Kjósið ekki hetju!

Það var hér um árið, um það leyti sem blessaður presturinn, hann séra Jón Þorvarðarson lét mig fara með eitthvað fallegt upp við altarið í Háteigskirkju og fermdi mig að svo mæltu, að ég hlustaði á leikrit í útvarpinu sem oftar.  Þetta leikrit er eftir Bertolt Brecht og fjallar um það, þegar kaþólska kirkjan neyddi Galeleo Galelei til að draga til baka þá kenningu sína, að jörðin snérist umhverfis sólina en ekki öfugt.

Allir þekkja þá sögn, sanna eða logna, að þegar gamli maðurinn gekk út úr réttarsalnum hafi hann tuldrað í barm sér þessi fleygu orð: "Hún snýst nú samt." 

Brecht tekur sér dulítið skáldaleyfi, en slíkt leyfi er oftar en ekki nauðsynlegt, til að nálgast sannleikann.  Hann lætur einn af lærisveinum meistarans ganga að honum, að mig minnir á leiðinni út úr réttarsalnum og segja:  "Aumt er það land, sem á enga hetju."  En sá gamli vissi betur og svaraði: "Nei, aumt er það land, sem þarf á hetjum að halda."

Nú eru liðin 46 ár, síðan ég heyrði þetta leikrit í útvarpinu.  Og þessi orð, sem Brecht leggur Galeleo Galelei í munn, eru mér enn í fersku minni.

Því nefni ég þetta nú, daginn fyrir forsetakosningarnar, að ég óttast, að stór hluti þjóðarinnar sé að leita sér að hetju; hinum sterka manni.  Slík leit er hættuleg.  Engin þjóð, hvorki fær né verðskuldar leiðtoga, sem býr yfir meiri styrk en hún sjálf.  Því bið ég ykkur, sem hyggist kjósa á morgun, þess lengstra orða, að kjósa ekki hetjuímynd yfir þjóðina.  Það hefur víða verið reynt, með hörmulegum afleiðingum.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þetta er eitt besta innleggið sem ég hef séð fyrir þessar kosningar, takk fyrir það.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 29.6.2012 kl. 23:52

2 identicon

Er ekki forsetembættið sjálft einskonar hetjuímynd? Er hægt annað en að kjósa þann sem maður telur hæfastan í embættið? Trúlega telja gegnheilir jafnaðarmenn að enginn sé öðrum fremri og þá er stutt í ályktunina að enginn sé öðrum hæfari. Í því liggur kanski grundvallar kostur og löstur jafnaðarmennskunar.Kostur vegna þess að þar er litið svo á að við séum hvert öðru háð og hluti sömu heildar og þar með enginn öðrum fremri eða rétthærri,  en löstur vegna þess að þar er hætt við að horft sé framhjá þeirri staðreynd að sumir eru einfaldlega langtum hæfari en aðrir til ákveðinna verka.  Það er svo lítið merkilegt að þarna falla jafnaðarmenn í sömu gryfjuna og aðalsmannaveldið í Evrópu fyrr á öldum. Þ.e. að láta ekki hæfni ráða heldur eitthvað annað. Aðalsmennirnir "ættgöfgina" en kratarnir eitthvert prógram eða regluverksviðundur.

Samt sem áður umhugsunarverður pistill og vissulega ekki gott ef þjóðir tapa sér í leit að hetjum, en ég ætla að kjósa Ólaf Ragnar á morgun vegna þess að ég tel hann hæfastan í embættið og svo náttúrulega að í Icesave málum stóð hann sig eins og hetja ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.6.2012 kl. 00:50

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég samþykki það, góður og umhugsunarverður pistill.  Galeleo eru lögð þau orð, að aumt sé það land sem þarf á hetjum að halda.  Þó að það sé sorglegt þá er það bara svo að núverandi stjórnvöld hafa stolið sér völdum með ósvífni, ósannleik og lagabrotum. 

Svo virðist vera sem fólkið í landinu sé harla varnar lítið við þesskonar aðstæður.  Það er þó til ein aðferð, gömul og margreind, en árangurinn af henni er oft ærið misjafn og lítt fyrir séður, enda venjulega síðasta neyðarúræði.  Við svona aðstæður þá er hentugt að hafa hetjur á réttum stöðum, menn sem nenna og þora að gera það og segja sem þarf til þess að komast hjá því að þurfa að nota gömlu uppreisnar aðferðina.

Þess vegna ætla ég að kjósa Ólaf, mann sem mér líkaði hvergi við á löngum tíma, en hann gaf okkur frelsi til að ráða því sjálf hvort við vildum borga Icesave.   Hann hafði líka þekkingu og þor til að tala máli okkar á erlendum vettvangi, það hafði eingin annar.  Gufurnar í stjórnarandstöðunni horfðu bara í klof sér og þögðu.    

Hrólfur Þ Hraundal, 30.6.2012 kl. 08:28

4 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Sammála. Það er nefnilega hættulegt en það versta er að mörgum finnst það spennandi og gaman.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 30.6.2012 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband