4.9.2009 | 00:01
Þrælahald á Íslandi - sjálfsmynd draumóraþjóðar
Upplýsingar þær, sem nú hafa verið lagðar fram um mansal á Íslandi eru ógnvænlegar. Ólíkt því, sem flestir hafa vafalaust ætlað, er mansalið ekki bundið við kynlífsþrælkun; hingað til lands er flutt inn ófrjálst fólk til starfa í byggingariðnaði, við ræstingar o.s.frv., fyrir utan konur, sem hingað eru vélaðar og síðan neyddar í vændi. Á mannamáli heitir þetta einfaldlega þrælahald.
59 tilfelli hafa komið til kasta Alþjóðahússins. Þar er vafalaust aðeins um að ræða brot af vandanum. Sjálfsmynd okkar Íslendinga hefur lengi verið barnaleg. Við höfum ímyndað okkur, að við búum í stéttlausu og óspilltu þjóðfélagi. Í okkar augum hefur Ísland verið sannkallað gósensland sakleysisins. Við erum svo heiðarleg! Og til bragðbætis höfum við talið okkur trú um, að við værum í senn hamingjusamasta og gáfaðasta þjóð í heimi!
Vitanlega er sjálfsmynd þjóða gjarnan máluð nokkuð sterkum litum og útlínur oft óljósar. En sjálfsdýrkun Íslendinga er á því stigi, að stórum hluta þjóðarinnar virðist tæpast vera sjálfrátt, heldur lifa í upphöfnum draumórum. Þannig er ég, því miður, viss um, að þessar upplýsingar um þrælahald á Íslandi verða flestum gleymdar fyrir helgi.
Þeir erlendu þræla, sem leita sér hjálpar, snúa sér til Alþjóðahússins. Nú hefur öllu starfsfólki þess verið sagt upp. Er það að vonum; engum skal lýðast, að afhjúpa lífslygi Íslendinga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, þetta er hræðilegt. En getur Alþjóðahúsið ekki leitað til ríkisstjórnar með samvinnu um reksturinn þó Reykjavíkuríhaldið vilji ekki vera með?
Margrét Sigurðardóttir, 4.9.2009 kl. 05:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.