Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu

Ekki fer milli mála, að nauðsynlegt er að spara í heilbrigðiskerfinu, eins og svo víða þjóðfélaginu.  En þar ber að fara með gát; óvíða er eins líklegt, að menn spari eyrinn en sói um leið krónunni.  Lenging biðtíma eftir skurðaðgerðum, þýðir t.d. aukna þörf á eftirmeðferð.  Sé dregið úr heilbrigðisþjónustu við geðsjúka eykst kosnaður félagsþjónustunnar að sama skapi.

En er verjandi að ræða heilbrigðismál út frá fjárhagslegri hagkvæmni?  Grundvallaratriðið er náttúrulega, að sá fái hjálp, sem hennar þarfnist.  En það verður að vera fjárhagslega mögulegt, að veita þá aðstoð, sem þörf er á. 

Ýmsum er ljóst, að launakostnaður í heilbrigðiskerfinu er oft óraunhæfur.  Og vissulega er þetta blessaða kerfi ekki laust við spillingu.  En það verður að taka á hverju máli fyrir sig, áður en farið er út í almennar sparnaðaraðgerðir með bundið fyrir bæði augun.

Og meðal annarra orða, hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja það, að á sama tíma og spara á milljarða í heilbrigðiskerfinu, er haldið áfram að reisa tónlistarhöll niður við höfn?  Þar eiga a.m.k. 14 milljarðar króna eftir að fara í steypu. 

Ég er ekki í þeirra hópi, sem fárast yfir hverri krónu, sem fer til lista á landi hér.  En miðað við efnahagsástandið, þá eru frekari framkvæmdir við tónlistarhöllina árás á heilbrigða skynsemi.  Menn reisa einfaldlega ekki hallir á sama tíma og fé skortir til að reka heilbrigðisþjónustu svo mynd sé á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband