Færsluflokkur: Bloggar
6.3.2007 | 10:29
"Sérframboð" - rödd grasrótarinnar
Orðið sérframboð" lætur í eðli sínu dálítið ólýðræðislega í munni, enda er það helst notað af andstæðingum þeirra, sem fyrir viðkomandi framboðum standa. Það felur í sér, að slíkt framboð snúist um eitt afmarkað málefni, í besta falli tvö eða þrjú. Að öðru leyti séu fulltrúar viðkomandi framboðs ómarktækir í þjóðmálaumræðunni.
Framboðum sem þessum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Eitt einkenna þeirra er, að þau ná oftast mun meira fylgi í skoðanakönnunum en sem nemur því fylgi, sem talið er upp úr kjörkössunum. Það breytir ekki því, að fjölgun þessara framboða er umhugsunarefni og ætti alveg sérstaklega að vera það fyrir forystumenn fjórflokksins. Hvernig stendur t.d. á því, að nátturuverndarsinnar treysta Vinstri grænum ekki betur en svo, að þeir vilja frekar stofna til sérstaks framboðs, en að vinna með þeim? Og hvað veldur því, að öryrkjar og eftirlaunaþegar fylkja sér ekki í raðir Samfylkingarmanna?
Nú veit ég, að ýmsir svara því til, að það sé ekkert samasemmerki milli þess að vera náttúruverndarsinni og hins, að vera sósíalisti, né heldur þess, að framfleyta sér á eftirlaunum eða tryggingagreiðslum og þess að vera krati. En það breytir ekki því, að hvorki náttúruverndarsinnar né öryrkjar og eftirlaunafólk, telja sig geta treyst fjórflokknum fyrir hagsmunum sínum og hugðarefnum. Það er kjarni málsins.
Vissulega er það rétt, að þeir flokkar, sem bjóða fram til þings í krafti einstakra mála, eru gjarnan nokkuð einhæfir í málflutningi sínum. En er það eitthvað sérstakt? Hvað um fjórflokkinn? Ég hef ekki orðið þess var, undanfarna áratugi, að hann sé uppspretta frjórra umræðna. Sannleikurinn er sá, að hann er staðnaður í sérhagsmunagæslu þingmanna og þeirra, sem gera þá út af örkinni.
Hin svokölluðu sérframboð" hafa hingað til ekki átt sér langa lífdaga, jafnvel þótt þau hafi náð fulltrúum inn á þing. En þeim hefur stundum tekist að vekja fjórflokkinn af hans djúpa þyrnirósarsvefni og minnt hann á, að þrátt fyrir allt, er það fólkið í landinu, sem kýs til alþingis og því ef til vill ekki úr vegi að hlusta á það. Þetta, sem margir kalla í daglegu tali sérframboð" eru í raun grasrótarframboð. Skyldi ekki vera kominn tími til þess, að fjórflokkurinn skilji þau einföldu sannindi, að þótt gras sölni að hausti, þá rís það aftur úr sverði að vori?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.3.2007 | 10:45
Kjölturiddari þeysir út í Örfirsey
Röskir menn, Framsóknarmenn. Hver virðir ekki riddarann hugprúða, sem geysist fram á vígvöllinn, eins þótt sverðið sé fallið úr hendi hans, brynjan brostin og skjöldurinn klofinn? Ha, var einhver að tala um Don Kíkóta? Nú jæja, en það skiptir ekki máli, hvort ráðist er gegn óvígum fjandaflokki eða vindmyllum; það þarf ákveðið hugrekki til þess arna. Og það er nauðsynlegt, að geta þanið út bringuna, svo maður sýnist stærri og sterkari, en raun ber vitni, eins þótt maður sé í raun og veru bara lítill kjöltusveinn.
Í pólitíkinni þeysa menn ekki fram á vígvöllinn í bókstaflegri merkingu, nema þá þeir hafi misst tökin eins og Kanar í Írak. Aftur á móti tíðkast þar, að slá um sig með stórkallalegu tali. Og þá þykir nú ekki amalegt, að varpa fram svo stórkostlegum hugmyndum, að allir fái glýju í augun.
Þessi eini borgarfulltrúi, sem Framsóknarmenn rétt mörðu inn í kosningunum í fyrra á 4.056 atkvæðum (85.618 voru á kjörskrá), fer jafnan mikinn. Hann veit sem er, að betra er að veifa röngu tré en öngvu. Sjálfstæðisflokknum hugkvæmdist að launa honum að hafa komið sér í meirihluta, með því, m.a., að gera hann að formanni Faxaflóahafna. Þá stöðu nýtir hann nú, til að koma fram þeirri hugmynd, að hefja stórkostlega landfyllingu í Örfirsey og reisa þar 4000 manna íbúðahverfi.
Þar sem þessi tala er nokkurn vegin jöfn kjörfylgi Framsóknar í Reykjavík, læðist að mér sú hugsun, að þarna, á þessu einna versta veðravíti borgarinnar, standi til að koma fyrir öllum Framsóknarmönnum staðarins. Á þeirri hugmynd er reyndar sá galli, að jarðvísindamenn hafa bent á, að hverfi þetta muni verða landsigi að bráð, auk þess sem hætta á tjóni af völdum jarðskjálfta er mun meiri á landfyllingu en gengur og gerist. Og ég verð nú bara að segja það alveg eins og er, að sem náttúruverndarsinni er ég alfarið á móti því, að Framsóknarmönnum sé stefnt í meiri voða en nauðsyn krefur. Þetta er nú einu sinni tegund, sem virðist vera í þann veginn að komast á geirfuglastigið.....
En hæst glymur jafnan í tómri tunnu. Úr kjöltu íhaldsins berast nú hljóð mikil og flytja þann boðskap, að ekkert sé að marka þessa vísindamenn. Kannast nokkur við tóninn úr umræðunum um Kárahnjúka og Reyðarfjörð?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.2.2007 | 13:17
Er maðurinn skynsemisvera?
Er maðurinn, þessi með stóra emminu, skynsemisvera? Svo segja ýmsir. En ég hef mínar efasemdir í þeim efnum. Ég held nefnilega, að tilfinningarnar móti líf okkar mun meira en skynsemin. Tökum einfalt dæmi: Nonni þráði það umfram annað, að eignast einbýlishús í Hafnarfirði. Hann átti litla einstaklingsíbúð í blokk úti á Seltjarnarnesi, en það var ljóst, að jafnvel þótt hann fengi gott verði fyrir hana, nægði það ekki fyrir kaupunum á einbýlishúsi í Hafnarfirði. En það dró ekki úr þrá Nonna eftir einbýlishúsinu.
Þrátt fyrir þetta voru ekki öll sund lokuð. Nonni er í vel launaðri vinnu og hann hefur alltaf staðið í skilum við bankann sinn. Skynsemin leiddi hann því á fund bankafulltrúans hans. Þeir settust niður og reiknuðu dæmið. Jú, Nonni skyldi bara selja íbúðina sína og svipast um eftir einbýlishúsi suður í Hafnarfirði; bankinn hlypi undir bagga með honum. Og þetta gekk eftir.
Nonni beitti sem sagt skynseminni til að losna við íbúðina á Seltjarnarnesi og velja sér hús í Hafnarfirði. Sömuleiðis beitti hann skynseminni til að útvega sér það fjármagn, sem hann þurfti. Allt var þetta gert af mikilli skynsemi, enda er Nonni gæddur henni í ríkum mæli. En það var ekki skynsemin, sem rak hann til Hafnarfjarðar, heldur tilfinningin.
Niðurstaðan er því þessi: Nonni notaði skynsemina, en eingöngu til þess, að uppfylla tilfinningalega þrá sína. Skynsemin er m.ö.o. aðeins tæki, til að ná fram settu marki. Þetta þýðir, að Nonni er tilfinningavera, að vísu skyni gædd tilfinningavera, en það er annar handleggur.
Þetta litla dæmi er aðeins eitt af fjölmörgum, sem nota má, til að sýna fram á, að maðurinn sé tilfinningavera en ekki skynsemisvera. Þannig höfða auglýsingastofur ekki til skynsemi okkar heldur tilfinninga, hvort heldur er í þeim tilgangi, að fá okkur til að kaupa tiltekna vöru eða kjósa ákveðinn stjórnmálaflokk.
Fyrir skömmu skrifaði ég hér á síðunni um nýjustu ljóðabók Hannesar Péturssonar. Ég gríp reglulega til hennar og les stöku ljóð, mér til mikillar ánægju. Það fullnægir ákveðnum þætti í tilfinningalífi mínu, þ.e.a.s. fegurðarþránni. En ég skal fúslega játa, að þessi lestur er ekki skynsamleg iðja, nema það sé beinlínis skynsamlegt, að láta sér líða vel. Um það má að vísu deila, en ég hætti mér ekki út á þann hála ís að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2007 | 11:44
Er Ísland orðið að vígvelli?
Á síðustu jólaföstu fórst ungur maður í bílslysi á Vesturlandsvegi. Mikil umferð var og átti lögregla og sjúkraflutningamenn erfitt með að sinna störfum sínum vegna ruddaskapar vegfarenda. Fólki stóð á sama um örlög þess, sem þarna lét líf sinn; það þurfti að komast leiðar sinnar og öskraði jafnvel ókvæðisorð að lögreglumönnum. Hvern fjandann voru þeir að tefja fólk, sem þurfti að komast leiðar sinnar?
Fjölmiðlar fjölluðu að vonum um þetta og þjóðinni virtist brugðið. Nokkrir hinna æstu vegfarenda, sem gert höfðu hróp að lögreglunni, höfðu manndóm í sér til að hringja í fjölmiðla daginn eftir slysið, og biðjast afsökunar. Víst ber að virða það. En lærði þjóðin sína lexíu? Því miður virðist það ekki vera tilfellið.
Nú um helgina var maður á göngu um eitt af úthverfum Reykjavíkur. Bar þá að fjögur ungmenni á bifreið, og gerðu þau hróp að manninum. Hann sá sér þann kost vænstan að leggja á flótta, en féll þá í opinn brunn frá Vatnsveitu Reykjavíkur. Út af fyrir sig er það íhugunarefni, að borgin skuli ekki ganga betur frá eftir sig, en það er annað mál. Manninum fókst við illan leik að komast að umferðargötu illa slasaður og vitanlega alblóðugur. Þannig á sig kominn reyndi hann að stöðva akandi vegfarendur. En það varð bið á því að einhver kæmi honum til bjargar. Að minnsta kosti tveir eða þrír leigubílstjórar, sem sannanlega sáu manninn, óku á brott.
Afsakið að ég skuli spyrja; er Ísland orðið að vígvelli, þar sem lífshættulegt telst, að rétta náunga sínum hjálparhönd, jafnvel í neyð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.2.2007 | 23:46
Er stjórnarsamstarf Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna líkleg?
Stjórnmál eru full af mótsögnum. Stundum ganga þessar mótsagnir jafnvel svo langt, að þær virðast í fullkomnu ósamræmi við allt það, sem menn eru vanir að taka gott og gilt. Þannig væri það í hæsta máta rökrétt, nú þegar kosningar nálgast, að stjórnarandstaðan kepptist einfaldlega við, að steypa núverandi ríkisstjórn og deila sjálf með sér völdum. En nú hefur Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, kveðið upp úr með það, á landsfundi flokksins, að hann geti allt eins hugsað sér, að mynda ríkisstjórn með öðrum hvorum núverandi stjórnarflokka.
Miðað við stöðu Framsóknarflokksins er ljóst, að Steingrímur er ekki að gefa honum undir fótinn, heldur Sjálfstæðisflokknum. Þar með yrði til ríkisstjórn þeirra flokka, sem lengst bil er á milli á pólitísku landakorti þjóðarinnar. Við fyrstu sýn gæti þetta virst fráleitt, en sé betur að gáð, er þetta ef til vill ekki svo vitlaust.
Vinstri grænir og Sjálfstæðismenn eru á sama máli hvað varðar Evrópumálin. Flokkarnir eru á öndverðum meiði varðandi stóriðju, en fjöldi Sjálfstæðismanna er að hverfa frá stóriðjustefnunni. Þeir hafa einfaldlega ekki áhuga á því, að fylgi flokksins falli niður í 10% eins og Katrín Fjelsted hefur bent á. Þá er eftir skatta- og kjarapólitíkin. Það hefur sjaldnast vafist fyrir stjórnmálaflokkum, að semja um hana, þegar til stjórnarmyndunar kemur.
En hvað um utanríkisstefnuna? Það er einfallt mál; það þarf ekki neina sérstaka söguþekkingu til að gera sér ljóst, að utanríkisstefna verður til meðal stórvelda. Smærri ríki fljóta einfaldlega með straumnum.
Þrátt fyrir hugsanlega samsteypustjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, hlýtur sú spurning þó að vakna, hvað mæli því í mót, að stjórnarandstaðan myndir ríkisstjórn eftir kosningar, hljóti hún til þess þingstyrk. Hvað Frjálslyndaflokkinn varðar er svarið einfalt; hann er úr leik, eftir það sem á undan er gengið síðustu vikurnar. En hvað um Samfylkinguna?
Svo gæti farið, að Samfylkingin og Vinstri grænir næðu hreinum meirihluta á þingi, þótt tæpast sé það líklegt. En hver er stefna Samfylkingarinnar? Það er tæpast seinna vænna, að hún komi í ljós ef flokkurinn ætlar sér sæti í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 23:03
Vor í vændum - fjöll á herðum
Undarlegt er það með mannfólkið, hvað veturinn situr því þungt í sinni. Og samt er komin góa og ekki einu sinni mánuður til vorjafndægra. Það er eins og menn átti sig ekki á því, hér norður í Dumbshafi, að vorið er lengsta árstíðin. Það ber að garði í byrjun mars. Að vísu lætur það lítið fyrir sér fara fyrsta kastið, en loftið fyllist ferskum blæ. Og þá er þess skammt að bíða, að gras taki að grænka upp við húsveggi, og svo lengra og lengra út í garð. Auðvitað getur gert grimmdargadd á miðju vori. En það breytir ekki því, að það er þarna. Og þó er okkur tamt, að bera fjöll á herðum okkar, eins og Stefán Hörður segir í ljóði sínu; Vetrardagur, sem birtist í bókinni Svartálfadans árið 1951.
Vetrardagur
eftir Stefán Hörð Grímsson
Í grænan febrúarhimin
stara brostin augu vatnanna
frá kaldri ásjónu landsins.
Af ferðum vindanna eirðarlausu
um víðáttu hvolfsins
hafa engar spurnir borizt.
Litlausri hrímþoku blandið
hefur lognið stirðnað
við brjóst hvítra eyðimarka.
Undir hola þagnarskelina
leita stakir bassatónar
þegar íshjartað slær.
Á mjóum fótleggjum sínum
koma mennirnir eftir hjarninu
með fjöll á herðum sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 23:09
"Húrra, nú ætti að vera ball" -- á Hótel Sögu
Þau gleðilegu tíðindi hafa borist að klámráðstefna, sem til stóð að halda í Reykjavík, hafi verið blásin af. Ástæðan mun vera sú, að Hótel Saga, sem hafði tekið að sér að hýsa ráðstefnugesti, hætti við það. Það ber að þakka forráðamönnum hótelsins þá ákvörðun. Þá er sérstök ástæða til að þakka Villa borgarstjóra fyrir einarða andstöðu við að ráðstefna þessi færi fram í Reykjavík. Það skemmtilega í því sambandi er, að boragrstjóri bar lítt fyrir sig rökum í þessu sambandi; hér voru það sýnilega tilfinningarnar sem réðu. Það er ánægjulegt, þegar stjórnmálamenn hafa hjartað á réttum stað.
Í gærkvöldi sendi ég út vísu eftir Nile Ferlin í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Lesendum bloggsíðu minnar fækkaði snarlega. En í trausti þess, að þeir fáu, sem eftir voru, séu góðir lesendur, læt ég vængjaþyt Pegasusar enn berast mönnum til eyra undir nóttina. Að þessu sinni varð fyrir valinu ljóðið Umsókn eftir Jón Helgason. Eins og fram kemur í Kvæðabók Jóns, (heildarsafn 1986), er ljóð þetta ort, eftir að landi einn, sem var við nám í kóngsins København, hafði sent Sáttmálasjóði heldur átakanlega umsókn um fjárstyrk.
Umsókn
Ljóð eftir Jón Helgason
Hér kem ég með umsókn, einn aumur þræll
og allt að því hungurmorða,
ég veit ekki hvað er að vera sæll,
ég veit ekki hvað er að borða.
Ég morraði á spítala misserin þrjú,
þá minnkaði lífskrafta forðinn,
en sífellt óx skuld mín, og sjá, hún er nú
um sjöþúsund gullkrónur orðin.
Í gjörvallri ætt minni öngvan ég veit
að í æskunni væri ekki kvalinn
og lifði ekki allan sinn aldur á sveit
unz hann endaði jarðlífið galinn.
Þá sjaldan mér áskotnast eyrisverð
það eyðist í blásnauðar hræður:
það fer til að styrkja´ hina félausu mergð,
mína fátæku velalings bræður.
Nú veist þú, ó nefnd, um minn naumlega hag,
og neitir þú alveg að laga´hann,
þá hef ég ekki annað til athvarfs þann dag
en ólina, lykkjuna og snagann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.2.2007 | 22:09
Þankar út frá vísu eftir Nils Ferlin
Skyldi ekki blessuð menningin, sem okkur er svo töm á tungu, snúast aðallega um það , hvernig fólki gengur að búa á sitt hvorri hæðinni í sama húsinu? Ég veit það ekki alveg fyrir víst. En það hvarflar stundum að mér, að mannlífi öllu sé lifað í einu risastóru fjölbýlishúsi. Og ef til vill svolítið úti í garði að auki. Auðvitað vil ég ekki útiloka, að þetta sé misskilningur. Þó læt ég fljóta með vísu eftir sænska skáldið Nils Ferlin, í ágætri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Ég er nefnilega ekki frá því, að vísan sú arna, skjóti nokkrum stoðum undir skoðun mína. En nóg um það; hér kemur vísan:
Á loftinu er kæti og kliður,
þótt klukkan sé þegar tólf.
Og þá lýstur þanka niður:
að þak mitt er annars gólf!
Jæja, þetta eru nú bara þankar til að bera með sér inn í góða nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 20:41
Fréttamennska fyrir neðan allar hellur
Það er undarleg árátta, sem gripið hefur um sig hjá fjölmiðlum, að lýsa í smáatriðum viðurstyggilegri meðferð kynferðisafbrotamanna á fórnarlömbum þeirra. Eins og heyra mátti í fréttatíma ríkissjónvarpsins nú í kvöld, þá skirrast þeir jafnvel ekki við að lýsa því út í ystu æsar sem gerst hefur. Í þessu tilviki var fórnarlambið aðeins fimm ára gamallt. Hver er tilgangurinn? Hvernig telja viðkomandi fréttamenn, að börnum, sem heyra slíkar fréttir líði? Börn eru vakandi á fréttatíma sjónvarps og heyra því oft fréttirnar án þess að vera sérstaklega að hlusta á þær.
Ég er ekki að saka fréttamenn um slæmt innræti, síður en svo. En skyldi það nokkuð saka, að þeir veltu fyrir sér afleiðingum af svona fréttaflutningi? Ég er sannfærður um, að þetta háttarlag getur skaðað fórnarlömbin, sem í hlut eiga. Og því má heldur ekki gleyma, að svona fréttamennska deyfir siðferðisvitund almennings, þegar til lengdar lætur. Þetta á ekki hvað síst við um blaðamennina sjálfa. Þeir ana sífellt lengra og lengra út í fúafen siðleysisins.
Ef blaðamenn vilja láta taka sig alvarlega, þá verður þeim að vera ljóst, að það er munur á því, sem hægt er að segja í kunningjahópi og hinu, sem menn láta ganga yfir þjóðina. Svona fréttamennska er einfaldlega fyrir neðan allar hellur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.2.2007 | 22:59
Örlög maddömu Framsóknar
Allt hefur sinn tíma og allt hefur sinn stað. Þannig roðar rísandi sól austrið að morgni dags, en hnígur í vestri að kveldi. Eins er það með stjórnmálaflokka, sem og önnur mannanna verk. Það er langt síðan sól maddömu Framsóknar stóð í hádegisstað. Nú er svo komið, að dauft skin frá bjarma hennar ber lítillega við fjallsbrún í vestri.
Menn leita víða skýringa á örlögum þessarar öldnu frúar íslenskra stjórnmála. Sumir nefna langt og ef til vill full tilfinningaþrungið tilhugalíf með Sjálfstæðisflokknum, meðan öðrum verður tíðrætt um forystumennina, bæði þann sem nú situr við stjórnvölinn og hinn, sem stigið hefur til hliðar. Og víst er um það; Halldór Ásgrímsson var ekki frá Hriflu og það er Jón Sigurðsson ekki heldur. Þeir eru báðir praktíst" þenkjandi menn enda menntaðir í viðskiptafræðum. Churchill sagði eitt sinn um forvera sinn í forsætisráðherrastóli Breta, Neville Chamberlain, eitthvað í þá veru, að hann hefði orðið góður bókari á bæjarskrifstofunni í Birmingham. Það ber ekki að lasta slíka stöðu, en ég efast um, að hún útheimti brennandi hugsjónaeld.
Hvað sem því líður, þá hygg ég, að maddömu Framsókn elni nú sóttin, einfaldlega vegna þess, að hún á sér ekki lengur samastað í tímanum. Rætur hennar liggja, fúnar og feysknar, í bændasamfélagi, sem ekki er lengur til. Samvinnuhreyfingin er ekki heldur til, í þeirri mynd, sem áður var. Og það sem verst er, frá sjónarhóli hinnar hrukkóttu og vangafölu maddömu; Vinstri grænir hafa leyst hana af hólmi víðast hvar á landinu. Þeir standa nú uppi, sem baráttumenn fyrir verndun þess lands, sem maddama Framsókn gerði sér forðum háleitar og rómantískar hugmyndir um. Þá var hún rjóð í vöngum og horfði dreymnum augum yfir græna velli. Nú hefur þeim völlum verið drekkt í samræmi við praktískan" þankagang á bæjarkontórnum í Birmingham. Og það var maddaman sjálf, sem drekkti þeim.
Bloggar | Breytt 21.2.2007 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)