæmast á 12.
Draumar villuráfandi sem fyrr.
Ég kveiki á sígarettu.
Gömlu ljóðin þín
kasta bjarma á andlit þitt,
þú opnar munninn,
vilt segja eitthvað.
M-Á-L-L-A-U-S
vélbyssuraddir og skriðdreka.
Augngota frá blóðvellinum.
Hinsta ljóð þitt
til einhvers sem lifir af.
Vísarnir skríða yfir 12,
þeir hafa fullkomnað endurtekningu.
Til er það sem
getur endurtekið sjálft sig
s.s. dagrenning
sem enn einu sinni mun rísa
upp úr blóðugum sjóndeildarhringnum.
En ekki þú, ekki háttur þinn
að reykja.
Líkt og þeir kristnu
tendra fjórða ljósið kveiki ég
í fjórðu sígarettunni.
Ég stæli aðferð þína við að reyka
á miðnætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2012 | 16:52
Kláðaskápurinn á Sunnlenska bókakaffinu
Í dag brá ég mér á Selfoss og kom auðvitað við í Sunnlenska bókakaffinu. Þar var Bjarni Harðar. Bjarni er sem kunnugt er, fróður maður, skemmtilegur og skrafhreifinn vel. Enda þótt hann hafi nú á seinni árum, lagt út á refilstigu skáldskaparins, hafði ég ekki hugmynd um það, fyrr en í dag, að hann væri vel að sér í bókmenntafræði. Má enda segja, að sjaldan fari þau saman, fræðin þau arna og skáldskapurinn.
En þarna hef ég vanmetið minn gamla kumpán. Hann sýndi mér nefnilega stóran bókaskáp, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, ásamt Bjarna (sá síðarnefndi er vinstra meginn á myndinni). "Þetta er kláðaskápurinn", sagði Bjarni hróðugur. Ég var ekki alveg með á nótunum og krafðist skýringar. Og svarið lét ekki á sér standa.
Allir kannast við búkkláða; við honum er það ráða vænst, að klóra sér eða bera á sig kláðastillandi smyrsl. En svo er til nokkuð sem heitir sálarkláði. Hann legst á sálarinnar innstu afkima og veldur þungbæru óþoli. Við honum er aðeins eitt ráð, nefnilega það, að lesa sig frá honum.
Kláðaskápurinn á Sunnlenska bókakaffinu er fullur af bókum gegn sálarkláða og þeim er skipt niður í undirflokka rétt eins og gerist í almennri bókmenntafræði. Þarna gefur að líta bækur um dulfræði. Þær duga vel á handanheimskláða. Þá má sjá þarna skræður um AA-fræði. Þær lækna menn af þorstakláða. Kynjafræði eru í einni hillunni. Þær duga vel á skilgreiningarkláða félagsfræðinnar. Ekki má gleyma stjörnufræðibókum. Eins og kynjafræðibækurnar flokkast þær undir varnir gegn skilgreiningarkláða, þó á öðru sviði. Þær forða mönnum undan kuklkláða. Draumabætur eru þarna einnig sem og fyrirtækjafræði. Báðir þeir bókaflokkar teljast til draumórabóka. Loks ber að nefna bækur um næringu og heilsu. Ég veit ekki á hvaða kláða þær duga og það vissi Bjarni ekki heldur. En merk eru fræðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.4.2012 | 01:29
Vorið er komið
Jæja, þá er vorið komið. Í dag fór ég út á göngustíg, sem liggur að húsinu til að klippa hekk. Kemur þá ekki einn þríhjólariddarinn, með svona eitt æviár á hvert hjól. Ég bauð pilti góðan dag. Ekkert svar; hann hjólaði þögull fram hjá mér.
En sem hann hafði hjólað smá spöl, nam hann staðar og sagði við mig: Ég er ekki maður." Ég hváði.
Ertu ekki maður? Hvað ertu þá?" spurði ég þann stutta. Og svarið lét ekki á sér standa:
Ég er krakki."
En þú ert nú samt maður," leiðrétti ég.
En piltur sat fast við sinn keip: Nei, ég er krakki."
Svo reið hann sínu glæsta þríhjóli á vit vorsins og ævintýranna.
21.2.2012 | 12:52
Samkeppni fjölmiðla í tillitssemi?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær, var sagt frá bílslysi austur í Flóa og þess getið, að þá stundina væri verið að klippa tvær manneskjur út úr bifreið, er þar kom við sögu.
Nú er það svo, að margir eiga vini og ættingja, sem leið eiga um Flóann og hefur frétt þessi því valdið ýmsum kvíða og ótta. Hvað lá á, að flytja fréttina?
Kunningi minn einn sagðist oft hafa samband við fjölmiðla vegna svona fréttaflutnings og jafnan fá það svar, að hér væri um samkeppni að ræða. Sá fjölmiðill, sem fyrstur er með fréttina, er sem sagt bestur, samkvæmt þessari formúlu. En geta fjölmiðlar ekki tekið upp samkeppni í tillitssemi? Spurt er í ljósi þess, að fyrir ekki svo ýkja löngu var fréttaflutningur sem þessi af mörgum kallaður sorpblaðamennska.
4.2.2012 | 16:54
Sýning Kristínar frá Munkaþverá
Mig langar svona rétt aðeins til að vekja athygli á mjög góðri myndlistasýningu Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá, sem nú stendur yfir í Studio Stafni, Ingólfsstræti 6. Ekki seinna vænna, því að dagurinn á morgun, sunnudagur, er síðasti sýningardagurinn.
Þarna gefur að líta tauverk frá árunum 1957 til 1960. Merkilegt að sjá kraft og hógværð fallast í faðma.
Ekki meira um það; notið tækifærið og komið ykkur á staðinn, þið hafið gott af því.
3.2.2012 | 16:43
Ja.is/Samtök kvenna í atvinnurekstri, eggjaskurn án innihalds
Hefur þjóðin ekkert lært af hruninu? Þessi spurning vaknar óneitanlega, þegar Félag kvenna í atvinnurekstri sér ástæðu til að verðlauna Ja.is, skömmu eftir að það fyrirtæki rak 19 manns, þar af 18 konur úr starfi norður á Akureyri, fyrir nú utan svipuð afrek" á Ísafirði og Egilsstöðum.
Vissulega er Ja.is stjórnað af konum. En er sérstök ástæða til að verðlauna fyrirtæki, sem gerir konur atvinnulausar, eins þótt því sé stjórnað af konum. Og það af Félagi kvenna í atvinnurekstri?
Ofan á þessi tilþrif fyrirtækisins bætis svo símaskráinn 2011. Þar er nokkrum litlum myndum af ungum konum á sundbolum og í ýmsum stellingum raðað kringum stóra mynd af tölvulöguðum staðalbúk umbúðaþjóðfélagsins.
Hvað skyldi það annars vera, sem kallað er umbúðaþjóðfélag"? Jú, það er sú tegund þjóðfélags, þar sem umbúðirnar skipta öllu en innihaldið engu. Í slíku þjóðfélagi kaupir fólk eggjaskurn, sem hvítan og rauðan hafa verið blásin úr. Annað heiti á eggjaskurn í þessu samhengi er ímynd".
Með því að verðlauna Ja.is hefur Félag kvenna í atvinnurekstri sýnt, að það er sama eðlis og Ja.is; eggjaskurn án innihalds.
Lára Hanna Einarsdóttir hefur sent frá sér frábært efni um þetta fyrirbæri á Eyjunni.is. sem sjá má hér hér
21.1.2012 | 18:33
Ísland í anda Dario Fo
Sú ákvörðun alþingis, að vísa frá frávísunartillögu við þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að fella niður ákæru gegn Geir Haarde fyrir landsdómi, er mjög í anda þess, sem menn eiga að venjast á landi hér.
Stjórnsýsla Íslands er án ábyrgðar. Ef fyrirtæki verður uppvíst af því, að selja iðnaðarsalt til matvælaframleiðslu árum saman, þá skal því heimilað, að halda sölunni áfram, meðan birgðir endast. Matvælaeftirlitið sér til þess.
Komi í ljós, að læknir noti iðnaðarsílikon við brjóstaaðgerðir, skal slíkt ekki haft í hámælum. Landlæknir sér til þess.
Sé áburði með þungmálmum (kadmíum) yfir leyfðum mörkum, dreift á tún til áburðar, skal þagað þunnu hljóði. Matvælastofnun sér til þess.
Og fari forseti lýðveldisins óravegu út fyrir valdsvið sitt, skal skorað á hann að bjóða sig fram til eilífðar nóns.
Hugsanaefirlitið sér til þess.
Auðvitað er öllum ljóst, að Geir Haarde, ber einn og sér ekki ábyrgð á hruninu. Það er augljóst, að þegar atkvæði voru greidd um kærurnar til landsdóms, átti að greiða sameiginlega atkvæði um þá fjóra fyrrverandi ráðherra, sem til umfjöllunar voru. Sú varð því miður ekki raunin.
Engu að síður er ljóst, að fyrst landsdómsmálinu gegn Geir Haarde hefur verið þinglýst, er aðkomu alþingis að málinu lokið.
Um sekt eða sakleysi Geirs Haarde ætla ég ekki að fella dóm, enda er ég þess ekki umkominn. En úr því sem komið var, átti hann fullan rétt á því, að verjast fyrir landsdómi og leiða rök að sakleysi sínu. Það eru mannréttindi, en ekki hitt, að ætla að draga hann undan dómi eins og Bjarni Benediktsson vill.
Eins og sjá mátti í sjónvarpsfréttum á sínum tíma, beinlínis svamlaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á hundasundi undan landsdómi í tárum sínum á fundi Samfylkingarinnar. Björgvin G. Sigurðssyni og Árna Matthíassen skolaði í skjól í sama táraflóðinu.
Var til of mikils mælst, að karlinn í brúnni, einn manna, stæði fyrir sínu?
19.1.2012 | 10:49
Undarlegur lagaskilningur varðandi landsdóm
Í Alþingistíðindum árið 1903 kemur fram, að á þinginu þar á undan, 1902 (alþingi kom saman annað hvert á þeim tímum), var frumvarp um landsdóm til umræðu. Flutningsmaður þess var Hannes Hafstein, en eins og fram kemur í málflutningi hans, var Lárus H. Bjarnason síðar lagaprófessor og enn síðar hæstaréttardómari, helsti höfundur frumvarpsins.
Núgildandi lög um landsdóm eru að meginstofni komin úr þessu frumvarpi. Og þar sem Lárus H. Bjarnason samdi lagafrumvarpið um landsdóm að mestu, hljóta orð hans að vega þyngra en annarra, varðandi túlkun á lögum um landsdóm.
Í því sambandi er fróðlegt að lesa fylgirit með Árbók Háskóla Íslands 1914. Fylgirit þetta nefnist Um landsdóminn og er eftir Lárus H. Bjarnason. Þar segir á bls. 33 og 34:
Þegar er sameinað alþingi hefur ályktað að kæra ráðherra fyrir landsdómi og kosið sóknara, á forseti þingsins að senda sóknara ályktun þess um ákæruna, bæði frumrit ályktunarinnar og eptirrit af henni. Þar með er alþingi úr málinu og sóknari kominn þess í stað. Málið heldur úr því áfram, þó að nýjar kosningar fari fram, hvort heldur af því að kjörtími er úti eða þing rofið. Þó mundi alþingi geta fellt ákæru niður, áður en málið væri komið í dóm fyrir landsdómi, en yrði þá að gjöra það með þingsályktun í sameinuðu þingi. (Undirstrikun mín).
Ljóst er, að lögsóknin gegn Geir Haarde er þegar komin í dóm fyrir landsdómi. Alþingi getur því ekki gripið í taumana. Sókn og vörn málsins verða því að hafa sinn gang, hver svo sem skoðun manna á ákærunni er. Alþingi hlýtur því að vísa frá tillögu Bjarna Benediktssonar um að fella ákæruna niður.
Hins skyldu menn gæta, að Geir Haarde hefur ekki verið dæmdur sekur um það, sem á hann er borið og er því vitanlega saklaus að lögum, nema því aðeins að landsdómur telji hann sannan að sök. Vissulega ber hann sem forsætisráðherra hrunastjórnarinnar og fjármálaráðherra hennar áður, vissa ábyrgð á því hvernig fór. En málsbætur á hann sér ýmsar. Hvers vegna ætti að svipta manninn réttinum á að fá um það úrskurð landsdóms, hvort vegur þyngra?
13.1.2012 | 22:18
Óvirkt opinbert eftirlit
Matvælastofnun, landlæknisembættið eða hvað þeir nú heita, allir þessir opinberu eftirlitsaðilar á sviði heilbrigðismála, hafa vakið nokkra undrun landsmanna undanfarið. Matvælastofnun er orðin uppvís af því, að heimila dreifingu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar á iðnaðarsalti til matvælaframleiðslu, þrátt fyrir að slíkt sé bannað. Þetta mun hafa gengið þannig fyrir sig í 13 ár.
"Skítt með það", segir mannskapurinn á Matvælastofnun og setur gæðastimpil á iðnaðarsaltið til manneldis.
Þá hefur Matvælastofnun lagt blessun sína á sölu Skeljungs á áburði, með kadmíuminnihaldi, sem er rúmlega tvöfalt á við það, sem leyfilegt er. Þessum herlegheitum dreifðu bændur á tún, óupplýstir um innihaldið.
Silíkonhneykslið sem nýlega kom upp er kapituli út af fyrir sig. Auðvitað eru margar hliðar á því máli. En eftirlitsleysið ætti að vekja menn til umhugsunar.