10.12.2009 | 23:30
Vanhugsaður sparnaður borgarstjórnar
Í morgun brá ég mér bæjarleið og fór til Reykjavíkur. Ég var kominn vestur í bæ klukkan 11.00. Það var þungskýað og því rökkur yfir borginni. Samt var slökkt á ljósastaurum. Enda þótt öllu betri bílstjóri en ég sæti undir stýri, var mér órótt; skygni var svo slæmt, að ekki þurfti mikið út af að bera til að illa færi. Gangandi vegfarandi þarf ekki að vera mjög dökkklæddur við slíkar aðstæður, til að sjást illa í umferðinni.
Mér skilst, að borgarstjórn Reykjavíkur hafi bæði látið draga úr ljósastyrk í götulýsingum og ákveðið, að nú skuli slökkt á ljósastaurunum um klukkan 10 á morgnana. Þetta mun vera gert í sparnaðarskyni.
Þetta er sláandi dæmi um yfirborðsmennsku stjórnmálamanna. Og þetta er bæði hættulegt og heimskulegt athæfi. Láti borgarstjórnin ekki af þessum loddaraleik, er það ekki spurning hvort, heldur hvenær einhver verður limlestur eða jafnvel drepinn í umferðinni, beinlínis vegna þessa.
Ætlar borgarstjórinn að leggja krans á leiði fyrsta fórnarlambsins, sem deyr af þessum sökum? Og mun þá ef til vill fylgja borði, sem á stendur hann/hún dó í sparnaðarskyni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.