Dauði flokka

Hvað verður stjórnmálaflokkum að aldurstila?  Því er fljótsvarað; tíminn.  Allt hefur sinn tíma og allt hefur sinn stað.  Á sínum tíma átti Framsóknarflokkurinn sér rökréttan tilverugrundvöll.  Sá tími er liðinn.  Einhverjir kunna að ætla, að óæskilegir fulltrúar flokksins á þingi og í sveitastjórnum hafi flýtt þeirri þróun.  Það má rétt vera.  En þeir hafa ekki breytt henni.  Og jafnvel þótt flokkurinn gæti orðið sér úti um betri fulltrúa, kæmi það ekki til með að breyta neinu.  Framsóknarflokkurinn er einfaldlega í andaslitrunum.

En það er einmitt í dauðastríðinu, sem stjórnmálaflokkar verða hættulegir.  Hugsjónirnar, sem forðum komu þeim á legg, eru þá horfnar veg allrar veraldar.  Það er þá, sem fulltrúar þeirra gerast þjónar þeirra afla, sem allir eru í raun sammála um, að aldrei ættu nálægt pólitík að koma.  Hverjum kemur t.d. til hugar, að erlendir auðfurstar eigi að ráða orkunýtingu Íslendinga?  Tæpast mörgum.  En þegar umbúðirnar eru teknar utan af, segjum til að mynda virkjunarstefnu þeirra, sem virkja vilja Bitru, þá blasir þetta við.  Og eru margir sammala því, að lóðabrask innlendra auðfursta eigi að ráða framtíð Laugarvegar?  Það held ég ekki. 

Því miður tekst auðfurstunum og leppum þeirra stundum að slá ryki í augu fólks; um sinn.  Þannig trúa sumir því, að Bitruvirkjun og aðrar virkjanir og meðfylgjandi stóriðja, bjargi atvinnulífi heilu landshlutanna.  Þegar betur er að gætt, kemur hins vegar annað í ljós.  Bitruvirkjun er í Árnessýslu vestarverðri, en það landsvæði er í raun útjaðar Reykjavíkur. Þetta landssvæði er náttúruperla sem stór meirihluti þjóðarinnar hefur greiðan aðgang að. Hvaðan kemur stundargróðamönnum auðs og valda rétturinn til að troða slíka perlu undir skítugum hælum sér?

Ásýnd Reykjavíkur hefur lengi liðið fyrir það, að bænum var  að stórum hluta stjórnað af aðsópsmiklum aðkomumönnum, fyrst dönskum kaupmönnum og síðar dugmiklum mönnum utan af landi.  Þessir menn höfðu ekki þá tilfinningu fyrir bænum, sem heimamönnum er tamt.  Þó tók steininn úr, þegar landsbyggðafólk flæddi yfir bæinn í kreppunni, á hernámsárunum og árunum þar á eftir.  Reykjavík, sem þrátt fyrir allt, var fram að því ákveðin heild, varð að  samskonar óskapnaði og gullgrafaraþorp 19. aldar vestur í henni Ameríku.  Fyrir það líður hún enn.

Á undanförnum árum og áratugum hafa margir risið gegn þessari óheilla þróun.  Torfusamtökin eru gott dæmi þess.  Og þeim öflum hefur vaxið fiskur um hrygg meðal almennings.  Peningaöflin láta sér þó fátt um finnast.  Að koma upp og viðhalda manneskjulegu umhverfi krefst hugsunar og tíma.  Gróðahyggjan þolir hvorugt.  Lítið bara á hörmungarhúsin neðan við Skúlagötu austanverða; þennan svartglerjaða Berlínarmúr auðhyggjunnar.   Hefði hann verið reistur, ef menn hefðu staldrað við og hugsað sinn gang?  Ég held ekki.

Hinn nýi meirihluti borgarstjórnar virðist bæði ælta að þjóna hagsmunum ómennskunnar í byggingarmálum og stóriðjunnar, sem er á góðri leið með að stórlaska allt atvinnulíf landsmanna.  En borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skyldu þá minnast þess, að köld hönd hins pólitíska dauða mun strjúka föla vanga fleiri en Framsóknarmanna.  Meira að segja forystumenn þeirra flokka, sem nú um stundir njóta meira fylgis en Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, mættu gjarnan huga að því sama.  Þeirra tími mun einnig koma.  Stjórnmálaflokkar sem slíkir eru nefnilega stöðugt að glata tilgangi sínum.  Fólk krefst virkara lýðræðis en þess, að fá allra náðasamlegast að afsala sér völdum í hendur flokksgæðinga á fjögurra ára fresti.  Vaxandi fylgi landsmanna við aðild Íslands að Evrópusambandinu stafar þannig ekki hvað síst af þreytu fólks á ráðandi öflum á landi hér.  Við lifum að vissu leyti nýja Sturlungaöld og aldrei að vita nema menn kaupi sér frið frá innlendum stórbokkum, með því að ganga erlendu valdi á hönd, líkt og gerðist á 13. öld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Liberal

Sá hópur bloggara sem notar orð eins og "auðfurstar", "gróðahyggja", og "stundargróðamenn", að ógleymdu "auðhyggja" opinberar sig sem óbreytta sauði í hjörð VGista; íslenska kómúnínsta.

Sem slíkir eru þeir ómarktækir í gagnlegri umræðu því það fyrsta sem fólk skilar inn þegar það gengur VG á hönd er heilbrigð skynsemi. 

"Fólk sem krefst virkara lýðræðis" er fólkið sem kýs flokkana sem eru aldrei við völd.  "Fólk sem krefst virkara lýðræðis" er fólk sem krefst þess að lýðræðið verði í raun aflagt og upp verði tekið skrílræði, þeir sem hæst hafa og mest bægslast fái sínu framgengt í skjóli frekju og yfirgangs.  Það er greinileg krafa VG í borgarpólitíkinni þar sem t.d. Svandís Svavarsdóttir er hneyksluð í hvert skipti sem hún ekki fær að ráða.

Staðreyndin er sú að þjóðin hafnar kommúnistum, sama hversu frábærir þeir sig sjálfir telja og það ber ekki vott um lýðræði að hleypa að minnihlutaskoðunum heilaþveginna sósjalista sem slá um sig með innihaldslausum byltingaslagorðum og sem hafa afsalað sér skynsemi.

Liberal, 17.8.2008 kl. 21:55

2 Smámynd: Sævar Helgason

Tek undir þetta allt sama hjá þér .  Og ekki síst þetta :

Vaxandi fylgi landsmanna við aðild Íslands að Evrópusambandinu stafar þannig ekki hvað síst af þreytu fólks á ráðandi öflum á landi hér.  Við lifum að vissu leyti nýja Sturlungaöld og aldrei að vita nema menn kaupi sér frið frá innlendum stórbokkum, með því að ganga erlendu valdi á hönd, líkt og gerðist á 13. öld.

Sævar Helgason, 17.8.2008 kl. 22:18

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég geri eins og Sævar - tek undir þetta allt. Sannur pistill.

Liberal er augljóslega í þeim hópi sem lýst er svo snilldarlega hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.8.2008 kl. 00:09

4 Smámynd: Einar Indriðason

Og... greinilegt að Liberal er í hópi þeirra sauða, sem blindir elta sinn forystu bjöllusauð, án nokkurrar sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar.

En þetta er annars góður pistill. 

Einar Indriðason, 18.8.2008 kl. 08:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband