Færsluflokkur: Bloggar
13.7.2007 | 13:36
Sovéthugsun á Keflavíkurflugvelli
Fróðir menn segja, að það hafi verið gaman að vera í kommúnístaflokki Sovétríkjanna hér á árum áður, og þeim mun skemmtilegra, eftir því, sem maður hafði krifrað hærra upp metorðastigann. Þeir, sem voru komir upp í efstu lögin, þurftu t.d. ekki einu sinni að aka eftir sömu akgreinum og sauðsvartur almúginn. Ekki sko aldeilis, þeir höfðu sérstakar akgreinar út af fyrir sig. Var þó umferðin ekki mikil, því menn þurftu að bíða þess í mörg ár, að fá að kaupa bíl, það er að segja þeir, sem ekki voru í sérstakri náð.
Nú er verið að innleiða sama kerfi á Íslandi, reyndar ekki á vegum landsins, enn sem komið er, heldur í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þar er nú verið að gera s.k. tilraun, sem gengur út á það, að farþegar á Saga-klass og aðrir vildarfarþegar, komast í gegnum vopnaleit með hraði, meðan sauðsvartur almúginn verður að gera sér biðina að góðu. Að sögn er þetta gert að beiðni Flugfélags Íslands, sem reyndar ber nú enskt nafn, hvert ég hirði ekki um að færa á blað. Það virðist hafa gleymst, að vopnaeftirlitið er á vegum ríkisins og því með öllu óviðkomandi einkaaðilum, hvort heldur er um að ræða einstaklinga eða fyrirtæki.
Ástæða er til að ætla, að dómsmálaráðherra bindi skjótan endi á þessa vitleysu. Ekki veitir af, áður en hún breiðist út til annarra þátta þjóðfélagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.6.2007 | 19:55
Nú þarf að endurrita Íslandsklukkuna
Það er slæmt, að Halldór Laxness sé allur, því nú hefði þurft að endurrita Íslandsklukkuna. Eins og flestir vita, hófst ógæfa Jóns Hreggviðssonar Kristsbónda á Rein, á því, að hann stal snærisspotta. Ekki er að efa, að Jón hugðist nota spottann þann arna sér til hægðarauka við búskapinn. Á 17. öld var hugsunarháttur fólks en svo fornlegur, að þjófnaður taldist mannanna verk. Því var Jón Hreggviðsson dæmdur til hýðingar, en ekki Rein, sú jörð, sem hann leigði af kirkjunni.
Nú eru breyttir tímar, enda mannskepnan alltaf að þroskast. En Íslandsklukkuna verður sem sagt að skrifa upp á nýtt. Oft var þörf, en nú er nauðsyn!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2007 | 23:00
Kvaddur Pétur þulur
Kvaddur í dag frá dómkirkjunni í Reykjavík, Pétur þulur Pétursson í hárri elli. Um hann má segja, að hann hafi verið ötull talsmaður reykvískrar verkalýðsmenningar, líkt og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson forðum. Undarlegt að báðir komu þeir frá Eyrarbakka. Og mætti í þessu sambandi nefna fleiri, þótt ekki hafi þeir komið frá Bakkanum, s.s. Hendrik Ottósson og Harald Jóhannsson.
Pétur var fjarri því að liggja á skoðunum sínum og það gat hvinið í honum. Ég fékk eitt sinn að reyna það á eigin skinni. Þá starfaði ég á skrifstofu Alþýðuflokksins, en þangað hafði nafni hringt og spurt um ákveðin skjöl. Ég spurðist fyrir um þau og var mér tjáð, að þau væri að finna í bankahólfi flokksins. Það var auðvitað sjálfsagt mál, að fræðaþulurinn fengi lykil að því. En úr bankanum kom nafni heldur brúnaþungur; bankahólfið hafði þá reynst tómt. Það var sköruleg ræða, sem ég fékk að heyra daginn þann, bæði um flokkinn og mig. En skemmtileg var hún sökum kyngi málsins. Ég var mjög ánægður meðan á ræðunni stóð, en brosti þó ekki, enda óviðeigandi að gera slíkt, þegar verið er að skamma mann.
Eftir þetta leitaði ég stundum til nafna, þegar mig vanhagaði um fróðleik varðandi sögu Reykjavíkur. Þar kom ég aldrei að tómum kofanum. Víst gátu útúrdúrarnir verið margir og legið víða. En þeir hæfðu bæði efninu og sögumanninum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2007 | 16:33
Svona tala norðanmenn
Ætli það séu ekki tvö ár síðan ég hitti fimm ára strákpjakk fyrir, rétt við skólann í Hveragerði. Ég þekkti svolítið til hans, vissi að hann var að austan í aðra ættina en vestan í hina, þó með viðkomu á Suðurlandi. En hann átti heima á Akureyri. Hann horfði á skólabygginguna og vanþóknunin leyndi sér ekki. Svo sagði hann stundarhátt, þó eins og við sjálfan sig: Skólinn fyrir norðan er miklu stærri". Ég tók pilt tali, og spurði, hvernig stæði á því, að skólinn fyrir norðan væri svona miklu stærri en þessi fyrir sunnan. Og það stóð ekki á svarinu: Þessi er bara fyrir sunnan".
Það er nefnilega það", hugsaði ég með sjálfum mér og hélt áfram göngu minni, ánægður með þennan skelegga fulltrúa norðlenskra menningar, eins þótt hann væri að austan og vestan og svolítið að sunnan að auki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.3.2007 | 23:57
Vangaveltur eftir jarðarför Sveins í Bræðratungu
Í dag fór ég í jarðarför Sveins Skúlasonar í Bræðratungu. Jarðungið var í Skálholtskirkju. Minn gamli kumpán, séra Egill Hallgrímsson jarðsöng og gerði það af mikilli prýði.
Það er annars undarlegt, þegar verið er að jarða fólk. Þar er hinn látni jafnan í öndvegi, ef svo má að orði komast og Guð hafður með, sem einskonar fjarlægt yfirvald, ritúalsins vegna. Þetta á ekki hvað síst við, þegar verið er að jarðsyngja þá, sem haft hafa afgerandi áhrif á umhverfi sitt, eins og Sveinn í Bræðratungu vissulega gerði. Hann var ekki aðeins sveitarstólpi og í hópi áhrifamestu bænda á Suðurlandi, svo sem hæfir bónda í Bræðratungu; hann var einnig litríkur og skemmtilegur maður.
Við dauðlegir menn högum lífi okkar á þennan háttinn eða hinn, með kostum okkar og göllum. Er ekki ómaksins vert að spyrja, hvers vegna? Við því fæst auðvitað aldrei viðhlýtandi svar. En ég er ekki frá því, að skaparinn ætli hverjum sitt hlutverk og veiti okkur vöggugjöf í samræmi við það. Það er svo hvers og eins, að átta sig á því, hvernig úr henni skuli unnið. Óneitanlega hlýtur það oft að vera nokkuð flókið mál, með tilliti til þess, að ekki liggur alltaf ljóst fyrir, hver vöggugjöfun er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2007 | 16:27
Bensíndælur handteknar
Auðvitað ráðið þið hvort þið trúið mér, en þannig er, að ég var rétt að koma frá bensínstöðinni, þar sem ég ætlaði að fylla tankinn. En hvað haldið þið, að hafi gengið á þar? Ja, það var hreint ekki svo lítið. Þarna var mættur flokkur röskra lögreglumanna og sem ég ók upp að einni bensíndælunni, tjáði varðstjóri þeirra félaga mér valdsmannslegri röddu, að þarna væri sko ekkert bensín að fá.
Ha," sagði ég ekkert bensín?"
Nei," svaraði varðstjórinn.
Ég spurði, hvernig gæti staðið á því og ekki stóð á svari: Olíufélögin hafa játað á sig ólöglegt verðsamráð. Þau orð standa. En nú hefur Hæstiréttur sýknað forstjórana, en þeir einir voru dregnir fyrir dóm. Það er því augljóst, að samráðið hefur átt sér stað milli dælanna, einhver er jú sekur í þessu máli." Síðustu orðin lét varðstjórinn falla með þeim þunga, sem valdið eitt veitir mönnum í þar til gerðum stöðum. Að svo mæltu brá hann keðju utan um dæluna, en röskir undirsátar hans, losuðu hana frá jörðu og færðu hana inn í lögreglubifreið. Þangað voru hinar dælurnar á stöðinni þegar komnar. Mér er sagt, að hér hafi verið um samræmdar aðgerðir að ræða og allar bensíndælur landsins hafi því verið handteknar samtímis. Þær geta víst átt von á þriggja til fimm ára dvöl á Litla-Hrauni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.3.2007 | 15:15
Listvinafélag Hveragerðis
Í morgun sat ég skemmtilegan fund í safnaðarheimili Hveragerðiskirkju. Þar var verið að stofna félag, sem ákveðið var, að nefnast skyldi Listvinafélag Hveragerðis. Megin tilgangur þess er, að beita sér fyrir stofnun safns um gömlu Hveragerðisskáldin, sem hér bjuggu um miðja síðustu öld. Hugmyndin er sú, að fá til afnota lítið íbúðarhús og koma þar fyrir bókum Hveragerðisskáldanna, svo og munum úr eigu þeirra. Einnig væri gaman að hafa þarna myndir eftir Höskuld Björnsson og aðra myndlistamenn, sem hér bjuggu. Þetta gæti svo verið til sýnis almenningi. Þá er ætlunin, að nýta veturna til kynningar á gömlu Hveragerðisskáldunum og verkum þeirra, bæði í skólum og víðar.
Fundarmenn í morgun voru yfir tuttugu talsins og var mikill hugur í mannskapnum. Þeir sem gerast félagar næstu tvo mánuðina teljast stofnfélagar. Ef þið viljið fá nánaru upplýsingar, getið þið sent mér tölvupóst. Póstfangið er: phl@simnet.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2007 | 16:10
Vorið er komið
Skyldi hann ekki hafa verið á fimmta árinu, snáðinn sem ég hitti upp úr hádeginu, þegar ég var að klippa viðjuna úti í garði? Þetta var kotroskinn snáði og þegar ég bauð honum góðan dag, var hann sko ekkert að segja hæ", heldur heilsaði eins og maður og bauð góðan dag á móti. Við tókum tal saman. Hann sýndi mér plastkarl, sem hann átti og sagðist vera á leið til vinar síns að leika.
Ég á dót, sem fylgir karlinum, og ætlaði að taka það með", sagði sá stutti og bætti því við, að hann hefði ekki fundið það, en hann mundi finna það seinna. Hann var alveg klár á því, enda er ég viss um, að þetta er reglusamur ungur maður, sem skilur ekki dótið sitt eftir á glámbekk.
En sem sagt, ég er farinn að klippa viðjuna og labbakútar á fimmta ári arka um þorpið því nú er vor í lofti hvað sem líður veðurfregnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2007 | 20:11
Hvað er stjórnarskrá?
Hvað er stjórnarskrá? Ég veit ekki hvort menn leiða oft hugann að þessari spurningu, en tillaga ríkisstjórnarflokkanna um að binda eign þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar í stjórnarskrána, vekur óneitanlega fleiri spurningar en hún svarar. Ég læt lögfróðum mönnum eftir að svara því, hvort þjóð getur átt eign eður ei. En eitt er ljóst; stjórnarskra er grundvöllur lagasetningar! Því verða öll ákvæði hennar að vera sem augljósust, enda má ljóst vera, að sé grunnurinn ekki traustur, er allt, sem á honum er reist, eins og hver önnur markleysa.
Tillaga stjórnarflokkanna um stjórnarskrárbreytingu er í raun innan gæsalappa. Hún er í stuttu máli sagt skilyrt. Grundvallarlög hljóta hins vegar ávallt að vera skilyrðislaus.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.3.2007 | 23:42
Hvers vegna sameinast grasrótin ekki?
Nú bendir allt til þess, að framboðin á landsvísu verði sjö í komandi þingkosningum. Fjórflokkurinn mun að vanda bjóða fram í fernu lagi og Frjálslyndi flokkurinn stefnir á framboð í öllum kjördæmum. Hann mun svo, ef að líkum lætur, renna inn í fjórflokkinn á næsta kjörtímabili og þá með inngöngu í Sjálfstæðisflokkinn. Og þá eru eftir tvö framboð; annars vegar umhverfissinna og hins vegar öryrkja og eldri borgara.
Ég verð að viðurkenna, að eitt af því, sem vefst fyrir mér, er það, að þeir tveir síðast nefndu skuli ekki bjóða fram saman. Sjálfsagt er ýmislegt, sem aðskilur þá, en hitt hygg ég, að sé fleira, sem sameinar þá. Og því má ekki gleyma, að framboð umhverfissinna og framboð eldri borgara og öryrkja eru vaxin af sömu rót, sem sagt skilningsleysi fjórflokksins á vaxandi tilfinningu fólks fyrir því, að tímarnir séu að breytast. Væri ekki hugsanlegur ávinningur í því, að þessir aðilar ræði saman? Það er nú einu sinni svo, að efnishyggjan er orsök þess, að menn vanvirða náttúruna og þessi sama efnishyggjan er megin ástæða þess, að fjórflokkurinn hefur hlunnfarið eldri borgara og öryrkja. Og með leyfi að spyrja; er til sterkara sameiningarafl, en sameiginlegur andstæðingur?
Grasrótahreyfingarnar tvær, umhverfissinnar og eldri borgarar og öryrkjar ættu að minnast þess, að tún nýtist betur en strá á stangli.
Bloggar | Breytt 8.3.2007 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)