Látið sök bíta seka, ekki saklausa!

Það er grafalvarlegt mál, að starfsfólk Kaupþings, hvort heldur bankastjóri eða aðrir starfsmenn, skuli verða fyrir óþægindum og jafnvel fá líflátshótanir, vegna umsóknar Björgúlfsfeðga um niðurfellingu á skuldum við bankann.  Engu að síður, er hér ekki um að ræða óvænt viðbrögð almennings við ósvífni téðra feðga.

Alþýða manna skilur ekki, að þessir menn og aðrir ámóta kauðar, skuli ganga lausir og að eignir þeirra skuli ekki hafa verið frystar.  Þeir hafa haft hátt í ár, til að koma illa fengnu fé undan og falsa gögn, sem leitt gætu til sakfellingar þeirra, eða láta þau hverfa.

Hugsanlega eru einhverjir s.k. útrásavíkinga saklausir; það er þá dómstóla að skera úr um það.  En líkurnar á sekt þeirra allra, eru svo miklar, að gæsluvarðhald hlýtur að teljast eðlilegt, þó ekki væri nema vegna rannsóknarhagsmuna.

Búsáhaldabyltingin í vetur leið, hleypti gufuninni af katli, sem var að springa.  Fái Björgúlfsfeðgar niðurfellingu á svo mikið sem einnar krónu skuld, hvað þá heldur 3.000.000.000, er verið að skrúfa lokið kyrfilega á ketilinn aftur.  Þá verður sprenging, með þeim ósköpum, að búsáhaldabyltingin gleymist.  Hún verður eins og hver annar formáli þess sem koma skal. 

Víst er það skoðun margra, að bankar eigi ekki að vera háðir ríkisvaldinu, nema sem eftirlitsaðila.  En afgreiðsla þessarar umsóknar Björgúlfsfeðga snýst ekki aðeins um fjármál; hún er stórpólitískt viðfangsefni, sem ríkisstjórnin getur ekki vikist undan.  Það er ekki rétt að láta ósvífni fjárglæframannanna bitna á starfsfólki Kaupþings eða annarra fjármálastofnana. Það einfaldlega dregur athyglina frá sökudólgunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Ég hef aldrei skilið af hverju það þykir ekki æskilegt að fólk láti reiði sína um framgöngu fyrirtækis í ljós við starfsmenn fyrirtækisins!

Starfsmenn eru fulltrúar þess og eiga að taka við kvörtunum frá viðskiptavinum, sem telja sig órétti beitta.

Ef stjórnendum fyrirtækis finnst það ekki rétt aðferð, þá eiga þeir að vera sjálfir aðgengilegir til þess að hægt sé að koma fram kvörtunum við þá beint, eða ráða sérstaka fulltrúa sína til þess.

Það er ekkert að því að fólk láti óánægju sína í ljós við þá starfsmenn fyrirtækis sem tiltækir eru í því. Segi enn og aftur: þeir eru fulltrúar viðkomandi fyrirtækis. Það er stjórnenda að velja hverjir eru í frmvarðarsveit og aðgengilegir. Ef rangt er valið á þeim stað, er það vandi fyrirtækisins, en ekki viðskiptavinarins.

Viðar Eggertsson, 9.7.2009 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband