Ævisaga Vigurklerks

Mannlegt líf fær ekki þrifist án sögu.  Hún er grundvöllur allrar þekkingar og þar með menningar.  En jafn nauðsynlegt og það er, að menn þekki söguna, þá er mikilvægt, að gera sér ljóst, að hún krefst vissrar fjarlægðar.  Til þess að sjá yfir víðan völl, þurfa menn að hafa gefið sér tíma til að klöngrast upp á sjónarhólinn, dvelja þar um stund og átta sig á útsýninu.  Gefi menn sér ekki þetta tóm, geta þeir aðeins fjallað um það, sem við allra augum blasir; dýptina skortir.

Það er eðlilegt, að menn fjalli um "hrunið" í ræðu og riti.  En ég verð að játa, að ég hef ekki lesið eina einustu þeirra bóka, sem út eru komnar um þetta efni.  Ástæðan er einfaldlega sú, að það er alveg sama, hvaða lærdómstitlum höfundarnir skreyta sig; enn sem komið er hafa þeir aðeins séð yfirborðið og um það vita þeir ekkert meira en ég og allir aðrir.  Mér skilst að vísu, að sumir þessara höfunda segi frá klíkufundum og jafnvel einkasamtölum helstu þátttakenda í "hruninu".  En það má einu gilda; samhengið kemur ekki fyrr en síðar.

Því dettur mér þetta í hug, að ég hef verið að lesa sjálfsævisögu þess merka klerks og alþingismanns séra Sigurðar Stefánssonar í Vigur.  Þegar hann lét af þingstörfum árið 1923 hafði hann setið lengur á þingi en nokkur annar.  Alþingi var á þessum árum lengst af háð annað hvert ár og sat hann alls 26 þing, frá árinu 1886. 

Séra Sigurður lést árið 1924 og lét eftir sig ævisögu sína í handriti. Það er þó loks nú, sem þessi ævisaga kemur fyrir almennings sjónir.  Útgefandi er Sögufélag Ísfirðinga. 

Eðli málsins samkvæmt eru stjórnmálin fyrirferðamikil í þessu riti.  Í ljósi núverandi stöðu þjóðarinnar, er fróðlegt, að lesa þetta rit.  Sérstaklega á ég þar við umfjöllun séra Sigurðar um árin  kringum stofnun fullvalda ríkis á Íslandi 1. des. 1918.  Þar lýsir hann sukki og óráðsíu margra stjórnmálamanna þess tíma. 

Eins og klerkur bendir á, högnuðust Íslendingar mjög fjárhagslega í fyrri heimsstyrjöldinni, vegna hækkandi verðs á útflutningsvörum þjóðarinnar.  Þetta gekk vitanlega til baka að stríði loknu.  En þá áttu ýmsir, ekki síst stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar þess tíma, erfitt með að sníða sér stakk eftir vexti.  Þeir vildu vera menn með mönnum.  "Lausnin" var lántaka í útlöndum. Að vísu var ósvífnin enn ekki komin á það stig, sem síðar varð.  En grunnur vitleysunnar var sá sami og nú, botnlaus minnimáttarkennd kotunga, sem langar til, að teljast menn með mönnum.  Bók þessi er nauðsynleg lesning þeirra, sem vilja leita skýringa á "hruninu" nú.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband