19.7.2009 | 11:16
Hugleiðing um æskilega þögn
Allt hefur sína stund og allt hefur sinn stað. Þessi einföldu sannindi eru flestum ljós. Að lúta þeim, er það sama og að þroskast. Sjómennirnir vita, að þeir afla ekk þar sem engan fisk er að hafa og bændum er ljóst, að heyskapur heyrir til sumarverka. Vetrinum fylgja önnur störf.
Yfirleitt vefst það ekki fyrir stjórnmálamönnum, að þegar þeir hætta störfum á Alþingi, eða hvar í stjórnkerfinu, sem þeir hafa starfað, er þeirra tími á því sviði liðinn; maður kemur í manns stað.
En svo eru það eftirlegukindurnar; fyrrverandi stjórnmálamenn, sem skilja ekki þessi sannindi. Féð er komið í hús, meðan þeir standa einir í næðingnum upp til fjalla og kroppa í freðinn svörðinn.
Það vill henda, að þeir klöngrist upp á klett og jarmi yfir auðnina, í þeirri von, að féð, sem löngu er farið til byggða heyri til þeirra. Þetta kallast, að skilja ekki sinn vitjunartíma.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.