Færsluflokkur: Bloggar

Steinn Steinarr LXII

Á síðasta ári voru tvær aldir liðnar frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar.  Þess var að vonum veglega minnst og létu opinberir aðilar ekki sitt eftir liggja í þeim efnum.  Nú, á aldarafmæli Steins Steinarrs, bregður hins vegar svo undarlega við, að ríki og borg sameinast í þögninni.  Sjálfur vakti ég athygli stjórnmálamanna á þessum tímamótum, svo mér er fullkunnugt um, að þau hafa ekki farið fram hjá þeim.  Allir voru þeir sammála um, að vert væri að minnast tímamótanna.  Hvað veldur þá þögn þeirra? 


Steinn Steinarr LI

Bær í Breiðafirði

 

Grænt, rautt og gult.

 

Og golan þýtur

í þaksins stráum.

 

Tvö fölleit andlit

með augum bláum

á eftir mér stara

í hljóðri spurn:

 

Hvert ertu að fara?

 

Fáum er gefin sú list, að gera langa sögu stutta, eins og Steinn gerir í ljóðinu hér að ofan, en það birtist í „Ferð án fyrirheits."  Hvort hér er sögð saga þjóðar eða einstaklings skal ósagt látið, enda skiptir það ekki máli; andblærinn er hinn sami.  Og auðvitað skilur efahyggjumaðurinn Steinn Steinarr eftir spurn í lok ljóðsins: „Hvert ertu að fara?" 

Leiðin er greið eða torfær eftir atvikum, en hún er jafnan vandrötuð.  Þannig er það oftast í þeim skáldskap Steins, þar sem hvorki er farið með gamanmál, né af öðrum sökum ort af ákveðnu tilefni á ytra borði mannlegar tilveru.

 


Steinn Steinarr L

Kvenmannslaus í kulda og trekki,

kúri ég volandi.

Þetta er ekki, ekki, ekki,

ekki þolandi.

 

Þannig kvað Steinn Steinarr eitt sinn, væntanlega að gefnu tilefni.  Í slíku blíðviðri sem nú er, verður ekki skrifað um mann, sem þannig hefur ort.


SteinnSteinarr XXXIV

10 mai.  Í dag eru 68 ár liðin frá því Bretar hernámu Ísland.  Ekki er ætlunin að fjalla um hernámið hér, eða hernámsárin, aðeins minnast lítillega á skrif Steins, sem tengjast stríðsárunum hér heima og víðar. 

Stundum vill gleymast, að Steinn Steinarr var ekki aðeins ljóðskáld; í fórum hans er einnig að finna óbundið mál, þar á meðal þrjár merkilegar lýsingar hans á bæjarbragnum í henni Reykjavík á hernámsárunum.  Þær birtust í Helgarblaðinu haustið 1940; Haustharmar 30. september, It´s a long way, 7. október og Sjö gegn Þebu 14. sama mánaðar.  Allar þessar greinar eru í Kvæðasafni og greinum. Það verður enginn svikinn af lestri þeirra.

Þau eru ekki mörg, ljóðin, sem Steinn orti um stríðið eða í tengslum við það. Flest birtust þau í Ferð án fyrirheits 1942; Hugsað til Noregs, Minnismerki óþekkta hermannsins, Imperium Britannicum og Nýtt kvæði um stríðið.  Síðar kom svo kvæðið Mr. Churchill.  Þá má nefna ljóðið Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld, en það birtist í Spor í sandi.  Háðið og kaldhæðnin sjaldan langt undan, án þess dregið sé úr alvöru málsins.

Í fyrr nefndum greinum Steins frá haustinu 1940 er eins og þetta mikla skáld slitinna skósóla á götum Reykjavíkur sé á vissan hátt orðinn gestur á framandi slóðum, enda þótt hann reyni sem heimamaður, að halda sínu striki.  Það er eins og ýmislegt beri honum fyrir sjónir og til eyrna, sem áður hefði þótt í ólíklegra lagi.  Greinin Sjö gegn Þebu endar svo:

Ég gekk fram hjá mörgum gluggum og horfði á auglýsingaspjöld, sem eru höfð þar til þess að græða á stríðinu.  Það eru meiri lifandis ósköpin, sem allir geta þénað á þessu stríði.  Ég þekki vinnukonu suður í Hafnarfirði, sem hefur fjögur hundruð og eina krónu á mánuði, fyrir utan allt hitt, sem enginn veit um. Fyrir nokkrum dögum var ég sjálfur nærri því búinn að græða tvær krónur á því að vita, hvar Þórsgata er. 

Svo mörg voru þau orð.  Ég er ekki frá því, að þjóðin sé enn á rölti um Skólavörðuholtið, í von um, að geta grætt lítilræði, á því að vita, hvar Þórsgata er.

 


Steinn Steinarr XXXIII

Gott ljóð er eins og eðalvín; það þarfnast ekki skýringa, aðeins þyrstra vara.  En rétt eins og menn geta gert sér það til gamans, að kynna sér uppruna góðs víns, þá spillir það ekki, að þekkja bakgrunn ljóða.  Því er þessa getið hér, að fyrir nokkru fjallaði ég um ljóð Steins, Til minningar um misheppnaðan tónsnilling, þar sem hann minnist vinar síns Jóns Pálssonar frá Hlíð.  Annað erindi þess ljóðs hljóðar svo:

 

Oss vantaði ekki viljann, þótt verkið reyndist lakt.

Vér létum Tarantella,

Nocturne, La Campanella.

Svo gall við hæðnishlátur:

Hvað hefði Friedman sagt?

 

Ég verð að játa, að ég hef aldrei velt því sérstaklega fyrir mér, hver hann var, þessi Friedman, sem þarna er nefndur.  En svo gerist það, eftir að ég fjallaði um ljóð Steins um Jón Pálsson frá Hlíð, að ég fæ tölvupíst frá Pétri Knútssyni, lektor í ensku við Háskóla Íslands, þar sem hann er að velta því fyrir sér, hver hann hafi verið, þessi Friedman, sem Steinn nefnir í ljóðinu.  Upphófust nú þó nokkrar  vangaveltur.  Um tíma leiddu þær okkur á slóðir Bellmans, en hann orti m.a. um vin sinn Friedman, sem líkt og Jón frá Hlíð var tónlistamaður, en dulítið á skjön við hinn eina sanna tón, hvar sem hann er að finna.

Nú jæja, í samræðum nafna míns við félaga hans í Hugvísindadeild kom í ljós, að tvisvar á fjórða áratug síðustu aldar, 1935 og 1938, kom  hingað til lands pólskur píanóleikari að nafni Iganz Friedman (1882 til 1948) og hélt tónleika í Reykjavík.  Hann þótti með snjallari Chopin túlkendum.  Vafalaust hefur þessi maður borist í tal á kaffihúsum borgarinnar, en Steinn Steinarr var sem kunnugt er, þaulsetumaður á slíkum stöðum.  Já, og má raunar merkilegt heita, hafi þennan margrómaða píanósnilling ekki borið á góma í Unuhúsi, þar sem Steinn tæmdi margan kaffibollann um dagana.  Því skal það haft fyrir satt, að nafni minn Knútsson hafi, í félagi við sína kumpána, leyst gátuna um það, hver hann var, Friedman sé, er Steinn Steinarr nefnir í fyrrnefndu ljóði um Jón Pálsson frá Hlíð. 

 


Páll í Litlu-Sandvík

 páll

Eins og ég sagði í upphafi þessa árs, hugðist ég einbeita mér að skrifum um Stein Steinarr, nú þegar öld er liðin frá fæðingu hans og háld öld frá því hann yfirgaf þessa jarðvist.  En ekkert er óumbreytanlegt og verður því nokkurt frávik gert í þessu sambandi.  Spjallið um Stein birtist ekki fyrr en í kvöld.

  

Í dag er til moldar borin á Selfossi, Páll Lýðsson bóndi í Litlu-Sandvík í þeim hreppi, er áður hét Sandvíkurhreppur, en er nú hluti Árborgar.  Raunar var Páll ekki eingöngu bóndi; hann var sagnfræðingur að mennt og er síst á nokkurn mann hallað, þótt sagt sé, að hann hafi setið í öndvegi þeirra, er sinnt hafa sögu Árnessýslu.  Félagsmálafrömuður var hann og mikill.  En látum slíkt liggja milli hluta. 

  

Menn geta viðað að sér fræðum, að hinum mesta dugnaði, en verið um leið þeirrar gerðar, að ekkert kemst frá þeim.  Slíkir menn eru ólíkir Páli Lýðssyni.  Hann var ekki aðeins hafsjór af fróðleik, sem raunar náði langt út fyrir Árnessýslu; nei, hann var og óþrjótandi sagnabrunnur og ávallt reiðubúinn, að liðsinna okkur, sem til hans leituðu.  Sama er mér, hver greinin er; þannig eiga fræðimenn að vera. 

  

Páll var einstaklega skemmtilegur maður í umgengni.  Mikil vinátta var með honum og Sveini Skúlasyni í Bræðratungu.  Það var siður okkar Páls, nokkur síðustu árin, sem Sveins naut við, að heimsækja hann einu sinni á sumri við þriðja mann, Vilhjálm Eyjólfsson á Hnausum í Meðallandi.  Þeir Páll og Vilhjálmur voru báðir hreppstjórar í sinni sveit, áður en sameiningarbylgjan gekk yfir sveitafélögin, en feður þeirra Sveins og Vilhjálms voru skólafélagar í kennaranámi í Flensborg fyrir rúmri öld.  Þeir kumpánar höfðu því margt að skrafa.  Liðnir tímar liðu um stofuna, ekki eins og þurrir stafir á bók, heldur ljóslifandi.  Og ekki var allt bundið okkar jarðvist, sem þar var rætt, enda hugur “gömlu mannanna” víðfemur.

  

Ég hef aldrei haft trú á því, að höfðingdómur manna mótist af völdum og þaðan af síður auði;  Höfðingi er sá einn, sem stendur fyrir sínu og leggur á sig ærna fyrirhöfn, til að koma sjálfum sér og öðrum til nokkurs þroska.  Það var með slíkum mönnum, sem ég naut þess að sitja í stofunni í Bræðratungu. 

  

Nú eru þeir báðir horfnir yfir móðuna miklu, vinirnir Sveinn í Bræðratungu og Páll í Litlu-Sandvík.  Jæja, ekki þjakar þögnin þeirra slóðir nú.  Við Vilhjálmur á Hnausum verðum að geta okkur til um umræðuefnið; enn um sinn.

Þær voru ljúfar stundirnar, þegar hjónin í Litlu-Sandvík, Páll og hans ágæta kona, Elínborg Guðmundsdóttir frá Þorfinnsstöðum í Þverárhreppi í Húnaþingi hinu vestra, heimsóttu okkur hjónin hér í Hveragerði og við þau.  Með þeim hjónum var jafnræði. 

Sorg sækir víða að við fráfall Páls Lýðssonar í Litlu-Sandvík.  Þyngst er raunin vitanlega fyrir Elínborgu, börn þeirra hjóna, barnabörn og aðra nána aðstandendur.  En við erum mörg sem vitum, að ilmur þess vors, sem nú gengur í garð, verður daufari, en við höfðum vænst.


Jólahugvekja

Gleðin er manninum ásköpuð. En líkt og annað í mannlegu eðli, þarfnast hún þó ræktunar. Hún sprettur ekki af sjálfri sér, heldur krefst hún moldar og vatns, eins og hver annar gróður. Moldin er maðurinn sjálfur, vatnið er hugarfar hans.

Nú er ég ekki glöggur maður í stjarnfræði. Þess vegna veit ég ekkert um það, hvort jólastjarnan hefur skinið vitringunum þremur og lýst þeim veginn að jötu jólabarnsins. Samt veit ég, að einmitt þannig var þessu háttað. Stjarnan var gleðin, sem vísaði þeim til frelsunarinnar. Og okkur hinum um leið. Þess vegna eru orðin „gleðileg jól", ekki aðeins ósk um kátínu á tilteknu tímabili ársins, heldur ósk um, að hver sá, sem fær þessa kveðju, megi njóta þeirrar gæfu, að finna gleðina í hjarta sínu og láta hana lýsa sér veginn að jötunni, þ.e.a.s. frelsuninni.

 

Gleðileg jól.


Listamannaskilti í Hveragerði

Á Blómstrandi dögum í Hveragerði nú um helgina, var afhjúpað skilti til minningar um skáldin og listamennina, sem settu svip sinn á þorpið um miðja síðustu öld.  Skiltið stendur á horni Heiðmerkur og Frumskóga, en síðarnefnda gatan var áður kölluð Skáldagatan, enda bjuggu þar flest Hveragerðisskáldanna.  Því miður virðist hafa gleymst að setja nafn fyrsta Hveragerðisskáldsins, Ásgeirs Jónssonar, á skiltið en hann bjó í Hveragerði frá því um áramótin 1933/34 og til 1941. Hér eru tvær ágætis vísur eftir hann:

Ég yrki bara af innri hvöt,

er ég vinn og strita.

En ekki til að eignast föt,

eða matarbita.

og

Í glasinu freyðir hið gullna vín

með gleðina í hverjum dropa.

Það verkar á mann eins og vitamín.

Viltu ekki fá þér sopa? 

Hér má sjá mynd af skiltinu.      Listamannaskilti


Lönd sem ég hef farið um

heimsótt lönd

Til gamans merki ég hér við þau lönd, sem ég hef komið til.  Reyndar hef ég aðeins farið í gegnum suðaustur hluta Frakklands og Þýskaland í rútuferð.  Það var árið 1978.


Lítið atvik úr bæjarlífinu

Í dag brá ég mér vestur yfir heiðina til Reykjavíkur.  Frábært veður í bænum, eins og reyndar fyrir austan.  Ég var á rölti um bæinn og sem ég gekk austur Leifsgötu og að garðinum þar sem jarnsmiðurinn hans Ásmundar Sveinssonar hamrar járnið, sé ég hvar maður situr þar í tröppunum og er að drekka bjór.  Hann er með bakpoka við hlið sér og plastpoka úr fríhöfninni.  Maðurinn kallar á mig og talar bjagaða sænsku.  Reynist vera Rússi, en sænskur ríkisborgari.  Spyr hvar hann geti fengið vinnu og ódýra gistingu.  Ég bendi honum á gistihús við Snorrabrautina og segi honum að hafa samband við Eflingu varðandi vinnu.  Færi nafn stéttarfélagsins fyrir hann í vasabók, sem hann réttir mér.

„Hvernig vinnu er hægt að fá hér"? spyr Rússinn, sem reyndar kom til landsins í dag.  Ég segi honum, að það sé helst að fá eitthvað að gera á veitingahúsum, í byggingavinnu eða fiskvinnu úti á landi.  Honum líst ekkert á að vinna í veitingahúsi.  Segist vera kominn til Íslands til að hefja nýtt líf.  Vanur fiskvinnu frá Rússlandi, segir hann.  „Í nefinu á mér ilmar fiskur eins og Chanel 5", bætir hann við til skýringar.  Og hefur ekkert á móti byggingavinnu.  Við kvöddumst með handabandi.  Þegar ég hafði gengið nokkur skref frá honum, kallaði hann til mín og spurði, hvort ég reykti.  Ég sagði sem satt var, að það gerði ég ekki.  „Allt í lagi, þú gefur þá vini þínum sígaretturnar", kallaði hann til mín og henti til mín sígarettupakka.

„Skyldi þessi náungi vera alvarleg ógn gegn íslenskri menningu?" hugsaði ég með mér og gekk yfir Snorrabrautina í átt að Klambratúni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband