Ógnar enskan íslenskunni?

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Guðrúnu Kvaran formann íslenskrar málnefndar.  Þar fullyrðir hún, að enskan sé mesta ógn íslenskunnar.  Má vera, að rétt sé.  Þó fer það eftir því, frá hvaða sjónarhóli litið er á málið.

Meðal þess, sem fram kemur í viðtalinu við Guðrúnu, er að fyrir hrunið hafi ensk tunga verið á hraðri leið með að ná yfirhöndinni í viðskiptalífinu.  Það er rétt.  Þetta gekk jafnvel svo langt, að menn töluðu um það fullum fetum, að notast við enska tungu í fyrirtækjum og kenna viðskiptafræði á ensku.

Ég er ekki alveg viss um, að enskan hafi verið hinn raunverulegi ógnvaldur íslenskunnar í þessu tilfelli.  Ef til vill stafaði hættan frekar af minnimáttarkennd og menningarskorti í viðskiptalífinu. 

Í þessu sambandi má heldur ekki gleyma skólakerfinu.  Það er ömurleg tilhugsun, að hægt sé að ljúka kennaranámi á Íslandi án menntunar í íslensku.

Fjölmiðlarnir, ekki síst sjónvarpsstöðvarnar eru svo kapituli út af fyrir sig.  Í raun eru þetta lítið annað en engilsaxneskar myndbandaleigur.  Vitanlega hefur allt það engilsaxneska efni, sem hellt er yfir þjóðina í sjónvarpi, slævandi áhrif á málkennd fólks.  Og ekki nóg með það, þröngsýni Íslendinga varðandi erlend málefni er orðin harla mikil.  Er það að vonum, því fréttirnar, sem fólk fær utan úr heimi, koma nær allar úr sömu áttinni; frá engilsöxum. 

Vitanlega er okkur akkur í því, að kunna ensku.  En nú, þegar hún er eina erlenda tungumálið, sem meirihluti þjóðarinnar er stautfær í, veitir hún okkur ekki frelsi þekkingarinnar, heldur leggur á okkur helsi fáfræðinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Pjetur.

Það er ágætt að hugleiða framtíð íslenskunnar og hvað ógnar henni. Í mínum huga er helsta ógnin við íslenskuna það að þetta tungumál talar varla nokkur maður í heiminum nema Íslendingar. Það eru því átthagafjötrarnir sem íslenskan bindur okkur sem eru helsta ógnin við hana. En svo er það líka kostnaðurinn sem hlýst af notkun hennar, einangrun í samskiptum, tækniþróun, erlent afþreyingarefni o.m.fl. Ef við förum að ganga alla leið í ESB þá segir sig sjálft að Íslenskan verður okkur til trafala þar.

Og í mínum huga er óþarfi að ræða um hvað ógnar íslenskunni. Það sem þarf að ræða er hversu fljótt við getum lagt íslenskuna til hliðar og tekið upp aðra þjóðtungu á Íslandi.

Íslenskan er í dag ekkert annað en vanda-mál sem við Íslendingar keppumst um að láta valda okkur sem mestum vanda. Skrýtið sjálfskaparvíti það.

Það að skipta út tungumálinu fyrir annað tungumál sem fleiri þjóðir tala væri það gáfulegasta sem við gætum gert til lengri tíma litið. Það myndi skapa mörg tækifæri um ókomna framtíð fyrir alla Íslendinga á ótal sviðum og spara gríðarlega fjármuni og tíma og styrkja Íslendinga verulega í samskiptum við aðrar þjóðir.

Jón Pétur Líndal, 10.12.2009 kl. 02:41

2 identicon

Sammála þér Pjetur.

Skrif Jóns Péturs eru hluti af því sem gæti grandað málinu - ömurleg sýn.

Annars hefur því verið haldið fram að setningaskipanin ( sem er á stundum undarleg ) verði aðal orsakavaldurinn ef tungan hrynur.

( það var skutlað mér - t.d. )

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband