Færsluflokkur: Bækur
11.5.2011 | 23:41
Svipmyndir úr síldarbæ
Það er ekki sama, hvernig sagan er sögð. Sagnfræðin getur frætt okkur um hvað hafi gerst, hvar og hvenær. En slíkur fróðleikur er harla lítils virði, einn og sér. Maður þarf að geta gert sér hugmynd um andblæ þeirra tíma og atburða, sem um er lesið. Þetta vissu gömlu sagnfræðingarnir, menn eins og Sverrir Kristjánsson, Þorkell Jóhannesson og ýmsir fleiri.
Allir, sem komnir eru til vits og ára, hafa haft spurnir af síldarævintýrinu á Siglufirði, er hófst í byrjun síðustu aldar og lauk á árunum upp úr 1960. En hvers konar fólk stóð á planinu og saltaði síldinni? Hvernig var mannskapurinn um borð í síldarbátunum? Og hver var háttur grósseranna" á staðnum?
Örlygur Kristfinnsson safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði lýsir þessu öllu og ýmsu fleiru í bráðskemmtilegri bók, sem bókaforlagið Uppheimar" á Skaganum gaf út í fyrra. Ég var rétt í þessu að leggja ritið frá mér og líkaði lesningin vel.
Örlygur dregur ekkert undan, heldur segir kost og löst á hverjum manni, sem um er fjallað. En handbragðið lýsir nærgætni og ást á viðfangsefninu; kynlegir kvistir eru annað og meira en furðufuglar. Þeir eru menn af holdi og blóði. Hver arkar sinn veg og göngulagið er í samræmi við örlög hvers og eins. Og ekki meira um það.
Eftir lestur þessarar góðu bókar er ég engu nær um síldaraflann, sem landað var á Sigló frá ári til árs. Söluverðmæti púðursykurs þar í bæ um miðja síðustu öld er mér sömuleiðis hulið. En ég geri mér í hugarlund gleði og sorgir fólksins, sem tók þátt í síldarævintýrinu mikla. Og þeir standa mér ljóslifandi fyrir sjónum, Gústi guðsmaður, sem réri í kompaníi við almættið, frændurnir Hinrik Thorarensen læknir og Aage Schiöth lyfsali, en þeirra beggja beið skipbrot í lífinu eftir glæsta siglingu og sá skrautlegi karakter, Hannes Beggólín auk margra annarra.
Í mínum huga hefur Siglufjörður öðlast nýtt líf. Bestu þakkir fyrir líflega umfjöllun um liðna tíð.
Smá athugasemd; nafnalisti hefði gjarnan mátt fylgja í lok bókar.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2011 | 21:00
Snilldarsögur Williams Heinesen
Nýlega voru lesnar upp í síðdegisútvarpi Rásar 1, þrettán smásögur færeyska sagnameistarans Williams Heinesen. Sögur þessar þýddi Þorgeir Þorgeirson og komu þær góðu þýðingar út árið 1978 undir titlinum Fjandinn hleypur í Gamalíel.
Langt er nú liðið, síðan ég las þessa bók og teygði ég því eftir henni í bókaskáp um daginn, enda gat ég ekki hlustað á alla lestrana í útvarpinu. Ég er enn að lesa þessar frábæru sögur. Fleiri meistaraverk Heinesen hafa komið út á íslensku, bæði í þýðingu Þorgeirs og fleiri góðra manna. Hvet ég alla unnendur góðs skáldskapar til að lesa þær bækur.
Til að vekja forvitni manna, vil ég geta þess, að í einni sögunni í Fjandinn hleypur í Gamalíel, er m.a. sagt frá Einari Ben. og er það skrautleg lýsing á skáldinu, sem vænta má. Nú er bara að verða sér úti um bókina þá arna og leita.
Meira um Heinesen á næstunni.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2007 | 22:44
Hver var Davíð Þorvaldsson?
Já, hver skyldi hann hafa verið, þessi Davíð Þorvaldsson? Ég býst við, að mörgum fari sem mér, þegar ég , fyrir svo sem tólf árum, rakst á smásagnasafn eftir hann í fornbókaverslun. En það er um Davíð þennan að segja, að hann er einn af okkar merkustu smásagnahöfundum, enda þótt verk hans séu nú flestum gleymd. Davíð var Akureyringur, fæddur árið 1901. Hann missti föður sinn barnungur, komst þó til mennta og hélt til meginlandsins. Því miður varð hann berklum að bráð, eins og svo margir á fyrri hluta síðustu aldar. Hann lést árið 1932.
Tvö smásagnasöfn komu út eftir Davíð Þorvaldsson, Björn formaður og fleiri sögur, árið 1929 og Kalviðir árið eftir. Gætir þar kynna höfundar af upplausnarmenningu meginlands Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöldina. Ég ætla ekki að fara að lýsa þessum bókum, né rekja efni þeirra smásagna, sem þar birtast, en hvet þá, sem náttúraðir eru fyrir bókmenntir, til að lesa þessi tvö smásagnasöfn. Björn formann er aðeins hægt að nálgast á bókasafni Reykjanesbæjar og í Landsbókasafninu (eftir þeim upplýsingum sem er að hafa á gegni.is) en Kalviðir eru til á fjölmörgum bókasöfnum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)