Sjoppulúgan við Austurvöll

Þá hefur aðildarumsóknin að Evrópusambandinu verið afgreidd í gegnum sjoppulúguna við Austurvöll.  Að vonum ásaka ýmsir þá þingmenn Vinstri grænna, sem samþykktu tillöguna; þvert á eigin stefnu.  En hugum að.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bera höfuð ábyrgð á efnahagshruninu, þótt vissulega verði Samfylkingin ekki undanskilin allri ábyrgð í því sambandi.  Eigi að síður hefði það verið vítavert af Vinstri grænum, að taka ekki þátt í myndun núverandi ríkisstjórnar, fyrst þjóðstjórn var ekki möguleg.  Það var Samfylkingin, sem gerði það að skilyrði að stjórnarmyndun, að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu.

Hvað hefði gerst, er Vinstri grænir hefðu hafnað því skilyrði?  Annað hvort hefði orðið stjórnarkreppa með ófyrsjáanlegum afleiðingum, eða Samfylkingin hefði myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.  Ekki nýtt, að kotbóndinn þjóni á höfuðbólinu!

Nú verða sjálfstæðissinnar að standa saman, sem einn maður, minnugir orða Churchills, þegar hann lýsti yfir stuðningi við sína fornu fjendur, Sovétmenn, eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin.  Sumir íhaldsmanna gagnrýndu hann fyrir stuðninginn við Stalín.  Sá gamli lét ekki slá sig út af laginu, frekar en fyrri daginn og svaraði með þessum fleygu orðum: „Ég mundi semja við djöfulinn sjálfan til að sigra nasista".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband