26.2.2010 | 21:51
Enn ein frestun á skýrslubirtingu rannsóknarnefndar Alþingis
Í skrifum mínum um rannsóknarnefnd Alþingis á hruninu, hef ég gerst svo hátíðlegur, að kalla hana Sannleiksnefndina". Er þar vísað til þeirrar sáttargjörðar sem Nelson Mandela og félagar, gengust fyrir í Suður-Afríku til að ná sáttum milli ólíkra kynþátta og forða landinu þannig frá borgarastyrjöld.
Vissulega hliðraði ég sannleikanu þar nokkuð til, því í sáttargjörðinni í Suður-Afríku var gert ráð fyrir því, að brotlegir menn fengu uppgjöf saka gegn því, að þeir gengust heiðarlega við afbrotum sínum. Sú hugmynd lá ekki að baki skipunar rannsóknarnefndar Alþingis, þótt verkum hennar væri ætlað að lægja öldurnar í samfélaginu, með því, að sannleikurinn væri leiddur í ljós. Þetta gerið ég í ljósi þess, að grunnhugmyndin var svipuð, hér og í Suður-Afríku, þótt aðferðafræðin væri ekki sú sama.
Nú hefur það gerst, að nefndin hefur enn eina ferðina frestað að birta gögn sín, að þessu sinni í tvær til þrjár vikur. Það þýðir, að niðurstöður hennar verða ekki gerðar lýðum ljósar, fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave, þann 6. mars n.k. Það eitt út af fyrir sig gerir þessa atkvæðagreiðslu marklausa. Hvernig á þjóðin að kjósa um Icesave, án þess að hafa fullnægjandi upplýsingar um, hverngi það klúður varð til, hafi það þá verið klúður, en ekki skipulögð glæpastarfsemi?
Ástæðan, sem nefndin gefur nú fyrir frestun á birtingu ganga sinna, er sú, að hún þurfi að fara yfir varnarskjöl 12 einstaklinga, sem við sögu koma í hruninu. Hvers vegna þurfti að gefa þeim tækifæri til varnar áður en gögnin voru birt? Geta þeir ekki varið sig eftir birtinguna?
Ég hef mínar skoðanir á sekt eða sakleysi þeirra, sem þarna koma við sögu. Vera má, að sumir þeirra verði dregnir fyrir rétt. Þar gefst þeim þá tækifæri til að verja sig og vissulega teljast þeir saklausir uns sekt þeirra er sönnuð fyrir dómi.
Beri rannsóknarnefnd Alþingis þetta fólk röngum sökum, getur það vísað málinu til dómstóla. En endalaus frestun á birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis dregur úr trausti almennings á nefndinni og því þingi, sem kaus hana til starfa. Því miður er nú svo komið, að það er mergurinn málsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.