27.4.2007 | 23:48
Rannsókn vegna Kárahnjúkaeitursins nú þegar
Þegar Landsvirkjun ákvað á sínum tíma, að taka tilboði ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo um gerð Kárahnjúkavirknunar, urðu ýmsir til að benda á, að stjórnendur þess fyrirtækis væru ekki beint frægir fyrir að vera vandir að virðingu sinni. M.a. var bent á, að framkoma þeirra í garð starfsfólks væri vart sem skyldi og því full ástæða til strangs eftirlits í því sambandi. Atburðir síðustu vikna austur á Kárahnjúkum, sýna svo ekki verður um villst, að þau varnaðarorð áttu rétt á sér.
Óneytanlega skýtur það nokkuð skökku við, að þrjár vikur skuli líða, milli þess að starfsmenn leita til læknis vegna eiturefna í göngunum og heilsubrests af þeirra völdum, og hins, að Vinnueftirlit ríkisins loki viðkomandi göngum. Þá er það ekki síður undarlegt, að félagsmálaráðherra skuli telja slík vinnubrögð eðlileg. Hlýtur sú yfirlýsing ráðherrans að teljast enn undarlegri í ljósi þess, að Impregilo hefur komist yfir læknaskýrslur umræddra sjúklinga, sem vitanlega er ekki aðeins ósiðlegt, heldur ólöglegt með öllu.
Vonandi hefjast lögregluyfirheyrslur yfir yfirmönnum Impregilo innan fárra daga, sem og ítarleg rannsókn á seinagangi Vinnueftirlitsins í þessu máli. Dómstóll götunnar á ekki að fella úrskurð í máli sem þessu, nema því aðeins, að menn vilji auglýsa það sem víðast, að ástæðulaust sé að taka íslensk yfirvöld alvarlega. Út af fyrir sig gæti það sjálfsagt fjölgað tilboðum í virkjunarframkvæmdir vegna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. En er það sú landkynnins, sem Íslendingar sækjast eftir?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þannig háttar til á Kárahnjúkum að Landsvirkjun bauð út eftirlit með framkvæmdunum.
Þessi verktaki hjá Landsvirkjun V-I-J-V er samsteypa Íslenskra og erlendra verkfræðistofa sem ekki bara sjá um að halda verktakanum við efnið heldur var líka nánast falið að gegna hlutverki Vinnueftirlits Ríkisins á staðnum.
Þannig hefur Landsvirkjun búið til fórnarlamb fyrir sig, og sett framkvæmdareftirlitið beggja vegna borðsins.
Ef þeir setja út á vinnu verktakans fá þeir strax inn á borð til sýn kröfur um verktafir og bætur vegna þessa, og svo hamrar Landsvirkjun á þeim til að drífa verkið áfram vegna tafa.
Vinnueftirlitið sést nánast aldrei fyrr en núna við enda framkvæmdanna, og það hefur verið ótrúleg sjón að sjá þessa bílalest koma upp á Kárahnjúka.
Fréttastofu ríkisútvarpsins og vinnueftirlit og eða lögregluna í sömu bílalestini, svona eins og til að sviðsetja fréttir um gjörvileika þessara ríkisstofnana sem fá ekki fjárveitingar til að halda út eftirliti á svæðinu.
Þetta er ekkert nema bölvaður sirkus og sýndarveruleiki.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 28.4.2007 kl. 09:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.