Dagskrá um Tómas Guðmundsson í Grímsnesi

Í dag varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi, að halda erindi um Tómas Guðmundsson skáld á samkomu sem sveitungar hans héldu honum á Borg í Grímsnesi.  Óþarft er að rekja erindið hér, enda birtist það hér að neðan. 

        

Forseti Íslands setti samkomuna með snotrum orðum um skáldið.  Að því loknu flutti Anna S. Óskarsdóttir ræðu um Grímsnesinginn Tómas Guðmundsson.  Mæltist henni vel.  Sem barn, sá hún Tómas gjarnan er hann kom á Grímsnesið.  Hvort heldur það var frægð skáldsins eða bernska hennar, nema hvoru tveggja hafi verið, þótti henni skáldið nokkuð fjarænt.  Minnti þetta mig óneitnlega á lýsingar Akureyringa á Davíð Stefánssyni.  Hvorugum kynntist ég.  En jafnan hef ég haft það á tilfinningunni, að brynja Davíðs hafi verið þykkari brynju Tómasar, hafi sá síðari sveipað sig nokkurri.  En engin skáld þekki ég, sem tekið hafa sér slíkan bústað í hjarta Íslendinga, sem  Davíð og Tómas.

        

Að ræðu Önnu lokinni talaði Matthías Johannessen um kynni sín af skáldinu.  Matthías Johannssen er margslunginn maður.  Stundum finnst mér hann syngja nokkuð eftir því, á hvaða grein hann situr.  En hér réð einlægnin ríkjum.

Meðal gesta var Sigurður bóndi á Villingavatni, sem ég er ekki frá að sé bóndi Íslands þúsund ára. Birtist hér mynd af höfðingjanum.

IMG_1404 

        

Ekki skal dagskráin rakin frekar hér, en hún var Grímsnesingum til sóma.  Dæmi svo hver eftir sínu geði, þá tölu, sem hér fer á eftir. 

Sveitaskáldið Tómas Guðmundsson 

Herra forseti, góðir gestir.

Ég vil í upphafi máls míns, þakka Guðmundi Guðmundssyni frá Efri-Brú þann heiður, að vera boðið að segja hér nokkur orð um frænda hans, skáldið Tómas Guðmundsson.  Tilefni þess, að hann bauð mér að flytja hér erindi er, að á sínum tíma hélt ég því fram á, að Tómas væri ekki borgarskáld, heldur sveitaskáld.  Skulu nú færð nokkur rök að því.

        

Á nýársdag árið 1935 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur að veita Tómasi Guðmundssyni ferðastyrk, að upphæð 3.000 krónur.  Tilefnið var áskorun nokkra framámanna í menningarlífi bæjarbúa og raunar þjóðarinnar allrar, í þá veru.  Vildu þeir með þessu þakka skáldinu fyrir ljóðin í Fögru veröld, sem komið hafði út árið áður.       

Í bréfi, sem hópurinn sendi bæjarstjórn að þessu tilefni, er vitnað til þess, að Tómas hafi fengið alla menntun sína og þroska í Reykjavík.  Hann hafi auk þess vakið skilning fólks á fegurð bæjarins og umhverfi hans.

Vissulega hlaut Tómas Guðmundsson menntun sína í Reykjavík, en aðeins að því marki, sem skólum er fært að veita.  Það vill stundum gleymast, að lengi býr að fyrstu gerð.  Og þroskaganga Tómasar hófst hér í Grímsnesinu, þar sem hann fæddist og ólst upp.  Þess bera ljóð hans ótvíræð merki. 

Samþykkt bæjarstjórnar frá ársbyrjun 1935, gerði Tómas Guðmundsson að borgarskáldi, sem og sá skilningur, sem margir lögðu í ljóðin í Fögru veröld.

Og víst er um það, að fagurlega orti skáldið fóstru sinni við Faxaflóann.  Hinu má ekki gleyma, að sjaldan var sveitin, Grímsnesið, langt undan, eins þótt Reykjavík gjarnan væri yrkisefnið.  Þannig er mér nokkuð til efs, að  til sé öllu magnaðri sveitarómantík, en birtist í sjálfu höfuðljóði skáldsins um Reykjavík, “Austurstræti”, þegar hann segir í öðru erindi ljóðsins:

Og svo er mikill ljóssins undrakraftur,
að jafnvel gamlir símastaurar syngja
í sólskininu og verða grænir aftur. 

Fjarri sé mér, að gera bókmenntafræðilega úttekt á skáldskap Tómasar.  Ungur bast ég ljóðum hans sterkum böndum, sem ekki hafa rofnað síðan.  Menn gera tæpast fræðilega úttekt á því, sem þeir unna, að minnsta kosti ekki, þegar um listir er að ræða. Hitt er svo annað mál, að ég hef aldrei litið á Tómas sem borgarskáld.  Í mínum huga er hann sveitamaður, sem fellir hug til borgarinnar og yrkir henni ástarljóð.  En sveitastrákur verður áfram sveitastrákur, eins þótt hann flytji á mölina og verði  skotinn í stelpu vestur í bæ, þar sem vorkvöldið er fegurra höllum keisarans í Kína.

 

Já, Tómas fékk farareyrinn hjá bænum og lagði land undir fót.  Skyldi það ekki hafa verið í þeirri ferð, að hann orti ljóðið “Heyskapurinn í Rómaborg”, sem birtust í Stjörnum vorsins?  Ég ætla að leyfa mér, að fara með þetta ljóð hér:                      

Við lúðramúsík og hörpuhljóm,
á hvítum vængjum og sólskinsskóm,
stunda þeir heyskapinn heima í Róm
unz hlaða páfans er full.
Þeir slá þar pálma og purpurablóm 
og pakka því öllu í gull.
-En austanfjalls hafa þeir annan sið.
Þar eigra menn daglangt um stargresið,
en hvernig sem bændurnir hamast við
er heygryfjan alltaf jafn tóm. 

Með leyfi að spyrja, er það borgarskáld, sem í sjálfri höfuðborg heimsins yrkir um heyskapinn í Grímsnesinu og líkir sjálfri Rómaborg við tún eða engi?

        

Fyrsta ljóðabók Tómasar Guðmundssonar, Við sundin blá, hefst á samnefndu ljóði.  Reykvíkingar hafa löngum haldið því fram, að þar sé ort um sundin vestur þar.  En það þarf ekki að horfa í kringum sig af mikilli skarpskyggni á Efri-Brú, fæðingarstað skáldsins, til að átta sig á, um hvaða sund er þarna ort, eins þótt Viðeyjarsundið kunni einnig að hafa blundað í huga skáldsins.  

Það er stundum hæpið, að fullyrða of mikið, um yrkisefni skálda.  Þetta á ekki hvað síst við, þegar ljóð þeirra eru skær og tær, eins og skáldskapur Tómasar.  Þá er eins og stundum vilji gleymast, að undir tæru yfirborði hyls, leynist djúp.

        

Það er táknrænt fyrir sveitastrákinn, sem flutti á mölina og gerðist á ytra borði skáld sinna nýju heimkynna, að eitt síðasta ljóð hans, skuli ort í minningu hunds, sem hann hafði fengið úr sinni heimasveit.  Tildrög þess ljóðs verða ekki rakin hér.  En á bökkum Sogsins valdi skáldið vini sínum, Stubbi, hinsta leg.  Og það er einmitt þangað, sem má rekja ljóðaflokkinn “Þrjú ljóð um lítinn fugl”, sem ég geri að lokaorðum mínum, um leið og ég þakka áheyrnina:                                                                               

                    I

Það vorar - fyrir alla á sem unna,
og enginn getur sagt að það sé lítið,
sem vorið hefur færst í fang og skrýtið,
hvað fljótt því tekst að safna í blóm og runna.

Og lsitamenn með litakassa og bretti
senn labba út í náttúruna og mála,
en ungu blómin drekka dögg og skála
til dýrðar sínum yndislega hnetti.

Ég þekki líka lind við bláan vog,
lítið og glaðvært skáld.sem daglangt syngur
og yrkir sínum himni hugljúf kvæði. 

Og litlu neðar, einnig út við Sog,
býr óðinshani, lítill heimspekingur,
sem ég þarf helzt að hitta í góðu næði.

                   II

Hvað er að frétta, heillavinur minn?
- Hér hef ég komið forðum mörgu sinni,
og öll mín fyrstu óðishanakynni
áttu sér stað við græna bakkann þinn.

Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,
háttvís og prúð, og það er lítill vafi,
að hjónin voru amma þín og afi.
En hvað þið getið verið lík í sjón.

Já, gott er ungum fugli að festa tryggð
við feðra sinna vík og mega hlýða
bernskunnar söng, sem foss úr fjarlægð þrumar.

Og megi gæfan blessa þína byggð
og börnum þínum helga vatnið fríða,
fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.

                    III

 Ó, litli fugl, þú lætur einskis spurt.
 Langar þig ekki að heyra, að veröld þín
var eitt sinn líka óskaveröld mín?
En af hverju var ég þá að fara burt?

Hér gleyma ungir dagar stund og stað
og stríðið virðist en svo fjarlægt þeim.
Hvað varðar líka óðinshamaheim
um Hitler, Túnís eða Satlíngrað?

 Og hvernig ætti fugl við lygnan fjörð
að festa sér í minni degi lengur
þann heim, sem leggur úlfuð í sinn vana?

 Og drottinn veit, ég vildi að slíkri jörð
sem vorri yrði breytt, fyrst svona gengur,
í bústað fyrir börn og óðinshana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður Pjetur Hafstein, kærar þakkir fyrir þinn þátt í að heiðra minningu Tómasar. Skemmtilegt erindi hjá þér og við í Hollvinum Grímsness afar ánægð með hvernig til tókst. Góð kveðja, Laufey

Laufey Böðvarsdóttir (IP-tala skráð) 28.6.2009 kl. 08:57

2 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Já þetta var falleg hátíð og veðrið var ekki af verri endanum 22 C hiti og sól og logn,mjög falleg sýning var líka í íþróttarhúsinu,svo var gaman að skoða gamlar dráttavélar frá því 1950,þessi hátíð var til fyrirmyndar,skemmtilegt fólk í mjög góðu skapi,forsetin og frú í sínu fínasta með gullfallegan hund með í ferð,þau voru til fyrirmyndar,þakka öllum fyrir mjög góðan dag og vel skipulagt,takk fyrir okkur.Jóhannes Guðnason-Hólsbraut 23.Borg í Grímsnesi.kær kveðja. konungur þjóðveganna.

Jóhannes Guðnason, 28.6.2009 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband