Færsluflokkur: Menning og listir

Gengur menntun út á samkeppni?

Nú hefur ný Písakönnun leitt í ljós afleitan árangur grunnskólakerfisins hér á landi.  Ekki skal ég neitt um það segja að sinni, hvað veldur.  En þetta er grafalvarlegt mál.  Viðbrögð ónefnds borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við könnunni, valda mér nokkrum heilabrotum.  Hann hefur mestar áhyggjur að því, að samkeppnishæfni nemenda (væntanlega þegar þeir koma úr skóla) muni skerðast. 

Ég hélt að Sjálfstæðisflokkurinn aðhylltist einstaklingshyggju.  Ef marka má orð borgarfulltrúans er það misskilningur; það á sýnilega ekki að mennta börn til að auka andlegan þroska þeirra, heldur til að gera þau að vel smurðum tannhjólum í atvinnulífinu.

Vitanlega þarf menntun að hluta til, að auka möguleika nemenda til að afla sér lífsviðurværis.  En þeir möguleikar aukast sjálfkrafa með auknum þroska þeirra.  En ef til vill snýst málið um hina eilífu spurningu: Hvort kemur fyrst, eggið eða hænan?


Sýning Kristínar frá Munkaþverá

Mig langar svona rétt aðeins til að vekja athygli á mjög góðri myndlistasýningu Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá, sem nú stendur yfir í Studio Stafni, Ingólfsstræti 6.  Ekki seinna vænna, því að dagurinn á morgun, sunnudagur, er síðasti sýningardagurinn.

Þarna gefur að líta tauverk frá árunum 1957 til 1960.  Merkilegt að sjá kraft og hógværð fallast í faðma.

Ekki meira um það; notið tækifærið og komið ykkur á staðinn, þið hafið gott af því.


Hannes Pétursson áttræður

Trumbusláttur og lúðrablástur er ekki viðeigani á áttræðisafmæli Hannesar Péturssonar.  Til þess er skáldskapur hans of sannur og tær í hógværð sinni.

Hannes er hvorki metsöluskáld né stjörnusafnari í orðagjálfri fjölmiðla.  Ljóð hans votta djúpa íhugun og fegurðarþrá.  Eins og hann sjálfur bendir á í viðtali í Fréttablaðinu í dag, er hann ekki þjóðskáld; tími þeirra leið við andlát Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.  Eigi að síður hefur þjóðin vaxið nokkuð við skáldskap hans.


Sigurður dýralæknir

Mikið fjandi var gaman á Sunnlenska bókakaffinu í gær, þar sem kvæðamaðurinn og lífskúnstnerinn Sigurður Sigurðarson dýralæknir kynnti fyrra bindi endurminninga sinna og fór með stemmur í leiðinni í kompaníi með konu sinni Ólöfu Erlu Halldórsdóttur.  Hygg ég, án allrar illkvittni, að við Sigurður getum verið sammála um, að þar fari hans betri helmingur.

Í nokkrum stemmum komu fleiri til leiks, þar á meðal húsbóndinn á bókakaffinu, skrollarinn Bjarni Harðarson, sem sló hinn rétta tón, merkilegt nok.

Nú jæja, ég er byrjaður að glugga í bókina þá arnaOg víst er Sigurður sagnamaður góður.  En þá er ósvarað þeirri spurningu, hvað geri menn að góðum sagnamönnum.   Svarið er að finna í þessari bók; það er græskulaust gaman, sem varpar ljósi, jafnt á léttleika sem alvöru lífsins.  Slík kallast í senn falsleysi og mennska.

Hafi Sigurður bestu þakkir fyrir upplífgandi lesningu.

 


Jónas Jónasson látinn

Margir hafa þegar orðið til að minnast Jónasar Jónassonar útvarpsmanns, en hann lést í fyrrakvöld.  Er þar litlu við að bæta.  Þó skal þess minnst, að árið 1978 fór Jónas til Norður-Írlands, en þar geisaði þá borgarastyrjöld, og gerði útvarpsþætti um ástandi þar.

Ekki vantaði nú fréttaflutninginn frá Norður-Írlandi á þessum tímum.  Sjálfur hafði ég farið þangað sjö árum fyrr og skrifað greinar í Þjóðviljann um ástandið, eins og það kom mér, unglingsstautnum, fyrir sjónir.  Ég læt þessa getið vegna þess, að ég hefði betur farið þangað eftir þætti Jónasar, en ekki fyrir þá.

Í stuttu máli sagt, voru þessir Norður-Írlandsþættir Jónasar langbesta efnið, sem unnið hefur verið fyrir íslenska fjölmiðla um styrjaldafár og aðrar hörmungar í hinum stóra heimi.  Ástæðan var sú, að í stað þess að ræða við stjórnmálamenn, herforingja og embættismenn, eins og fjölmiðlafólki er tamt, talaði Jónas við almenna borgara, sem líða máttu fyrir hörmungar stríðsins.  Og hann ræddi við fólkið af þeim næmleika og þeirri hlýju, er honum var eðlislæg.

Þessir þættir Jónasar voru endurfluttir, að mig minnir fyrr á þessu ári.  En það er ekki nóg, Ríkisútvarpið ætti að gefa þá út á diski, þeir eru sígillt útvarpsefni.

Sé Jónas Jónasson kært kvaddur.


Undarlegar viðurkenningar

Fyrir skömmu sá einhver nefndin, með forstöðumann Orðabókar Háskóla Íslands í broddi fylkingar, ástæðu til að heiðra útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins.  Tilefni þess var, að hann hafði ákveðið, að framlag Íslands til evrópsku söngvakeppninnar skyldi sungið á íslensku.  Undarlegt er, að menn skuli hljóta viðurkenningu fyrir það eitt, að gera sér grein fyrir þjóðerni sínu.

Á s.k. "Degi íslenskrar tungu", 16. nóvember fengu svo afdankaðir skallapopparar, sem áttu sitt blómaskeið fyrir hartnær hálfri öld, sérstaka viðurkenningu menntamálaráðherra, fyrir að hafa alla tíð sungið á móðurmáli sínu.  Var af því tilefni rætt við einn þeirra í fjölmiðlum, hvar hann hefnur nokkurt yndi af að sýna sig.  En það er önnur saga.

Í máli þessa skallapoppara kom fram mikil sjálfsánægja og taldi hann sig og félaga sína hafa synt á móti straumnum, með því að syngja á íslensku á áttunda áratug síðustu aldar.  Þetta er alrangt.  Nefna má fjölda dægurlagahljómsveita og skyldra fyrirbæra, frá þessum tímum, sem sungu lög sín á íslensku: Ríó tríó, Þokkabót, Þrjú á palli, Nútímabörn, Áhöfnina á Halastjörnunni o.s.frv, o.s.frv.

Hvers vegna taldi menntamálaráðherra sérstaka ástæðu til að heiðra Stuðmenn í tilefni dagsins?  Ekki veit ég.  Hitt veit ég, að daginn eftir hélt sá þeirra félaga, sem hældi sér og sínum í fjölmiðlum í tilefni þessa vafasama heiðurs, veislu til að fagna útkomu ævisögu sinnar.  Er Kata litla í menntamálaráðuneytinu ef til vill farin að vinna í hjáverkum á auglýsingastofu skallapoppara?


Gunnar I. Guðjónsson sjötugur

 

 Ja hérna, er ekki Gunnar I. Guðjónsson listmálari orðinn sjötugur, síungur ærslabelgurinn.  Og hélt að því tilefni sýningu í Gallerí Gásum í Ármúlanum um daginn. 

Því miður komst ég ekki á sýninguna fyrr en henni var rétt að ljúka og gafst því ekki tækifæri til að segja frá henni, meðan á henni stóð.  Það verður að hafa það. 

Hitt er annað Gunnar hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér.  Hann málar af fölskvalausri sköpunargleði, sem fáum er gefin nú, á tímum yfirborðsmennskunnar.  Myndir hans eru á sinn hátt, í nánari snertingu við náttúruna en gengur og gerist meðal íslenskra listmálara um þessar mundir.  Litagleðin er ósvikin, oft með suðrænum blæ, enda lærði kappinn kúnstina suður á Spáni forðum tíð.

Til hamingju með afmælið, gamli skarfur og haltu áfram þínum litglaða dansi um Ægissíðuna, Snæfellsnesið og aðrar undraperlur náttúrunnar.


Parísarferð

Um daginn brá ég mér til Parísar í stutta ferð.  Ég hef aldrei áður komið til þeirrar borgar, en það veit sá sem allt veit, að þangað langar mig aftur og þá til lengri dvalar.  Það þarf dauðan mann, til að heillast ekki af þessari borg.

Auðvitað sá ég aðeins brot af París.  Þó fannst mér ég skynja ákveðna mótsögn í andblæ hennar.  Þarna er fjöldi halla, sem bókstaflega geisla af ofhlöðnu prjáli hins gamla konungsvalds.  Vissulega er þetta glæsilegt á að líta, en fáfengilegt um leið.

Þrátt fyrir frönsku byltinguna 1789 og eftirköst hennar 1830, 1848 og 1871 og þrátt fyrir rúmlega 140 ára sögu franska lýðveldsins, er eins og konungsveldið svífi þarna enn yfir vötnum, ekki aðeins í byggingum, heldur einnig í látæði fólks.  Skyldi þó aldrei vera, að þarna blandist saman arfur, sem rekja má aftur til miðalda og sú staðreynd, að enn leikur Frakkland visst hlutverk á taflborði stórveldanna, þrátt fyrir hrun nýlenduveldisins í kjölfar síðari heimsstyrjaldar.  Hver veit?

En um leið og vofa Bourbonanna leikur ljósum logum um Parísarborg, er hún þrátt fyrir allt einnig borg byltinganna.  Sigurboginn, sú rómverska eftirlíking, var reistur til heiðurs Napóleon keisara og hófst bygging hans raunar, meðan keisarinn sá sat enn í hásæti.  En hvergi í heiminum hefur borgarastéttinn reist sér glæstari minnisvarða en í Eiffelturninum.

Það má því með vissum hætti segja, að París sé lifandi sagnfræðiverk.  Aldirnar fljóta á Signu.

 


Tónleikar í Selinu á Stokkalæk

Það er ekki á hverjum degi, sem maður fær tækifæri til að hlusta á tónleika tveggja frábærra ungra hljóðfæraleikara.  Þetta gerðist þó í Selinu á Stokkalæk á laugardaginn, þar sem þær Jane Ade Sutarjo og Hulda Jónsdóttir léku saman, Jane á píanó en Hulda á fiðlu, auk þess, sem Hulda lék sónötu fyrir einleiksfiðlu.

Ég hef ekki fyrr verið viðstaddur tónleika í Selinu á Stokkalæk.  Það verður að segjast eins og er, að hljómburðurinn er með ágætum og ekki spillir fegurð Rangárvalla og fjallasýnin fyrir þrátt fyrir öskufjúk; ósvikið samspil tóna og náttúru.

 


Bókmenntaborg?

Af einhverjum ástæðum hef ég aldrei skilið orðið "bókmenntaþjóð".  Sennilega er þetta vegna þess, að ég tel bókmenntaáhuga bundinn við einstaklinga en ekki þjóðir.   Það að skrifa bækur er verknaður einstaklings og lestur þeirra sömuleiðis.  Að tala um þjóð sína sem "bókmenntaþjóð" er því merki um þjóðrembu.  Og þjóðremba, eins og hver önnur remba, ber fyrst og fremst vott um minnimáttarkennd.

Nú skilst mér, að Reykjavíkurborg hafi sótt um það til UNESCO Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, að verða útnefnd "bókmenntaborg". 

Með leyfi að spyrja; þarf sæmilega menntað fólk á alþjóðlegri viðurkenningu að halda fyrir það eitt, að lesa og skrifa bækur?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband