14.4.2010 | 00:03
Hver var sirkusstjórinn?
"Ábyrgðin bankanna", segir í heimstyrjardarfyrirsögn á forsíðu Moggans í dag. Og víst er um það, ábyrgð þeirra er mikil. En öllum mátti ljóst vera, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna færði vinum sínum bankana á silfurfati, að þar var sirkusstjóri að hleypa villidýrum út úr búrum þeirra.
6.4.2010 | 23:49
Merkilegir tímar í vitstola þjóðfélagi
Þúsund manns stóðu í biðröðum hjá hjálparstofnunum í Reykjavík fyrir páska. Formaður velferðarsviðs borgarinnar segir, að ekki sé hægt að auka aðstoð borgarinnar við fátækt fólk. Borgarstjórn ákveður að eyða 230.000.000 króna í golfvöll.
Já, við lifum merkilega tíma - í vitstola þjóðfélagi.
1.4.2010 | 21:32
Þökk fyrir Gunnar Þórðarson
Rétt í þessu var mannskapurinn að klappa út síðustu tónana í tónleikum Gunnars Þórðarsonar í Ríkissjónvarpinu. Ég get nú ekki talist sérlega músíkalskur maður. En þakka þér fyrir Gunnar, það var mennska í þessum lögum þínum.
29.3.2010 | 16:29
Hvíslarinn og kattasmalinn
Hundar hlýða, kettir láta ekki ráðskast með sig. Þetta vita allir, sem til þessara dýra þekkja. Skyldi það vera í ljósi þessa, að Jóhanna Sigurðardóttir kvartar undan því, að sem forsætisráðherra sé hún í hlutverki kattarsmala"?
Mogginn segir frá þessum raunum frúarinnar í dag og bætir raunar um betur. Hann birtir nefnilega mynd af þeim Jóhönnu og Einari Karli Haraldssyni, en nærvera hans virðist þessa dagana vera forsætisráðherra mjög til yndisauka.
Hugmyndafræði er hinn almenni grundvöllur stjórnmála, hvar í heiminum sem er. Á Vesturlöndum er lýðræðið aftur á móti ófrávíkjanlegur grundvöllur þeirra. Þar er ætlast til þess, að stjórnmál séu rædd á opnum og lýðræðislegum vettvangi. Allt annað er aukaatriði eða útfærrsluatriði. Hitt er svo annað mál, að það sama gildir um stjórnmál og leikhús; aukaatriði" og aukahlutverk. Leikrit gengur ekki án aukahlutverka. Og vissulega eru þau mörg, aukaatriðin", sem huga þarf að í stjórnmálum.
Eitt þeirra er gagnsæi. Mikilvægi þess verður seint ofmetið í lýðræðislegu samfélagi. Í raun getur lýðræði ekki þrifist án gagnsæis og því í raun rangt, að tala um það sem aukaatriði", eins þótt innan gæsalappa sé. Þessu virðist Jóhanna Sigurðardóttur stundum ekki átta sig á. Skyldi þó aldrei vera að, af því stafi dálæti hennar á pukurmeistara íslenskra vinstri stjórnmála, sem fyrr var nefndur?
Sá maður er gamall Framsóknarmaður, sem lagðist í flakk með Ólafi Ragnari Grímssyni og félögum í s.k. Möðruvallahreyfingu". Það var löng og dapurleg eyðimerkurganga og viðkomustaðirnir margir. Ganga þessi endaði í Alþýðubandalaginu, sem fyrir vikið klofnaði niður í svörð. Í flokksfélaginu í Reykjavík var myndaður hallelújakór um persónu Ólafs Ragnars. Sá kór varð um síðir að sérstöku flokksfélagi. Það var þessi mannskapur, sem sameinaðist Alþýðuflokknum, svo úr varð Samfylkingin. Hinn hluti Alþýðubandalagsins stofnaði Vinstri græna.
Jóhönnu Sigurðardóttur virðist ýmislegt betur gefið en yfirvegun í lýðræðislegum anda. Því miður hættir henni til að rugla saman hollráðum og refshætti. Ég fæ ekki betur séð en hún hafi leitað á viðsjárverðar náðir Einars Karls Haraldssonar. Sá maður er enn í stríði við þá gömlu félaga sína innan Alþýðubandalagsins, sem ekki vildu lúta herra hans og meistara, Ólafi Ragnari Grímssyni. Í ljósi þessa verða orð Jóhönnu Sigurðardóttur um kattasmölun skiljanleg. Það er nefnilega hvíslari á leiksviðinu.
23.3.2010 | 20:14
Skötuselslögin eru spor í framfaraátt
Ekki vantar æsinginn í blessaða mennina hjá L.Í.Ú. og Samtökum atvinnulífsins vegna samþykktar Alþingis á skötuselsfrumvarpinu s.k. Greinilegt er, að á þeim bæjunum óttast menn, að nú muni ganga eftir hið fornkveðna, að oft velti lítil þúfa þungu hlassi.
Skötuselsveiði vegur ekki þungt í íslenskum sjávarútvegi. Hitt vegur mun þyngra, að samkvæmt þessum nýju lögum, fær sjávarútvegsráðherra heimild til að selja kvóta á veiðar á umræddum fiski. Hér er því höggvið skarð í það arfavitlausa kvótakerfi, sem á ekki hvað minnstan þátt í hruni efnahagslífs þjóðarinnar.
Kvóti á fiskveiðar er nauðsynlegur til að koma í veg fyrir ofveiði. En sala einkaaðila á kvótanum er afsprengi þeirrar frjálshyggju", sem óhjákvæmilega hlaut að leiða til glötunar.
Auðvitað á ríkið eitt að úthluta veiðikvóta. Aðeins á þann hátt er hægt að tryggja jafnvægi í byggð landsins. Hitt er svo annað mál, að afturhvarf frá núverandi kvótakerfi tekur sinn tíma. Og auðvitað þarf í því sambandi að gæta sanngirni gagnvart þeim, sem keypt hafa veiðikvóta frá þeim, sem á sínum tíma fengu hann á silfurfati frjálshyggjunnar". Sklötuselslögin eru fyrsta skrefið á þeirri leið.
L.Í.Ú. og Samtökum atvinnulífsins er hollast að gera sér grein fyrir breyttum tímum. Og þessum samtökum er hollast að gera sér grein fyrir því, að þau eru hagsmunasamtök, en ekki hluti af stjórnkerfi ríkisins. Þeim er því fyrir bestu, að hlíta þjóðarvilja; ekki að reyna að stýra honum.
20.3.2010 | 00:04
Fortíðarhyggja í Keflavík
Kalda stríðið var, í bókstaflegri merkingu sálsýkisleg framlenging síðari heimstyrjaldar. Rólyndustu menn fylltust ofsóknarbrjálsemi, þeirrar gerðar, sem í eðlilegu umhverfi þekkist tæpast utan geðveikrarhæla. Allir töldu alla sitja á svikráðum við sig. Traust, ekki aðeins milli þjóða og þjóðfélagshópa, heldur einnig milli einstaklinga, gufaði upp. Til er fjöldi dæma, m.a. frá Íslandi, um fjölskyldur og vináttutengsl, sem beinlínis sundruðust vegna kalda stríðsins. Enginn var maður með mönnum, nema hann ætti sér fjandmann í þessum hjaðningavígum.
Ein afleiðing þessa sjúklega ástands voru herstöðvar, sem dritað var niður út um allar koppagrundir. Þær veittu sumum falksa öryggiskennd, öðrum atvinnu, fé og frama.
Ein stöðin reis á Miðsnesheiði, steinsnar frá Keflavík. Á örskömmum tíma breytti hún fámennu fiskimannaþorpi í blómlegan bæ í efnalegu tilliti. Kaninn veitti vinnu og borgaði vel. Þarna sáu margir veraldlega drauma sína rætast.
En draumum lýkur, þegar augum er lokið upp. Og þar kom, að kalda stríðið rann út í sandinn, eins og hver annar misskilningur, sem tæpast þarf að leiðrétta. Þetta gerist út um allan heim. Ein afleiðing þessa varð sú, að herstöðvum var lokað. Af sjálfu leiddi, að bæir, sem lifað höfðu á hernaðarumsvifum báru ekki sitt barr og lognuðust jafnvel út af. Ef íbúarnir vildu halda þeim lifandi, urðu þeir að finna sér nýtt hlutskipti.
Keflavík er einn slíkra bæja. Hersetan á Miðnesheiði var einfaldlega forsenda fjárhagslegs uppgangs þessa bæjar. Með lokum kalda stríðsins brugðust þessar forsendur. Leiknum var einfaldlega lokið. En í stað þess, að reyna að byggja þetta bæjarfélag upp á nýjum forsendum, var reynt að halda hermanginu áfram. Fræg að endemum er tilraun Davíðs Oddssonar og síðar Geirs Haarde, til að neyða Bandaríkjamenn til að hafa áfram fjórar afgamlar orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli. Nóg um það.
Enn virðist kalda stríðið blómstra í hugum sumra Keflvíkinga. Nú tala menn um að fá á Keflavíkurflugvöll hollenskt fyrirtæki, sem hyggst leigja út orrustuþotur til heræfinga.
Keflvíkingar; orrustunni um Stalíngrad er lokið, innrásin í Normandí er yfirstaðin, Berlínarmúrinn er fallinn og Kaninn er farinn. Ef þið viljið, að bær ykkar lifi, verðið þið að stuðla að því á forsendum líðandi stundar, ekki fortíðarinnar. Gangi ykkur vel, bærinn ykkar á það skilið.
15.3.2010 | 17:23
Er þetta jöfnuður?
Ef marka má forsíðufrétt Moggans í dag, leiða hugmyndir félagsmálaráðherra um afskriftir á bílalánum til þess, að þeir sem keyptu lúxusjeppa og aðra dýra bíla á lánum, fá jafnvel milljóna afskriftir, meðan hinir, sem sýndu fyrirhyggju og keyptu ódýra" bíla, fá afskriftir, sem tæpast skipta máli.
Í hverju skyldi jafnaðarmennska Árna Páls félagsmálaráðherra vera fólgin?
14.3.2010 | 14:54
Verða lýðræði og lýðskrum ekki aðskilin?
Það getur verið þarflegt, að velta því fyrir sér, hvort lýðræðið sé endilega reist á siðferðilegum grunni, eins og til var ætlast í upphafi þess stjórnarforms. Sé ekki svo, hlýtur sú spurning að vakna, hvort það þjóni í raun þeim tilgangi, að vera birtingarmynd á siðferðislegum þörfum og óskum lýðsins. Ef svarið við þeirri spurningu er neikvætt, hlýtur lýðinn að hafa borið af leið.
Tökum dæmi. Undanfarin ár hafa ýmsir Sunnlendingar beitt sér mjög fyrir breikkun Suðurlandsvegar. Telja þeir, að með því muni umferðaröryggi aukast. Auðvitað er það rétt, þótt menn verði vitanlega að sýna aðgát í akstri, hversu breiðan veg, sem þeir aka um.
En nú kemur athyglisverð þversögn. Einn þeirra, sem beitt hefur sér mjög þessu máli til framdráttar, var fyrir nokkrum árum handtekin vegna ölvunaraksturs, þar sem hann ekki aðeins keyrði niður ljósastaur, sem óneitanlega bendir til ofsaaksturs, heldur gerði einnig tilraun til að villa um fyrir lögreglunni, með því að reyna að telja henni trú um, að farþegi í bifreiðinni hefði setið undir stýri. Þetta gerði hann eingöngu til að bjarga eigin skinni, m.ö.o, til að koma sér undan ábyrgð eigin misgjörða.
Nú hefur þessi sami maður verið leiddur til öndvegis á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Selfossi í komandi bæjarstjórnar-kosningum. Þess skal getið, að hann var einn um að sækjast eftir fyrsta sæti framboðslistans, sem út af fyrir sig hlýtur að nokkuð furðuleg birtingarmynd lýðræðis.
Vissulega vann hann lýðræðislegan sigur í prófkjöri. Þó má deila um prófkjör. Það sama gildir um þá birtingamynd lýðræðis, sem við þekkjum.
Maðurinn, sem hafnaði í fyrsta sæti á framboðslista síns flokks á Selfossi er í sjálfu sér aukaatriði. Hins vegar hljóta menn að velta fyrir sér, siðferðislegri ábyrgð þeirra, sem kusu hann, sem og því, hvort óafmáanlegt samhengi sé milli lýðræðis og lýðskrums. Ef svo er, þjónar lýðræði ekki tilgangi sínum, a.m.k. ekki í þeirri mynd, sem við þekkjum það.
Vonandi finnum við viturlegri lausn á þessum vanda, en þá, að lýðurinn afsali sér öllum völdum í hendur fárra manna. En þá verða menn að gera sér ljóst, að lýðræði er ekki aðeins einn þáttur mannréttinda, í því felst einni ábyrgð og ígrunduð ákvarðanataka, þar sem hlutirnir eru settir í rökrétt samhengi.
13.3.2010 | 00:36
Bætur til Breiðavíkurdrengja og fleiri fórnarlamba
Loksins kom að því að eitthvað er gert sem þjóðin þarf ekki að skammast sín fyrir. Hér á ég við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að mælast til þess við Alþingi, að Breiðavíkurdrengirnir og önnur fórnarlömb grimmdarverka gegn börnum á opinberum "uppeldisstofnunum" fái bætur. Að vísu verður aldrei bætt fyrir pyntingar með fé; gull er eitt en sál annað. En hér er þó um að ræða viðurkenningu íslenska ríkisins á því, að í skjóli þess hafi verið framin grimmdarverk á varnarlausum börnum. Sú viðurkenning verður vonandi til þess, að menn haldi framvegis vöku sinni, þannig að slíkur atburðir endurtaki sig ekki.
Það er mikilvægt, að gert er ráð fyrir því, að bæturnar nái ekki aðeins til fórnarlambanna sjálfra, heldur einnig til barna þeirra, sem harðindum máttu sæta og nú er látnir. Margir þeirra féllu fyrir eigin hendi. Vafalaust má í mörgum tilfellum rekja það, til þeirrar sáru rauna, sem þeir máttu þola í Breiðavík og á öðrum stofnunum.
Hafi þeir þakkir, sem að þessari lausn hafa unnið.
9.3.2010 | 22:58
Er Ísland sokkið í mútustarfsemi?
Leyniskýrslan, sem Ríkissjónvarpið birti í kvöld um orkugreiðslur Norðuráls á Íslandi, sýna, að þetta fyrirtæki og um leið væntanlega önnur álver á Íslandi, greiða um fjórðungi lægra raforkuverð en gengur og gerist í heiminum. Auk þess kemur fram í skýrslunni, að verðlækkun á áli er nær öll, ef ekki öll á kostnað orkusalans, þ.e.a.s. íslensku þjóðarinnar.
Í sjálfu sér eru þetta ekki stórvægileg tíðindi, heldur staðfesting á því, sem marga hefur lengi grunað. Eigi að síður vekur þessi skýrsla eftirfarandi spurningu: Hvað hefur íslenskum stjórnmálamönnum gengið til, með því að gera slíka samninga?
Ef við reiknum ekki með því, að stjórnmálamenn á landi hér séu til muna heimskari en gengur og gerist, getur svarið ekki verið nema eitt; íslenskir ráðherrar, alþingismenn, embættismenn og sveitastjórnarmenn, sem að þessum málum koma, hafa í stórum stíl þegið mútur!
Það er kominn tími til, að í spillingarmálum verði upp tekinn á Íslandi hinn forni germanski réttur, sem byggist á því, að hver maður sé sekur, geti hann ekki sannað sakleysi sitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)