Hótel Valhöll brunnin

Þá er hótel Valhöll brunnin.  Er víst óhætt að segja, að farið hafi fé betra.  Enginn staður er jafn samgróinn sögu þjóðarinnar og Þingvellir.  Þar hefur saga hennar risið hæst og niðurlægingin orðið bitrust.  Þar var lagður grundvöllur að þjóðríki í þessu landi með stofnun Alþingis hins forna árið 930.  Þar tók þjóðin kristna trú.  Öldum saman voru Þingvellir samkomustaður fólks frá öllum fjórðungum landsins. 

En á Þingvöllum hafa einnig fallið þeir skuggar yfir land og þjóð, sem dekkstir hafa verið.  Þar var saklausum konum drekkt sakir harðýgi dimmrar aldar.

Yfir þessum stað hvílir reisn og höfgi þeirra kynslóða, er byggt hafa Ísland allt frá landnámi.  Það var því eins og hvert annað sögulegt stílbrot, að þarna skyldi standa hótel.  Nú er ráð, að rífa rústir þess, sem og önnur þau mannvirki, sem í þjóðgarðinum standa, hvort heldur um er að ræða sumarbústaði eða pjatthýsið ofan við Almannagjá.

Þingvellir eiga sér stað í hjarta allra Íslendinga; menn geta farið annað, vanti þá pönnuköku með rjóma í bland við kaffi og kók handa börnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hefur lítið breyst í tímana rás.

Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband