8.12.2009 | 16:24
Skammtíma „praktík" og siðblinda
Við Íslendingar erum svolítið það sem kallað er praktískir" í hugsun, ævinlega þó til skamms tíma. Þess vegna önum við út í allskonar vitleysu, sem menn græða á til skamms tíma og tapa svo stórlega á, þegar fram líða stundir. Við erum alltaf að redda" okkur fyrir horn. Álverksmiðjur og stjórvirkjanir eru gott dæmi um þetta.
Þannig átti Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði að fjölga íbúum Austurlands. En hver er raunin? Íbúum hefur ekkert fjölgað þar um slóðir. Og nú heimta Keflvíkingar álverksmiðju vegna þess, að Kaninn er farinn. Ein mjólkurkýrin skal leysa aðra af hólmi, til að forða mönnum frá því, að vinna fyrir sér á sínum eigin forsendum og út frá þeim aðstæðum, sem fyrir hendi eru.
Skyldi þessi skyndilausnahugsun vera tilkomin af því, að okkur skorti siðrænan og heimspekilegan grundvöll; heimskpekilegan í þeim skilningi að okkur skorti dýpri skilning á tilveru okkar og tilgangi. Við höfum aðskilið trúnna frá daglegu lífi okkar og þar með kastað á glæ andlegum verðmætum, sem að stórum hluta lögðu grunninn að menningu okkar. Heimspekin og siðfræðin virðist hins vegar, vera nokkuð sem við höfum alla tíð leitt hjá okkur. Höfum við efni á þessu?
Fyrir skömmu kom upp mál í Reykjavík, sem leiðir hugann að þessu. Maður einn tók upp á því, að græða peninga, með því að selja aðgang að s.k. draugaferðum" um bæinn. Eru göngumenn uppfylltir af hindurvitnum um draugagang í Miðbænum og endað með því að ganga vestur í kirkjugarð. Þar er gengið að tilteknu leiði en þar hvílir lítil stúlka, sem lést úr botlangabólgu. Leiðsögumaðurinn mun hins vegar halda því að fólki, að móðir stúlkunnar hafi myrt hana, vegna þess, að djöfullinn hafi stýrt barninu.
Þór Magnússon fyrrum þjóðminjavörður, skrifaði um þetta í Morgunblaðið 4. des. s.l., enda er honum málið skylt, þar sem stúlkan sem um ræðir var hálfsystir hans. Nú kynni einhver að ætla, að forsvarsmaður viðkomandi drauagöngu" hafi haft í sér manndóm, til að biðjast afsökunnar og leggja af þetta háttarlag. En það er öðru nær; hann bregst við, með því að hóta Þór málsókn.
Ég nefni þetta hér, sem dæmi um skort Íslendinga á siðviti. Mönnum leyfist allt, svo fremi sem þeir græða á því. Þess vegna er þjóðin í þeirri stöðu, sem raun ber vitni; í raun gjaldþrota og öllu trausti rúin meðal siðaðra manna.
Væri nú ekki ráð, að skólakerfið brigðist við, með því að taka upp kennslu í siðfræði og heimspeki þegar í grunnskóla? Það skyldi þó aldrei vera, að finna megi samhengi milli allrar okkar skammtíma praktíkur" og siðblindu?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þennan pistil. Ég er mjög sammála þér.
Úrsúla Jünemann, 9.12.2009 kl. 09:02
Ég veit ekki hvaðan þú hefur það að ekki hafi fjölgað á Austurlandi, en það er alrangt.Á mið-Austurlandi, þar sem áhrifa álversins gætir helst er mikil fjölgun eða um 1200 manns þó svo að á sama atíma hafa störfum í sjávarútvegi fækkað um 300,eingöngu vegna mikilla tækniframfara í vinnslu,því framleiðsla hefur aukist.Álverið er algert lífakkeri í atvinnulífi og uppbyggingu á svæðinu.
Með kveðju,
Kristinn V
Kristinn V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 15.12.2009 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.