Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Drukkna menn á þurru landi?

Mikið þótti mér merkilegt, að heyra það á öldum ljósvakans í kvöld, að atvinnulausum unglingum, sem ekki eru í skóla, væri hættara við, að lenda á refilstigum í lífinu, en jafnöldrum þeirra, sem ýmist stunda nám eða vinnu.  Og ekki var nú lakara að heyra, að á þessu hefði verið gerð vísindaleg rannsókn.  Sjálfur menntamálaráðherrann staðfesti meira að segja, að þetta væri ákaflega merkileg rannsókn.

Reyndar hélt ég að það væri þegar kunnugt, að meiri hætta væri á því,að fólk drukknaði í vatni en á þurru landi.  Hefði nú ekki verið ráð, að verja þeim fjármunum, sem kastað var í þessa rannsókn, í að ráða bót á vanda atvinnulausra ungmenna?

 


Hví ertu þögull, Össur minn?

Horfði ekki á Össur Skarp. í Kastljósi í kvöld, það stóð ekki til boða.  Undarlegt að hlusta á þögn hans varðandi stofnfjárbréfin hans í SPRON.  (Ekki svo oft, sem sú þögn býðst.) 

Össur hefur gert það lýðum ljóst, að hann hafi, undir lok níunda áratugar síðustu aldar, keypt þessi bréf og hugsað þau sem lífeyrissjóð fyrir sig og sína.  En þegar hann var iðnaðrráðherra á árunum 2007 til 2009, þótti honum ekki viðeigandi að eiga slíka pappíra, svo hann seldi þá.

Þessi ummæli Össurar vekja þrjár spurningar.  Sú fyrsta er þessi:  Hvernig stóð á því, að iðnaðarráðherrann Össur Skarphéðinsson taldi ekki rétt (væntanlega siðferðilega), að eiga þessi bréf, fyrst umhverfisráðherrann Össur Skarphéðinsson (1993 til 1995) taldi það í stakasta lagi?

Önnur spurning sem vaknar er þessi:  Með tilliti til þess, að stofnfjárbréf í SPRON voru aldrei hugsuð sem tekjulind, fyrr en Pétur Blöndal setti sig í geistlegar stellingar og lét svo um mælt, að stofnfjárbréf væru „fé án hirðis", er ekki úr vegi, að Össur útskýri nánar þessa fjáröflunarleið sína í gengum stofnfjárbréfin.

Þriðja spurningin sem mál þetta vekur er eftirfarandi:  Í ljósi þess, að Össur hagnaðist, að eigin sögn, um 30.000.000 króna á sölu bréfanna, (sem kaupendurnir töpuðu skömmu síðar verulega á) án þess að hafa, einnig að eigin sögn, búið yfir innherjavitneskju, væri fróðlegt að fá að vita, hvort Össur telji það eðlilegt, að menn, sem gefa sig út fyrir að vera leiðtogar í nafni jafnaðarstefnunnar, standi í viðskiptum sem þessum. 

Ég er ekki frá því, að nú vilji þjóðin fá skýringar, sérstaklega við jafnaðarmenn.

 


Að varpa ekki ljósi í Kastljósi

Horfði á Bjarna Ben. í Kastljósi í kvöld.  Undarlegt að hlusta á manninn lýsa hversu vafasöm viðskipti fyrirtækja, sem hann átti hlut í og sat jafnvel í stjórn þeirra, eru honum í raun óviðkomandi.  Sömuleiðis dulítið merkilegt, að heyra hann segja, að það sé í raun allt í lagi að slá lán í banka og geta síðan ekki greitt lánið, slíkt sé einfaldlega eðli bankaviðskipta.  Ég þarf endilega að gauka þessum upplýsingum að útibússtjóranum mínum.

Hugmyndir Bjarna Ben. um Icesave?  Hvern varðar um þær?  Er það ekki eins með stjórnmálin og bankaviðskiptin, allt í plati og ekkert að marka?

Já, og svo haldið sé áfram frá í gær, að vitna í H.C. Andersen, hvað varð aftur um einfætta tindátann?


Jóhanna litla með eldspýturnar

Horfði á Jóhönnu Sig. í Kastljósi í kvöld.  Undarlegt að hlusta á hana lýsa því, að hún sitji stjörf undir fréttum fjölmiðla, þegar þeir flytja tíðindi af uppgangi fjárplógsmanna.  Já, einmitt þessara, sem komu Íslandi á kaldan klaka og fyrirtækjum sínum á hausinn en fá þau nú aftur á silfurfati í gegnum skilanefndir bankanna. 

Aumingja Jóhanna, hún ræður ekki neitt við neitt, situr bara og horfir á sjónvarpið í forundran.  Sjálfsagt hefur hún hlustað á Ólaf Elton í Samskipum, lýsa því yfir, að hann skildi að þjóðin skildi ekki, að hann fengi Samskip aftur.  Og Jóhanna litla horfir.  Hún er greinilega ekki forsætisráðherra með meirihluta Alþingis á bak við sig, heldur bara lítil stelpa með undrun í bláum augum yfir vonsku heimsins;  litla stúlkan með eldspýturnar, sem eyðast svo undurfljótt úr stokknum, meðan náköld auðhyggjan næðir um landið og frystir í hel hverja vonarurt, sem þrátt fyrir allt grær í döprum hjörtum.


Össur Skarphéðinsson á villigötum

Fréttir um að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ætli sér að lauma í gegnum Alþingi frumvarpi, sem heimili honum leyfisveitingu til inn- og útflutnings á efnum sem nota má til framleiðslu efna-sýkla- og kjarnorkuvopna, vekja óneitnanlega ugg.

Frumvarpið mun tilkomið vegna hugsanlegrar koltrefjaverskmiðju Japana á Sauðárkróki.  Mun  Bjarni Ármannsson hafa verið viðriðinn þetta mál og er ef til vill enn. 

Frumvarpinu er ætlað að laða hingað til lands peninga frá japönskum bröskurum, þeirrar gerðar, sem kallaðir eru „fjárfestar".  Slíkir menn þóttu „fínn pappír" fram að haustdögum ársins 2008 og varla trefjanna virði.

Sú var tíð, að Össur Skarphéðinsson gaf sig út fyrir að vera lítt hrifinn að hernaðarbrölti.  Þeir sem þekkja gripinn munu þó lítt undrast sinnaskiptin, enda maðurinn ekki sérlega fastur fyrir.

Athygli verkur, að þrátt fyrir leyndina, sem yfir frumvarpinu hvílir, hafa mótmæli borist úr tveimur áttum, annars vegar frá Félagi lögreglumanna og hins vegar frá Amnesty International.  Vonandi bera þessir aðilar og fleiri, gæfu til að stöðva framgang þessa vítaverða frumvarps.


Útvarpsstjóri verður að víkja

Nú er svo komið, að Ríkisútvarpið er eini fjölmiðill landsins, sem hægt er að gera kröfur til.  Hinir ljósvakamiðlarnir hafa svo sem aldrei verið beysnir.  Hinar s.k. „frjálsu" sjónvarpvarpsstöðvar eru í raun að mestu leyti amerískar myndbandaleigur og innlent efni þeirra, meira og minna stælingar á amerískri lágmenningu.  Einkareknar útvarpsstöðvar virðast, eftir efninu að dæma, fyrst og fremst hugsaðar sem unglingafóður.

Auðvitað hefur Ríkisútvarpið aldrei verið hafið yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk.  En það hefur, umfram aðra fjölmiðla, nálgast þokkalegan fréttaflutning og Rás 1 hefur útvarpað ágætis þáttum.  Sumir þeirra eru unnir af starfsfólki útvarpsins, aðrir aðkeyptir.  Reyndar eru greiðslurnar fyrir aðkeypt útvarpsefni RÚV svo lágar, að menn vinna slíkt efni ekki nema af hugsjónaástæðum.  En það er önnur saga.

Því miður verður að segjast eins og er, að Ríkisútvarpinu hefur nokkuð hrakað í útvarpsstjóratíð Páls Magnússonar.  Ekki er þó alveg víst, að þar sé eingöngu við hann að sakast.  Sú Heimdallarlega ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra og flokks hennar, Sjálfstæðisflokksins, að gera RÚV að ofpnberu hlutafélagi, var tvímælalaust til skaða.

En þótt Páll Magnússon deili sök með Sjálfstæðisflokknum, en innan raða hans er að finna menn, sem vilja Ríkisútvarpið feigt, þá verður því ekki neitað, að Páli hafa verið mislagðar hendur í stöðu útvarpsstjóra.   

Enginn dregur í efa, að þörf er á sparnaði innan RÚV.  En sá sparnaður má ekki bitna á fréttaflutningi, allra síst, eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu.  Spara má á ýmsum öðrum sviðum.  Fyrir það fyrsta mætti lækka laun útvarpsstjóra og láta hann endurgreiða bílafríðindi sín.  Þau flokkast einfaldlega undir spillingu.  Sama er að segja um lestur hans á sjónvarpsfréttum.  Þá mætti að skaðlausu fella Kastljós niður og taka þess í stað upp markvissan fréttaskýringaþátt.  Og umfram allt þarf að leggja af vitleysu eins og þátttöku okkar í evrópsku söngvakeppninni.  Það er einfaldlega út í hött, að kasta milljónum á milljónir ofan í slíkan barnaskap. 

Nú er verið að draga úr fjárframlögum til landshlutastöðva RÚV.  Það er mikill skaði.  Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna, ekki bara Reykvíkinga og okkar nærsveitamanna. Fjölbreytt útvarps- og sjónvarpsefni frá öllum landshlutum er ekki gæluverkefni Ríkisútvarpsins, heldur skylda þess og um leið styrkur.

Enda þótt leiða megi viss rök að því, að ófarir Ríkisútvarpsins undanfarin misseri eigi sér rætur í s.k. „frjálshyggju", verður því ekki neitað, að ábyrgð Páls Magnússonar útvarpsstjóra er mikil.  Vilji svo slysalega til, að fiskifæla sé sett í brúnna, verður hún að yfirgefa dallinn, svo einfalt er það.  Og það er full ástæða til að færa rekstrarform RÚV til fyrri vegar, þó með þeirri breytingu, að stjórnmálaflokkarnir verði ekki einir um að skipa menn í útvarpsráð.  Þar verða aðrir að hafa sína fulltrúa, eins og var á fyrstu árum útvarpsins, svo sem Háskóli Íslands, verkalýðshreyfingin, Neytendasamtökin, vinnuveitendur,  mannréttindasamtök, náttúruverndarsamtök og ýmsir fleiri.


Fresta verður þjóðaratkvæðagreiðslunni

Enn á ný hefur þingskipuð sannleiksnefnd vegna hrunsins neyðst til að fresta birtingu skýrslu sinnar, að þessu sinni fram til mánaðarmóta febrúar/mars.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave er fyrirhuguð 6. mars og því ljóst, að fólki gefst lítið tóm til að lesa skýrsluna fyrir atkvæðagreiðsluna, hvað þá heldur ræða hana.  Það er því eðlilegt, að uppi séu raddir, sem leggja til, að þjóðaratkvæðagreiðslunni verði frestað.  Er enda viðbúið, að ýmislegt komi fram í skýrslunni, sem haft geti áhrif að það, hvernig fólk verji atkvæði sínu í þessu viðamikla máli.

Mér vitanlega hafa engir tekið af skarið og mótmælt frestun þjóðaratkvæðagreiðslunnar, nema formenn þeirra flokka, sem mesta ábyrgð bera á hruninu, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.  Hvað óttast þessir menn, að fram komi í skýrslunni?  Formaður Samfylkingarinnar kýs að þegja þunnu hljóði varðandi þetta mál.  Tengist það ef til vill því, hversu iðnir ýmsir ráðherrar úr þeim flokki hafa verið við að leita sér aðstoðarmanna úr starfsliði Björgólfs Guðmundssonar í Landsbankanum?

 


Þrískipting valds?

Þrískipting valds, milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds er almennt talin undirstaða nútíma lýðræðis.  Verulega hefur þetta stjórnkerfi þótt laskað hér á Íslandi, sérstaklega vegna styrkrar stöðu framkvæmdavalds á kostnað löggjafavaldsins, sem og hins, að framkvæmdavaldið skipar í stöður dómsvaldsins, þ.á.m. hæstaréttardómara.  Að þessum sökum verður Ísland tæpast talið til lýðræðisríkja og alls ekki til þroskaðra ríkja í þeim skilningi.

Leiða má gild rök að því, að sú siðferðiskreppa, sem þjóðin á við að stríða, hefði aldrei komið til, ef ekki væri vegna þessa vanþroskaða lýðræðis.  Einkavinavæðing Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna og eftirlitslaus eftirleikur hennar, væri útilokið í alvöru lýðræðisríki. 

Flestum er ljóst, að mikið uppgjör er nauðsynlegt á Íslandi, eigi þjóðin að rétta úr kútnum, ekki aðeins í fjárhagslegum efnum, heldur fyrst og fremst siðferðilega.  Í þessu sambandi er nauðsynlegt, að framkvæmdavaldið, þ.e. er ríkisstjórnin hætti þegar öllu leynimakki og fari að starfa fyrir opnum tjöldum.  Alþingi verður og að láta til sín taka, með styrkari hætti en verið hefur. 

En ekki má gleyma dómstólunum.  Í dag birtist grein um Icesavemálið í Morgunblaðinu, sem tæpast væri tiltökumál, ef ekki væri fyrir þá sök, að hún er skrifuð af tveimur mönnum, þeim Sigurði Líndal og Jóni Steinari Gunnlaugssyni.  Sá síðarnefndi er sem kunnugt er hæstaréttardómari. 

Nú er ekki að vita, nema ýmislegt eigi eftir að koma í ljós, t.d. í „sannleiksskýrslunni", sem  enn er verið að skjóta á frest að birta, sem geri það að verkum, að mál  komi fyrir dómstóla, þar sem fyrrum handhafar framkvæmdavalds verða látnir svara til saka.  Því verður það að teljast í hæsta máta óheppilegt, að hæstaréttardómari, sé að tjá sig opinberlega um jafn eldfimt efni og hér um ræðir.  Þess utan er það grundvöllur hins þrískipta valds, að hver sitji á sinni þóft og sé ekki að blanda sér í það, hvernig aðrir hagi sínu áralagi.


Borgarskáld, hvað er nú það?

Það er nú svo með hugtök, að þau eru oft flóknari, en ætla mætti í fljótu bragði.  Þetta á t.d. við um hugtakið „borgarskáld".  Eins og ég hef þegar fjallað um á blogginu (2008), samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur það í árslok 1934, að Tómas Guðmundsson væri „borgarskáld".  Þetta var gert í ljósi þess, að hann orti mikið og fagurlega um Reykjavík.

En bæjarfulltrúunum láðist að gæta þess, að Tómas var sveitamaður og orti sem slíkur.  Hann leit bæinn með augum sveitadrengsins úr Grímsnesinu.  Þaðan kemur þokki ljóða hans, sem allt ljóðrænt fólk metur svo mikils, sé það á annað borð handgengið íslenskri ljóðlist.

Annar sveitamaður settist að í Reykjavík á millistríðsárunum og hét sá Aðalsteinn Kristmundsson, betur þekktur sem Steinn Steinarr.  Reykjavík sem slík, varð honum sjaldan yrkisefni.  En hún mótaði skáldgáfu hans.  Hann er því ekki síður „borgarskáld" en Tómas Guðmundsson.  Raunar varð hann Nestor þeirra ungu skálda, sem ýmist uxu úr grasi í Reykjavík (Hannes Sigfússon), eða tóku þar út bókmenntalegan þroska sinn. (Jón Óskar, Einar Bragi, Stefán Hörður Grímsson, o.s.frv.)  Öll urðu þessi skáld fyrir meiri eða minni áhrifum frá Steini.  Raunar gætti áhrifa hans mun lengur, þ.á.m. á þá skáldakynslóð, sem nú telst miðaldra.  Sé þessa gætt, er Steinn Steinarr ekki síður „borgarskáld" en Tómas Guðmundsson.

Svo má ekki gleyma Vilhjálmi frá Skáholti, sem var náttúrulega mesta „borgarskáldið" í þeirri merkingu, að Reykjavík ól hann við brjóst sér; á strætum hennar gekk hann frá vöggu til grafar og orti henni mörg fögur ljóð.

En borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík hefur ekki skilning á þessu.  Það vill eiga sitt „borgarskáld" í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar í árslok 1934.  Hvaða flokkur skyldi hafa verið í meirihluta þá?

 


Er eitthvað að slá út í fyrir ríkissaksóknara?

Í dag er eitt ár liðið frá upphafi búsáhaldabyltingarinnar.  Ríkissaksóknari hefur ákveðið að halda upp á daginn með þeim sérstæða hætti, að birta ákæru gegn níu ungmennum sem í aðdraganda búsáhaldabyltingarinnar, réðust inn í Alþingishúsið þann 8. desember 2008. 

Fjarri sé mér, að mæla því bót, að fólk ráðist inn í Alþingishúsið og slasi jafnvel starfsfólk þingsins, eins og raun varð á í þessu tilfelli.  En tæpast er þó úr vegi, að skoða hlutina í réttu samhengi.  Nokkrum vikum fyrir þennan atburð hrundi bankakerfi þjóðarinnar, eftir að fjárglæframenn höfðu árum saman leikið lausum hala í skjóli „frjálshyggju" Sjálfstæðisflokksins, fyrst með dyggri aðstoð Framsóknarmanna og síðustu mánuðina með hjálp Samfylkingarinnar.  Ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar var ekki aðeins ráðþrota; hún var siðferðislega gjaldþrota.  Gátu menn vænst annars en illinda?

Endanlega sauð svo upp úr þann 20. janúar árið 2009.  Þann dag var lögð fram á Alþingi tillaga nokkurra íhaldspilta um áfengissölu í almennum verslunum.  Var hægt að ímynda sér fáránlegra viðfangsefni fyrir Alþingi, eins og allt var í pottinn búið?

Almenningur lítur á embætti ríkissaksóknara, sem hluta af valdakerfi landsins.  Nú, fimmtán mánuðum eftir hrunið, hefur ekki einn einasti af höfuðpaurum þess verið dreginn fyrir dóm, hvorki menn úr viðskiptalífinu, stjórnmálaflokkunum né embættiskerfinu. 

Væri nú ekki ráð, að þeir sem sköpuðu það ástand, sem olli ólátunum í Alþingsihúsinu þann 8. desember 2008 væru látnir svara til saka, áður en hinir, sem illu heilli misstu stjórn á skapi sínu verða dæmdir, eða er svo komið, að yfirvöld hafa gleymt samhenginu milli orsaka og afleiðinga?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband