Færsluflokkur: Bloggar

Armæða Samfylkingarinnar

Enn hrynur fylgið af Samfylkingunni, ef marka má skoðanakönnunina, sem Blaðið birti í dag og er nú komið niður fyrir fimmtung kjósenda.  Ýmsir hafa leitað á þessu skýringa og sýnist sitt hverjum.  Sumir kenna Ingibjörgu Sólrúnu um ófarir flokksins.  Ég tel það að ýmsu leyti ómaklegt.  Hvað sem segja má um pólitík hennar, þá kjósa flokkar sér leiðtoga í samræmi við líðandi stund.

Samfylkingin er bræðingur úr Alþýðuflokknum, Kvennalistanum og „intellíugensíuarmi" Alþýðubandalagsins.  Alþýðuflokkurinn átti rætur sínar í verkalýðshreyfingunni, Kvennalistinn sótti fyrst og fremst fylgi sitt til borgaralegra menntakvenna og „intellíugensíuarmur" Alþýðubandalagsins var eingangraður og í litlum tengslum við almenning í landinu.  Það fólk, sem þarna var, fyrirleit Alþýðuflokkinn, m.a. vegna langs stjórnarsamstarfs hans við Sjálfstæðisflokkinn í „Viðreisninni" 1959 til 1971.  Auk þess taldi þetta fólk sig hafa algilda uppskrift af réttlætinu og sannleikanum upp á vasann, fyrir nú utan gáfurnar; þær voru beinlínis yfirþyrmandi, að áliti þess sjálfs.  Kratarnir voru margir hverjir með móral eftir „Viðreisnarárin", auk þess, sem þeir voru farnir að trúa því sjálfir, að þeir væru hálfgerðir kjánar, samanborið við snillingana í gáfumannahópi Allaballanna.  Þetta kom t.d. vel í ljós í framboði Nýs vettfangs til borgarstjórnar árið 1990.

En var sameining flestra vinstri manna í Samfylkingunni þá tómt rugl?  Alls ekki.  Hún var rökrétt framhald þess, að klofningur vinstri aflanna hafði í gegnum tíðina, tryggt Sjálfstæðisflokknum þá yfirburðarstöðu í íslenskum stjórnmálum, sem annarstaðar á Norðurlöndum var í höndum jafnaðarmanna.  Gallinn var bara sá, að í stað þess að gera upp deilumál liðina áratuga, s.s. hermálið, var öllum slíkum óþægindum sópað undir teppi. 

Annað mein fylgdi stofnun Samfylkingarinnar; hún var sameining forustmannanna, ekki fólksins.  Menn skiptu bróðurlega með sér þingsætum og öðrum vegtyllum, en gleymdu fólkinu sem völdin byggðust á.  Þetta hafði m.a. þær hrikalegu afleiðingar, að nú eru öryrkjar og eftirlaunaþegar alvarlega að huga að stofnun stjórnmálaflokks.  Og eru þó tveir flokkar fyrir í landinu, sem telja sig sérlega umboðsmenn þeirra, sem minna mega sín.

Megin afleiðing þess, að gömul deilumál voru ekki gerð upp, þegar Samfylkingin var stofnuð, er sú, að flokkurinn á erfitt með að móta sér stefnu í mikilvægum málum.  Það er slegið í og úr í stóriðjumálum, stefnan í menntamálum er óljós og kvótamálin tæpast til umræðu, síst af öllu í landbúnaði.  Það er helst, að flokksforustan sé einhuga, þegar hækka á laun þingmanna.  Evrópumálin eru svo sér kapituli út af fyrir sig.  Það er nefnilega deginum ljósara, að við Íslendingar getum rifist endalaust um það, hvort við eigum að ganga í Evrópubandalagið eður ei.  En það breytir engu.  Smáþjóðir eins og Íslendingar móta sér einfaldlega ekki utanríkisstefnu, það gera stórveldin.

Jæja, nóg í bili.

 

 


Velkomnir Færeyingar

Þá eru frændur okkar og vinir, Færeyingar að fara að opna sendifulltrúaskrifstofu í Reykjavík.  Formsins vegna verður hún auðvitað að heyra undir danska utanríkisráðuneytið, enda Færeyjar hluti danska konungsdæmisins-- enn sem komið er.

Þetta er mikið fagnaðarefni allra Færeyingavina á Íslandi.  Bæði munu samskipti þjóðanna aukast og eins er hér stigið skref í átt til sjálfstæðis Færeyja.

Ég hef þrisvar verið í Færeyjum, síðast í desember.  Þá var ég í Nes kommúnu, sem er 1200 manna byggð, eða réttara sagt þrjár byggðir á Austurey.  Stærsta byggðin í þessu sveitarfélagi heitir Toftir og þar búa um 900 manns.  Hinar byggðirnar heita Nes og Saltnes.

Nes kommúna er vinabær Hveragerðis, en ég er formaður Norræna félagsins þar og hef því átt mjög ánægjuleg samskipti við fólkið í Nes kommúnu.  Mér er óhætt að mæla með því, að landinn bregði undir sig betri færinum og heimsæki Færeyjar.  En í guðana bænum, skiljið streituna eftir heima, hún þekkist ekki í Færeyjum.  Til gamans má geta þess, að jeppa, sem við Íslendingar notum gjarnan til upphafningar á eigin ágæti, kalla Færeyingar Íslandsbíla, og brosa út í annað.


Ljóðabók Hannesar Péturssonar, Fyrir kvölddyrum

Fyrir kvölddyrum, sá er titill ljóðabókar Hannesar Péturssonar, sem kom út nú fyrir jólin.  Já, víst er um það, hver maður nálgast þær dyr, sem hann  lokar ekki sjálfur á eftir sér.  Í bókinni gengur Hannes hægum skrefum að þessum dyrum og er athugull, svo sem jafnan í ljóðum sínum.  Þarna er miðlað jöfnum höndum, fegurð, festu og vísdómi. 

Ég hvet ljóðaunnendur til að verða sér úti um þessa bók, þeir verða ekki fyrir vonbrigðum.


Myndbirting Moggans -- tímamót í íslenskri blaðamennsku.

Í gær, föstudaginn 2. febrúar urðu nokkur tímamót í sögu íslenskrar blaðamennsku, þegar Mogginn birti á forsíðu, myndir af fimm hæstaréttardómurum, sem mildað höfðu dóm yfir kynferðisbrotamanni úr tveggja ára fangelsi í eins og hálfs árs fangelsi, eins og héraðsdómur hafði dæmt.  Í dag líkir svo Fréttablaðið þessu framtaki Moggans við gulu pressuna.

Auðvitað er það út í hött, að líkja þessu við gulu pressuna.  Dómarar rökstyðja ekki úrskurði sína í fjölmiðlum og eiga heldur ekki að gera það.  En þegar um er að ræða dóma, sem falla vegna kynferðisofbeldis og það gegn börnum, eins og í þessu tilfelli, þá á almenningur rétt á að vita, hvaða dómarar sjá sérstaka ástæðu, til að fara mildum höndum um menn, sem jafnvel rústa lífi barna með vægast sagt ógeðfelldum hætti. 

Hitt er svo annað mál, að um það má deila, hvort þeir menn, sem fremja kynferðisafbrot gegn börnum, séu glæpamenn eða sjúklingar.  Sjálfur hallast ég að því síðarnefnda.  En þótt glæpur eigi sér sjúklegar rætur, er eigi að síður um glæp að ræða.  Sé hann af sjúklegum toga, má hugsanlega finna einhver ráð, til að gerandinn endurtaki ekki slíkan verknað.  Þeirra ráða ber að leita.  Um leið verður að tryggja öryggi barna, svo sem kostur er.  Það er ekki gert með fárra mánaða vist kynferðisbrotamanna austur á Litla-Hrauni.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband