Davíð Oddsson - myndir að baki manns

Davíð_og_umhverfið_Ljósm_Mbl_Ómar 

Stundum segja myndir meira en orð.  Í drottningarviðtali Agnesar Bragadóttur við Davíð Oddsson, fyrrverandi hitt og þetta, í Mogganum í dag, kemur fátt nýtt fram.  Þar er enn einn litli napóleoninn einfaldlega að stinga höfðinu í sandinn og telja sjálfum sér og öðrum trú um, að hann hafi aldrei tapað orrustunni um Waterloo. 

Þetta er margþvæld tugga á spjöldum sögunnar.  Eftir fyrri heimsstyrjöldina neituðu herforingajar Þjóðverja að viðurkenna ósigurinn.  Afleiðingin var uppgangur nasismans.  Bandaríkjamenn neituðu að horfast í augu við ósigur sinn í Víetnamstríðinu.  Þess vegna eru þeir nú fastir í fúafeni í Írak og Afganistan.  Þannig endurtekur sagan sig aftur og aftur og aftur.

Það merkilega við Moggaviðtalið við Davíð er nær opnustór ljósmynd af honum á bls. 12 og 13.  Þar situr hann í vinnustofu sinni.  Á veggnum bak við hann hanga tvö málverk, annað eftir Karólínu Lárusdóttur, hitt eftir Erró.  Þessi málverk segja allt sem segja þarf um Davíð Oddsson.

Málverk Karólínu sýnir svartklæddan jakkafatamann sitja við sófaborð og drekka kaffi.  Á borðinu stendur svartur köttur, sem eins og kunnugt er, boðar ógæfu.  Í dyragættinni, við hlið sófans, gægjast tvær konur inn í stofuna.  Þær horfa í áttina að kaffidrykkjumanninum með svarta köttinn.  Að baki þeirra stendur maður, klæddur eins og sá í sófanum.  Hann horfir tómlátum augum beint fram fyrir sig.  Konurnar virðast vera að velta því fyrir sér, hvort þær eigi að voga sér, að ónáða húsbóndann.  Maðurinn að baki þeirra, gæti verið að bíða þess, að hans tími komi, til að setjast einn í sófann.

Er það Davíð, sem situr í sófanum og drekkur kaffi í makindum, meðan þjóðin (konurnar) bíða þess í ofvæni, að hann bjóði þeim inn fyrir?  Og maðurinn bak við konurnar; er hann tákn hinnar nýju valdastéttar flokksins?  Er þetta ef til vill Bjarni Ben. , eða ef til vill bara Geir Haarde?

Málverkið eftir Erró virðist að mestu leyti vera stæling á evrópsku eða amerísku málverki frá síðari hluta 19. aldar.  Það sýnir tvær konur og tvo karla í borgaralegum veisluklæðum þess tíma.  Þau sitja til borðs í ofhlaðinni stofu og drekka kampavín, nema hvað annar mannanna, stendur með glas í hendi við borðið.  Þetta er friðsæl mynd, af vel stæðu fólki, sem gerir sér glaðan dag.  En í efra horn myndarinnar, til hægri, hefur Erró sett innrammaða svart/hvíta ljósmynd af Maó, þessum fræga byltingarleiðtoga og böðli, sem umrót 20. aldar leiddi af sér.  Veislugestirnir veita myndinni enga athygli, enda boðar hún framtíð þeirra, ekki fortíð.

Á mynd Karólínu er augljóst, að það er herrann á heimilinu, sem er að drekka kaffi; aðrir á myndinni eru undirsátar.  Er það ekki táknrænt, að á umræddri ljósmynd af Davíð í Mogganum, situr hann beint fyrir framan þetta málverk?  Og er það ekki líka dulítið merkilegt, að á skrifborði Davíðs, fyrir neðan myndina af Maó og veislugestunum, sem fljóta sofandi að feigðarósi, stendur líkan af tákni Sjálfstæðisflokksins, fálkanum?

Ætti Davíð Oddsson ef til vill að leggja sig eftir myndrænum táknum, meðan hann ólmast við að þvo af sér eigin fortíð og afleiðingar hennar fyrir þjóðina?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég sé ekki betur en að á borðinu é einnig mynd af Davíð með Möggu Thatcher.

Í Drowningstræti 10. Hvernig viltu ráða í þá mynd?

Hjálmtýr V Heiðdal, 5.7.2009 kl. 16:57

2 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Þú segir nokkuð Hjálmtýr.  Ég gekk frá því sem vísu, að myndin væri af Davíð og frú.  En hver veit?  Ég sé ekki andlit konunnar nógu vel, til að geta fullyrt nokkuð í þessum efnum, en mér sýnist myndin ekki tekin fyrir utan Dowingstræti 10, þar eru veggirnir dekkri en á myndinni.

Pjetur Hafstein Lárusson, 5.7.2009 kl. 17:58

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Blái liturinn á dragt konunnar bendir til Thatcher... en kannski á frú Ástríður líka svona lita dragt.

Sendi þér myndina í tölvupósti áðan... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 5.7.2009 kl. 22:56

4 identicon

Davíð fær plús í kladdann fyrir ágætan myndlistarsmekk,sérstaklega flott myndin hennar Karolínu.

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 07:08

5 identicon

Af málverkunum skulið þér þekkja þá!!!!! Ef þetta er ekki það fyndnasta komment um Davíð Oddsson sem ég hef lesið síðustu árin. Þetta gjörsamlega slær allt annað út Moohhhahahahaa. Það er greinilega ekkert eftir til að gagnrýna manninn en val á myndlist uppi á veggjum á kontornum.

Hvað getur þetta fólk sem er á móti honum gengið langt í þessu?

joi (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband