Verður ekki að takmarka jöklaferðir?

Fyrir skömmu varð það hörmulega slys á Langjökli, að kona og sjö ára sonur hennar féllu niður í sprungu.  Konan beið bana, en drengnum var bjargað. 

Menn kynnu að ætla, að fólk lærði eitthvað af svona hörmungar atburðum.  En það virðist ekki eiga við um alla.  Í gær villtist útlend kona og tólf ára sonur hennar á jöklinum.  Urðu þau viðskila við ferðafélaga sína.  Allt er þetta fólk óvant jöklaferðum, að sögn fjölmiðla.

Nú fór betur en á horfðist og fannst fólkið heilt á húfi í nótt, eftir að u.þ.b. 300 björgunarmenn höfðu verið kallaðir til við erfiðar aðstæður.  Skyggni var slæmt og veður válynd.  Hvorugt kom á óvart, því Veðurstofan hafði varað við þessu.  Auk þess hefur það ítrekað komið fram, að hlýindin í vetur gera jöklaferðir að mun meira hættuspili en verið hefur.  Hljóta slíkar ferðir fólks, sem ekki er vant svona ferðalögum þó jafnan að orka tvímælis.

Það skuggalega í sambandi við leitina í gær og í nótt er, að mæðginin voru í ferð með hópi fólks, sem leigt hafði snjósleða hjá íslenskri sleðaleigu.  Menn hljóta í framhaldinu, að velta alvarlega fyrir sér ábyrgð eigenda þeirrar leigu, sem og hinu, hvort ekki sé nauðsynlegt, að takmarka ferðir sem þessar.

 

 


Hve lengi ætlar Jóhanna að hygla Einari Karli?

Jafnaðarstefnan gengur út á þá einföldu og fögru lífssýn, að efnalegur jöfnuður skuli ríkja meðal manna.  Þannig veitist hverjum og einum tækifæri til andlegs þroska.  Þetta þýðir ekki, að allir eigi að hafa nákvæmlega sömu launin.  Hins vegar krefst jafnaðarstefnan þess, að launamunur sé innan skynsamlegra marka.  Að öðrum kosti lifa tvær þjóðir í landi hverju.

Einar Karl Haraldsson upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, á mjög erfitt með að skilja undrun almennings á því, að almannafé skuli sóað í að halda honum uppi fáum misserum eftir að hann var vikapiltur útrásarmanna hjá Kaupþingi.  Orðrétt lætur hann hafa eftir sér í DV: „Það talaði enginn um að Kaupþing væri að fara á hausinn árið 2007".

Sú fullyrðing er röng.  Og það sem meira er, allt frá einkavæðingu bankanna árið 2002, talaði fjöldi manns um, að þeir hefðu hafnað í höndum glæpamanna, samkvæmt helmingaskiptareglu Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna. 

Einar Karl Haraldsson hefur lengi haft með höndum nokkurn starfa fyrir ríkiskirkjuna, sjálfsagt á þokkalegum launum, enda maðurinn mikils virði að eigin áliti.  Ekki veit ég hvort hann hefur setið með prelátum og rætt um þýðingu Matteusarguðspjalls, 6. kafla, 24. vers, en þar segir:  „Enginn getur þjónað tveimur herrum.  Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.  Þér getið ekki þjónað Guði og mammón". 

Fjarri sé mér, að blanda saman stjórnmálum og trú.  Þó gildir það sama í báðum þessum þáttum tilverunnar, að þar verður ekki tveimur herrum þjónað.  Einar Karl Haraldsson mun aldrei skilja það.  En Jóhanna Sigurðardóttir mætti fara að leiða hugann að því og velja sér til liðs fólk, sem veit út á hvað jafnaðarstefnan gengur.  Geri hún það ekki, hefur hennar tími ekki aðeins komið, heldur einnig runnið sitt skeið á enda.


Æ sé gjöf til gjalda

Það er ömurlegt, að hlusta á stjórnmálamenn, hvort heldur er stjórnarliða eða stjórnarandstæðinga, gagnrýna það, að meintir ræningjar skuli fá að halda fyrirtækjum, sem öllum er ljóst, að þeir komu sjálfir á hausinn, með því að misnota aðstöðu sína innan þeirra, sjálfum sér til framdráttar.

Ef nokkurt mark væri á þessum stjórnmálamönnum takandi, væru þeir fyrir löngu búnir að setja lög, sem meinuðu bönkum að afhenda meintum misindismönnum gjaldþrota fyrirtæki, fyrr en dómur væri fallinn í máli þeirra og þeir fundnir sýknir saka.

Og nú er spurt, hvað dvelur orminn langa?  Það skyldi þó aldrei vera, að svarið liggi í því, að margir stjórnmálamannanna séu á mála hjá útrásarvíkingunum? 

Fyrir nokkrum árum hefði þessi spurning þótt fráleit.  Hún er það ekki lengur.  Vitað er, að margir fjárglæframenn, sem síðar sigldu þjóðina í strand, lögðu fram fé til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.  Vonandi eru menn ekki svo skini skroppnir, að halda, að slík greiðasemi hafi verið endurgjaldslaus.


Innrásin í Tækniskólann

Mannleg samskipti hljóta að byggjast á gagnkvæmu trausti.  Það er ekki fyrr en einhver bregst því trausti, að ástæða er til að vantreysta honum.  Því hlýtur það að teljast harla undarlegt, að skólastjórnendur Tækniskólans skuli siga lögregluliði með þrjá fíkniefnahunda á nemendur skólans, að eigin sögn að tilefnislausu.

Nú er það svo, að rannsóknir sýna, að ungir fíkniefnaneytendur koma fyrst og fremst úr hópi þeirra, sem flosnað hafa úr námi.  Auðvitað þýðir það ekki, að engir skólanemar hafi ánetjast eiturlyfjum.  En þeir eru tiltölulega fáir.    

Það má nánast flokka það undir fjöldahandtöku, þegar heill skóli er hertekinn með þessum hætti.  Slíkt háttarlag er ekki til þess fallið, að auka traust milli fólks.  Þess utan mættu menn gjarnan hafa það hugfast, að þótt eiturlyfjasala sé hrein glæpastarfsemi, þá er neyslan sjúkdómur.  Ég minnist þess ekki, að lögreglan teljist til heilbrigðisstétta.  Læt í því sambandi allt ósagt um leitarhundana.


Um leikara og loddara

Góður leikari þarf að geta skipt ört um hlutverk.  Til þess þarf hann að bera virðingu, jafnt fyrir list sinni, sjálfum sér og áhorfendum.  Þannig verður hann staðfastur í listinni, þrátt fyrir fjölda hlutverka.

Um stjórnmálamenn og þeirra aðstoðarmenn gegnir öðru máli. Þeim er ekki ætlað að koma fram í umbúðum leiklistarinnar.  Vilji þeir teljast marktækir, verða þeir að sýna af sér staðfestu, ekki staðfestu listarinnar, heldur staðfestu hins daglega lífs.  Að öðrum kosti glata þeir sjálfsvirðingunni og þarf af leiðandi virðingu annarra.

Þetta leitar óneitanlega á hugann nú, þegar fréttir berast af því, að Einar Karl Haraldsson upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins hafi svo seint sem árið 2007 þegið 19 milljónir króna í laun fyrir s.k. „ráðgjafastörf", þar af, að eigin sögn, töluverðan hluta frá Kaupþingi.

Um leið berast þær fréttir, að Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður, hafi sama daginn og hann samdi um „tímabundin starfslok" hjá Öskum, við Karl Wernersson, samið við Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, um að gerast efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar.

Eitt er að vera leikari, annað að vera loddari. 


Lygi hér og þar og allsstaðar

Allt fram undir hrunið í október 2008, lugu forsvarsmenn Fjármálaeftirlitsins því, jafnt innan lands sem utan, að allt væri í stakasta lagi með fjármálakerfi þjóðarinnar.  Reyndar voru þeir ekki einir um þá iðju, ekki má gleyma klappstýrunni á Bessastöðum.  Svo seint sem í marsmánuði sama árs, kom Björgvin G. Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra, og þar með æðsti yfirmaður Fjármálaeftirlitsins í sjónvarpið og flutti útrásarvíkingum slíkan dýrðaróð, að hann taldi meira að segja nauðsynlegt, að hagræða skatta- og fjármálakerfinu í þeirra þágu, enn frekar en Davíð Oddsson og félagar höfðu þegar gert.

Ég skal ekkert um það segja, hvort þessir menn lugu að sjálfum sér, til þess að kveða upp úrskurð varðandi slíkt vafaatriði, þarf læknisfróða menn, sem starfa inn við sundin blá.  En hitt er ljóst, að þeir lugu að þjóðinni, sem raunar var nógu blind, til þess að vilja trúa lyginni.  Því fór sem fór.

En að þessir sömu menn gangi nú fram fyrir skjöldu og neiti þeirri fullyrðingu starfsmanna hollenska seðlabankans, að þeir hafi logið í þá varðandi Icesave, er út í hött.  Hví skyldu þeir sem ljúga heima hjá sér, ekki allt eins gera það á öðrum bæjum?

 


Samskips- og Baugsmál kalla á lagasetningu

Þá hefur Guðlaugur Þór krafist þess, að bankastjóri Arionbanka verði kallaður fyrir þingnefnd, til að gefa skýringar á því, hvers vegna mennirnir sem komu Baugi á hausinn og eiga stóran þátt í hruninu, eigi, að mati bankans, að fá fyrirtækið aftur í hendurnar.

Allt í lagi með það.  En vissulega væri eðlilegra, að bankastjórinn reyndi að útskýra þetta í réttarsal.  Það er löngu tímabært, að þingmenn hætti öllum loddarahætti og setji einfaldlega lög, sem bindi hendur bankanna í þessum efnum.  Fyrst Samskip, svo Baugur.  Hvað næst?


Reisum Jörundi hundadagakonungi minnismerki í hjörtum okkar

Hver er munurinn á Ástralíu 19. aldar og Íslandi 21. aldar?  Jú, hann er sá, að á 19. öld var Ástralía fanganýlenda, þangað sem bresk yfirvöld sendu brotamenn og raunar ýmsa aðra, til að taka út refsingu sína.  Ísland 21. aldar er hins vegar glæpamannanýlenda, þar sem glæpamennirnir hafa tögl og haldir í þjóðfélaginu í gegnum stjórnmálaflokkana, bankana og stórfyrirtækin.

Jörundur hundadagakonungur var einn þeirra meintu brotamanna, sem Bretar sendu til Ástralíu.   Við Íslendingar eigum þessum ævintýramanni skuld að gjalda; hann reyndi  að gera menn úr þessum skrælingjalýð, sem öldum sama hafði beygt sig í duftið fyrir yfirvöldum og stórbændum.  Væri ekki ráð, að við reistum honum þann minnisvarða í hjörtum okkar, að losa okkur við glæpalýðinn, sem veður hér yfir þjóðina á skítugum skónum?


Eldsteikta Ísafold

Þetta líkar mér.  Bankastjórinn minn kom í Kastljós í gærkvöldi, til að útskýra fyrir þjóðinni, að best færi á því, að þeir sem komu henni á hausinn, með braski og brambolti, fengju að reka fyrirtæki áfram, þótt þeir hefðu sett þau á hausinn.  Vanir menn! 

Já, bankastjórinn minn, hann er eitthvað svo nettur og penn.  Svona maður er örugglega að segja satt.  Og auðvitað kemur hann til með, að afskrifa allar þær skuldir, sem stofnað var til út á veð í skuldunum sjálfum.  Hann er nefnilega svo nettur og penn.

Já, og braskararnir í pólitíkinni, Bjarni Ben. og Össur og Árni Þór og útgerðarþingmaðurinn, sem vissi ekki, að bannað væri að taka arð úr fyrirtæki, sem rekið var með tapi, þeir styðja ábyggilega allir við bakið á bankastjóranum mínum.  Og hún Jóhanna Sig?  Ja, ef henni mislíkar þetta, þá hlustar hún bara agndofa á fréttirnar eins og aðrir landsmenn, en ræður auðvitað ekki neitt við neitt, enda bara forsætisráðherra með meirihluta Alþingis á bak við sig.   Og varla fer nú klappstýra útrásarliðsins að mótmæla suður á Bessastöðum, þótt strákarnir hans fái lögformleg yfirráð yfir peningum, sem þeir í raun hafa aldrei átt.

Æ, aumingja Ísafold, skyldi sá dagur nokkurn tíma renna upp, að þú verðir losað af steikarkpinna braskaranna?


Drukkna menn á þurru landi?

Mikið þótti mér merkilegt, að heyra það á öldum ljósvakans í kvöld, að atvinnulausum unglingum, sem ekki eru í skóla, væri hættara við, að lenda á refilstigum í lífinu, en jafnöldrum þeirra, sem ýmist stunda nám eða vinnu.  Og ekki var nú lakara að heyra, að á þessu hefði verið gerð vísindaleg rannsókn.  Sjálfur menntamálaráðherrann staðfesti meira að segja, að þetta væri ákaflega merkileg rannsókn.

Reyndar hélt ég að það væri þegar kunnugt, að meiri hætta væri á því,að fólk drukknaði í vatni en á þurru landi.  Hefði nú ekki verið ráð, að verja þeim fjármunum, sem kastað var í þessa rannsókn, í að ráða bót á vanda atvinnulausra ungmenna?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband