Látum ekki göbbelískan áróður blekkja okkur

Hvers vegna er fjárhagsstaða okkar Íslendinga eins og raun ber vitni?  Er það vegna þess að Bretar og Hollendingar séu heldur svona illa þenkjandi fólk, sem eigi sér þann draum æðstan, að koma okkur fjandanst til?  Hæpið.

Horfum nokkur ár aftur í tímann.  Hverjir gáfu ríkisbankana ábyrgðarlausum vinum sínu?  Hverjir sáu til þess, að allt eftirlit með bönkunum var í skötulíki, eftir að þeir voru komnir í hendur fjárglæframanna?  Svarið er, Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn undir forystu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.

Og hverjir lugu fjármálayfirvöld á Bretlandi og í Hollandi full, og töldu þeim trú um, að landsbankinn stæði föstum fótum og því væri allt í stakasta lagi með Icesave?  Það voru Sjálfstæðismenn og Samfylkingarmenn undir forystu Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Og takið nú eftir;  allrir þessir stjórnmálaflokkar og forystumenn þeirra höfðu á bak við sig lýðræðislega kjörinn meirihluta á Alþingi.  Sannleikurinn er nefnilega sá, jafn bitur og hann er, að meirihluti íslensku þjóðarinnar dýrkaði útrásarvíkingana.  Þetta voru „duglegu strákarnir okkar".  Meira að segja lýðræðislega kjörinn forseti lýðveldisins, gekk í broddi fylkingar og lofsöng þess menn, jafnt heima sem heiman.  Hvernig getur það hvarflað að nokkrum manni, að hann hafi vísað Icesave-samningunum í þjóðaratkvæði til annarrs, en að bjarga eigin skinni?

Nú eiga sér stað viðræður við Breta og Hollendinga, sem ef til vill geta skilað okkur betri samningum en þeim, sem kosið er um, ef til vill ekki.  Ég veit það ekki.   Og Bjarni Ben. og Sigmundur Davíð vita það ekki heldur.  En eitt vitum við; það semur enginn við þjóð, sem stendur ekki við orð sín!

Sitjum því heima, skilum auðu eða segjum já í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun.  Látum ekki göbbelískan áróður blekkja okkur, það er of mikið í húfi.  Það er ekki hlutverk þjóðarinnar, að skera óábyrga stjórnmálamenn niður úr snörunni, sem þeir hafa sjálfir komið sér í.


Þjóðaratkvæðagreiðsla um dansinn kringum gullkálfinn

Það hendir okkur flest á lífsleiðinni, að rata af réttri leið.  Stundum römbum við ein á öngstræti og söknum um sinn samfylgdar við annað fólk.  En fyrir kemur, að við verðum mörg samferða af réttri leið, eins og villuráfandi sauðir.  Slík hafa örlög þjóðarinnar verið undanfarin ár.

En örlög eru ekki endilega ósjálfráð, því hver er sinnar gæfu smiður.  Og víst er um það, að sú gryfja, sem við erum nú sokkin í, var ekki af öðrum grafin en okkur sjálfum.  Vissulega stóð gullkálfurinn á sínum stað sem jafnan, en það bað okkur engin að stíga dansinn í kringum hann.  Það ákváðum við sjálf.

Og nú eru þeir þagnaðir, fiðlunnar strengir.  Eigum við þá, að halda áfram dansinum, þótt duni ei lengur hljómar í höll?  Eigum við að láta þá menn, sem fóru fyrir dansinum kringum gullkálfinn, véla okkur til sjálfsblekkingar eða eigum við að vera menn til, að viðurkenna villu okkar? 

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn verður ekki tekist á um peninga, heldur heiður þjóðarinnar.  Ef við höfnum ábyrgð okkar, glötum við heiðri okkar.  Til hvers var þá barist í þúsund ár?

 

 


Undarleg fyrirsögn á forsíðu Moggans

Nokkuð þótti mér hún undarleg, fyrirsögnin á forsíðu Moggans í dag, þar sem stóð „Mannfall í ofsaveðri í vesturhluta Evrópu".  Ég er vanur því, að orðið „mannfall" tengist styrjöldum og orrustum en ekki veðurfari.  Þar tel ég réttara að nota orð eins og „mannskaðaveður".  Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt talað um „mannfallsveður".

Ég get þessa hér, vegna þess, að mér þykir gæta nokkurrar málfarslegrar fátæktar í þessari fyrirsögn.  Því miður hef ég víðar orðið hennar var, einmitt í þessu samhengi, í fjölmiðlum undanfarið.

Það er gott, þegar blaðamenn skrifa ekki aðeins skiljanlegan texta, heldur nýta sér einnig blæbrigði tungunnar.  Þannig verða blöðin ekki aðeins upplýsandi, heldur og sæmilega læsu fólki til nokkurrar upplyftingar.


Arne Dørumgaard - meistaraþýðandi úr austurlandamálum

Heimurinn hefur heldur svona skroppið saman frá dögum Alexanders mikla og er ósköp lítið um það að segja.  Á síðari árum hefur áhugi vestrænna ungmenna á Austurlöndum aukist til muna og er það vafalaust gagnkvæmt.  Nálægð og fjarlægð renna saman.

Eitt af því sem ungt fólk hér á Vesturlöndum hefur sótt í, austan úr heimi, er skáldskapur.  Nú er það svo, að tungumál setja þar nokkrar skorður.  Því langar mig til að benda þeim, sem áhuga kynnu að hafa á, að í Þjóðarbókhlöðunni er að finna þrjár bækur með þýðingum Norðmannsins Arne Dørumgaard á fornum japönskum ljóðum.  Þess utan þýddi Dørumgaard kínversk ljóð og ljóð frá Kóreu.  Hann ritaði og ítarlega formála með þýðingum sínum, sem ljúka upp heimi austurlanda fyrir lesendum. 


Enn ein frestun á skýrslubirtingu rannsóknarnefndar Alþingis

Í skrifum mínum um rannsóknarnefnd Alþingis á hruninu, hef ég gerst svo hátíðlegur, að kalla hana „Sannleiksnefndina".  Er þar vísað til þeirrar sáttargjörðar sem Nelson Mandela og félagar, gengust fyrir í Suður-Afríku til að ná sáttum milli ólíkra kynþátta og forða landinu þannig frá borgarastyrjöld.

Vissulega hliðraði ég sannleikanu þar nokkuð til, því í sáttargjörðinni í Suður-Afríku var gert ráð fyrir því, að brotlegir menn fengu uppgjöf saka gegn því, að þeir gengust heiðarlega við afbrotum sínum.  Sú hugmynd lá ekki að baki skipunar rannsóknarnefndar Alþingis, þótt verkum hennar væri ætlað að lægja öldurnar í samfélaginu, með því, að sannleikurinn væri leiddur í ljós.  Þetta gerið ég í ljósi þess, að grunnhugmyndin var svipuð, hér og í Suður-Afríku, þótt aðferðafræðin væri ekki sú sama.

Nú hefur það gerst, að nefndin hefur enn eina ferðina frestað að birta  gögn sín, að þessu sinni í tvær til þrjár vikur.  Það þýðir, að niðurstöður hennar verða ekki gerðar lýðum ljósar, fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave, þann 6. mars n.k.  Það eitt út af fyrir sig gerir þessa atkvæðagreiðslu marklausa.  Hvernig á þjóðin að kjósa um Icesave, án þess að hafa fullnægjandi upplýsingar um, hverngi það klúður varð til, hafi það þá verið klúður, en ekki skipulögð glæpastarfsemi?

Ástæðan, sem nefndin gefur nú fyrir frestun á birtingu ganga sinna, er sú, að hún þurfi að fara yfir varnarskjöl 12 einstaklinga, sem við sögu koma í hruninu.  Hvers vegna þurfti að gefa þeim tækifæri til varnar áður en gögnin voru birt?  Geta þeir ekki varið sig eftir birtinguna?

Ég hef mínar skoðanir á sekt eða sakleysi þeirra, sem þarna koma við sögu.  Vera má, að sumir þeirra verði dregnir fyrir rétt.  Þar gefst þeim þá tækifæri til að verja sig og vissulega teljast þeir saklausir uns sekt þeirra er sönnuð fyrir dómi. 

Beri rannsóknarnefnd Alþingis þetta fólk röngum sökum, getur það vísað málinu til dómstóla.  En endalaus frestun á birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis dregur úr trausti almennings á nefndinni og því þingi, sem kaus hana til starfa.  Því miður er nú svo komið, að það er mergurinn málsins.

 


Umfjöllun Kiljufélaga um Geir Kristjánsson

Það var vel við hæfi, að Egill Helgason og félagar skyldu í sjónvarpsþætti sínum, „Kiljunni"  í gærkvöldi, fjalla um bókina „Sögur, leikrit ljóð".  Að vísu er sú umfjöllun nokkuð seint á ferðinni, því bókin kom út árið 2001.  En látum það vera.

Þarna er um að ræða heildarsafn, (þó ekki að fullu), Geirs Kristjánssonar.  Ef marka má orð Egils og félaga, fékkst hann einungis við ljóðaþýðingar.  En það var nú öðru nær.  Í bókinni, sem Egill veifaði fimlega í þættinum, kennir ýmissa grasa.  Geir var nefnilega einn af okkar bestu smásagnahöfunum, þótt aðeins sendi hann frá sér eitt smásagnasafn, „Stofnunina".  Sú bók er í þessu heildarsafni, sem og ýmsar þýðingar hans á óbundnu máli.  Þá var hann og merkur leikritahöfundur.  Þannig hefur útvarpsleikrit hans, „Snjómokstur", verið flutt í útvarpsstöðvum víða um Evrópu.  Þetta leikrit, ásamt reyndar einu öðru, er í umræddri bók.

Það væri óskandi, að Egill Helgason og félagar beittu sinni snotru þekkingu á bókmenntum að dulítið meiri nákvæmni í umfjöllun sinni um rithöfunda og verk þeirra, hvort heldur þeir eru lífs eða liðnir.

 


Ja, það er nefnilega það

Nokkuð merkileg frétt.  Menntamálaráðherra semur um það við Arionbanka, (Búnaðarbanka, Kaupþingbanka) að fá fyrir hönd þjóðarinnar, forkaupsrétt á listaverkum, sem voru í eigu hennar áður en bankarnir voru einkavæddir og hirtu í leiðinni listaverk í þjóðareigu, sem láðist að telja til verðmæta í einkavæðingaræðinu.

Í tilefni dagnsins „gaf" Arionbanki þjóðinni tvö listaverk, sem í raun eru í eigu hennar sjálfrar.

Jamm.


Um ævisögu Agnars Þórðarsonar

Er loks að lesa ævisögu Agnars Þórðarsonar rithöfundar.  Fróðlegt verk og þroskandi lesning.  Var að ljúka við fyrra bindið, „Í vagni tímans", sm kom út árið 1996.

Eiginlega eru þetta ekki aðeins endurminningar, heldur einnig hugleiðingar.  Þannig eiga góðar endurminningar raunar að vera.  Lítið gaman af skýrslum.

Agnar kemur víða við, en að gefnu tilefni skal hér gripið niður í kafla, sem nefnist „Silfurtúnglið og Brecht".  Þar segir m.a.

„Eins og jafnan er alltaf til nóg af fólki sem fagnar nýjum kennisetningum til að sýna að það sé með á nótunum og viti hvað klukkan slær, þannig er alltaf til hópur af aftaníoss-fólki tilbúið að hylla berrassaðan kónginn.

Tímarnir hafa snúist öndverðir gegn klassíkinni, sennilega af tómri minnimáttarkennd og getuleysi.  Flestar listastefnur eiga sér skamma lífdaga, tilraunir til svokallaðra formbyltinga í bókmenntum hafa sjaldnast skilið mikið eftir sig en lognast út af án beinna afkomenda í listinni."

Eftir að hafa lesið þennan kafla fór ég á myndlistasýningu.  Enginn munur á því sem gerist í myndlistinni og bókmenntunum.  Þarna kenndi ýmissa grasa.  Þetta átti að vera yfirlitssýning yfir íslenska myndlist síðustu öldina eða svo.  Nú jæja.

Á einu salargólfinu lágu ryðgaðir rörbútar.  Listfræðingnum, sem fylgdi mér um sýninguna þótti mikið til koma.  Í mínum augum eru ryðguð rör bara ryðguð rör, burt séð frá hugmyndum þess, sem skrúfar þau saman.  En ég hef heldur aldrei skilið listina í andlistinni, ekki frekar en ég treysti mér, til að segja nokkuð um andlit þess, sem ég hef aðeins séð hnakkann á.

 


Enn ein frestun á skýrslu sannleiksnefndar

Sannleiksnefndin, sem sumir kalla svo, hefur nú framlengt tíu daga andmælarétt þeirra, sem nefndir eru í skýrslu hennar um fimm daga.  Þetta þýðir enn frekar frestun á birtingu skýrslunnar.  Þótti þó ýmsum nóg um fyrir.

Eins og menn vita, er nefndinni aðeins ætlað að varpa ljósi á hrunið haustið 2008 og aðdraganda þess.  Niðurstaða hennar verður því ekki dómsúrskurður.  Telji menn ómaklega að sér vegið í skýrslunni, geta þeir væntanlega leitað réttar sín fyrir dómstólum.  Það verður því að teljast orka tvímælis, að um andmælarétt sé að ræða fyrir birtingu skýrslunnar. 

Hvað ætlar nefndin að gera með andmælin?  Hyggst hún ef til vill  breyta skýrslunni með tilliti til andmælanna, áður en hún verður birt almenningi? 

Sæmileg sátt virðist hafa ríkt um störf þessarar nefndar.  Frekari frestun á skýrslu hennar er einungis til þess fallin, að draga úr þeirri sátt og um leið trúverðuleika nefndarinnar.  Það væri skaði, jafn lítið og eftir er í þessu landi, sem hægt er að treysta á, nema þá staðreynd, að daginn er tekið að lengja.  Og veitir ekki af í öllu svartnættinu.


Ótímabærar aðildarviðræður að Evrópusambandinu

Ég hygg að fleirum sé farið líkt og mér, varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.  Ég vil skoða kosti slíkrar aðildar og galla, helst í friði fyrir stjórnmálamönnum, því þeim treysti ég ekki.  En umfram allt vil ég, að þjóðin standi í lappirnar, þegar aðildarumræður hefjast.  Það gerir hún ekki nú.  Þvert á móti, íslenska þjóðin liggur eins og hundur flatur fyrir hvers manns fótum, siðferðislega og fjárhagslega á kúpunni og veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Hvers vegna vill Evrópusambandið hefja aðildarviðræður við okkur einmitt nú?  Í Brussel vita menn sem er, að aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi vill inngöngu þjóðarinnar í Evrópusambandið, þ.e.a.s. Samfylkingin.  Hún er nú í ríkisstjórn, en óvíst hve lengi það verður. 

Það skiptir miklu fyrir Evrópusambandið, að geta samið um aðild Íslands að sambandinu, meðan eini flokkurinn, sem vill inn í sambandið, fer með forræði forsætis- og utanríkisráðyneytisins á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess, að Samfylkingin er bundin í báða skó varðandi Evrópumálin.

Íslendingar verða að ná áttum, áður en til aðildarviðræðna kemur.  Vinstri grænir létu undan kröfu Samfylkingarinnar og samþykktu, að gengið yrði til aðildarviðræðna, enda þótt það gengi þvert á stefnu þeirra.  Þar létu þeir undan hótunum Samfylkingarinnar um stjórnarslit.  Nú eiga þeir að gjalda líku líkt og krefjast þess, að frá aðildarviðræðum verði horfið meðan kreppan varir, að öðrum kosti leggi ríkisstjórnin upp laupana.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband