Færsluflokkur: Bloggar
19.2.2007 | 21:43
Hugleiðingar út frá viðtali Egils Helgasonar við Ólaf Ragnar Grímsson
Í gær, sunnudag, var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils á Stöð 2. Þar var m.a. fjallað um setu Ólafs Ragnars í Þróunarráði Indlands og það, hvort eðlilegt gæti talist, að forseti Íslands, tæki það upp hjá sjálfum sér, að þiggja boð um setu í slíku ráði á erlendri grund. Ég ætla ekki að gerast dómari í því máli, heldur nota tækifærið til að minnast á nokkuð, sem virðist hafa farið fram hjá flestum og er þó ekki um neitt smámál að ræða.
Vorið 2004 samþykkti alþingi s.k. fjölmiðlafrumvarp, sem ríkisstjórnin lagði fram. Frumvarpið olli miklum deilum og fór svo, að eftir að alþingi samþykkti það, neitaði Ólafur Ragnar að undirrita lögin. Þess í stað nýtti hann stjórnarskrárbundinn rétt sinn og vísaði málinu undir dóm þjóðarinnar.
En nú gerðist nokkuð merkilegt; í stað þess að hefja þegar undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslu, lagði ríkisstjórnin fram nýtt fjölmiðlafrumvarp, sem raunar var sláandi líkt því gamla, án þess það komi málinu við. Alþingi samþykkti nýja frumvarpið og nú brá svo við, að forseti Íslands undirritaði lögin. Þar með höfðu forseti Íslands, ríkisstjórn og alþingi tekið höndum saman og svipt þjóðina stjórnarskrárbundnum rétti sínum. Þetta þýðir, að allar götur síðan, eða í hart nær þrjú ár, hefur landinu í raun verið stjórnar af mönnum með hæpið umboð, svo ekki sé meira sagt. Forseti Íslands á ekki að stjórna þessari þjóð, né heldur ráðherrar eða alþingismenn. Þjóðin á að stjórna sér sjálf. Hún hefur hins vegar falið ofangreindum aðilum umboð til að fara með vald sitt um takmarkaðan tíma í samræmi við þær reglur sem þjóðin setti með samþykkt stjórnarskrár lýðveldisins árið 1944.
Með því að koma í veg fyrir að mál, sem forseti Íslands hafði vísað til þjóðarinnar, eins og hann hefur óskorðaðan rétt til samkvæmt stjórnarskránni, yrði afgreitt af þjóðinni, var hún í raun svipt völdum af sínum eigin umboðsmönnum, forsetanum, ríkisstjórninni og alþingi. Og það merkilega er, að þetta lét þjóðin yfir sig ganga, rétt eins og henni kæmi það ekki við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.2.2007 | 12:31
Telst léleg fréttamennska til tíðinda?
Nú um daginn birtist forsíðufrétt í Blaðinu, þar sem sagt var frá því, að blaðamaður við DV hér á árum áður, hefði birt upplogin viðtöl" við Steingrím Hermannson, þáverandi forsætisráðherra. Og tók víst enginn eftir tiltækinu, ekki einu sinni Steingrímur sjálfur.
Blaðið ræðir málið m.a. við Birgi Guðmundsson blaðamann og lektor við Háskólann á Akyreyri. Orðrétt er haft eftir honum: Ég hef aldrei heyrt þetta fyrr og þetta er vont mál. Ég vona að svona lagað þekkist ekki í dag og held að fagleg vitund komi í veg fyrir að nokkrum dytti slíkt í hug. Í raun er ég mjög hissa á þessu."
Ég staldraði við orðin, þar sem Birgir segist halda, að fagleg vitund komi í veg fyrir slík vinnubrögð nú. Er ástæða til að ætla það, eða er hér ef til vill um nokkra bjartsýni að ræða? Mér þætti gaman að fá svör við þeirri spurningu, enda er hún þörf. Það er nefnilega fátt mikilvægara í samfélagi okkar, en það, að almenningur geti haft sæmilegt traust á fjölmiðlum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 11:38
Klámþing á Íslandi?
Er í lagi, að halda klámþing á Íslandi? Það finnst þeim í klámbransanum a.m.k. En erum við Íslendingar sammála? Vonandi ekki. Klám er ekki aðeins lágkúrulegt fyrirbæri í sjálfu sér; í skjóli þess þrífast eiturlyfjaviðskipti og þrælasala. Það er með öðrum orðum hluti mjög alvarlegrar alþjóðlegrar glæpastarfsemi, sem vissulega teygir anga sína hingað til lands. Þannig eru t.d. ekki nema nokkrir dagar síðan austurríska lögreglan kom upp um alþjóðlegan barnaklámhring á netinu og reyndust þrír Íslendingar aðilar að því.
Femínistar hafa bent á að þetta þing, með viðeigandi klámmyndatöku, verði haldið á alþjóðadegi kvenna, 8. mars. Vissulega er það frekar nöturleg tilviljun. Þó er það að mínu mati ekkert aðalatriði; klám er jafn slæmt, hvaða dag ársins sem það fer fram, auk þess, sem konur eru ekki einu fórnarlömbin. Það svertir alla, sem nálægt því koma.
Klám er bannað samkvæmt íslenskum lögum. Vonandi verða yfirvöld þess minnug um leið og klámliðið lætur sjá sig á flugvellinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.2.2007 | 11:15
Mér varð á í messunni
Nú varð mér á í messunni. Í spjalli mínu í gær, fjallaði ég um skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna varðandi líðan barna í ríkustu löndum heims. Þegar ég fór að athuga málið betur, koma í ljós nokkrar villur, sem stafa af ónákvæmni. Í fyrsta lagi er Svíþjóð ekki í efsta sæti, hvað varðar vellíðan barna, heldur í öðru sæti. Hollendingar tróna á toppnum, en Danir koma í þriðja sæti. Þetta breytir ekki miklu og alls engu, hvað varðar samfélagsgerð þeirra þjóða, sem best koma út úr könnunni og hinna, sem lakast standa. En rétt skal vera rétt. Þá virðist svo sem Íslendingar hafi tekið einhvern þátt í könnunni, en svo takmarkaðan, að ekki er hægt að telja okkur með, nema að nokkru leyti.
Við Íslendingar lendum í næst efsta sæti, hvað varðar líkamlega heilsu barna og er það vel. Reyndar óttast ég, að tannheilsa sé þar undanskilin. Hvað menntun varðar erum við slök, eða í 13. sæti af 24 þjóðum. Skyldi það ekki vera í samhengi við það, að við erum næst neðst á listanum, þegar kemur að samræðustundum barna og foreldra? Heimilin eru nefnilega sá grunnur, sem menntun er helst reist á. Þá kemur fram, að yfir 10% íslenskra barna þjáist af einmanaleik, sem er tvöfalt á við það sem gerist í hinum löndunum.
Merkilegt er, að íslensk yfirvöld hafa ekki séð ástæðu til að skila inn upplýsingum um efnahag fólks. Má ef til vill ekki fjalla um aukna misskiptingu veraldlegra gæða í tíð núverandi ríkisstjórnar? Og fyrst ég er farinn að tala á þessum nótum: Hvaða ályktun draga þeir Samfylkingarmenn, sem aðhyllast þá þjóðfélagsgerð, sem gjarnan er kennd við Tony Blair af því, að Bretar koma verst út úr þessari könnun?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2007 | 09:36
Hvar stöndum við Íslendingar varðandi líðan barna?
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur nú birt skýrslu um líðan barna í rúmlega tuttugu iðnvæddum ríkjum. Skýrslan er kennd við Jonathan Bradshaw, prófessor við háskólann í Jórvík. Í henni kemur fram, að líðan barna er áberandi verst í tveimur hinna iðnvæddu samfélaga, sem rannsökuð voru, þ.e.a.s. í Bretlandi og Bandaríkjunum. Kemur þetta fram í áfengisdrykkju barna, eiturlyfjaneyslu þeirra og vantrú á umhverfið. Börnin treysta ekki öðru fólki, hvorki í hópi jafnaldra sinna né annarra. Þá er menntun barna í þessum tveimur af ríkustu og voldugustu þjóðum heims áberandi slök.
Nú er ekki ástæða til að ætla, að Bretar og Bandaríkjamenn séu ver af Guði gerðir en annað fólk. Því liggur það væntanlega í hlutarins eðli, að skýringarinnar á niðurstöðu Bradshawskýrslunnar er að leita í samfélagsgerð þessara landa. Athyglisvert er, að samkvæmt skýrslunni er líðan barna best í Svíþjóð. Hvað er það þá, sem skilur að, annars vegar Bretland og Bandaríkin og hins vegar Svíþjóð? Svarið liggur að mínu viti í því, að í Bretlandi og Bandaríkjunum ríkir sterk auðhyggja, sem sumir kjósa að kalla frjálshyggju, meðan Svíar búa við áratuga hefð jöfnuðar.
En hvar stöndum við Íslendingar í þessum efnum? Ekki er að sjá, að það hafi verið kannað í skýrslu Bradshaws og er það skaði. En við getum þó lesið í eyðurnar. Neysluhyggja hefur stóraukist í landinu. Þá hefur launamismunur aukist stórkostlega. En á sama tíma og launamismunur eykst, minnkar eyðslumunur hinna ríku og þeirra, sem minna mega sín fjárhagslega. Hvernig má það vera? Jú, fólk slær einfaldlega lán, til að geta lifað um efni fram. Svo má heldur ekki gleyma því, að enda þótt fjárhagur fólks standi í mörgum tilfellum undir eyðslunni, þá tekur hún tíma, sem oft hefði verið betur varið með börnunum.
Samtímis þessu fjölgar nemendum í sérdeildum grunnskólanna. Meðan foreldrarnir eru á eyðslufylliríi, hlaðast vandamálin upp hjá tilfinningalega vanræktum börnunum. Og svo á skólinn að leysa málið. Grunnskólinn er því ekki lengur einvörðungu menntastofnun heldur einnig uppeldisstofnun gagnvart stöðugt stækkandi hópi barna og unglinga. Leiðir þetta ekki til slakari menntunar í öllu skólakerfinu? Er ef til vill ástæða til að staldra við þá staðhæfingu, að unga fólkið hafi aldrei verið menntaðra en einmitt nú? Eða er menntun eingöngu sérhæfing? Er það liðin tíð að menntun sé næring sálarinnar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2007 | 21:09
Breiðavík og Byrgið; sök okkar allra
Stjórmálamenn fara nú mikinn vegna Breiðavíkur og Byrgisins. Þannig vísar forsætisráðherra fórnarlömbunum úr Byrginu á geðdeildir Landspítalans, sem óneitanlega vekur fleiri spurningar en svör. Er t.d. pláss á þessum geðdeildum fyrir fleiri sjúklinga? Og er nóg af starfsfólki þar? Og er þess að vænta, að fólk sem hraktist úr Byrginu þegar upp komst um ólánið þar, og er nú í dúndrandi dóprugli, leiti sér aðstoðar að eigin hvötum?
Össus Skarphéðinsson segir sökudólginn í Byrginu vera Framsóknarflokkinn. Og það er rétt, svo langt sem það nær. Auðvitað er ábyrgð þeirra mikil, sem með völdin fara í heilbrigðismálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu. Sama gildir um handhafa fjárveitingavaldsins, þ.e. þingheim eins og hann leggur sig. Þá má heldur ekki gleymast, sem ég fjallaði um í bloggi fyrir nokkrum dögum, að sjónvarpsþáttur sem fyrir nokkrum árum var sýndur frá Byrginu hefði átt að opna augu okkar allra, líka mín augu og Össurar. En við kusum að loka þeim. Ég reis ekki upp og skrifaði blaðagrein í heilagri vandlætingu og Össur sagði ekki orð um þetta á þingi.
Við skulum heldur ekki gleyma því, að það sem gildir um Byrgið á einnig við um Breiðavík. Allri þjóðinni mátti vera ljóst, að þarna gegnu hlutirnir ekki eðlilega fyrir sig. En við öll, sveipuðum okkur þögn þess, sem kýs það umfram allt annað í lífinu, að hafa mjúkt undir eigin rassi. Það er ekki virðuleg þögn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2007 | 17:08
Til varnar Þjórsá
Rétt í þessu kom ég af fundi, sem Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Sól á Suðurlandi héldu í Árnesi í Gnúpverjahreppi. Tilefni fundarins var að mótmæla fyrirhugðum náttúruspjöllum í formi virkjana í Þjórsá. Því miður var mér ekki kleift að sitja allan fundinn. En þótt ég neyddist til að staldra heldur stutt við, fór það ekki framhjá mér, að mikill hugur var í fólki. Fundarsalurinn var yfirfullur og urðu margir að standa sökum þrengsla.
Eins og menn vita er æltunin, að sú raforka, sem nú á að mjólka úr Þjórsá, nýtist álverinu í Straumsvík, fari svo illa, að Hafnfirðingar samþykki stækkun þess í almennri atkvæðagreiðslu, sem væntanlega fer fram í næsta mánuði. En mér er spurn; hvers vegna er ekki kosið um þetta mál á Suðurlandi? Tæpast er þetta mál Hafnfirðinga einna, þegar stórspilla á náttúru Suðurlands, bæði með virkjunum sjálfum og viðeigandi línulögnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2007 | 17:02
Um vistheimili fyrr og nú
Enn berast okkur dapurlegar fréttir af misbeitingu valds gegn varnarlausu fólki oftast ungmennum í samélagi okkar, bæði fyrr og nú. Sumt vissum við þó fyrir. Saga Bjargs, vistheimilis fyrir stúlkur, sem Hjálpræðisherinn rak vestur á Seltjarnarnesi á sjöunda áratug síðustu aldar, er mörgum enn í fersku minni. Og vitanlega hafa í gegnum tíðina komið fram ýmsar upplýsingar um vistheimilið í Breiðavík, sem við kusum að víkja til hliðar. Og þá má ekki gleyma Byrginu.
Fyrir nokkrum árum var sýndur þáttur í ríkissjónvarpinu frá starfsemi Byrgisins. Þar var m.a. sýnt hvernig vistmönnum var raðað upp á einhvers konar trúarofstækissamkomu", sem lauk með því, að forstöðumaðurinn gekk á röðina, og lagði hendur á enni vistmanna, sem með það sama húrruðu niður eins og skotnir hundar. Óneitanlega vakti þetta grunsemdir um skuggalegt trúarofstæki. Kynni nú einhver að ætla, að þarna hefði verið gripið í taumana. En nei, ekki varð sú raunin. Yfirvöldum, sem og öðrum, virtist standa á sama, þótt forstöðumaðurinn léki Guð almáttugan gagnvart varnarlausu fólki.
Nú hins vegar þegar Byrgið er aftur er komið til umræðu virðist rannsóknin að mestu beinast að meintri fjármálaóreiðu. Litlu virðist skipta, þótt geðlæknir varaði yfirvöld við kynferðislegri misnotkun á vistkonum í Byrginu. Upplýsingum þar að lútandi var einfaldlega stungið undir stól. Rekstri Byrgisins var fremur líkt við ljúfa tónlist (eða eitthvað í þeim dúr) af þáverandi aðstoðarmanni félagsmálaráðherra og núverandi formanni fjárlaganefndar.
En hvað um það. Eitt er nokkuð athyglisvert í sambandi við þessar þrjár stofnanir; Breiðavík, Bjarg og Byrgið, en það er trúarþátturinn. Breiðavík var ríkisstofnun án trúarlegrar hugmyndafræði, Bjarg var rekið af Hjálpræðishernum, og þá væntanlega með hliðsjón af trúarhugmyndum þeirra, sem þar réðu húsum. Byrgir var svo rekið af manni, sem virðist hafa átt heldur erfitt með að aðgreina eigin persónu frá sjálfu almættinu. Fólk talar mikið um rekstur trúfélags á Byrginu. En ég spyr; hvaða trúfélag var það? Getur einn maður talist trúfélag?
Niðurstaðan hlýtur að vera þessi: Það er alveg sama, hvort menn eru trúaðir og þá á hvað þeir trúa, eða trúlausir, eða eitthvað þar á milli, það verður að vera strangt opinbert eftirlit með stofnunum, sem taka að sér umönnum, þeirra, sem minna mega sín. Þetta á ekki aðeins við um vímuefnaneytendur eða börn, sem koma frá erfiðum heimilum, heldur einnig um allar slíkar stofnanir. En grundvallaratriðið er hugarfar þeirra einstaklinga, sem með þetta opinbera eftirlit fara, ekki stofnanastimplar eða titlatog.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2007 | 11:20
Hálft kíló af hamingju
Ég þekkti einu sinni ágætismann, sem því miður fór svolítið á skjön við hamingjuna eins og gengur. En þessi góði maður hafði húmor, hvað sem á gekk. Og þegar verst stóð á fyrir honum, sagði hann gjarnan: Það vildi ég, að ég ætti, þó ekki væri nema hálft kíló af hamingju." Hann sagði þetta ekki vegna þess, að hann tryði því, að hægt væri að slá máli á hamingjuna, hvort heldur væri á vog eða með málbandi; þvert á móti. En eins og ég sagði, maðurinn var húmoristi.
Nú er þessi vinur minn löngu kominn yfir móðuna miklu, en mér flýgur oft í hug, þetta hálfa kíló af hamingju, þegar ég les eða hlusta á fréttir líðandi stundar. Hvernig skyldi standa á því, að blaðamenn eru alltaf að fræða okkur hin um peningaeign fólks úti í bæ? Skiptir það mig einhverju máli, meðan ég sjálfur á í mig og á, hvort hann Nonni Ben. eða hvað hann nú heitir, slengir milljarði í flugfélag eða hlutabréf í banka? Tæpast. Aftur á móti skiptir það mig máli, ef ég skyldi rekast á ummræddan Nonna Ben. á förnum vegi, og eiga við hann orð, að hann verði þá í þokkalegu skapi og sé viðræðuhæfur um eitthvað annað og uppbyggilegra en peninga.
Mér leiðast opinberar umræður um peningaeign fólks, einkum og sér í lagi ríks fólks. Að vísu hef ég mínar skoðanir á fyrirbærinu sem slíku, en þarna fæ ég engu um breytt. Aftur á móti mætti gjarnan flytja fréttir af fjármálum bágstaddra. Það kæmi sér t.d. vel fyrir mig, þegar ég á leið í bæinn, ef ég vissi að einhvern rónann sárvantaði skotsilfur fyrir matarbita og bragðbæti í fljótandi formi. Ég gæti þá gaukað að honum lítilræði. En sennilega skiptir þetta ekki máli; rónar eru æfinlega auralausir, hvort sem er.
En sem sagt, gott fólk, er ekki betra að leita að þessu hálfa kílói af hamingju, sem vini mínum auðnaðist því miður aldrei að finna, heldur en eltast við fréttir af því, sem mölur og ryð granda hvort sem er?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 11:33
Byrgið og SÁÁ
Athyglisvert var að sjá viðbrögð Þórarins Tyrfingssonar formanns og yfirlæknis SÁÁ við hörmungunum í Byrginu. Hann snaraði sér í sjónvarpið, snöfurmannlegur að vanda og lýsti yfir vandlætingu (heilagri?) sinni á því, að Hvítasunnumenn yrðu látnir taka við vistmönnum úr Byrginu. Kappinn taldi nefnilega, að meðferð gegn eiturlyfjum ætti að vera fagleg", hér væri sko um sjúkdóm að ræða. Því til staðfestingar vitnaði hann meira að segja í Alþjóða heilbrigðisstofnunina. Og hana nú!
Ég man ekki betur en SÁÁ hafi verið stofnað að tilstuðlan fyrrverandi drykkjumanna, sem að eigin reynslu voru sannfærðir um, að best færi á því, að meðferðastofnanir væru reknar af þeim, sem sjálfir hefðu sigrast á ofneyslu, hvort heldur var áfengis eða eiturlyfja.
Auðvitað þurfa meðferðastofnanir að nýta sér þjónustu lækna og annars hjúkrunarliðs, enda koma margir í meðferð, beinlínis í hættulegu ástandi. Hinu má ekki gleyma að það er til lítils að koma mönnum í þokkalegt líkamlegt ástand ef ekki fylgir meðferð á andlegu ástandi og félagsleg úrræði þar sem þeirra er þörf. Aðalatriðið er, að meðferðin sé rekin í anda AA-samtakanna, sem m.a. byggir á trúarlegum grunni. Það má aldrei gleyma því, að þann sem ekki trúir á æðri mátt, skortir veg til að fóta sig á.
Hitt er svo annað mál, eins og svo átakanlega sannaðist í Byrginu, að að allar stofnanir, sem annast meðferð eiturlyfja- og drykkjusjúklinga, verða að vera undir opinberu eftirliti. Það á jafnt við um Hlaðgerðarkot, sem Hvítasunnumenn reka og Staðarfell, sem SÁÁ starfrækir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)