Innbrot í tukthús, fyrr og nú

Eins og mönnum er sjálf sagt enn í fersku minni, gerðist sá fáheyrði atburður um daginn, að maður nokkur reyndi að brjótast inn í fangelsið á Litla-Hrauni.  Vissulega er þetta nokkuð furðuleg uppátektarsemi, en þó ekki einsdæmi.  Skal nú vitnað í það merka rit Saga Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson, fyrra bindi:

Um áramótin 1789-1790 var svo mikið drykkjuslark og óspektir í Reykjavík, að stiftamtmanni ofbauð.  Hann lagði því fyrir Skúla landfógeta að hafa þar duglegan mann í sinn stað, sem „pólití".  Hann neitaði því, þareð sjer bæri engin skylda til þess; þetta var rjett, því að heyrði undir sýslumanninn.  Á aðfangadagskvöldið komu þeir bræður Einar Jónsson og Jón Dúkur með fleirum upp í tukthúsið drukknir, og vildu komast inn, og er dyravörður varnaði þeim inngöngu, sló Einar dyravörð.  Skipaði þá stiptamtmaður Sigurði Pjeturssyni sýslumanni að hafa lögreglueptirlit í bænum.

Þetta var sem sagt upphaf nútíma löggæslu í þéttbýli á Íslandi.  Einar Jónsson, sem hér er nefndur til sögu, var á þessum tíma búsettur í Götuhúsum í Grjótaþorpi, en síðar í Þingholtum, raunar fyrstur manna.  Þeir bræður, Jón og hann, voru Skagfirðingar, sem flutst höfðu suður í Víkina.  Ekki er mér kunnugt um afkomendur Jóns og þætti vænt um, ef einhver gæti upplýst mig í þeim efnum.  Hins vegar veit ég, að stór ættbogi er kominn af Einari, og er ég í þeim hópi. 

Ég orti örlítið prósaljóð um Einar og birti það í ljóðabókinni Vökuborg og draums, sem Salka gaf út árið 2006.  Læt þetta fljóta með til gamans.

Götuhúsaslarkarinn

Ekki fer af honum annað sagna en
kotungshokur í Götu, ölæðisinnrás í Múrinn og
landmám í Þingholtum.  Nú jæja, það skilar
hver sínu þótt axarsköft sumra rati í sagnir
meðan tilbreytingarleysið tryggir öðrum eilífa þögn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband