15.7.2009 | 20:55
Enn um Breiðavíkurmálin
Eins og fram kom í athugasemd við bloggið mitt um Breiðavíkurmálið þann 12. þ.m. hefur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra opinberlega beðið fórnarlömbin frá Breiðavík afsökunar. Sú afsökunarbeiðni var löngu tímabær. Hitt er öllu lakara, að hugmyndir forsætisráðherra um almennar bætur til drengjanna draga úr gildi þessarar afsökunarbeiðni.
Svo hörmulegt sem það er, voru það ekki einungis einstaklingar, sem beittu Breiðavíkurdrengina ofbeldi, heldur samfélagið í heild sinni. Þeir voru sendur á þennan stað af barnaverndaryfirvöldum, sem störfuðu á vegum sveitafélaga, en Breiðavík var ríkisstofnun. Það var í ljósi þessa, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra baðst afsökunar.
En það er ekki nóg, að forsætisráðherra, fyrir hönd yfirvalda, biðjist afsökunar, ef hann gerir sér ekki fyllilega grein fyrir eðli þess ofbeldis, er þarna var beitt og bótaskyldum ríkisins í því sambandi.
Ef, segjum lögreglumaður fer offari í störfum sínum og beitir einhvern harðræði, getur fórnarlambið kært viðkomandi. Lögreglumaðurinn er þá dæmdur sem einstaklingur. Þar gilda almennar skaðabótareglur; ekki þegar samfélagið sjálft hefur gerst sekt um glæpastarfsemi. Þessi einföldu sannindi verður Jóhanna Sigurðardóttir að skilja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér kærlega fyrir þennan stuðning og skilning í okkar garð,heyr,heyr segi ég bara
Konráð Ragnarsson, 16.7.2009 kl. 13:58
Það er ekki þitt að þakka mér, heldur mitt að þakka þér og öðrum Breiðavíkurdrengjum, fyrir að sýna mér, hvernig samfélagi ég bý í.
Pjetur Hafstein Lárusson, 16.7.2009 kl. 22:25
Tek undir það Pjetur, að Breiðavíkurbörnin hafa kennt okkur mikið. Sem stjórnarmaður í Breiðavíkursamtökunum, sem ekki var á vistheimili, en utanaðkomandi gallharður stuðningsmaður, þakka ég þér.
Friðrik Þór Guðmundsson, 17.7.2009 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.