Færsluflokkur: Menning og listir

Almennar vangaveltur um skáldskap

Það eru gömul sannindi og ný, að stundum er lífið lyginni líkast.   Og skáldskapurinn?  Hann er aðeins misjafnlega léttvæg tilraun til að lýsa lífinu.  Og þó; stundum tekst svo vel til, að skáldskapurinn verður á sinn hátt, sannari lífinu sjálfu.   Þetta gerist þó því aðeins, að hann færi lífinu nýja merkingu eða auki að minnsta kosti við þá merkingu þess, sem fyrir er; dýpki hana á sinn hátt.  Þessa er þó ekki að vænta, nema því aðeins, að hugur þess, sem að baki skáldskaparins býr, sé frjáls.

Alexander Solsénitsín lét eitt sinn hafa eftir sér: "Mikill rithöfundur er landi eins og önnur ríkisstjórn.  Þess vegna hefur engin rikisstjórn dálæti á miklum rithöfundum - bara litlum".

Ættum við ef til vill að yfirfæra orðið "ríkisstjórn" á víðara svið?


Hugleiðingar vegna viðtals

Í gær, mánudag, birtist í Morgunblaðinu viðtal við Einar Má Guðmundsson rithöfund.   Þar koma m.a. tvær fullyrðingar af hálfu Einars Más, sem gaman er að velta fyrir sér, þó ekki sé nema út frá tilgangi og eðli skáldskapar.

Fyrri fullyrðingin er þessi “Við þurfum ekki skáldskap í dag, við bara lýsum veruleikanum.  Þetta var leiðarstefið við Bankastræti núll og svo sem Hvítu bókinni líka.  Í þeim skilningi á ég alltaf eitthvað ósagt og þess vegna er frásagnalistin alveg ótæmdandi brunnur”.

           

Í hvaða skilningi er það, að rithöfundur, sem telur samtímann ekki hafa minnstu þörf fyrir skáldskap, telji sig einmitt þess vegna alltaf eiga eitthvað ósagt og að af sömu ástæðu sé frásagnalistin alveg ótæmandi brunnur?

           

Ég hefði nú haldið, að mannskepnan þyrfti alltaf á skáldskap að halda, þó ekki væri til annars, en að sjá lífið og tilveruna í dulítið öðru ljósi en því, sem við öllum blasir.  Sammannleg reynsla krefst einstalkingsbundinnar sýnar og úrvinnslu.  Um það hygg ég raunar að við Einar Már hljótum að vera á sama máli, nema hann sé að boða endurkomu sósíalrealismans, þ.e.a.s. hins “félagslega raunsæis” í skáldskap.  Ekki veit ég.  Hitt veit ég, að sú stefna fer gjarnan harla nærri mörkum skáldskapar og skýrslugerðar, þeirrar gerðar, sem betur sómir sér hjá Hagstofunni en í skáldverkum.

           

Síðari fullyrðing Einars Más í umræddu viðtali, sem ég hnaut um er þessi; ...”en sannleikurinn er aldrei eins og alltaf að skipta um skoðun”.

           

Sé sannleikurinn aldrei eins, hlýtur sú spurning að vakna, hvort hann sé til.  Og sé hann ekki til vaknar önnur spurning, nefnilega sú, hver sé grundvöllur mannlegrar tilveru.  Það skal þó fúslega játað, að menn geta séð sannleikann í nýju ljósi, standi þeir á öðrum sjónarhóli enn fyrr, ýmist vegna ytri aðstæðna eða vegna aukins þroska.  En það er önnur saga, sem m.a. snýr að sannleiksleitinni.

           

Í hinni kunnu metsölubók, Biblíunni, (Jóhannesarguðspjalli 8:31)  hefur guðspjallamaðurinn það eftir Kristi, að sannleikurinn geri menn frjálsa.  Tæpast er þar um að ræða þann breytilega “sannleika”, sem Einar Már talar um í umræddu viðtali.

           

Ekki vissi ég það, að sannleikurinn hefði skoðun.  Hitt er svo annað mál, að menn hafa misjafna skoðun á sannleikanum.  Sumir kjósa að leita hans og fylgja honum, þegar þeir hafa fundið hann.  Slíka menn köllum við leitandi og staðfasta.  Ýmsir gætu jafnvel kallað þá þröngsýna.  Svo eru þeir, sem hafna sannleikanum og víkja sér undan honum.  Þannig ferst hinum ístöðulausu.  Og ekki má gleyma efahyggjumönnum.  Það skyldi þó aldrei vera, að þeir leiti sannleikans umfram aðra menn, en gefi sér það um leið, að þeir muni aldrei finna hann?

           

Hrunið árið 2008 mun vera Einari Má hugstætt nú um stundir.  Ekki eru menn á eitt sáttir um orsakir þess.  Flestum ber þó saman um, að hátt hafi boginn verið spenntur, áður en strengurinn brast. 

           

Öllum má ljóst vera, að skortur á nægjusemi var orsök kreppunnar.  Menn höfnuðu þeim einföldu sannindum, að best sé meðalhófið.  En hvað eru sannindi, þar sem “sannleikruinn er aldrei eins og alltaf að skipta um skoðun”?  Og hvers vegna að skrifa, ef aðeins skal lýst þeim veruleika, sem við öllum blasir?

 

Var Lennon úr Norðurmýrinni?

Mikið var látið með minningu Johns Lennon í Reykjavík um helgina, í tilefni þess, að 70 ár eru liðin frá fæðingu hans.  Allt gott og blessað með það.  En óneitanlega læðist að mér sú hugsun, að allt þetta tilstand sé frekar til upphafningar ekkju hans en honum sjálfum. 

Hver veit?


Landfræðileg þröngsýni í Ríkisútvarpinu

S.l. laugardag hlustaði ég á ágætan útvarpsþátt, auðvitað á Rás 1, aðrar útvarpsstöðvar hlusta ég ekki á, ótilneyddur.  Nema hvað, þarna var verið að kynna málþing um Guðrúnu frá Lundi, sem halda skal n.k. laugardag á Sauðárkróki.

Ég verð að játa, að ég hef aldrei lesið bækur Guðrúnar frá Lundi.  En sem drengur hlustaði ég að þær lesnar í útvarpinu og hafði gaman af.  Ég man aðeins óljóst um hvað þær fjölluðu, en samt sitja þær í minni mér, eftir öll þessi ár.  Slíkt verður tæpast sagt um marklaus ritverk. Sennilega er orðið tímabært, að glugga í verk þessar ágætu skáldkonu. 

Nú jæja, í umræddum útvarpsþætti var spjallað við nokkra ágæta menn og konur, sem munu fjalla um Guðrúnu og verk hennar á þessu málþingi.  En svolítið þótti mér skjóta skökku við, þegar þáttarstjórnandinn tók það fram, að ástæða þess, að fjallað var um málþingið, viku áður en það skyldi haldið, væri sú, að það væri haldið svo langt í burtu og ekki einu sinni tekið fram, langt í burtu hvaðan.

Nú er það svo með fjarlægðir, að þær mótast að staðsetningu þess, er í hlut á.  Auðvitað er nokkuð langt milli Reykjavíkur og Sauðárkróks, eða Djúpavogs og Sauðárkróks.  Aftur á móti er harla stutt milli Akureyrar og Sauðárkróks eða Siglufjarðar og Sauðárkróks, svo dæmi séu tekin.  Því þóttu mér fyrr nefnd orð hins ágæta þáttarstjórnanda,  bera þess merki, að heimur hans næði ekki ýkja langt austur fyrir Elliðaár.  Það er vitanlega hans mál.  En Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna, ekki „Radio Reykjavík 101".

Vonandi mæta sem flestir á málþingið um Guðrúnu frá Lundi, n.k. laugardag, hvort heldur þá ber langt að, eða skammt.


Á ferð í Kaupmannahöfn í kirkjugarði

Í gær kom ég heim frá Kaupmannahöfn eftir vikudvöl í þessari fornu höfuðborg okkar Íslendinga.  Ég er löngu hættur að hafa tölu á ferðum mínum þangað.  Enn lengra er síðan ég hætti að skilja í sjálfum mér, að geta yfirgefið þessa yndislegu borg.  En nóg um það.

Síðasta daginn minn í Höfn, í þetta skipti, varð mér gengið um „Kirkjugarð vors Frelsara" á Amager, nánar tiltekið við Amagersbro gade. 

Fátt segir meira um fólk en það, hvernig það minnist sinna nánustu.  Við Íslendingar reisum látnum  ástvinum okkar mjög formleg minnismerki; legsteina með nafni hins látna, fæðingar- og dánardægri og þjóðfélagsstöðu.  Látum þess jafnvel getið hvaðan hinn látni hafi verið, vilji svo til, að hann hvíli fjarri ættarslóð.  Sama gildir um búandfólk, sem grafið er í sinni sveit, bæjarnafns er gjarnan getið á legsteininum.  Íslenskir legsteinar eru m.ö.o. sagnfræðiverk, að vísu í knöppum stíl, en sagnfræði þó.  Og þar telst sjaldnast viðeigandi, að opinbera tilfinningar.  Helst að það sé gert á leiðum barna.  Það er ekki laust við, að þessi háttur Íslendinga á gerð legsteina minni á hermannagrafreiti.  Nákvæmni og formfesta eru þar í fyrirrúmi.

Danir virðast minnast sinna ástvina með nokkuð öðrum hætti.  Auðvitað rakst ég á nokkra legsteina í áðurnefndum kirkjugarði, þar sem lesa mátti nafn, fæðingar- og dánardægur o. s.frv. eins og í íslenskum kirkjugörðum.  En meginreglan virtist vera sú, að í stað kaldhamraðra, sagnfræðilegra staðreynda, gaf að líta á legsteinum hug þeirra, sem eftir lifðu, til hins látna.  Á sumum legsteinunum stóð jafnvel aðeins eitt orð „far" eða „mor"; ekkert nafn, ekkert ártal, þaðan af síður stöðuheiti.  En þótt þessir legsteinar segi ókunnugum ekkert um þann, sem þar hvílir lúin bein, þá vita þeir, sem vita ber, hver í hlut á.  Slíkir legsteinar tjá tilfinningar, meðan dæmigerðir legsteinar í íslenskum kirkjugörðum, segja knappa sögu, eins og fyrr segir.

Sinn er siður í hverju landi, enda fer best á því.  En gaman getur verið, að velta fyrir sér menningu jafn skyldra þjóða og Íslendinga og Dana út frá þessari ólíku hugsun varðandi legsteina.  Má vera, að okkar háttur í þessum efnum lýsi því vel, að í fámenninu skal minning hvers sem flestum kunn, meðan fólki í fjölmennari löndum er slík hugsun framandi.  Og hver veit, nema þetta segi nokkuð um bældar tilfinningar okkar Íslendinga og opnara tilfinningalíf frænda okkar Dana?

 

 


Nokkur orð um „kvikmyndagagnrýni" Fréttablaðsins

Skyldi ekki mega telja listgagnrýni hluta þessarar menningar, sem sumir kjósa að skrifa með stóru „emmi"?  Best gæti ég trúað því.  Og þá skýtur þeirri hugsun upp, að íslensk menning sé, þegar öllu er á botninn hvolft, nokkuð góð hugmynd, sem einhverra hluta vegna hefur láðst að koma í framkvæmd.

Því leiði ég hugann að þessu, að í dag birti Fréttablaðið meinta gagnrýni um kvikmyndinda „Boðberinn", sem ég fjallaði um í síðasta spjalli mínu. 

Ekki kannast ég við nafn „gagnrýnandans" og hirði ekki um, að nefna það hér.  En sýnilegt er, að ekki fellur honum umrædd kvikmynd vel í geð.  Hvort þar koma til hans eigin hvatir, eða sú staðreynd, að hann skrifar í málgagn Baugsfeðga, skal ósagt látið.

Nú er það svo, að mönnum er vitanlega bæði frjálst og skylt, að taka afstöðu til þess, sem fyrir augu ber.  Og líki kvikmyndagagnrýnanda ekki við kvikmynd, ber honum að greina frá því.  Þó hlýtur þess að verða krafist af lesendum, að rök fylgi skoðun.  Því fer fjarri, að svo sé í þessu tilfelli.

Svo mjög er „gagnrýnandanum" umhugað um, að rakka kvikmyndina niður, að hann lætur sig ekki muna um, að nota orð eins og „biblíukjaftæði", auk þess, sem eitthvað, sem hann kallar „heimspekivaðal Gunnars Dal" virðist fara sérstaklega fyrir brjóstið á honum.  Ekki færir hann þó nokkur rök fyrir því, hvaða „kjaftæði" sé að finna í Biblíunni, né heldur hinu, í hverju „heimspekivaðall" Gunnars Dal felist og á hvern hátt hans gæti í umræddri kvikmynd.

Þá leikara „Boðberans", sem ekki teljast til fræðgðarmenna íslenskrar leiklistar, afgreiðir „gagnrýndandinn" með því að kalla þá „nóbodía".  Þó undanskilur hann í því sambandi einn, með eftirfarandi orðum:  „Í raun er minn góði kunningi Þráinn Bertelsson eini maðurinn sem heldur hér haus í örsmáu hlutverki ráðherra í ríkisstjórn.  Leikur hans ber svo af að maður á þá ósk heitasta að hann vippi sér bak við myndavélina og reddi þessu".

Ég verð að játa, að það er skilningi mínum ofvaxið, að kunningskapur umrædds „gagnrýnanda" og Þráins Bertelssonar hafi nokkra þýðingu í þessu samhengi.  En óneitanlega leitar orðið smjaður á hugann.

Vonandi á umræddur „gagnrýnandi" eftir að gera sér það ljóst, að enda þótt hjúum beri að þjóna húsbændum sínum dyggilega, er ekki þar með sagt, að þeim sé skylt, að rugla saman eigin hugsunum og þeirra, sem allra náðasamlegast láta molana hnjóta af borðum sínum.

 

 


Boðberinn - kvikmynd, sem þarft er að sjá og hugleiða

Er hægt að reka út illt með illu?  Þetta er spurningin, sem Hjálmar Einarsson kvikmyndaleikstjóri, veltir fyrir sér í mynd, sem frumsýnd var í Sambíói í kvöld.  Eða ætti ef til vill heldur að segja; getur kristinn maður rekið út illt með illu án þess að misbjóða trú sinni og Guði?

Ytri umgjörð myndarinnar er Hrunið, aðdragandi þess og afleiðingar.  Það merkilega er, að myndin varð nær alfarið til fyrir Hrunið haustið 2008.  Það eina, sem vantaði var mótmælafundur á Austurvelli, sem óvænt kom upp í hendurnar á leikstjóranum með Búsáhaldabyltingunni.

Og þó, ef til vill er þetta ekki svo merkilegt; hugsandi menn sáu hvert stefndi.  Og enda þótt Hjálmar sé ungur að árum er hugsunin í lagi.  Menn skyldu varast, að dæma fólk, fyrir það eitt, að vera ungt.

Fjarri sé mér, að fara að gerast kvikmyndagagnrýnandi.  En ég tel ástæðu til að þakka fyrir þessa mynd.  Hugmyndin er frábær, leikstjórnin til fyrirmyndar, myndatakan með ágætum og leikurinn góður.  En það sem mestu máli skiptir er þó þetta: Myndin stillir áhorfendum upp við vegg; hver er ég, hvar er ég staddur, hvað ber mér að gera?  Mikilvægasta spurningin, sem Boðberinn leggur fram er þó þessi:  Get ég, sé mér misboðið, misboðið Guði?

Ég er svo heppinn, að ganga með hatt.  Því get ég tekið ofan fyrir Hjálmari Einarssyni og þeim, sem unnu með honum að gerð þessarar ágætu kvikmyndar. 

Vissulega er spegillinn ekki vinur þeirra, sem flýja vilja veruleikann.  Samt er þarft að líta í hann, m.a. með því að  sjá myndina Boðberann.


"Hveragerði er heimsins besti staður."

IMG_2148

Þessa helgina fer fram sannkölluð blómahátíð í Hveragerði, undir heitinu "Blóm í bæ".  Og það eru orð að sönnu.  Bærinn er bólmum skrýddur og mikið um að vera.  Vestan við barnaskólann er stórt sölutjald með handverksmunum af ýmsu tagi, en norðan skólans hefur verið sett um lítið tívolí.

Á myndinni hér að ofan, sést hverngi gamli barnaskólinn hefur verið prýddur blómum.

 

 

IMG_2153

Við höldum okkur enn við gamla barnaskólann. Norðan við húsið eru sígild ævintýri í blómskreyttri mynd.  Hér gefur að líta Rauðhettu og úlfinn.

IMG_2155

Ef þið stækkið þessa mynd (með því að tvíklikka á hana) og athugið skreytinguna á svölunum, sjáið þið prinsessuna á bauninni, þ.e.a.s þá þekktustu þeirra.

IMG_2158

Hún sést betur á þessari mynd. Kannast einhver við svipinn?

IMG_2156

Hér má sjá dvergana sjö.  Mjallhvít hvílir í kistunni.  Er enginn prins í Hveragerði?

IMG_2167

Torgið í Hveragerði; samspil blóma og blaðra.

IMG_2170

Handverksfólk úr Hveragerði í óðaönn við að koma upp sölubásum í tjaldinu vestan við barnaskólann.

 


Á ferð austur í Meðalland

Í dag, sunnudag, lauk heimsókn Villa á Hnausum hjá okkur hjónum í Hveragerði.  Við lögðum af stað austur í Meðalland síðla morguns.   Ferðinni var fyrst heitið í Skóga á vit fornvinar Villa, Þórðar Tómassonar, safnvarðar þar.  Og ekki í kot vísað.

Þegar við höfðum þegið súpu og kaffi, héldum við með Þórði í megin safnið.  Hann leiddi okkur fyrst að málverki meistara Kjarvals af Eyjólfi hreppstjóra á Hnausum, föður Villa og forvera í hreppstjóraembættinu.  Kjarval var, eins og flestir vonandi vita, fæddur á Efri-Ey í Meðallandi.  Hvort það var Villi eða Þórður, sem lét þess getið, að óljóst væri, hvort myndin væri af Eyjólfi hreppstjóra Eða Skaftfellinum yfirleitt?  Einu má gilda. Á myndinni má sjá Þórð spila Gamla Nóa á langspil. Við Vilhjálum horfum á. Í bakgrunni er myndin af föður hans, Eyjólfi hreppstjóra á Hnausum.

IMG_2104

Lengra var gengið um safnið, enda margs að gæta.  En þar kom, að Þórður bað okkur ganga til kirkju í félagsskap norrænna bræðra og systra.  Raðaði hann fólki þar skörulega til bekkja og settist að því búnu við orgelið.  En áður en upphófst söngurinn, tilkynnti hann gestum, sem satt er, að Villi væri bassasöngvari í sinni sókn.  Lögin voru úr samrorrænum menningararfi, þótt ljóðin séu ort á tungu hverrar þjóðar. 

Aðdáun okkar norrænu bræðra og systra á söng Villa á Hnausum leyndi sér ekki, enda renna þar saman trú og virðing á sönglistinni.  Verður meira krafist?

IMG_2122

Að lokinni þessar heimsókn í Skógum héldum við austur á  Hnausa í Meðallandi.  Þar hefur Vilhjálmur í samvinnu við Þórð á Skógum endurreist  fjósbaðstofu, fjós og smiðju sem reist voru, að minnsta kosti fyrir Skaftárelda, og auk þess stofu.  Er stofan sú merk fyrir þær sakir, að þar gisti forðum Rasmus Christian Rask, stofnandi Hins íslenska bókmenntafélags.  Er ekki vitað til þess, að önnur hús standi, þar sem hann gisti á Íslandi.

 IMG_2130

  IMG_2132

 

 

 

 

 


Heimsókn í Sægreifann

 Hún getur verið heillandi, hún Reykjavík, þegar sá gállinn er á henni.  Þetta fékk ég að sannreyna í dag.  Þannig er, að hann Vilhjálmur hreppstjóri á Hnausum í Meðallandi, er í heimsókn hjá okkur hjónum.   Og í dag brugðum við okkur vestur yfir Hellisheiði á fund Kjartans sægreifa Halldórssonar frá Syðri-Steinsmýri austur þar.  Erindið var, að þeir frændur, Villi og Kjartan gætu skrafað og skeggrætt, svo sem  frændum sæmir.

 

          IMG_2083                                               IMG_2082

Skaftfellingar eru sem kunnugt er, orðvarir menn, svona flestir hverjir.  Fæstum þeirra þykir hæfa, að fullyrða neitt, sem ekki verði staðfest á æðri stöðum.  Minnir þetta nokkuð á Færeyinga.  Breskur herforingi, sem þjónaði í Færeyjum í síðari heimsstyrjöldinni, skrifaði bók um staðarmenn og nefnist hún The land of maybyes.   Vafalaust hefði hann valið bókinni þeirri arna sama titil, ef hann hefði þjónað sínum kóngi í Skaftafellssýslu.  Skaftfellingar eiga það nefnilega sameiginlegt með bræðrum okkar í Færeyjum, að fullyrða ekkert um neitt það, sem ekki verður á þreifað.  Þannig er Villi á Hnausum.

Og þó, það verður ekki þreifað á öllu, sem umhverfis okkur er.  Og þær voru mergjaðar, draugasögurnar, sem Villi á Hnausum sagði Kjartani frænda sínum á Sægreifanum í dag.

Kjartan er ekki í eins góðu sambandi við handanheims verur og Villi á Hnausum.  En góð saga kallar á aðra og því vissara, að hafa eitthvað upp í bakhöndina, þegar sagnamenn ber að garði.  Enda þótt Kjartan lumaði ekki á jafn mergjuðum draugasögum og Villi, kunni hann frá ýmsu að segja.  Þannig var hún ekkert slor, sagan hans af þvi, þegar hann hugðist brugga í tunnu úti í hlöðu á Syðri-Steinsmýri.  En þá vildi svo illa til, að gest bar að garði og féll sá ofan í tunnuna.  Hefði það orðið hans bani, ef Kjartan hefði ekki verið nærstaddur og bjargað honum frá þeim hraksmánarlega dauðdaga, að drukkna í bruggtunnu.

Veitingahúsið Sægreifinn stendur í gömlu verbúðunum vestur undir Slippnum.  Þarna stunduðum við strákarnir úr Vesturbænum og Miðbænum fiskveiðar forðum tíð.  Það voru sæli dagar.  Við ræddum aflabrögð og horfur, að fiskimanna hætti.  Og vorum menn með mönnum.  En hætt er við, að við hefðum bráðnað eins og smjer í tunnu á sólríkum sumardegi, ef aðrar eins yndismeyjar og draumadrottninar og hann Kjartan sægreifi hefur í þjónustu sinni, hefði borðið þar að garði.

Ein fór af vakt og önnur kom, sægreifinn kysstur á kinnina og réttur kúrs tekinn út í lífið og tilveruna, eins og vera ber.  Þegar æskan og ellin mætast við hafið sjálft, er óendanleikinn sjálfur innan seilingar.

Já, og meðan ég man, þökk fyrir matinn, hann samræmdist vel þýðum og um leið gáskafullum andblæ Sægreifans.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband