6.8.2009 | 17:39
Samræmi réttarríkis og réttlætis
Réttarríkið er grundvöllur eðlilegra samskipta í mannlegu samfélagi. Ekki svo að skilja, að það geti talist eðlilegt, að menn geri alla jafna út um deilur fyrir dómstólum. Eðlilegast er vitanlega, að til þess þurfi ekki að koma. En fari svo, að ekki sé annarra lausna að leita, þarf að vera hægt, að treysta réttarkerfinu.
Réttarkerfið byggist vitanlega á þeim lögum, sem sett eru hverju sinni. Í eðlilegu réttarríki, tryggja lögin jafnan rétt þegnanna. Slíkt kerfi hefur ekki ríkt á Íslandi undanfarin ár. Sannleikurinn er sá, að undanfarin fimmtán ár og jafnvel lengur, hafa fjölmargir stjórnmálamenn litið á sig sem þjóna siðlausrar auðstéttar. Lagasetning þeirra hefur ekki miðast við hag þjóðarinnar, heldur hagsmuni glæpagengis, sem nú hefur fært Íslendingum betlistaf í hönd, að þeir megi auðmjúkir kyssa þann vönd, sem bak þeirra strýkur á torgum.
Það er í ljósi þessarar staðreyndar, að ég fagna því heilshugar, þegar menn afhjúpa lygar, fals og ódrenglyndi í samfélaginu, eins þótt uppljóstranirnar gangi á svig við þau ólög, sem taglhnýtingar ræningjahyskisins hafa sett.
Ekkert réttarríki fær staðist án réttlætis!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.