Persónunjósnir á Íslandi

Eitt það ógeðfelldasta, sem fylgir einræðisstjórnum eru persónunjósnir, þar sem þegnunum er att saman.  Þetta er gert með þeim hætti, að fólki gefst kostur á, að hvísla einhverju misjöfnu um náungann í eyru útsendara einræðisaflanna, auðvitað gegn nafnleynd.  Af þessum sökum máttu ýmsir líða vítiskvalir í Þýskalandi Hitlers og Sovétríkjum Stalíns.  Það sluppu ekki allir lífs frá þeirri meðferð.

Nú hefur þessi aðferð verið tekin upp á Íslandi.  Á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins er sérstakur reitur, þar sem menn geta sett inn nafnlausar ábendingar um þá, sem þeir telja að þiggi örorkubætur að ástæðulausu.  Þá hefur Vinnumálastofnun komið sér upp samskonar kerfi og fylgja með eftirfarandi upplýsingar: „Þeir sem skrá ábendingar hér geta verið vissir um að það sé ekki hægt að rekja frá hverjum hún kemur". (Íslenskan er Vinnumálastofnunar).

Vitanlega eru þess dæmi, að menn svíki sér út bætur, hvort heldur er frá Tryggingastofnun eða Vinnumálastofnun, sem úthlutar atvinnuleysisbótum.  Það verður aldrei hægt að koma fyllilega í veg fyrir það, því miður.  En að ætla að berjast gegn því, með því að etja saman fólki, eins og nú er gert, er ekki aðeins rangt; það er atlaga að lýðræðinu!

Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun eru báðar á ábyrgð félagsmálaráðherra og auðvitað endanlega á ábyrgð forsætisráðherra.  Skyldi þetta fólk hafa leitt hugann að því, hver kjafti um hvern?  Hvort er líklegra, að menn hvísli einhverju misjöfnu um vini sína eða óvini?  Og skyldi margir hafa gefið upplýsingar um sjálfa sig?

Bótasvindl er lögbrot og á því að fara dómstólaleiðina en ekki að hlykkjast eftir klofinni ormstungu slefberans út um víðan völl.

Að lokum er þess að geta, að enda þótt bótasvindl sé lágkúruleg iðja, þykir ýmsum sem stjórnvöldum væri sæmra, að tukthúsa það glæpahyski, sem komið hefur þjóðinni á vonarvöl, ýmist með beinni glæpastarfsemi í viðskiptum eða með því að hafa stuðlað að henni á vettvangi stjórnmálanna, heldur en að eltast við smáþjófa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já er þér sammála. Þetta er frekar ljót lausn. Her er mín hugmynd.

Ráða nokkra atvinnulausa til þess að ganga á allan hópinn. Ef einhver finnst sem ekki á rétt á bótum, draga hann fyrir dómara. Viðurlögin: Þarf að endurgreiða þann pening sem búið var að fá + 300000 (sem er greitt til þess sem fann hann). Auk þess, ef þetta voru atvinnuleysis bætur, þá hefur viðkomandi fyrirgert sér öllum rétti til þeirra. Æfilangt. Ef þetta eru örorkubætur, þá þarf viðkomandi dómsmál til að komast aftur á þær.

Gott?

Jón (IP-tala skráð) 20.7.2009 kl. 11:13

2 identicon

Ef nágranni þinn brýtur lög, er það ekki skylda þín að láta yfirvöld vita?

Þetta eru ekki njósnir heldur hvatning til íslendinga að láta vita af lögbroti.

Einhver sem er á bótum án þess að hafa rétt til þeirra er ekkert annað en þjófur. Og verst er það að viðkomandi er að stela frá fólki sem virkilega þarf á þessum peningum að halda.

Gunnlaugur Snær Ólafsson (IP-tala skráð) 20.7.2009 kl. 11:32

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Algjörlega sammála Gunnlaugi Snæ og sjálfsagt að skoða það þegar öryrkjum fjölgar svona gífurlega mikið.

Það verður að vera hægt að tala um þessi mál - líkt og útlendingamál - án allrar þessarar viðkvæmni.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.7.2009 kl. 11:52

4 Smámynd: AK-72

Mér finnst allt í lagi að það sé reynt að stemma stigu við svindli og er þetta svosem ágæt aðferð til þess sem hefur virkað hingað til í Danmörku. Vandamálið er kannski að Íslendingar sumir hverjir, sjá ekkert að því að svindla á kerfinu ef þeir geta enda hefur ekkert verið slegið á puttana á til þess. Við verðum nefnilega að fara að hugsa á þessum tíma um að þessir peningar eru teknir af skattfé okkar allra, og ef það er verið að stinga undan, þá er verið að stela af okkur öllum, ekki bara verið að ná sér í auka-aur. 

En svo er það eitt með þetta sem ég set spurningamerki við. Hversvegna er fókuserað eingöngu á að refsa einstaklingunum? Hversvegna á ekki að hjóla í fyrirtæki og refsa þeim svo hart að þau veigri sér við að borga svarta vinnu, undirbjóða og annað sem er fylgifiskur? Þar er rótin held ég, því ef fyrirtæki borga ekki svart, þá er ekki veirð að svindla.

AK-72, 20.7.2009 kl. 13:10

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er EKKI í lagi að nota hvaða aðferðir sem er til að sporna við misnotkun þó sú misnotkun sé vandamál. Þarna geta menn bent beinlínis á ákveðinn nöfn án þess að leggja sjálfir nöfn sín við vitnisburðinn. Það býður hættu heim og ætti eiginlega ekki að þurfa að rökstyðja það. Er þá ekki í lagi að nota svona aðferðir til að benda á skattsvik, svik á atvinnuleysisbotum, búðahnuplin og bara hvað sem er? Hvernig verður slíkt þjóððfélag? Auk þess verður að fara varlega með að setja einhvers konar fjandskaparstimpill á örykja, svo og svo margir þeirra séu í raun þjófar og mér sýnist á athugasemdum á bloggum að stutt sé í slíkt. Sú hugmynd að setja t.d. atvinnulausa ''á hópinn'' er t.d. ekki geðfelld, Hvað felst í henni. Að hverjum og einum örykjra verði stillt upp með þriðju gráðu yfirheyrslu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.7.2009 kl. 17:31

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sammála ykkur. Ekki nafnleynd því sá sem segir frá einhverju svona á að hafa góða samvisku og þora að standa við það sem hann er að segja. Ef það er ekki hægt þá spyr ég hvers vegna? Syndlausir kasti fyrsta steininum. Kanski heilbrigðisráðherra?

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 21.7.2009 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband