Spilling er ekki spurning um magn heldur hugarfar

Ýmsir furðuðu sig á því í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar í Samfylk-ingunni, hversu ötullega hún stóð vörð um hagsmuni Baugsfeðga.  Á þá mátti ekki anda, án þess hún sakaði þá sem það gerðu um pólitískar ofsóknir.  Það var engu líkara, en hún starfaði, í hjáverkum þó, sem upplýsingafulltrúi þeirra.  Nú hefur skýringin komið í ljós.

Á því marg umtalaða ári 2006, síðasta árinu, sem flokkarnir gátu haldið styrkjum til sín leyndum fyrir almenningi, þáði Samfylkingin 36 milljónir króna í styrki frá fyrirtækjum.  Þar af kom þriðjungurinn, 12 milljónir frá Baugsfeðgum.  Menn hafa þakkað fyrir minna.

Hér er að vísu um að ræða mun lægri upphæð, en sem Sjálfstæðis-flokkurinn þáði frá FL-Group og Landsbankanum.  Er spilling Sam-fylkingarinnar þá minni en Sjálfstæðisflokksins?  Svarið er nei, spilling er ekki spurning um magn heldur hugarfar. 

Þetta á ekki aðeins við um þá tvo flokka, sem þegar hafa verið nefndir.  Framsóknarflokkurinn þáði á marg um ræddu ári 5 milljónir króna frá byggingarfélaginu Eykt og 4 milljónir króna frá Kaupþingi.  Um allan heim eru byggingarfélög fræg fyrir mútugreiðslur til stjórnmálaflokka og fulltrúa þeirra.  Og hvaðan skyldu bankar fá fé til að styrkja stjórnmálaflokka um stórfé?  Þá peninga fá þeir frá viðskiptavinum sínum; óspurðum. 

Það væri óðs manns æði, að ætla að fara að elta ólar við allar vammir og skammir þeirra þriggja stjórnmálaflokka, sem við sögu koma í þessu spillingarmáli og hæpið, að öll kurl séu enn komin til grafar. 

Svo virðist, sem Vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn hafi staðið utan við þessa spillingarhringiðu.  Vonandi er það rétt.  Það verður óneitanlega fróðlegt að sjá, hvort fólk kastar atkvæðum sínum á glæ, með því að kjósa yfirlýsta spillingarflokka.  Hinu má ekki gleyma, að þótt spilling ríki innan tiltekinna flokka, er ekki þar með sagt, að allir flokksmenn hafi tekið þátt í henni, jafnvel geta sumir forystumannanna staðið utan spillingarinnar.  En menn verða þá að gera hreint fyrir sínum dyrum, undanbragðalaust, en ekki með aumkunarverðum kattaþvætti, eins og t.d. Guðlaugur Þór stundar nú frammi fyrir alþjóð.  Og flokkarnir verða að losa sig við spillta stjórnmálamenn, ekki eftir kosningar, heldur fyrir þær.  Að öðrum kosti getur almenningur ekki kosið út frá fjölmörgum brýnum viðfangsefnum líðandi stundar, heldur út frá spillingunni einni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Spilling er ekki spurning um magn heldur gæði!

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.4.2009 kl. 14:16

2 Smámynd: Ibba Sig.

En sjallar eru búnir að gefa það út að allir styrkir undir 5 millum séu í lagi....allavega þegar þeir fá þá. Gildir ekki hið sama um aðra?

Ibba Sig., 14.4.2009 kl. 15:14

3 identicon

Þú verður nú að flytja aðeins frambærilegri rök fyrir því að Ingibjörg Sólrún hafi staðið sérstakan vörð um Baugsfeðga en að "ýmsir" hafi furðað sig á því.

Hvar og hvernig á þessi vörn að hafa farið fram? Hið rétta er að hún gagnrýndi hvernig pólitísku valdi var beitt inn á svið viðskipta í hagsmunabaráttu þegar hið rétta hlutverk ríkisvaldsins væri aðeins að setja almennar og gegnsæjar leikreglur.

Ef þú ert að mislesa hinar frægu Borgarnesræður þá stendur allt sem þar var sagt fyrir sínu: http://www.samfylkingin.is/Fréttirnar/articleType/ArticleView/articleId/201/Eldri-vefur-Samfylkingar-agengilegur/

Arnar (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 15:40

4 identicon

Mér finnst furðulegt hve mörgum af okkar stjórnmálaleiðtogum virðist lítið annt um heiður og mannorð sitt og síns flokks.Kannski halda þeir kjósendur svo trúgjarna að ef upp kemst um vafasamt athæfi þeirra, dugi  að gera lítið úr hlutunum, benda á að aðrir hafi gert það sama, finna "sökudólg, eða segja athæfið "óafsakanlegt,óverjandi og mikil mistök" ( eins og einn fyrrverandi ráðherra gerði nýlega í viðtali) en nú sé búið að kippa öllu í liðinn.

Mér finnst að stjórnmálamenn ættu, þó ekki væri nema í eiginhagsmunaskyni, að sinna sínum störfum þannig að þeir væru hafnir yfir allan grun um hlutdrægni.Ef slíkur grunur kemur upp er það þeirra að eyða honum vilji þeir halda trausti kjósenda.

Agla (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband