Steinn Steinarr LXIV

Skáldskapur er tvíhöfða skepna, annar hausinn hefur hátt á torgum en hinn stundar feluleik.  Þessa gætir víða í skáldskap Steins og þá ekki síður í því, sem hann lætur hafa eftir sér í blaðaviðtölum og greinum.  Árið 1950, segir hann t.d. í blaðagrein, sem sjá má í „Kvæðasafni og greinum:" 

„Ég veit sáralítið um þessa svokölluðu ljóðlist.  Samt trúi ég því, að Matthías gamli og Einar Ben. hafi verið dýrleg skáld -- og síðan ekkert.  Mér er óskiljanlegt, hvers vegna engir komu í þeirra stað.  Að vísu hefur vinur minn, Sigurður Jónasson, útskýrt þetta fyrir mér, en það er dularfulls eðlis og verður ekki nánar tilgreint hér.  Einnig trúi ég því, að til séu skáld í útlöndum, en það eru undarlegir menn og ekki við alþýðu hæfi.  Um gildi ljóðlistar, andlegt eða líkamlegt, get ég ekkert sagt með neinni vissu.  Heyrt hef ég raunar, að bændur í afskekktum sveitum kunni ennþá fáeinar vísur, sem þeir hafa sjálfir ort, en hér í Reykjavík hef ég aldrei heyrt ódrukkinn mann hafa yfir kvæði síðan haustið 1933."

Svo mörg voru þau orð og ber að taka bókstaflega að hætti Steins.  Sjálfur hef ég aldrei vitað til þess, að Íslendingar  hampi  ljóðlist sérstaklega, nema þá til að verma hjörtu kvenna eða argaþrasast í pólitík og þá oftast með stuðlum og höfuðstöfum.  Er það að vonum, því umrædd þjóð er svo veraldlega þenkjandi, að hún telur jafnvel hamingju sína mælanlega í lítrum eins og mjólk.  Skyldi það ekki bara vera rétt hjá Steini, að ódrukkinn maður hafi síðast haft yfir kvæði á Íslandi haustið 1933.  Sennilega hefur þetta verið um mánaðarmótin september/október.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband