30.4.2010 | 21:30
Aðför að réttarfari og lýðræði
Hvað er vald, hvernig ber að beita því og í hvaða tilgangi? Svörin við þessum spurningum eru grundvöllur réttarfarsins og um leið réttarríkisins. Atburðirnir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun leiða hugann að þessum spurningum.
Í lýðræðisþjóðfélögum er vald varðstaða um samkomulag þegnanna um varðveislu grunngilda þjóðfélagsins. Því ber að beita samkvæmt almennum reglum og án mismununar. Tilgangur þessarar valdbeitingar á að vera sá, að tryggja frið, réttlæti og jafnræði þegnanna gagnvart lögum.
Í vissum tilfellum afhenda þegnarnir ákveðnum stofnunum umboð, til að framfylgja valdinu. Þess skal þá jafnan gætt, að þær stofnanir, t.d. Alþingi og dómstólar, framfylgi þessu valdi í heyranda hljóði, nema í algjörum undantekningar tilfellum, sem ekki koma til álita hér.
Þegar dómari og/eða lögreglan telja sig þess umkomin, að ákveða, hverjir sitji eða standi í réttarsal og hverjir ekki, til að vera vitni að réttarhöldum og framfylgja þeirri ákvörðun með því að rýma réttarsal, er ekki verið að ráðast á þá, sem vikið er úr salnum, heldur réttarfarskerfið og lýðræðið sem slíkt. Í því felst alvara þeirra atburða, sem urðu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
28.4.2010 | 23:54
Spillingaröflin snúast til varnar
Ég verð að játa, að ég hef enn ekki lesið hina einu sönnu Skýrslu. Þó hef ég gluggað í henni. Meðal þess, sem ljóst má vera, er að bankamafían og aðrir fjárplógsmenn mútuðu bæði stjórnmálaflokkum og einstökum stjórnmálamönnum til vinstri og hægri. Fram til ársins 2007 voru þessar mútur að vísu löglegar, en þær voru fullkomlega siðlausar, hvernig sem á málin er litið.
Nú hafa mútuþegarnir og málpípur þeirra snúist til varnar og bera fyrir sig formúlu, sem í stuttu máli gengur út á eftirfarandi: Víst er það ekki nógu gott, samkvæmt siðferðishugmyndum ársins 2010, að þiggja milljónir í styrki" frá vafasömum fyrirtækjum. En fyrir hrunið 2008 ríkti allt annað siðferði. Þá var allt í lagi að gera ýmislegt, sem ekki gengur núna.
Svona tala engir, nema tækifærissinnar, sem halda að siðferði sé skiptimynt á markaðstorgi veraldlegra hagsmuna. Siðferðishugmyndir Vesturlanda urðu ekki til í kjölfar Hrunsins. Þær eiga sér djúpar rætur í sögunni, rætur sem rekja má aftur til Forn-Grikkja, Gyðinga og upphafs kristinsdómsins.
Á frjálshyggjutímanum var þetta siðferði látið víkja fyrir hömlulausri græðgi. Það er óafsaknalegt og því verða mútuþegarnir á þingi og hvar annars staðar sem þá er að finna í stjórnmálum og stjórnsýslu þjóðarinnar að víkja. Að öðrum kosti mun siðleysið festa sig í sessi.
Ég vænti þess, að allir vilji, að friður ríki í landinu. Til þess að svo megi verða, verðum við að hafna hinu afstæða siðgæði" og lúta hinu algilda siðgæði". Með því á ég einfaldlega við, að við verðum að finna okkur sameiginlegan siðferðisgrundvöll. Án hans er lýðræðið markleysa.
27.4.2010 | 14:18
Mótmæli við heimili stjórnmálamanna
Fyrir nokkrum árum hefði ég talið það jaðra við ósvífni, að veitast að stjórnmálamönnum, með mótmælaaðgerðum við heimili þeirra. Hygg ég, að svo sé um fleiri. En nú er öldin önnur. Mér fannst að vísu ástæðulaust, að efna til mótmælaaðgerða við heimili dómsmálaráðherra, vegna framkvæmda á lögum, eins og gert var í vetur.
Allt öðru máli gegnir um stjórnmálamenn, sem þegið hafa milljónir í styrki" frá vægast sagt vafasömum aðilum í viðskiptalífinu. Engum heilvita manni dettur annað í hug, en hér sé um mútur að ræða. En stjórnmálamenn telja sig svo yfir almenning hafna, að þeir þurfi ekki að svara til saka. Í mesta lagi lufsast þeir til að taka sér frí frá þingstörfum", meðan mál þeirra eru í rannsókn. Kannast einhver við, að innbrotsþjófar sleppi við varðhald, gegn því að taka sér frí frá störfum", meðan á rannsókn mála þeirra stendur?
Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn rofnað svo gjörsamlega úr tengslum við þjóðina, að jafnvel þeir sjálfir eru farnir að skilgreina sig sem stjórnmálastétt" (lesist aðall). Getur slíkt fólk vænst griða gegn mótmælum lýðræðissinna, hvar og hvenær sem er, í samfélagi sem það sjálft ofurseldi óprúttnum braskaralýð, eða myndaði ríkisstjórn, með þeim, sem það höfðu gert?
25.4.2010 | 18:49
„Konur misnota líka börn"
Í Fréttablaðinu í gær, laugardag, er viðtal við Sigrúnu Sigurðardóttur, doktorsnema í lýðheilsufræðum. Fjallar hún þar um rannsóknir sínar á kynferðislegri misnotkun kvenna á börnum, einkum drengjum.
Ég hvet fólk til að lesa þetta viðtal, enda er hér tekið á máli, sem hingað til hefur ekki mátt ræða. Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, hefur alfarið verið skrifað á reikning karla. Stundum hefur mér jafnvel þótt jaðra við, að sumir femínistar noti umræður um þessi mál, málstað sínum til framdráttar.
Hér á árum áður, heyrði ég stundum fullorðna menn stæra sig af því,í margmenni, að fullorðnar konur hafi tekið þá með sér í bólið, þegar þeir voru enn á barnsaldri eða unglingar innan sjálfræðisaldurs. Þeir áttu það allir sameiginlegt, að samskipti þeirra við gagnstæða kynið voru mjög brösótt, enda var sjálfsmynd þessara manna brostin. Þetta var á áttunda áratug síðustu aldar. Þá var enn langt í umræður um kynferðislega misnotkun, hvort heldur karla eða kvenna á börnum. Mennirnir skildu því sjálfir ekki sín eigin örlög.
Nú þarf að taka þessi mál til öfgalausrar umræðu, spyrna við fæti og veita jafnt gerendum sem þolendum viðeigandi aðstoð.
24.4.2010 | 14:05
Kattarþvottur Sigmundar Davíðs
Formaður Framsóknarflokksins ávarpaði í morgun miðstjórn flokksins og baðst afsökunar á andvaraleysi og mistökum í aðdraganda bankahrunsins". Segir hann ábyrgð Framsóknarflokksins mikla, en mesta þó á framtíðinni.
Það er ekki mitt að dæma um það, hvort hér er mælt af heilindum eður ei. Vel má vera, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson haldi að sagan hafi byrjað haustið 2008 eða svo. En öllum má nú ljóst vera, að hrun bankanna haustið það arna, var óhjákvæmileg afleiðing þeirrar helmingaskiptareglu Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna, sem viðhöfð var við einkavinavæðingu ríkisbankanna árið 2003. Málið snýst því ekki um andvaraleysi og mistök í aðdraganda bankahrunsins", heldur um skipulagða glæpastarfsemi við einkavæðingu bankanna. Þar til forystumenn þessara flokka hafa áttað sig á því og játað það undanbragðalaust fyrir þjóðinni og öðrum fórnarlömbum útrásarvíkinganna, fer best á því, að ábyrgð þeirra á framtíðinni sé engin.
22.4.2010 | 12:33
Ansi er þetta klént!
Mikið er það merkilegt, þegar spillingaröfl hrunadansins, kenna lélegu eftirliti og göllum í kerfinu" um hvernig fór. Skyldi nokkur innbrotsþjófur hafa verið sýknaður á þeim forsendum, að húsið, sem hann braust inn í, hafi staðið opið þegar hann átti þar leið um?
21.4.2010 | 00:01
Hugljúf yfirlýsing frá klappstýrunni
Mikið fannst mér vel til fundið hjá klappstýrunni á Bessastöðum, að gleðja bændur og búalið, sem nú mega líða fyrir gosið í Eyjafjallajökli, með því, að þetta væri nú bara eins og hver önnur æfing undir Kötlugosið, sem væri á næsta leyti. Það er svo fallega gert, að gleðja fólk í bágindum þess.
Þó fannst mér klappstýrunni takast enn betur upp, þegar hún svaraði gagnrýni á þessa yfirlýsingu með því að segja, að eins og bankahrunið hefði leitt í ljós, væri ekki gott að þegja yfir sannleikanum. Hver var það aftur, sem var öðrum iðnari við að lofsyngja lygina?
Undarlegt, en hvar sem ég kom í dag, og það var nokkuð víða, var fólk að tala um, að nú ætti klappstýran að fara að svipast um eftir nýrri vinnu.
19.4.2010 | 23:24
Risaflugur á fréttastofu RÚV
Nú er vorið komið og blessaðar flugurnar farnar að gera vart við sig. Á mínum heimaslóðum eru þær ósköp temmilegar að stærð, nokkrir millimetrar á lengdina og breiddin ívið minni.
En á fréttastofu Ríkisútvarpsins gegnir öðru máli. Þar flögra risaflugur um sali. Stærð þeirra er slík að í sjónvarpsfréttum í kvöld, var sagt frá tveimur flugum, sem nýlega komu til landsins, klyfjaðar fleiri kílóum af kókaíni. Vitanlega voru flugur þessar algjörlega utan við lög og rétt, enda kókanínið smyglvarningur.
Ekki er ósennilegt, að fréttamaðurinn hafi átt við, að kókanínið hafi komið til landsins með tveimur flugvélum. Ég ætla að minnsta kosti rétt að vona það, ég hef nefnilega alltaf verið svolítið hændur að flugum og þær að mér.
Annars er Ríkisútvarpið ekki eitt um þetta ofmat á stærð flugna. Ég er ekki frá því, að allir fjölmiðlar landsins hafi undanfarna daga fullyrt, að frestur hafi orðið á flugum" vítt og breitt um Evrópu vegna gossins í Eyjafjallajökli. Sem sagt, flugurnar komast hvorki lönd né strönd.
16.4.2010 | 23:11
Þingflokksformenn draga sig í hlé
Nú hafa tveir þingmenn, sem báðir voru formenn þingflokka sinna, tekið sér leyfi frá þingstörfum, meðan rannsókn fer fram á málum þeirra. Þetta eru þeir Björgvin G. Guðmundsson þingmaður Samfylkingarinnar og Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Rannsóknarnefnd Alþingis taldi Björgvin hafa gerst sekan um vanrækslu í starfi viðskiptaráðherra í aðdragenda hrunsins en Illugi hafði náin tengsl við Glitni. Það er báðum þessum mönnum til sóma, að hafa dregið sig frá þingstörfum, meðan á rannsókn þessara mála stendur. Þannig eiga hlutirnir að ganga fyrir sig í lýðræðislegu samfélagi. Vonandi ber þjóðin gæfu til, að telja þessa ákvörðun þeirra ekki jafngilda játningu. Reynist þeir saklausir, ber þeim að taka aftur sæti á Alþingi, til þess eru þeir kosnir. Ef þeir reynast hins vegar sannir að sök, taka þeir vitanlega út sína refsingu. Það er réttvísinnar að taka á þessum málum, ekki Gróu á Leiti.
14.4.2010 | 23:52
Glæpur og refsing?
Ekkert liggur skráð eftir hinn fræga heimspeking Sókrates. En ýmislegt er eftir honum haft, m.a. í riti Platóns, Gorgías. Eins og tíðkaðist í grískum heimspekiritum er notast við samræðuformið. Sókrates ræðir við lærisveina sína og í stað þess að leggja þeim lífsreglurnar í fullyrðingum, veiðir hann þá í net sitt með spurningum. Eigi að síður koma skoðanir hans skýrt fram.
M.a. sem fram kemur í Gorgíasi eru hugleiðingar Sókratesar og/eða Platóns um glæp og refsingu. Þar er sú skoðun sett fram, að það versta, sem nokkurn mann geti hent, sé að fremja glæp, en það næst versta sé, að taka ekki út refsingu fyrir glæpinn. Sá sem fremur glæp og tekur út refsingu sína á sér viðreisnar von, samkvæmt þessari kenningu. Hinn, sem ódæðisverk vinnur og kemst upp með það, er að eilífu glötuð sál.
Er okkur Íslendingum slík lesning ekki nokkuð þörf, þessa dagana?