3.8.2009 | 21:50
Hreinsum til í kerfinu
Eins og þeir, sem lesið hafa svörin við bloggi mínu í gær vita, er mér nú ljóst nafn sýslumannsins í Reykjavík. Hann heitir Rúnar Guðjónsson. Þessi maður mun eiga tvo syni. Annar er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. Sem slíkur barðist hann kröftulega fyrir því, að bankarnir yfirtækju starfsemi Íbúðalánasjóðs. Einnig hefur hann staðið dyggan vörð um bankaleynd. Bróðir hans er fyrrum forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Hann mun einnig vera kúlulánþegi.
Einu gildir, hvort lögbannsúrskurðurinn á fréttaflutning Ríkisútvarpsins, hafi verið kveðinn upp af sýslumanni eða fulltrúa hans; ábyrgðin er sýslumanns. Vanhæfi hans er augljóst.
En fleiri þurfa að taka pokann sinn en sýslumaðurinn í Reykjavík. Skrif aðstoðarmanns forsætisráðherra, Hrannars B. Arnarsonar um blaðagrein Evu Joly um helgina eru vanhugsuð og eftir því óheppileg. Eins og fram hefur komið, birtist grein Evu ekki aðeins hér á landi, heldur einnig í Noregi, Bretlandi og Frakklandi. Ef aðstoðarmaður forsætisráðherra, hvar sem er í heiminum, tjáir sig opinberlega, eru orð hans alls staðar lesin sem orð forsætisráðherra. Jóhanna Sigurðardóttir ber því ábyrgð á blaðrinu í aðstoðarmanni sínum. Tekur hún undir þessi orð aðstoðarmanns síns, eða álítur hún sér það óviðkomandi hvaða skoðanir hann viðrar á almannafæri?
Þriðji maðurinn, sem gjarnan má taka pokann sinn er s.k. upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Í fréttum Ríkissjónvarpsins nú í kvöld lýsti hann því yfir, að ekki væri hægt að kynna sjónarmið Íslendinga í útlöndum, fyrr en Icesavemálið væri í höfn; til þess væru of margar skoðanir uppi í landinu, jafnvel innan ríkisstjórnarinnar. Úthlutar ráðuneytið orðskýringum, til að ljóst megi vera hvað maðurinn var að fara?
Auðvitað sýnist sitt hverjum. En það breytir ekki því, að þjóðin er í grófum dráttum sammála um, að henni beri að greiða rúmar 20.800 evrur af hverjum Icesavereikningi; ekki eyri þar frammyfir. Maður, sem ekki skilur þessi einföldu sannindi og getur komið þeim á framfæri, á ekki að vera á launum sem upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins. Hann á því að fá reisupassann.
Ef þjóðin á að rétta úr kútnum og horfa með reisn til framtíðar þarf henni að vera ljóst, að valinn maður verður að vera í hverju rúmi. Það kemst enginn bátur í gegnum brimgarð með hálfdrættinga undir árum, allra síst ef formaðurinn telur áhöfnina skipaða fullfærum mönnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:34 | Facebook
Athugasemdir
Kristján Kristjánsson kynningarfulltrúi forsætisráðuneytinsins...
SEGIR: við getum ekki haldið uppi kynningarstefnu vegna þess að allir Íslendingar eru ekki sammála um Icesave.
... sami maður í den:
http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2006/12/30/segir_endursoluakvaedi_skyra_solu_fl_group_a_sterli/
Rósa (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 22:19
Hvað ætli skattgreiðendur séu með marga "upplýsingingafulltrúa" á launum? Hér er algert offramboð á vanhæfni á sama tíma og þeir vanhæfu ná eyrum íslenskra fjölmiðla. Það er kannski málið, að ná eyrum okkar innlendu fjölmiðla og ekki millimetra lengra, það þarf jú "aðeins" að selja okkur þá hugmynd að við eigum sko að halda-kjafti-og-borga!
sr (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 00:28
Vissir þú að sýslufulltrúinn sem skrifaði undir úrskurðinn um lögbannið, heitir Sólrún og hún er gift Gunnari Haraldssyni stjórnaformanni Fjármálaeftirlitsins sem á að veita bönkunum aðhald.
Baldur Bjarnason (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 08:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.