Hvað veldur frestun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins?

Þegar Bandaríkjamenn voru að freista þess, að tryggja sér hernaðarlega aðstöðu á Íslandi til frambúðar, eftir lok síðari heimstyrjaldar, reyndu þeir að múta einstaklingum innan stjórnkerfisins og í viðskiptalífinu.  Það gekk treglega.  Á þessum árum voru Íslendingar svo „undarlega" þenkjandi, að þeir lágu illa við mútum.  Þá var farið að ráðum sendiherra þeirra í Reykjavík og keyptur fiskur til að senda til sveltandi Þjóðverja.  Verðið, sem greitt var fyrir fiskinn, var mun hærra en það, sem áður hafði fengist í Rússlandi, en þangað seldum við fisk fyrstu misserin eftir stríð.  M.ö.o., einstaklingum var ekki mútað, heldur heilli atvinnugrein, í þessu tilfelli sjávarútvegnum.  Um þetta má lesa í skýrslum bandarísku utanríkisþjónustunnar, sem birtar voru hálfri öld eftir stríð.

Hvað vekur þessa þanka?  Jú, sú bið, sem orðið hefur á því, að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn skenki oss allra náðasamlegast gull úr sínum greipum vekur spurningar.   Efnahagsátandið hér á landi hlýtur að vera forráðamönnum sjóðsins ljóst.  Þeim ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði, skyldi maður ætla.  Hvers bíða þeir þá?

Það er alkunna, að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er í raun ekkert annað en vestisvasi Sáms frænda og annarra vestrænna stórvelda.  Úr þessum vasa er ausið fjármunum til efnahagslega illra staddra ríkja, sem þó hafa yfir auðlindum að ráða.  Skilyrðin eru, að þær auðlindir séu látnar í hendur Bandaríkjamanna og nánustu bandamanna þeirra og þá ekki síst Breta.  Þannig skila aurarnir sér aftur í sjóðinn og það margfaldlega.

Það skyldi þó ekki vera, að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra væru einfaldlega að bíða þess, að þeim auðsveipnir menn komist til valda á Íslandi, svo auðvelt sé að múta þeim, til að láta orkulindir og fiskimið þjóðarinnar af hendi? 

Að vísu þurfa þeir tæpast að óttast núverandi stjórnarflokka.   En þessir flokkar mega eiga það, að þeir óttast þjóðina.  Það er meira en sagt verður um flokkana, sem gáfu vildarvinum sínum bankana, símakerfið o.s.frv.  Þess vegna er, þrátt fyrir allt, betra fyrir Sám frænda og vini hans, að hafa í stjórnarráðinu, menn, sem eru í nánum tengslum við gjörspillt fjármálaöfl, ekki vegna þess, að milli þeirra ríki traust og trúnaður, heldur vegna hins, að þeir deila með sér hugmyndafræði.  Og ef til vill eru þeir auðkeyptir að auki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þarna hefur þú svo sannarlega sett fingur á staðreynd sem er svo sönn, að hún verður að fá að fljúga.  Nákvæmlega svona er hræðslan í dag, og það er gott að fá þessa skilgreiningu svona beint í æð. Takk fyrir það. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.9.2009 kl. 17:08

2 identicon

Allt satt og rétt.

Þessum vinnubrögðum var nákvæmlega lýst í myndinni. Játningar efnahagsböðuls, sem var á RUV um daginn.

Þeir ætla að gleypa okkur án endurgjalds.

Sveinn Elías Hansson (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 20:20

3 Smámynd: Eva

Takk fyrir færsluna, setti niður á blað akkúrat það sem ég er að hugsa .

Eva , 21.9.2009 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband