Kattaþvottur stjórnmálaflokkanna

Þá hafa þingflokkarnir komið sér saman um upplýsingaskyldu stjórnmálaflokka og frambjóðenda þeirra, varðandi fjárhagslega aðstoð, sem þeir þiggja héðan og þaðan til að fjármagna kosningastarfsemi sína.  Sá böggull fylgir þó skammrifi, að upplýsingaskyldan skal vera bundin við samþykki þeirra, sem lagt hafa fjármagnið fram.

Nú vill svo til, að stjórnmálamenn, hvort heldur þeir starfa í sveitastjórnum eða á Alþingi, njóta síður en svo trausts almennings.  Er það að vonum, þó ekki væri nema vegna þess, að sú aðferð, sem oftast er notuð við val á framboðslista, þ.e. prófkjörin, býður beinlínis upp á, að hagsmunapotarar, innlendir sem erlendir, kaupi sér leiguþý til til setu í stjórnkerfi ríkis og sveitafélaga.  Þess vegna verður að gera mun róttækari breytingar á lögum um upplýsingaskyldu í þessu sambandi.  Það verður að liggja ljóst fyrir, hvaðan hver einasta króna, sem notuð er til stjórnmálastarfsemi komi.

Prófkjörin voru í upphafi talin skref í átt til aukins lýðræðis.  Rökin voru þau, að almennum stuðningsmönnum einstakra flokka gæfist með þeim tækifæri til áhrifa á fulltrúaval flokkanna.  Tíminn hefur afsannað þá kenningu.  Prófkjörin hamla lýðræðinu, vegna þess, að þau bjóða heim þeirri hættu, að menn kjafti sig til pólitískra áhrifa í gegnum auglýsingaskrum.  Þannig fer nú mjög fjölgandi dæmum þess, að fólk sé kosið á Alþingi út á það eitt, að almenningur viti hvernig það lítur út á sjónvarpsskjánum.  Þetta er ekki lýðræði, heldur skrílræði.  Það er löngu tímabært að leggja niður prófkjörin.  Vitanlega komu færri að niðurröðun á framboðslista, þegar slíkt var í verkahring kjördæmaráða eða sérstakra nefnda.  En það tryggði þó, að þeir sem á listana röðuðu, þekktu deili á þeim, sem í framboði voru.  Þekking á mönnum og málefnum er hornsteinn lýðræðisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband