21.9.2009 | 21:11
Kært vegna meintra tengsla í lífeyrissjóði
Það gefur auga leið, að tengslanet þéttist í hverju þjóðfélagi, eftir því, sem það er fámennara. Þetta er ein skýring þess, hvernig komið er fyrir okkur Íslendingum. Að vísu verður, segjum t.d. bankastjóri ekki spilltur af því einu, að eiga frænda, sem vantar lán, umfram það, sem hann er borgunarmaður fyrir. En hættan er fyrir hendi. Og í öðru eins spillingardýki og íslenskt viðskiptalíf og stjórnkerfi er, liggur við, að taka þurfi upp hið forna germanska dómskerfi, að ákærðum mönnum sé skylt að sanna sakleysi sitt, í stað þess, að ákærandi þurfi að sanna sekt hins ákærða. Reyndar þekkist þetta kerfi enn, á lægri dómsstigum, m.a. í Svíþjóð.
Flestir eru sammála um þörfina á siðbót á Íslandi. Vissulega er full þörf að koma henni á, og vonandi eru það ekki dagdraumar einir, að það sé hægt. Hættunni á óeðlilegum hagsmunatengslum sökum fámennis, verður ekki bægt frá í einni svipan. Það þarf almenna hugarfarsbreytingu, til að losa þjóðina undan þessum álögum.
Nú hafa tveir fulltrúar í stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur lagt fram kæru, vegna meintra óeðlilegra tengsla í rekstri lífeysissjóðs þeirra ágæta stéttarfélags. Hér er í raun um prófmál að ræða.
Ekki veit ég, hvort hinir ákærðu eru sekir eða saklausir. Hitt er ljóst, að í þessu máli verður ekki aðeins felldur dómur yfir einstaklingum, heldur þjóðfélagsskipan, sem óneitanlega minnir á rotið epli í Bónus.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Var ekki Hæstiréttur að úrskurða í málinu?
Árni Gunnarsson, 21.9.2009 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.