13.10.2009 | 22:47
Endanleg lausn vandans að lifa
Merkilegt hvað Íslendingum er tamt, að leita hinnar endanlegu lausnar á vandanum að lifa. Væri ekki frekar ráð, að snúa sér að lífsgátunni; það má lengi glíma við hana.
Sú var tíð, að mönnum þótti svo dapurlegt, að lifa af sjávarútvegi, að þeir ákváðu að fiska peninga, í þeirri trú, að eftir því sem vatnið væri gruggugra, þeim mun meira fiskaðist af peningum. Nú er sá draumur tröllum gefinn.
Þá grípa menn enn og aftur til annarrar lausnar á vandanum að lifa og er sú nokkuð eldri þeirri, sem áður var nefnd. Hér á ég við stóriðjuna og virkjanirnar. Öllu skal fórnað, til að nokkur þúsund manns fái uppgripavinnu í örfá misseri og fáein hundruð geti svo til frambúðar brætt ál með niðurgreiddri raforku. Þeir á Húsavík og Suðurnesjamenn kalla þetta víst framsýni. Austfirðingar gerðu það sama hér um árið. Mannfjölgun í þeim fagra fjórðungi, síðan virkjunarframkvæmdir hófust er u.þ.b. 0%. Stórkostlegur árangur, segja virkjunarsinnar. Já, litlu verður vöggur feginn!
Merkilegt er að sjá og heyra, hvernig virkjunarsinnar fara fram með göbbelískum trumbuslætti, ekki síst suður með sjó. Þeir létu svona líka þegar herinn var að fara. Allt var að fara til andskotans bara", eins og þar stendur. En hvað gerðist, þegar Kaninn fór? Sökk landið? Svalt fólkið? Svari hver fyrir sig.
Sannleikurinn er sá, að sá, sem setur öll eggin í sömu körfuna, tekur meiri áhættu en hinn, sem dreifir eggjunum í fleiri körfur. Keflvíkingum og Húsvíkingum væri því hollast, að huga að fjölbreyttum atvinnuháttum, enda dugir ekki annað, því orkan er ekki endalaus, eins og margir héldu fyrir skömmu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.