Hver var Davíð Þorvaldsson?

Já, hver skyldi hann hafa verið, þessi Davíð Þorvaldsson?  Ég býst við, að mörgum fari sem mér, þegar ég , fyrir svo sem tólf árum, rakst á smásagnasafn eftir hann í fornbókaverslun.  En það er um Davíð þennan að segja, að hann er einn af okkar merkustu smásagnahöfundum, enda þótt verk hans séu nú flestum gleymd.  Davíð var Akureyringur, fæddur árið 1901.  Hann missti föður sinn barnungur, komst þó til mennta og hélt til meginlandsins.  Því miður varð hann berklum að bráð, eins og svo margir á fyrri hluta síðustu aldar.  Hann lést árið 1932.

Tvö smásagnasöfn komu út eftir Davíð Þorvaldsson, Björn formaður og fleiri sögur, árið 1929 og Kalviðir árið eftir.  Gætir þar kynna höfundar af upplausnarmenningu meginlands Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöldina.  Ég ætla ekki að fara að lýsa þessum bókum, né rekja efni þeirra smásagna, sem þar birtast, en hvet þá, sem náttúraðir eru fyrir bókmenntir, til að lesa þessi tvö smásagnasöfn.  Björn formann er aðeins hægt að nálgast á bókasafni Reykjanesbæjar og í Landsbókasafninu (eftir þeim upplýsingum sem er að hafa á gegni.is) en Kalviðir eru til á fjölmörgum bókasöfnum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband