28.4.2010 | 23:54
Spillingaröflin snúast til varnar
Ég verð að játa, að ég hef enn ekki lesið hina einu sönnu Skýrslu. Þó hef ég gluggað í henni. Meðal þess, sem ljóst má vera, er að bankamafían og aðrir fjárplógsmenn mútuðu bæði stjórnmálaflokkum og einstökum stjórnmálamönnum til vinstri og hægri. Fram til ársins 2007 voru þessar mútur að vísu löglegar, en þær voru fullkomlega siðlausar, hvernig sem á málin er litið.
Nú hafa mútuþegarnir og málpípur þeirra snúist til varnar og bera fyrir sig formúlu, sem í stuttu máli gengur út á eftirfarandi: Víst er það ekki nógu gott, samkvæmt siðferðishugmyndum ársins 2010, að þiggja milljónir í styrki" frá vafasömum fyrirtækjum. En fyrir hrunið 2008 ríkti allt annað siðferði. Þá var allt í lagi að gera ýmislegt, sem ekki gengur núna.
Svona tala engir, nema tækifærissinnar, sem halda að siðferði sé skiptimynt á markaðstorgi veraldlegra hagsmuna. Siðferðishugmyndir Vesturlanda urðu ekki til í kjölfar Hrunsins. Þær eiga sér djúpar rætur í sögunni, rætur sem rekja má aftur til Forn-Grikkja, Gyðinga og upphafs kristinsdómsins.
Á frjálshyggjutímanum var þetta siðferði látið víkja fyrir hömlulausri græðgi. Það er óafsaknalegt og því verða mútuþegarnir á þingi og hvar annars staðar sem þá er að finna í stjórnmálum og stjórnsýslu þjóðarinnar að víkja. Að öðrum kosti mun siðleysið festa sig í sessi.
Ég vænti þess, að allir vilji, að friður ríki í landinu. Til þess að svo megi verða, verðum við að hafna hinu afstæða siðgæði" og lúta hinu algilda siðgæði". Með því á ég einfaldlega við, að við verðum að finna okkur sameiginlegan siðferðisgrundvöll. Án hans er lýðræðið markleysa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heyr Heyr. Lýðræði er marklaust án sameiginlegra siðferðisreglna. Virkilegga góður punktur.
Teitur Atlason (IP-tala skráð) 29.4.2010 kl. 04:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.